Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Umsögn SKOTVÍS um frumvarp til nýrra vopnalaga

Stjórn SKOTVÍS hefur undanfarna daga borist fyrirspurnir frá félagsmönnum og öðrum vegna umsagnar SKOTVÍS um frumvarp til nýrra vopnalaga sem er nú til meðferðar á Alþingi (sjá krækju á vef Alþingis um málið í heild sinni). Fyrirspurnir þessar hafa eingöngu snúið að ákvæði um hámarksfjölda "nothæfra" vopna sem hverjum skotvopnaleyfishafa verður heimilt að eiga, en ekki þau sem hafa söfnunargildi skv. skilgreiningu laganna, enda verður áfram opið fyrir safnara að eignast slík vopn. Í núverandi lögum er ekkert hámark á fjölda "nothæfra vopna", en í frumvarpinu er gerð tillaga að ofangreindu hámarki, sem var einnig að finna í upphaflegu drögunum sem nefnd um endurskoðun laganna skilaði af sér til dómsmálaráðherra 2009, en SKOTVÍS átti sæti í þessarri nefnd.  Aðrir í nefndinni voru fulltrúar ráðherra (formaður), ríkislögreglustjóra, Lögreglustjórafélag Íslands, Landhelgisgæslu Íslands og Skotíþróttasambandi Íslands.

Sátt var um þessi drög á sínum tíma innan nefndarinnar, það mikil að bæði SKOTVÍS sem og STÍ og flest skot(æfinga)félögin þrýstu ítrekað á dómsmálaráðherra að koma þessu frumvarpi í gegn sem fyrst.  Fumvarpið var að daga uppi í ráðuneytinu og engin umræða fékkst um þessi mál fyrr en hildarleikurinn í Osló átti sér stað sumarið 2011.

Þau mál sem sneru að veiðimönnum tóku engum breytingum í þeirri snörpu umræðu sem átti sér stað á þessu eina ári (í fjölmiðlum aðallega) og því sá SKOTVÍS ekki ástæðu til að breyta afstöðu sinni til frumvarpsins, enda eru mörg jákvæð atriði að finna í nýju frumvarpi, sem m.a. opnar fyrir möguleika á því að unglingar geta gengið til veiða með vopn í fylgd umsjónarmanna og opnað er á heimild til að nota hljóðdeyfa á veiðiriffla, auk þess sem búið er að sníða af ýmsa vankanta á núverandi lögum. Hámarksreglan, sem minnst var á hér að ofan var einnig hluti af drögunum sem komu frá nefndinni.

Sá misskilningur er uppi um að SKOTVÍS sé því mótfallið að veiðimenn eignist fleirri en "20 nothæf vopn", því fer fjarri!

Hámarksreglan er tilkomin vegna kröfu frá yfirvöldum og því var fyrirfram þrýstingur á þessi mál áður en nefndin hóf störf. Til fróðleiks hljóðuðu upphaflegar tillögur uppá hámark 5 skotvopn, en fyrir tilstilli SKOTVÍS og STÍ tókst að sannfæra nefndarmenn um hærri mörk sem enduðu í 20 vopnum og hafði þá verið tekið tillit til þáverandi vopnaeignar, en á bilinu 50-70 einstaklingar áttu fleirri vopn, þ.á.m. safnarar. Þó svo að SKOTVÍS og STÍ hafi fært rök fyrir því innan nefndarinnar að hægt væri að finna lausnir sem gætu komið að mestu til móts við sjónarmið yfirvalda, þá var þetta niðurstaðan. Spurningin var í raun aldrei hvort að það ætti að vera hámark, heldur einungis hvar þetta hámark ætti að liggja og því mátti alltaf búast við einhverri óánægju með þennan fjölda og gildir einu hvort fjöldinn hefði verið 15, 30 eða 50.

Skotveiðifélag Íslands eru landssamtök skotveiðimanna og munu nú sem endranær standa í eldlínunni og verja hagsmuni skotveiðimanna. Ofangreint hámark er vel ásættanlegt fyrir stærstan hóp þeirra 13.000 veiðikortahafa sem stunda veiðar í íslenskri náttúru, en því miður er ekki hægt að sníða löggjöf að þörfum allra. SKOTVÍS vill samt minna á að umræðan hér snýst um fjölda "nothæfra vopna" ekki söfnunarvopn, sem hefur rýmri heimildir varðandi fjölda.

Varðandi samstöðu skotveiðimanna, þá vill stjórn SKOTVÍS árétta að kjarnastarfsemi félagsins snýr að skotveiðimönnum og skotveiðum á Íslandi. Heimild er í lögum félagsins til að eiga samvinnu við önnur félög og samtök sem hafa áhugamál skotveiðimanna á stefnuskrám sínum (sjá úrdrátt úr lögum SKOTVÍS hér að neðan) og þarundir fellur m.a. byssusöfnun.

 

2. grein
Tilgangur félagsins er að standa vörð um hagsmuni og réttindi skotveiðimanna á Íslandi.

3. grein
Markmið félagsins er að stuðla að sameiningu skotveiðimanna og áhugamanna um skotveiðar og náttúruvernd og standa vörð um hagsmuni þeirra. Markmiði sínu hyggst félagið ná m.a. með því að:

  • Eiga samvinnu við önnur félög og samtök, innlend og erlend, sem hafa málefni tengd áhugamálum skotveiðimanna á stefnuskrám sínum.
  • Eiga samvinnu við önnur félög og opinbera aðila um setningu laga og reglugerða um almannarétt, náttúruvernd, friðun og veiðar dýra og meðferð skotvopna.

 

SKOTVÍS hefur á undanförnum tveimur árum opnað vettvang sinn fyrir áhugamenn um skotveiðar og málum þeim tengdum um land allt og fylgt því m.a. eftir með formlegum heimsóknum til flestra skot(æfinga)félaga á landinu auk þess að standa fyrir sameiginlegum viðburðum á borð við "Dúfnaveisluna". Í þessum heimsóknum hefur SKOTVÍS verið mjög opið fyrir samstarfi á ýmsum sviðum, sem hafa því miður ekki leitt af sér mörg verkefni enn sem komið er og því hefur félagið farið nýjar leiðir til að sameina skotveiðimenn, þ.e. með stofnun svæðisráða (sjá einnig umfjöllun hér um þennan vettvang).

Álit SKOTVÍS verður ekki pantað, það verður að byggjast á raunverulegri umræðu og samstarfi og vera í samræmi við lög félagsins. Umsögn SKOTVÍS er fagleg, hún býður uppá raunverulega lausn, þ.e. að sú nefnd sem sendi frá sér drögin, fari faglega yfir málið aftur m.t.t. breyttra forsenda áður en það fer í þingsali til afgreiðslu.

Sjónarmið þeirra aðila sem ofangreint hámark varðar mest hafa komist ágætlega til skila í umsögnum þeirra og skyggir umsögn SKOTVÍS þar á engan, heldur hvetur til samstarfs á faglegum grunni sem leiðir til raunhæfra lausna.

 

Stjórn SKOTVÍS

Tags: félagsins, önnur, hefur, hafa, skotvís, skotveiðimanna, verður, hámark, félög, samvinnu, hagsmuni, mál, standa, stjórn
You are here: Home