Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Verklegt skotpróf

Stjórn Skotveiðifélags Íslands – SKOTVÍS fagnar því að tekin er í gildi reglugerð og verklagsreglur sem lýtur að verklagi skotprófs vegna hreindýraveiða, enda nálgast veiðitími hreindýra óðfluga og senn líður að 1. Júlí sem er sú dagsetning sem hreindýraveiðimenn skulu hafa staðist verklegt skotpróf. Á síðustu dögum hafa prófdómarar frá hinum ýmsu skotfélögum fengið verklega kennslu og eru því skotfélögin í stakk búinn að taka á móti veiðimönnum í verklegt skotpróf.  Af gefnu tilefni vill SKOTVÍS koma eftirfarandi á framfæri til að skýra afstöðu félagsins til málsins:

  • Forsaga og framhaldið. SKOTVÍS hefur lengi talað fyrir skotprófi og má í því sambandi nefna ályktun sem samþykkt var á aðalfundar félagsins þann 26. febrúar 2003, þar sem hvatt var til upptöku skotprófs vegna hreindýraveiða og því ánægjulegt að sjá enn eitt baráttumálið komið í höfn.  Þess ber þó að geta að SKOTVÍS lítur á þennan áfanga sem fyrsta skrefið í þá átt að reyndir veiðimenn geti haldið til hreindýraveiða og tekið þátt í veiðum án aðstoðar hreindýraleiðsögumanns.  Margir veiðimenn vilja njóta upplifunar sem felur í sér að vera óháður tímamörkum og áætlunum annarra við veiðar.  Með þessu er SKOTVÍS ekki að gagnrýna hlutverk né mikilvægi leiðsögumannakerfisins, því miðað við þá miklu nýliðun sem er í úthlutunum þá mun ávallt vera þörf fyrir vel skipulagt leiðsögumannakerfi.  Það þarf hinsvegar að vera svigrúm fyrir þá sem hafa burði, reynslu, þekkingu og traust til að stunda hreindýraveiðar með sjálfstæðari hætti, að halda til veiða án leiðsögumanns.  SKOTVÍS er því tilbúið til viðræðna hvernig megi standa að fyrirkomulagi sem leiðir að að ofangreindu markmiði í samvinnu við stjórnvöld, landeigendur og félag hreindýraleiðsögumanna.

  • Skotvellir. Ljóst er að ekki hafa allir landsmenn jafnan aðgang að skotæfingarsvæðum með viðurkenndum riffilvelli en til að leysa það mál hefur UST bent á að ef lögregluyfirvöld á viðkomandi landssvæði skrifa upp á leyfi að nota megi ákveðið land (jörð, spildu) til að prófa menn á, þá sé það fullnægjandi enda viðkomandi aðstaða þá viðkennd af þar til bærum yfirvöldum.

  • Gjaldtaka. Sú gjaldskrá sem Umverfisstofnun – UST hefur birt vegna skotprófsins setur hámarksgjald að upphæð 4.500,- kr. á hvert einstakt skotpróf. Hlutdeild UST er 500,- kr. sem er umsýslugjald. Skýr heimild er fyrir því í lögum að UST getur innheimt gjald vegna prófsins en það skal vera rökstutt og mæta sannarlega þeim kostnaði sem til fellur vegna prófsins. Skotvís mun biðja UST að leggja fram þann rökstuðning. Það er einnig skoðun Skotvís að skotfélögin ættu að geta innheimt lægra gjald svo framarlega að þau greiði 500 kr. per próf til UST og hvetur Skotvís skotæfingafélög á öllu landinu að taka upp umræðu meðal félagsmanna um forsendur fyrir því að koma til móts við félagsmenn sína og innheimta lægra gjald af þeim og nýta þannig tækifærið til að fjölga félagsmönnum og efla félagsstarfið um leið. Gera má ráð fyrir því að áhugi á skotæfingum muni aukast og félögin munu væntanlega njóta góðs af því þegar fram í sækir. Rétt er að minna á í því samhengi að í Noregi eru rukkað rúmlega 1.000 kr. fyrir skotpróf eða 50 kr. norskar krónur.

Virðingarfyllst,

Stjórn SKOTVÍS


Tags: félagsins, hefur, hafa, skotvís, koma, vegna, skotpróf, verklegt, vera, stjórn, gjald, þann, skotfélögin
You are here: Home