Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Ljósmyndasamkeppni

Af gefnu tilefni vill SKOTVÍS árétta eftirfarandi í tengslum við ljósmyndasamkeppni félagsins sem hleypt var af stokkunum nú nýverið, þar sem félaginu er gefið að sök að brjóta á höfundarrétti. Félaginu hefur ekki borist formleg kvörtun vegna fyrirkomulags keppninnar, einungis séð skoðanir og athugasemdir einstaklinga á vefmiðlum um hvernig eigi að standa að svona keppni. Að vandlega athuguðu máli var ákveðið að höfða fyrst og fremst til félagsmanna og annarra veiðimanna um að senda inn myndir með skírskotun í siðareglur félagsins, enda er slíkt fyrirkomulag ekki óalgengt hjá frjálsum félagasamtökum. Ef aðrir hópar en þeir sem hér er höfðað til, hafa áhuga á þátttöku í þessu spennandi verkefni, þá er þeim einnig frjálst að taka þátt.

Varðandi samninga við eigendur mynda, þá er samingurinn fyrirfram skilgreindur (verðlaunafé) og í kynningu er tekið fram að efnið verður hugsanlega notað í kynningarefni félagsins. Ef það hefur ekki komið nægilega skýrt fram, þá er hér eingöngu átt við vinningsmyndir og ekki aðrar myndir sem berast. Ekki stendur til að nota myndir á neinum öðrum vettvangi, þó ekki sé útilokað að SKOTVÍS hafi milligöngu um að koma áhugasömum í samband við eigendur myndanna sem gerir þá samninga sem þarf. SKOTVÍS mun hinsvegar ekki kasta hendinni á móti góðum myndum sem félaginu stendur til boða að gjöf.

SKOTVÍS vill ennfremur taka fram að félagið er opið fyrir samningum við höfundarréttarhafa um annað fyrirkomulag ef ofangreindur samningur þykir ekki henta. Enda hefur félagið fram að þessu verið í góðu sambandi við ljósmyndara  á sviði náttúruljósmyndunar og óskað eftir nauðsynlegum heimildum til að birta myndir þeirra í tengslum við starfsemi félagsins.  SKOTVÍS vill því fullvissa alla þá sem eiga höfundarréttarvarið efni að félagið mun ávallt fylgja lögum, koma fram af sanngirni og virða samninga þá sem gerðir eru.  Þessi til vitnisburðar má nefna samning félagsins við Fjölmiðlavaktina um birtingu fréttatengds efnis um skotveiðar.

Tags: félagið, félagsins, hefur, skotvís, myndir, félaginu, vill, samninga, ljósmyndasamkeppni, fyrirkomulag, taka, eigendur, stendur, tengslum
You are here: Home