Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Fyrirkomulag Rjúpnaveiða 2011

SKOTVÍS fagnar ákvörðun ráðherra að heimila rjúpnaveiðar 2011 á 31.000 rjúpum, þó með takmörkunum sé og beinir þeim tilmælum til veiðimanna að stunda hóflegar veiðar á tímum sem viss ástæða er til að hafa áhyggjur af rjúpnastofninum. Vonir stóðu til að fjöldi veiðidaga yrði óbreyttur og í samræmi við fyrri ákvörðun ráðherra frá 2009 og er ákvörðunin því ekki í takti við væntingar SKOTVÍS, en veiðimenn hafa stundað hóflegar veiðar og verið á pari við veiðiráðgjöf UST undanfarin ár.

SKOTVÍS gerir alvarlegar athugasemdir við það ferli sem leiddi til þessarar niðurstöðu. Skotveiðar sem standa undir 10-12% af árlegum afföllum eru útmálaðar sem megin stýribreyta í viðkomu stofnsins meðan aðrir stýranlegir áhrifavaldar eru látnir óáreittir og valda ekki bara rjúpnastofninum ómældu tjóni, heldur einnig öðru fuglalífi.

SKOTVÍS gagnrýnir ruglingslega hlutverkaskiptingu milli NÍ, UST og umhverfisráðuneytis í ákvörðunarferlinu og þá sérstaklega afskipti NÍ af veiðistjórnunarþættinum og það ákvörðunarvald ráðherra sem gerir ákvörðunina pólitíska í eðli sínu og ekki til þess fallin að skapa traust á stjórnvöldum um að vísindaleg vinnubrögð séu viðhöfð.

SKOTVÍS hefur miklar áhyggjur af því hvernig staðið verði að veiðistjórnun á villtum dýrastofnum um ókomna framtíð, en vill leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að stuðla að nauðsynlegum breytingum, þ.a. komandi kynslóðir eigi þess einnig kost að stunda skynsamlegar skotveiðar.

Að venju hefur umfjöllun um rjúpnaveiðar litast af miklum skoðanaskiptum og sérstaklega í ár, þegar óblíð veðrátta gerði fuglalífinu erfitt fyrir og sökum þess að niðurstöður sérfræðinga voru lagðar fram á grundvelli gagna sem aflað var við erfiðar aðstæður. Í skýrslu NÍ er sérstaklega tilgreint að tillögur um veiðiþol miðist við verstu mögulegu aðstæður sem eru niðurstöður talninga á NA-landi, sem varð hvað verst úti í vorhretinu auk þess sem talningar sem þar voru framkvæmdar við erfiðar aðstæður, voru heimfærðar á allt landið.

 Reiknilíkanið sem notast hefur verið við til að meta stofnstærð og veiðiþol hefur einnig hlotið talsverða gagnrýni og fyrir það helst að vera með þrönga sýn á heildarmyndina og um of einblínt sé á afrán fálka og áhrif skotveiða. Þessum áhrifavöldum er gert mun hærra undir höfði en öðrum þáttum, s.s. veðri, sjúkdómum, ref, mink, sílamáf og öðrum þáttum. Bent er á að veiðar hafa einungis staðið undir um 10-12% af afföllum rjúpunnar að meðaltali í gegnum árin og þykir því SKOTVÍS að gert sé of mikið úr veiðum og beinlínis að verið sé að skrifa núverandi ástand rjúpnastofnsins alfarið á veiðar í stað þess að komast að raunverulegum ástæðum sem hugsanlega er hægt að stýra með áhrifaríkari hætti.

Fjöldi veiðidaga og veiðifyrirkomulagið

Rjúpnastofnin hefur áður farið í gegnum miklar lægðir (1970 og 1993), en á þeim tíma voru veiðar stundaðar frá 15. október til 22. desember (68 daga veiðitímabil), og samt náði stofninn að rétta úr kútnum. Eftir þetta hefur veiðidögum fækkað jafnt og þétt og með tillögu UST og NÍ er lagt til enn frekari fækkun veiðidaga úr 18 í 9. Rétt er að geta þess að NÍ hefur lagt til veiðiþol uppá 31 þúsund fugl, sem er svipaður fjöldi og veiddist árið 2007 (18 veiðidagar) og var í samræmi við veiðiráðgjöf það árið og virtist ekki leiða til versnandi ástands árið eftir. Því er spurt hvað hefur breyst sem gefur tilefni til fækkunar veiðidaga í þetta skiptið?

Núverandi fjöldi veiðidaga er ekki í takti við væntingar SKOTVÍS þar sem veiðimenn hafa sýnt á síðustu árum að veiðar hafa verið á pari við ráðgjöf UST. Búið var að gefa fyrirheit um óbreytt kerfi árin 2009, 2010 og 2011 og því er þessi skerðing í raun vonbrigði þar sem skotveiðimenn hafa ekki farið fram úr veiðiráðgjöf NÍ svo nokkru máli skipti.

Í ljósi rökstuðnings fyrir núverandi fyrirkomulagi sem eru að miklu leyti byggðar á tilgátum og af mikilli varkárni, gerði SKOTVÍS það að tillögu sinni að leyfðar yrðu áfram veiðar í 6 helgar en að fyrstu helgina verði veitt 3 daga og næstu fimm helgar 2 dagar, í heild 13 daga, en þeirri tillögu var hafnað. Með slíku fyrirkomulagi ætti að nást markmið um að halda veiðinni undir 31.000 fuglum og að aukin hvíld myndi nást milli veiðihelga. Ennfremur var farið fram á að umhverfisráðuneytið og UST standi fyrir samræðum milli skilgreindra hagsmunaaðila, hvernig skuli standa að markvissri veiðistjórnun og hvernig megi stýra fjármunum Veiðikortasjóðs með markvissari hætti í þessa þágu – Vonandi verður af því fljótlega!

Tilgátuumhverfið og Rannsóknarumhverfið

Það er afar hæpið að halda því fram nú að ein af meginrökum þess að takmarka eigi veiðar sé vegna þess að „hugsanlega” megi rekja bágt ástand rjúpnastofnsins til skotveiða, þar sem það eitt að halda til veiða stressi rjúpur og dragi umtalsvert úr lífslíkum þeirra. Hafa ber í huga að einungis hafa verið veidd um 10-12% af stofninum á ársgrundvelli síðan 2005. Þá er kenningin um stress af völdum veiða bara ein kenning af mörgum sem talið er að geti skýrt stofnstærð rjúpnastofna.

Það er skýr krafa veiðimanna að stjórnun veiða verði að vera byggð á bestu fáanlegu staðreyndum í stað tilgátu sem gengur út á að allt sem miður fer sé veiðimönnum að kenna og að horfst sé í augu við þá staðreynd að t.d. hefur refastofninn sennilega aldrei verið stærri síðan maðurinn hóf að nýta rjúpnastofninn. Þá er ekki heldur hægt að horfa fram hjá því að með tilkomu minks og sílamávs hér á landi hefur fjölgað í hópi dýra sem veiða og éta rjúpur. Markvissra rannsókna er þörf og stjórnun veiða á að byggjast á fjölstofnarannsóknum sem miða m.a. að því að útskýra áhrif veiða og ekki síður áhrif friðunar vargdýra eins og refs á stórum landsvæðum.

SKOTVÍS vill undirstrika þá kröfu veiðimanna að fjármunum Veiðikortasjóðs verði beint í enn frekari rannsóknir á rjúpnastofninum, því mörgum spurningum er enn ósvarað sem hafa vaknað á síðustu árum í gegnum vöktun veiðistofna. Ekki hafa fengist viðhlítandi skýringar hvers vegna rjúpnastofninn er ekki að ná sömu toppum og var rauninn um miðja síðustu öld. Margir takmarkandi þættir eru á núverandi stofnlíkani og í raun of mikil einföldun að ætla að útskýra stofnsveiflur aðeins út frá mönnum og fálka og athöfnum þess fyrrnefnda á veiðislóð. Margt annað hefur áhrif og það vantar mikið upp á að stofnlíkanið endurspegli að fullu áhrif þátta einsog veðurs, sjúkdóma, sníkjudýra og afráns, sér í lagi er ekkert tillit tekið til þess að refastofnin hefur stækkað mikið á síðustu árum og er núna í sögulegu hámarki sem líklega er afleiðing þess að ríkið hefur hætt stuðningi við grenjavinnslur.

Breytingar á fyrirkomulagi veiðistjórnunar

Nýjar ósannaðar tilgátur, ósamræmi í veiðiráðgjöf og skortur á samfellu er farið að valda SKOTVÍS talsverðum áhyggjum. Árangur friðunar (fyrir veiðum) á árunum 2003/2004 hefur verið stórlega ofmetinn þar sem þessi tvö ár voru í upphafi uppsveiflu og því mátti vænta aukningar hvort sem friðað væri eða ekki. Hér hljóta því að liggja aðrar veigameiri ástæður að baki sem hagsmunaaðilum ber skylda til að kanna til fulls. Eftir deilurnar í kringum síðustu friðunarðagerðir umhverfisráðherra tókust sáttir á meðal veðimanna og vísindamanna sem ef til vill má þakka því að hingað til lands var fenginn aðili með mikla reynslu á sviði rjúpnarannsókna. Það var einlæg trú SKOTVÍS að það myndi þýða breytta tíma og að ekki yrði lagt til að gripið verði til jafn örvæntingarfullra aðgerða sem alfriðun á rjúpu er. Að menn haldi ró sinni þegar illa árar og takist á við að leysa verkefnið í sameiningu. Enn er hægt að búa svo um að veiðimenn haldi áfram að styðja við rannsóknir, það er allt hægt ef traust á milli hagsmunaaðila er fyrir hendi.

Það er því mat SKOTVÍS að undir þessum kringumstæðum sé þörf á umræðu um aðferðir veiðistjórnunar og stjórnsýslu henni tengdri. Þá gerir endanlegt ákvörðunarvald umhverfisráðherra ákvörðun um rjúpnaveiðar frá einu ári til annars pólitíska í eðli sínu en slíkar ákvarðanir á að taka á vettvangi vísindamanna og stjórnsýslu. Núverandi fyrirkomulag er dæmt til að skapa vantraust og óþarfa spennu milli stjórnvalda, veiðimanna og annara hagsmunaaðila.

SKOTVÍS og íslenskir veiðimenn hafa í 33 ár mælt fyrir markmissri þekkingaröflun og veiðistjórnun, enda er slíkt forsenda þess að geta byggt upp og viðhaldið heilbrigðum veiðistofnum. Veiðimenn eru upp til hópa náttúruunnendur, þeir eru stoltir af framlagi sínu til rannsókna á lífríki Íslands í gegnum Veiðikortasjóð og eiga því fullan rétt á að tekið sé tillit til skoðanna þeirra á því hvernig að málum er staðið. Stjórn SKOTVÍS, fyrir hönd íslenskra skotveiðimanna er tilbúið að vera hluti af nýjum lausnum til að rjúpnaveiðar, sem og aðrar veiðar verði sjálfbærar um ókomna framtíð.

Virðingarfyllst,

Stjórn SKOTVÍS

Tags: hafa, skotvís, 2011, fyrri, ráðherra, veiðar, hóflegar, ákvörðun, vonir, óbreyttur, samræmi, yrði, fjöldi, 2009
You are here: Home