Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Fyrirkomulag Rjúpnaveiða 2012

15-19-1Skotveiðifélag Íslands - SKOTVÍS - fagnar því að umhverfisráðherra skuli samþykkja tillögu Náttúrufræðistofnunar um rjúpnaveiðar í haust, mun fyrr en á undanförnum árum, og beinir þeim tilmælum til veiðimanna að stunda hóflegar veiðar á tímum sem viss ástæða er til að hafa áhyggjur af rjúpnastofninum. Tillögurnar voru kynntar SKOTVÍS á samráðsfundi þann 3. september s.l. þar sem farið var yfir forsendur hennar.  Félagið er á þessu stigi sammála tillögu stofnunarinnar í megindráttum, en gerir samt nokkra fyrirvara við þær forsendur sem unnið er eftir.  

Ljóst er að enn er verið að vinna í tilgátuumhverfi og miðast veiðiráðgjöfin við forsendur sem nauðsynlegt er að endurmeta að mati SKOTVÍS.

Náttúrufræðistofnun stefnir að gerð nýrrar rannsóknaráætluna fyrir rjúpnastofninn á þessu ári sem vinna á samkvæmt þegar á árinu 2013. SKOTVÍS hefur óskað eftir aðkomu að gerð þessarrar áætlunar til að tryggja að tekið verði tillit til þeirra þátta sem m.a. skotveiðimenn hafa talið vanta í núverandi útreikningum á veiðiþoli og ná samhljómi með fræðimönnum.

Reiknilíkan Náttúrufræðistofnunar byggist í meginatriðum á eftirfarandi forsendum: 

  • Stofnstærðarbreytingar hjá íslenska rjúpnastofninum má að stærstum hluta rekja til vetraraffalla
  • Afföll skiptast í náttúruleg afföll annarsvegar og afföll vegna skotveiða hinsvegar
  • Önnur óútskýrð afföll eru rakin til skotveiða 

SKOTVÍS hefur lengi bent á að einblínt er um of á veiðar sem megin orsök þess að rjúpnastofninn eigi undir högg að sækja.  Miklar breytingar hafa átt sér stað í vistkerfi rjúpunnar á s.l. áratugum sem hafa vafalasut mikil áhrif á stærð stofnins. Nægir að nefna loftslagsbreytingar, aukið álag á búsvæði rjúpna sökum bættra samgangna og faratækja, aukin fjöldi ferðamanna, eyðilegging og upptaka búsvæða t.d. fyrir sumarhúsabyggðir, mikil fjölgun refs, landnám og útbreiðsla minks um land allt auk annarra afræningja. Þá er hugsanlegt að gífurleg fjölgun heiðargæsa hafi áhrif á beitarland rúpna á á hálendinu.

Enginn ágreiningur er um að reglulegar sveiflur í stofninum eigi sér stað og að þróunin hefur öll verið niðurávið í langan tíma.  Ef finna á skýringar á þessarri þróun, er nauðsynlegt að horfa heildstætt á vistkerfi rjúpunnar og þær breytingar sem þar eiga sér stað, í stað þess að einblína um of á veiðar, sem standa einungis undir 10-15% af heildarafföllum (veiddar rjúpur).  Margir þættir geta með einum eða öðrum hætti haft áhrif á stofnstærð rjúpu, ýmist til lengri eða skemmri tíma og því er það ábyrgðarhluti að hefja rannsóknir á öðrum þáttum sem fyrst. Nauðsynlegt er að hefja ítarlegri kortlagningu á afföllum úr rjúpnastofninum og eru nærtækustu dæmin áhrif refs og minks.  Slík forgangsröðun er nauðsynleg, því hægt er að hafa áhrif á stærð þeirra stofna með markvissri veiðistýringu.

Í núverandi stofnlíkani eru heildarafföll mæld á grundvelli talninga milli ára.  Afföllin eru svo flokkuð á eftirfarandi hátt: 

  • Náttúruleg afföll (40%)
  • Afföll vegna skotveiða (hlutfall reiknast útfrá veiddum rjúpum í veiðiskýrslum)
  • Óútskýrð afföll

Athygli vekur að náttúruleg afföll eru meðhöndluð sem fasti óháð öllum öðrum þáttum en veiðarnar eru breytilegt hlutfall háð veiðum og stofnstærð.  Óútskýrðu afföllin hafa sterka fylgni við friðunarárin 2003 og 2004 (engin óútskýrð afföll þau ár, en stofninn var í uppsveiflu á þessum árum) og hefur Náttúrufræðistofnun dregið þá ályktun að séu veiðar ekki stundaðar, verði náttúruleg afföll jöfn heildarafföllum, þ.e. 40%.  Sé stofnstærðarmat rjúpna yfir lengri tíma skoðað sést að fylgnin milli umfangs veiða og óútskýrðra affalla er ekki sterk og því þarf að kanna þessa tilgátu mun betur að mati SKOTVÍS.

Rjúpan er algeng villibráð í Noregi og á rjúpnastofninn þar líka undir högg að sækja um þessar mundir. Þar hefur verið ákveðið að hefja fjölstofnarannsóknir og taka mun fleiri breytur inní myndina en hérlendis, m.a. hvaða áhrif fyrirkomulag veiðanna hefur, t.d. fjöldi veiðidaga og framkvæmd veiða. Þetta verkefni [sjá hér] hefur staðið yfir síðan 2006 og mun ljúka 2014, en upphaflega hafi stóð til að ljúka verkefninu 2011. Athyglisvert er að í Noregi telja fræðimenn að stofnsveiflur skýrist af aföllum í ágúst-september og því hefjast veiðar þar fyrr en hér, eða 10. september þegar vetrarafföll hafa ekki hoggið skarð í rjúpnastofninn.

Ljóst er að þrátt fyrir að rjúpan sé sá fugl sem mest hefur verið rannsakaður hér á landi [sjá hér] hefur enn ekki tekist að staðfesta áhrif veiða og því er mikilvægt að næsta rannsóknaráætlun Náttúrufræðistofnunar verði unnin í samræmi við það. SKOTVÍS telur einboðið að félagið verði haft með í ráðum og við gerð áætlunarinnar enda er mikilvægt að fá fram sem flest sjónarhorn svo vel takist til. Slíkt samstarf er líklegt til að stuðla að sátt um framtíðarskipan rjúpnaveiða og markvissum aðgerðum.  

Undanfarnar vikur hafa sést jákvæð teikn á lofti sem styðja við slíka nálgun, en nýverið tók í gildi nýtt skipurit Náttúrufræðistofnunar [sjá hér] endurspeglar þessa nauðsyn, þ.e. að líta heildstætt á vistfræði tegunda (Vistfræðisvið) og nú þarf að stilla af verkefni næstu ára í heilsteyptri rannsóknaráætlun eins og fyrr er getið um.

Þá er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi.

25. september 2012

Stjórn SKOTVÍS


Yfirlit yfir rjúpnarannsóknir

Fréttatilkynning SKOTVÍS frá 2011

Tags: hefur, þar, hafa, verið, skotvís, verði, veiðar, yfir, afföll, áhrif, náttúruleg, hefja, nauðsynlegt, náttúrufræðistofnunar
You are here: Home