Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Skýrsla um ástand svartfuglastofna

Skotveiðifélag Ísland átti fulltrúa í starfshóp á vegum umhverfisráðherra sem móta átti tillögur um vernd og nýtingu svartfuglastofna á Íslandi. Starfshópnum var falið að gera tillögur um aðgerðir sem stuðlað geti að endurreisn svartfuglastofnanna við Ísland. Í skýrslu starfshópsins kemur fram að ástæðan fyrir fækkun í þessum fuglastofnun eru hnattrænar loftslagsbreytingar og breytingar á fæðuframboði í hafinu í kjölfarið. Það sama hefur komið fram í öðrum skýrslum t.d. í skýrslu Norrænu ráðherranefndarinnar frá síðasta ári. Í þeirri skýrslu eru taldar til margar mögulegar ástæður fyrir fækkun sjófugla og veiðar er aðeins ein af þeim. Starfshópurinn sem skipaður var í sumar hafði ekki um mikið að fjalla viðvíkjandi því sem ráðherra getur tekið á. Í raun er bara eitt sem ráðherra getur haft bein áhrif á og það eru veiðar og nytjar. Því hafði starfshópurinn ekki um margar tillögur að velja til að draga úr afföllum, í raun bara eina; að takmarka eða leggja til bann við veiðum og nýtingu á umræddum tegundum.

SKOTVÍS bendir á að ekki sé rétt að setja á bann fyrr en skilgreint og mælanlegt markmið friðunar liggur fyrir. Slíkt markmið þarf að vera raunhæft og taka mið af stofnsveiflum og vera í samræmi við væntingar um þróun stofnanna. Eins og sjá má er ekkert sem starfshópurinn leggur til, eða getur lagt til, varðandi það sem mestu máli skiptir, þ.e. breytingar á fæðuframboði fyrir sjófuglastofnana.

Að mati SKOTVÍS hafa skotveiðar lítil áhrif á viðkomu bjargfugla á Íslandi en árlega eru skotnir fáir tugir þúsunda svartfugla úr stofnum sem telja milljónir einstaklinga! Ef hlýnun sjávar við Ísland er staðreynd, með tilheyrandi breytingum á fæðuframboði, þá er sennilegt að bjargfuglum muni fækka, hvað sem veiðum og hefðbundnum nytjum líður. Samt sem áður er það álit SKOTVÍS að draga megi úr veiðum og jafnvel stöðva veiðar tímabundið á teistu og lunda og skilaði félagið séráliti [sjá aftasta hluta skýrslunnar] með greinargóðum tillögum. Það er mat SKOTVÍS að verði farið eftir þeim tillögum megi draga úr veiðum og komast betur að áhrifum veiða á svartfuglastofnana. Það sé fyrsta skrefið sem þarf að taka. Algert veiðibann eða miklar takmarkanir á þeim veiðum sem nú tíðkast er marklaus aðgerð og mun spilla fyrir trú veiðimanna á fyrirkomulagi veiðistjórnunar á Íslandi.

Tags: hafði, skotvís, ráðherra, veiðar, getur, draga, starfshópurinn, breytingar, fæðuframboði, bann, fækkun, raun, skýrslu, veiðum, tillögur
You are here: Home