Gæsarannsóknir og skotveiðimenn

29-34-1.jpg

Skil á veiðiskýrslum hófust hér á landi með tilkomu laga um vernd friðun og veiðar á villtum fuglum og spendýrum sem tóku gildi 1994 og var veiðiskýrslum fyrst skilað fyrir árið 1995. Segja má að við þetta hafi orðið þáttaskil í þekkingu okkar á veiði. Áður hafði verið byggt á ágiskunum um umfang veiðinnar. Upplýsingar um veiðiálag, sem nú fást með veiði­tölun­um, eru grundvallar upplýsingar sem nauðsynlegar eru vilji menn stýra veiði og fá einhverjar hug­mynd­ir um áhrif veiða á stofna. Nú höfum við senn upplýs­ing­ar um veiði hér á landi fyrir 5 ár, en einmitt með því að líta á veiðitölur yfir nokkurra ára tímabil, frekar en einstök ár, förum við að sjá mynstur sem geta gefið okkur vísbendingar um áhrif veiða. Stundum eru veiðitölurnar nær einu upplýsingarnar sem við höfum um hugsanleg áhrif veiða en í öðrum til­fellum höfum við aðrar upplýsingar sem auðvelda okkur mat á áhrifum veiða. Sé dæmi tekið af gæsastofn­un­um þá erum við svo lánsöm að þar hefur verið fylgst með stofn­breyt­ing­um þeirra með talningum á vetrar­stöðv­um á Bretlandseyjum, og því hægt að skoða veiðitölurnar í sam­hengi við taln­ingarnar og aðrar upp­lýsingar. Í þeim tilfellum þar sem við höf­um litla sem enga vitneskju um stofna aðrar er veiði­tölur, s.s. um stofn­stærð eða reglu­bundnar mælingar á stofnvísitölu, þá geta veiðitölurnar gefið okkur vís­bend­ingar um þróun stofns­ins. Hér þarf þó að hafa í huga að menn gefa sér þá oft forsendur sem ekki þurfa endi­lega að vera réttar. Þannig að þegar veiðtölur eru eina vís­bend­ingin þá þarf að gæta varúðar. Ein af þeim for­sendum sem menn gefa sér oftast í þessum tilfellum er að veiðiálag sé stöð­ugt sem þarf þó ekki að vera. En að því gefnu að forsendur okkar um stöð­ugt, veiðiálag standist þá má almennt álykta út frá veiðitölum að fari veiði minnkandi þá sé það til marks um að stofninn sé á niðurleið, en ef veiði  eykst þá sé stofninn stækk­andi. Sé veiði stöðug þá getur það ver­ið til marks um að stofninn sé29-34-2.jpg stöð­ug­ur og veiðar hafi lítil áhrif, eða þá að stofninn nái að bregðast við veiðinni með aukinni framleiðslu. Dæmi um þetta má sjá hjá rjúpu­stofn­inum en veiði hefur farið vaxandi þar eftir því sem talningar segja okkur að stofninn sé á uppleið, en búast má við að þar sem hámarki hafi víðast verið náð þá fari að draga úr rjúpna­­aflan­um næstu árin. Ef veiði­tölur grá­gæsa og heiðagæsa eru skoð­að­ar þau fjögur ár sem nú liggja fyrir (1. tafla) sést að stöðug aukning hefur orðið á heiðagæsaveiðinni, en meiri sveiflur hafa orðið í grágæsaveiðinni og munar þar mest um mikla veiði 1997. Ef þetta er skoðað í samhengi við þróun stofns­ins (1. mynd) sést að á þessu tíma­bili hefur grágæsin verið nokkuð stöð­ug miðað við fyrri ár, og sama má segja um heiðagæsina. Við fyrstu sýn ætti þessi aukning á veiði úr heiðagæsa­stofn­inum að gefa okkur vísbendingu um stækkandi stofn mið­að við það sem á undan er sagt, en taln­ingar gefa það samt ekki til kynna. Þarna getur tvennt komið til. Annars vegar að sókn í heiða­gæs hafi aukist eða hins vegar það að veiðiálagið sem er um 5% sé það lítið að það skipti engu máli. Þeir sem þekkja til gæsa­veiða hér á landi telja almennt að sókn í heiðagæs sé vaxandi meðal íslenskra veiðimanna þannig að fyrri skýringin gæti vel átt við hér, og þar með er forsendan um stöð­uga sókn röng og álykt­unin um vax­andi stofn því einnig röng.
Oft er spurt hvort eitthvað sé að marka veiðiskýrslur þar sem eitt­hvað geti verið um að menn segi ósatt eða trassi að skila skýrslum. Vissulega eru veiðiskýrslurnar ekki 100% réttar og eitthvað er örugglega um að menn gefi upp ranga veiði. Sú forsenda sem menn gefa sér er að óvissan í veiði­skýrsl­unum sé svipuð milli ára, þannig að hægt er að nota þær engu að síður. Einnig væri hægt að mæla veiði með fleiri aðferðum og bera saman við skýrsl­­urnar til að fá hugmynd um áreið­an­leika þeirra. Þetta er gert t.d. í refa- og minkaveiðinni þar sem greidd eru verðlaun fyrir veiði, og samkvæmt Veiði­­stjóraembættinu þá bendir sam­an­burð­ur á þessum gögnum til að veiði­skýrslur séu nokkuð réttar (Áki Ármann Jónsson, munnl. upplýsingar) og að íslensk­ir skot­veiðimenn séu að segja rétt frá.
29-34-5.jpg Skil á merkjum er annað mikilvægt framlag skotveiðimanna og al­menn­ings til rannsókna á fugla­stofn­um. Það liggur í hlutarins eðli að skotveiðimenn eru líklegri en aðrir að komast yfir merkta fugla þar sem þeir handleika almennt fleiri fugla en flestir, og einnig er nokkuð um að veiði­fuglar séu merktir. Tilgangur merk­inga á fugl­um er fyrst og fremst sá að komast að því hvert fuglarnir fara og einnig að reikna út dánartíðni fugla. Mat á dánar­tíðni er mikilvægur þáttur í rannóknum á veiðidýrum. Leið­­bein­ing­ar um hvað gera skuli við merki er að finna í veiðidagbók Veiði­stjóra­embættisins 2000 á blaðsíðum 40-41 og vil ég hvetja veiðimenn til að kynna sér þær og skila merkjum sem þeir kunna að ná til Náttúru­fræði­stofn­­unar Íslands, hvort sem um ís­lensk eða erlend merki er að ræða. Nátt­úru­fræði­stofnun sendir síð­an þeim sem skila inn merkjum upp­lýsingar til baka um merkingu fuglsins.
Aðstoð veiðimanna við öflun sýna af veiðidýrum er ómetanlegt framlag, og í mörgum tilfellum er slík sýna­öflun óframkvæmanleg án aðstoðar þeirra. Undanfarin ár hafa margir veiði­menn aðstoðað við rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands á gæs­um, öndum og rjúpum, með því að senda inn vængi af þeim fuglum sem þeir veiða. Þá útveguðu veiðimenn einnig innyflasýni úr grágæsum til salmon­ellurannsókna og er skemmst frá því að segja að þau voru öll hrein.
Tilgangurinn með söfnun vængja er að aldursgreina fugla úr veiðinni. Á vængjum gæsa og anda má sjá hvort um er að ræða unga frá sumrinu eða eldri fugl, en ekki er hægt að greina aldurinn frekar. Á gæsum er stuðst við lögun og lit á vængþökum. Væng­þök­ur ungana eru ávalar til endanna en á fullorðnum fuglum eru þær þver­stýfð­ar. Þá eru litaskil milli jaðra og megin­hluta vængþakanna greinilegri á full­orðn­um gæsum en á ungum. Við ald­urs- og kyngreiningu andavængja er stuðst við ýmsar gerðir vængfjaðra og er greining þeirra flóknari.
Breytileiki í hlutfalli unga í veiði er einn af tveimur mælikvörðum sem við höfum til að meta varpárangur gæsanna. Hin aðferðin er að aldurs­greina gæsir á færi að hausti þegar þekkja má ungana frá fullorðnum fugl­um, en þessari aðferð hefur verið beitt lengi á vetrarstöðvum gæsanna á Bret­lands­eyjum og hér á landi á seinni árum. Eins og sjá má á 2. mynd þá er breytileiki í ungahlutfalli hjá grá­gæs­um ekki mikill og sveiflast í kringum 40%. Ungahlutfall hjá heiðagæs var tæp 30% frá 1995 - ´97, en 1998 hækk­ar það skyndilega og verður svip­að og hjá grágæsinni, eða kringum 40%. Ef ungahlutfall í veiði er borið saman við ungahlutfall á vetrar­stöðv­um á Bret­lands­eyjum (3. mynd & 4. mynd) sést að það er talsvert lægra á vetrar­stöðv­un­um, eða allt að helmingi lægra. Þetta bendir til þess að meiri lík­ur séu á að ungar lendi í veiðinni en ful­lorðn­ir fuglar, og því verður unga­hlutfall í veiði hærra en er raun­verulega í stofn­in­um. Báðar mæliað­ferð­ir sýna þó sömu tilhneigingar, þ.e. að þegar unga­­hlutfall í veiði hækkar eða lækkar þá gerist það sama í stofninum á vetrar­stöðv­unum. Ástæður þess að ungar lenda frekar í veið­inni en fullorðnir geta verið annarsvegar af því að veiði­menn séu að velja ungana frekar, eða hinsvegar að ungarnir séu líklegri til að verða á vegi skotveiðimannsins en fullorðnir fuglar. Ég tel ólíklegt að fyrri skýringin eigi við því þegar gæsir eru skotnar á flugi þá er mjög erfitt fyrir veiðimanninn að velja ungana úr hópnum vegna erfiðleika á greiningu, og vegna þess hve tíminn sem veiði­mað­urinn hefur er stuttur. Mögulegt er þó að velja úr unga ef gæsir eru skotnar með riffli með góðum kíki. Hitt er líklegri skýring að ungarnir verði frekar á vegi veiðimannsins. Þar getur bæði komið til reynsluleysi ung­anna, og svo hitt að fjölskylduhópar lendi frekar í veiði en geldfuglahópar. Fjölskylduhópar hafa samkvæmt reynslu minni tilhneigingu til að vera minni en geld­fugla­hópar, og það er almennt viðurkennt meðal veiði­manna að auðveldara er að tæla litla hópa með gervigæsum og flautum en stóra. Ef rétt er myndi það leiða til þess að hærra hlutfall unga væri í veiðinni en í stofninum.
Upplýsingar úr veiðiskýrslum og taln­ingum á vetrarstöðvum, að við­­bættum hlutföllum í veiði og í stofni, verða notaðar við gerð stofnlíkans fyrir gæsirnar, og einnig dánartíðni sem reiknuð verður út frá merkingum. Því má sjá að framlag veiðimanna til þessara rannsókna er verulegt og góð samvinna milli veiðimanna og vís­inda­manna leiðir til betri upplýsinga um veiðistofnana. Það er veiðimönnum í hag að til séu sem fyllstar upplýsingar um ástand veiðistofna og áhrif veiða á þá til þess að tryggja megi að nýting þeirra sé innan þeirra marka sem stofnarnir þola. Ef rannsóknir leiða í ljós að stofn sé ofnýttur þá þarf að grípa til aðgerða til að draga úr nýt­ingu sem fyrst. Þá er mikilvægt að skot­veiðimenn taki slíku vel og vinni með yfirvöldum. Ég hef áður bent á að veiðiálag á grágæsastofninn sé of mikið og að fyrr en seinna þurfi að grípa til aðgerða til að draga úr veið­inni (Arnór Þ. Sigfússon 1998 og 1999). Aftur á móti virðist veiðiálag á heiðagæs enn vera innan þeirra marka sem stofninn þolir, þó að veiði­skýrslur bendi til að nokkur aukning hafi orðið á heiðagæsaveiði.
Ég vil að lokum hvetja veiðimenn til áframhaldandi samstarfs við rann­sóknir á veiðidýrum. Aðeins lítið brot af veiðimönnum senda inn vængi og væri vel þegið að fá gæsa- og anda­vængi frá fleirum. Sérstaklega vantar meira af vængjum af öndum, blesgæs­um og helsingjum, og auð­vit­að einnig af grá- og heiðagæs­um. Þeir sem vilja láta okkur fá vængi geta komið með þá á Náttúru­fræðistofnun eða sent þá í pósti á Náttúru­fræði­stofn­­un Íslands að Hlemmi 3, pósthólf 5320, 125 Reykjavík. Einnig geta menn haft sam­band símleiðis í 562 9822 og getum við þá oft komið og aldurs­greint fuglana á staðnum ef um nokk­uð magn er að ræða, þó einungis á stór Reykja­víkursvæðinu. Sendið einungis annan vænginn af hverjum fugli og alltaf vængi sömu megin, t.d. hægri væng. Ekki pakka vængjunum í plast því þeir mygla og úldna fljótt í plasti, setjið þá frekar í pappakassa eða inn í bréf. Þó verður að setja þá í plast ef þeir eru sendir í pósti svo pakkinn lykti ekki, en slíkt er ekki vinsælt í pósthúsum.

Heimildir

Arnór Þ. Sigfússon 1998. Gæsir, ástand og horfur. Skotvís 4(1), bls. 11-18.
Arnór Þ. Sigfússon 1999. Þúsund gæsir. Skotvís 5(1), bls. 76-77.
Bjarni Pálsson 2000. Veiðidagbók 2000, Bjarni Pálsson ristj. Veiðistjóraembættið 2000. Bls. 29.

Tags: gera, grein, þó, ætla, rannsóknir, stuttu, náttúrufræði­stofn­un­ar, vissulega, gæsa­rann­sókn­ir, ein­skorða, hér, eigi
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Fuglaveiðar Gæsarannsóknir og skotveiðimenn