Ástand rjúpna­stofnsins vorið 1999

Rjúpnatalningasvæðin eru 15 þar sem talið hefur verið undan­farin ár og eru í öllum landshlutum. Aldur­s­hlutföll í varpstofni voru aðeins tekin á Norðausturlandi. Helstu niðurstöður vorið 1999 eru:

  • Fækkun er hafin á Norður- og Norðausturlandi, fækkun sem hófst 1998 á Suðausturlandi held­ur áfram, en kyrrstaða og jafn­vel fækkun er á Suðvestur- og Vesturlandi. Aðeins á Austurlandi er greinileg aukning og varpstofn yfir meðallagi að stærð.
  • Síðustu 15 árin hafa stofn­breyt­ingar á Kvískerjum í Öræfum verið einu til tveimur árum á undan því sem mælist á talninga­svæðum á Norður- og Norð­austur­landi. Í fyrra varð vart um 27% fækkunar þar og í ár fylgja önnur svæði á Norður- og Norð­austur­landi þar sem fækkun í varp­stofn­inum á 8 taln­inga­svæð­um var að jafnaði 39%. Fækk­un­in á Kví­skerjum 1998—1999 nam 20%.
  • Íslenski rjúpna­stofn­inn sveiflast mikið og hafa yfirleitt liðið um tíu ár milli toppa. Rannsóknir sýna að vetrarafföll ráða stofn­­­­breyt­ingum. Munur á stofn­stærð milli hámarks- og lág­marksára hefur verið fimm- til tífaldur. Greini­legir toppar voru 1966 og 1986. Eftir hámarkið 1986 fækkaði ár frá ári og lágmarki var náð 1991 til 1994; nýtt hámark var síðan 1997 og 1998 og er það talsvert lægra en 1986 og 1966, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
  • Stofnbreytingar á Suðvestur- og Vesturlandi eru ekki lengur í takt við það sem er að gerast í öðrum landshlutum. Á Suð­vestur- og Vesturlandi hefur á síðustu árum ríkt kyrr­staða eða jafnvel fækkun. Óhag­stætt tíðarfar hamlaði taln­ing­­um á tveimur svæðum en á þrem­ur öðrum svæðum bentu niður­­stöðurnar til kyrrstöðu eða fækk­unar. Rannsóknir fyrri ára hafa sýnt ágæta viðkomu rjúpna á Suð­vesturlandi en mikil afföll yfir vetrar­tímann. Skotveiðar hafa reynst vera þýðingarmesti affalla-þátturinn enda er veiðiálag þungt a sumum svæðum. Ekki við því að búast að stofninn á Suð­vestur­landi vaxi meðan afföllin eru svo mikil.

Vortalningar hafa sýnt að stofn­breytingar voru samstiga um allt land á 7. og 8. áratugnum en síðustu 15—20 árin hefur þar orðið nokkur breyting á. Stofnbreytingar rjúpna á talningasvæðum á Norður- og Norð­austur­landi hafa verið sam­stiga frá upphafi mælinga 1963. Fækk­un­in í varpstofninum á 8 talninga­svæð­um í þess­um lands­hlut­um 1998—1999 var að jafnaði 39%, sem fyrr segir. Ástand rjúpna­stofnsins endur­spegl­ast einnig í aldurs­sam­­setn­ingu varpfuglanna. Hlutfall árs­gam­alla rjúpna var 44% á Norð­austur­landi í vor, svipað og hefur verið í mestu fækkunar­árum áður. Til saman­burðar má nefna að hlut­fall árs­gamalla fugla á þessu sama svæði var 70—76% í fjölgunarárunum 1995—1998. Stærð rjúpna­stofnsins í þessum lands­hlutum er undir meðal­lagi mið­að við fyrri ár.

Ólafur K. Nielsen
Náttúrufræðistofnun Íslands

Tags: okkur, segja, ástand, 1999, varp­stofns­ins, vetur, merkingum, athug­anir, aldurs­­samsetningu, afstaðnar, þessar, skoða, fróðlegt, rannsóknir, rjúpnastofnsins
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Fuglaveiðar Ástand rjúpna­stofnsins vorið 1999