Blesgæsin friðuð

Picture 5.jpg

Picture 6.jpgÍ grein í SKOTVÍS 2003 (Arnór Sigfússon 2003) fjallaði ég um ástand stofnsins og þá var ljóst hvert stefndi. Því miður hefur ástandið ekkert batnað og fækkunin haldið áfram. Til að rifja upp þróun stofnsins þá má segja að blesgæsir hafi fyrst verið taldar á nær öllum vetrarstöðvunum á sjötta áratug síðustu aldar og voru þá taldar vera milli 17.500 og 23.000 fuglar. Auk heildar­­talninga var einnig fylgst ítar­legar með hluta vetrarstöðvananna. Veiðar voru þá stundaðar á þeim á Írlandi og Skotlandi auk veiða hér og í Grænlandi. Í lok áttunda áratugarins sýndu talningar að stofninn hafði minnkað og talningar bentu til að hann væri kominn niður undir 15.000 fugla. Eyðilegging búsvæða á vetrar­stöðvum og veiðar voru taldar helstu or­sakir fækkunarinnar og í kjölfarið var brugðist við með því að banna veiðar á grænlenskum blesgæsum á Írlandi og Bretlandi 1982 og 1985 var veiðitíminn styttur á Grænlandi þannig að ekki mátti stunda bles­gæsa­veiðar þar fyrr en 15. ágúst til 30. apríl í stað alls ársins áður, sem þýddi í raun að veiðar á blesgæs þar lögðust að mestu af. Auk þess sem dró verulega úr veiðum eftir 1982-1985, þá voru mörg svæði sem blesgæsin nýtti á vetrum gerð að verndarsvæðum sem tryggði að þeim yrði ekki raskað. Það sama gerðist á Grænlandi nokkru seinna, stór hluti varpstöðva blesgæsa var lýstur Ramsarsvæði frá 1989. Í kjölfar þessara aðgerða var reynt að koma á alþjóðlegum sáttmála til verndar blesgæsinni með aðild allra þeirra landa sem hún hefur viðdvöl í. Sáttmálinn sem kenndur var við Wexford á Írlandi var saminn en aldrei undir­ritaður af aðildarríkjunum og gekk því aldrei í gildi (Fox o.fl. 2006, Arnór Sigfússon 2003, Fox. o.fl. 1999).
Í kjölfar þessara aðgerða tók stofn­inn við sér og grænlensku bles­gæs­unum fór að fjölga jafnt og þétt þar til þær náðu hámarki um 35.000 fugla árið 1999. Aldrei var gripið til neinnar friðunar hér og veiðitölur frá 1995 sýna að veiði blesgæsa var 3.000 – 3.500 fuglar og virtist stofninn þola þá veiði og tvöfaldaðist hann á rúmum áratug. En þegar allt virtist vera að þróast á besta veg varð algjör viðsnúningur. Stofninum tók allt í einu að hraka á ný og hefur stefnt hratt niður á við síðan hámarkinu var náð og sér ekki fyrir endann á því og ef fer sem horfir er þess ekki langt að bíða að hann nái sama lágmarki og á áttunda áratugnum. Helsta ástæða þessarar fækkunar er minnkandi viðkoma. Í ljós hefur komið við rannsóknir á merktum fuglum að æ lægra hlutfall fugla virðist verpa og aldur við fyrsta varp hefur hækkað. Ungahlutfallið í stofninum er því svo lágt að fjöldi unga er ekki nægjanlegur til að bæta upp afföll í stofninum (Fox o.fl.2006). Um ástæður þessara breytinga á viðkomu blesgæsanna er ekki vitað með vissu. Varpstöðvar þeirra á Vestur Grænlandi eru víðfeðmar og óaðgengilegar þannig að erfitt er um vik við rannsóknir á þeim. Nokkrar tilgátur eru uppi um hugsanlegar ástæður en líkleg­astar eru taldar tilgátur er varða loftslagsbreytingar og samkeppni við kanadagæsir (Branta canadensis). Mikil umræða hefur verið undanfarið um hugsanleg áhrif loftslagsbreytinga og líkön sem gerð hafa verið um gróðurhúsaáhrif spá því flest að áhrif verði meiri á lífríki heim­­skauta­svæða en annarsstaðar og komi fyrr fram. Þessar breytingar gerast þó oft hægt og erfitt getur verið að fá tölfræðilega marktæka fylgni. Hugsanlegt er að breytingar á hitastigi í júní á Vestur Grænlandi gæti verið áhrifavaldur hér en ekki er hægt að fullyrða það með vissu. Líklegri skýring er talin vera landnám og aukning á kanada­gæsum á útbreiðslu­svæðum græn­­lensku blesgæsar­innar sem hófst á níunda áratug síðustu aldar. Vísbendingar eru um að þar sem tegundirnar rekast á þá hafi kanadagæsin betur í samkeppninni og því gæti hún verið að ýta blesgæsunum af bestu varpsvæðunum og minnka möguleika þeirra til að koma upp ungum (Fox o.fl.2006). Sé þetta raunin er óvíst að nokkuð sé hægt að gera til að bjarga grænlensku blesgæsinni nema hlúa að henni á farleiðinni og á vetrarstöðvunum og vona það besta. Ekki er líklegt að viðsnúningur verði á næstunni hvað varðar lofts­lags­breyt­ingar og ekki er séð fyrir end­ann á áhrifum þeirra. Hvað varðar mögu­leika á að hjálpa blesgæsinni með því að fækka kanadagæsum á varp­stöðvun­um þá er það erfiðleikum bundið. Gæsirnar eru dreifðar um víð­feðm og óaðgengileg svæði þannig að vandkvæðum er bundið að komast að þeim til að fækka þeim. Friðun blesgæsarinnar nú er viðleitni okkar til að stuðla að áframhaldandi tilveru hennar. Þó þær veiðar sem stundaðar hafa verið hér séu ekki frumorsök þess að það fækkar í stofninum þá flýta þær fyrir fækkuninni og minnka líkur á að stofninn nái að rétta sig við. Þannig er hlutfall unga seinni ár oft innan við 10% sem þýðir að þeir eru einungis um eða innan við 2.500 en á sama tíma hefur veiði hér verið milli 3.000 og 3.500 fuglar. Þá eru eftir náttúruleg afföll þannig að sjá má að þetta dæmi gengur ekki upp og ekki er um annað að ræða en að hætta veiðum.
Picture 7.jpgÁstand blesgæsarinnar hefur verið til umræðu innan Skot­veiði­félags Íslands undanfarin ár. Í kjölfar greinar minnar um blesgæsir í SKOTVÍS 2003 var ég beðinn um að fjalla um blesgæsir á aðalfundi félagsins vorið 2004. Þá ályktaði aðal­fundur­inn að bregðast þyrfti við með verndun blesgæsarinnar og aftur nú í vor á aðalfundi félagsins 2006 var ályktað á sama veg. Í kjölfar þess var umhverfisráðherra sent erindi um að til aðgerða yrði gripið. Þetta erindi SKOTVÍS ásamt sambærilegu erindi frá Fuglaverndarfélagi Íslands leiddi til þess að umhverfisráðherra ákvað í vor að friða blesgæsir. Með þessu sýndi SKOTVÍS ábyrga afstöðu því verndun veiðistofna og skynsamleg nýting ætti alltaf að vera í fyrirrúmi hjá hagsmunasamtökum veiðimanna. SKOTVÍS lagði jafnframt til að veiðar verði heimilaðar aftur ef stofninn nær sér á strik að nýju og færi yfir 30.000 fugla og er slíkt ekki ósanngjörn krafa þar sem sjá mátti að blesgæsum fjölgaði jafnt og þétt fram til 1999 og virtist því þola vel veiðiálagið hér meðan nýliðun var í lagi. Þannig að ef ástand stofnsins breytist verulega til batnaðar og nýliðun eykst á ný þá ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu að stunda takmarkaðar veiðar úr honum. Friðunin mun að því er virðist ekki hafa áhrif á marga veiðimenn því skoðun á gagnagrunni Umhverfisstofnunar yfir veiðar bendir til að rúmlega 500 veiðimenn veiði blesgæsir, eða um 5% veiðikorthafa. Flestir þeirra eru að veiða 1–5 blesgæsir á ári en aftur á móti eru sumir að veiða talsvert af þeim og þannig koma að jafnaði yfir helmingur veiddra blesgæsa í hlut um 15% blesgæsaveiðimanna. Þó friðunin snerti kannski ekki marga veiðimenn mun hún því koma misjafnlega mikið við menn því á sumum veiðijörðum eru blesgæsir uppistaða veiðinnar. En vonandi er slæmt ástand bles­gæsa­stofnsins tímabundið og ekki óhugs­andi að einhvern tíma verði hægt að veiða þær á ný.
Nú í haust mun reyna á hæfileika veiðimanna til að greina bles­gæsina frá öðrum gæsum og þar ætti reglan að vera að ef menn eru í vafa þá á ekki að skjóta. Eins og fyrr sagði þá eru aðalviðkomustaðir hennar Borgarfjörður, Mýrar og Suðurland, frá Ölfusi austur með Eyjafjöllum og þar þurfa menn að sýna sérstaka varúð. Oftast eru gæsahópar tegundaskiptir og í þeim tilfellum er auðvelt að þekkja blesgæsir frá öðrum á hljóðunum á talsverðu færi. Blesgæsin er hávær á flugi og tilsýndar á flugi þá er blesgæsin dekkri en grágæs og heiðagæs og þegar þær koma nær má greina svartar þverrákir á kvið fullorðnu fuglanna og eru sumir með nær alsvartan kviðinn auk þess sem fætur og goggur eru gulleitir. Vilji veiðimenn ná færni í að greina blesgæsir þá er upplagt að heimsækja Hvanneyri í Borgarfirði þegar blesgæsirnar eru komnar, en þar hefur verið friðland blesgæsa og hún verið í mikilli nálægð við menn þannig að þær eru mjög gæfar þar. Því er hægt að stoppa bílinn, opna glugga og horfa á gæsirnar og hlusta á þær. Þá lærist mönnum fljótt að þekkja þær auk þess sem það er hin besta skemmtun að horfa á blesgæsirnar í návígi. Þó gæsahópar séu oftast einsleitir þá er það alls ekki óalgengt að einhver blöndun verði þannig að tvær eða fleiri tegundir séu saman hópi. Þá reynir enn meira á greiningahæfnina og verða veiðimenn að vanda sig, ekki síst á þeim svæðum sem blesgæsa er helst að vænta. Sérstaklega þarf að gæta sín við veiðar á náttstöðum og í fyrstu skímu á morgnana meðan birta er léleg þannig að ekki er gott að greina liti. Rétt er að hvetja veiðimenn til að forðast veiðar í náttstað þar sem blesgæsa er von. Oft blandast tegundir í náttstað þannig að þar aukast líkur á rangri greiningu til muna.
Ef menn hafa áhuga á að kynna sér frekar ástand grænlensku blesgæsarinnar þá er bent á nýlega grein í British Birds (http://www.britishbirds.co.uk/ ) eftir Anthony D. Fox o.fl. 2006, en þessi samantekt hér byggir m.a. á þeirri grein og einnig á Fox 2003 sem finna má á vef Danmarks Miljøundersøgelser (http://www.dmu.dk )

Heimildir

Arnór Þ. Sigfússon 2003. Blesgæsir. SKOTVÍS 9(1): 16-19
Fox, A.D., Stroud, D.A., Walsh, A.J., Wilson, H.J., Norriss, D.W. & Francis, I.S. (2006): The rise and fall of the Greenland White-fronted Goose: a case study in international conservation. British Birds 99(5): 242-261.
Fox, A.D. 2003. The Greenland Whitefronted Goose Anser. albifrons flavirostris. The annual cycle of a migratory herbivore on the European continental fringe. Doctor’s dissertation (DSc). National Environmental Research Institute, Denmark. 440 bls.
Fox, A.D, Norriss, D.W., Wilson, H.J., Merne, O.J., Stroud, D.A., Sigfússon. A. & Gladher, C. 1999. Greenland Whitefronted Goose Anser. albifrons flavirostris. Pp. 130 – 142. In: Madsen, J., Cracknell, G & Fox, A.D. (eds.): Goose populations of the Western Palearctic, a review of status and distribution. Wetlands International Publ. No. 48. Wageningen, The Netherlands. National Environmental Research Institute, Denmark. 344. bls.

Tags: hefur, blesgæsin, hennar, græn­lands, vetrar­stöðvar, írlandi, skot­landi, vesturströnd, viðkomu, bles­gæsar­innar, ströndum, síberíu, alaska, landi
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Fuglaveiðar Blesgæsin friðuð