Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Útburður ætis, stofnstærð refs og áhrif á lífríkið

 Af gefnu tilefni, vill Skotveiðifélag Íslands – SKOTVÍS koma eftirfarandi á framfæri vegna viðtals í hádegisfréttum RÚV, þann 30. apríl s.l., þar sem haft er eftir Ester Rut Unnsteinsdóttur spendýravistfræðingi hjá Náttúrufræðistofnun Íslands að æti sem fylgi vetrarveiðum gefi veikari dýrum aukin tækifæri að lifa veturinn af og tímgast og sé hugsanleg skýring á stækkun stofnsins þrátt fyrir að fjöldi veiddra refa hafi aldrei verið meiri. Í sama viðtali er talað um 500 veiðimenn sem stundi slíkar veiðar, veiddir hafa verið 84.000 refir á tuttugu ára tímabili og að þessar veiðar hafi kostað 1.600 milljónir.

Sjónarmið SKOTVÍS í málefnum refastofnisins miðast við að fá úr því skorið hver áhrif refsins er á lífríkið, ekki síst með stækkandi stofni og að tryggja möguleika almennings til að stunda refaveiðar á sömu forsendum og annarra villtra dýrastofna. Framangreind tilgáta er áhugaverð, en hún þyrfti að vera betur rökstudd þar sem veikleikar hennar verða einnig að koma fram, því umræða um stærð refastofnsins þarf einnig að taka tillit til mun fleirri þátta og mikilvægt er að halda öllum staðreyndum til haga í umræðu sem þessarri.

Útburður á æti að vetri til er vissulega ámælisvert sé veiðunum sjálfum það illa sinnt að tilætlaður árangur af þeim náist ekki. SKOTVÍS bendir hinsvegar á að engar opinberar tölur eru til um umfang veiða þar sem borið er út æti. Ef gert er ráð fyrir því að 500 veiðimenn séu til viðbótar við þá sem stunda grenjaveiðar, þarf að aðgreina þá sem skjóta ref samhliða öðrum veiðum, t.d. rjúpnaveiðum til að komast hjá villandi umræðu. Svo dæmi sé tekið úr Húnavatnssýslum, þá eru þar skv. upplýsingum SKOTVÍS um 20 grenjaskyttur, en aðeins tvær þeirra stunda vetrarveiði. Þeir sem sinna vetrarveiði í sýslunum tveimur eru 16 og eru með 27 útburðarstaði. Þar er vel fylgst með veiðimönnunum að æti sé sinnt og þrýsingur settur á veiðimann sem ekki stendur vaktina að eyðileggja ætið.

Refaveiðar hafi verið stundaðar af miklum þunga um aldir, bændum var gert skylt með lögum (alþingissamþykkt 1295) að standa skipulega að refaveiðum í dreifðari byggð en nú tíðkast, þar sem allir lögðust á eitt að veiða ref vegna meints tjóns sem refurinn olli með réttu eða röngu. Sú herferð gekk því miður svo langt að byrjað var að eitra fyrir ref, sem líkega hefði farið langt með að útrýma stofninum, sem var kominn niður í 1000 dýr þegar eitrun var bönnuð með lögum 1964 – Allt þetta hefur lagst á eitt við að halda stofninum niðri í gegnum aldirnar.

Nú eru breyttir tímar, byggð hefur þést, fleiri jarðir eru eftirlitslausar hvað refinn varðar auk þess sem bann við eitrun refs hlýtur að hafa mikil áhrif. Til viðbótar þessu bættust við búrdýr á fyrri hluta síðustu aldar með nýtt eðli og meiri frjósemi, auk þess sem fjölgun friðlanda (refaveiðar óheimilar) hefur haft áhrif á þróun mála.

Í sögulegu samhengi hefur íslenski refastofninn því líklega aldrei verið stærri, allavega ekki s.l. 100 ár. Núverandi staða er því sú að engin rök hníga að því að það þurfi að takmarka veiðarnar frekar en orðið er, í raun mætti opna fyrir frekari möguleika til refaveiða, t.a.m. innan margra friðlýstra svæða. Hinsvegar þyrfti að efla umræðu um áhrif stækkandi stofns á lífríkið og að hvaða marki hann stuðlar að “nýju jafnvægi”. 

Stofnstærð refs, áhrif refs á lífríkið, skipulag og framkvæmd refaveiða hafa orðið tilefni umræðna og ágreinings um árabil og mun seint verða til lykta leidd. Umræðan hefur í gegnum tíðina farið fram á forsendum bænda vegna meints tjóns og var Veiðistjóraembættið beinlínis stofnað (1958) í þeim eina tilgangi að halda utanum refa- og minkaveiðar og sýsla með það fé sem fór til málaflokksins frá ríki og sveitarfélögum. Þegar Páll Hersteinsson tók við veiðistjóraembættinu (1985), urðu rannsóknir einnig veigamikill þáttur af starfsemi embættisins. Veiðistjóraembættið er nú liðið undir lok og ber Umhverfisstofnun nú ábyrgð á veiðistjórnun villtra dýrastofna og Náttúrufræðistofnun Íslands sinnir vöktun og rannsóknum. Almennir skotveiðimenn hafa í seinni tíð einnig þrýst á aðgerðir til að meta áhrif refs á fuglalíf, þar sem margir stofnar hafa verið á undanhaldi, t.d. rjúpa og mófuglar.

Frá upphafi Veiðikortasjóðs (1995) hefur um 16% af framlögum hans (45 milljónum) verið úthlutað til refamála, mest til vöktunar. Þessi upphæð er innan við 3% af 1600 milljóna króna framlagi til refaveiða. Niðurstöður þeirra fáu rannsókna sem gerðar hafa verið, virðast því miður lítið hjálpa umræðunni og því þarf að forgangsraða verkefnum í þessum málaflokki mjög vel og hefja undirbúning rannsókna sem varpa ljósi á áhrif refs (og veiða) á lífríkið.  

Akademísk nálgun má hinsvegar ekki starfa í einangrun, þekking er ekki síst fengin með athugunum veiðimanna (e. observations) sem settar eru í samhengi við niðurstöður fræðimanna og öfugt. Því er gagnkvæm virðing, traust og öflugt samstarf fræðimanna og veiðimanna nauðsynlegt til að markviss nýting þekkingar og fjármuna skili því sem til er ætlast og styðji við ákvörðunartökur er varða ref.

Veiðimönnum og öðrum áhugasömum er bent á efni á heimasíðu SKOTVÍS um vöktun og rannsóknir á refastofninum, en allar ábendingar um gott efni eru vel þegnar. 

Stjórn SKOTVÍS

Tags: stunda, hefur, þar, íslands, hafa, verið, skotvís, einnig, vegna, þarf, áhrif
You are here: Home