Ástand rjúpnastofnsins vorið 1999
- Details
- Published on 21 April 2008
- Hits: 2152
Rjúpnatalningasvæðin eru 15 þar sem talið hefur verið undanfarin ár og eru í öllum landshlutum. Aldurshlutföll í varpstofni voru aðeins tekin á Norðausturlandi. Helstu niðurstöður vorið 1999 eru:
- Fækkun er hafin á Norður- og Norðausturlandi, fækkun sem hófst 1998 á Suðausturlandi heldur áfram, en kyrrstaða og jafnvel fækkun er á Suðvestur- og Vesturlandi. Aðeins á Austurlandi er greinileg aukning og varpstofn yfir meðallagi að stærð.
- Síðustu 15 árin hafa stofnbreytingar á Kvískerjum í Öræfum verið einu til tveimur árum á undan því sem mælist á talningasvæðum á Norður- og Norðausturlandi. Í fyrra varð vart um 27% fækkunar þar og í ár fylgja önnur svæði á Norður- og Norðausturlandi þar sem fækkun í varpstofninum á 8 talningasvæðum var að jafnaði 39%. Fækkunin á Kvískerjum 1998—1999 nam 20%.
- Íslenski rjúpnastofninn sveiflast mikið og hafa yfirleitt liðið um tíu ár milli toppa. Rannsóknir sýna að vetrarafföll ráða stofnbreytingum. Munur á stofnstærð milli hámarks- og lágmarksára hefur verið fimm- til tífaldur. Greinilegir toppar voru 1966 og 1986. Eftir hámarkið 1986 fækkaði ár frá ári og lágmarki var náð 1991 til 1994; nýtt hámark var síðan 1997 og 1998 og er það talsvert lægra en 1986 og 1966, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.
- Stofnbreytingar á Suðvestur- og Vesturlandi eru ekki lengur í takt við það sem er að gerast í öðrum landshlutum. Á Suðvestur- og Vesturlandi hefur á síðustu árum ríkt kyrrstaða eða jafnvel fækkun. Óhagstætt tíðarfar hamlaði talningum á tveimur svæðum en á þremur öðrum svæðum bentu niðurstöðurnar til kyrrstöðu eða fækkunar. Rannsóknir fyrri ára hafa sýnt ágæta viðkomu rjúpna á Suðvesturlandi en mikil afföll yfir vetrartímann. Skotveiðar hafa reynst vera þýðingarmesti affalla-þátturinn enda er veiðiálag þungt a sumum svæðum. Ekki við því að búast að stofninn á Suðvesturlandi vaxi meðan afföllin eru svo mikil.
Vortalningar hafa sýnt að stofnbreytingar voru samstiga um allt land á 7. og 8. áratugnum en síðustu 15—20 árin hefur þar orðið nokkur breyting á. Stofnbreytingar rjúpna á talningasvæðum á Norður- og Norðausturlandi hafa verið samstiga frá upphafi mælinga 1963. Fækkunin í varpstofninum á 8 talningasvæðum í þessum landshlutum 1998—1999 var að jafnaði 39%, sem fyrr segir. Ástand rjúpnastofnsins endurspeglast einnig í aldurssamsetningu varpfuglanna. Hlutfall ársgamalla rjúpna var 44% á Norðausturlandi í vor, svipað og hefur verið í mestu fækkunarárum áður. Til samanburðar má nefna að hlutfall ársgamalla fugla á þessu sama svæði var 70—76% í fjölgunarárunum 1995—1998. Stærð rjúpnastofnsins í þessum landshlutum er undir meðallagi miðað við fyrri ár.