Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Frjáls aðgangur að afréttum í Húnaþingi vestra

Af gefnu tilefni vill SKOTVÍS benda skotveiðimönnum á að tilkynning sveitarstjórnar Húnaþings vestra um rjúpnaveiðar á afréttarlöndum innan sveitarfélagsins, þ.e. Arnarvatnsheiði og Tvídægra (sem nær niður í Borgarbyggð), þar sem farið er fram á greiðslu fyrir að ganga til rjúpna stenst ekki skoðun!  Þessi árlega tilkynning sveitarfélagsins tengist úrskurðarmáli sem óbyggðanefnd hefur nú til umfjöllunar, en með þessu sýnir sveitarstjórn almenningi mikinn hroka og skapar óvissu meðal veiðimanna um réttarstöðu þeirra.

SKOTVÍS hefur mótmælt þessu framferði sveitarstjórnarinnar undanfarin ár og m.a. óskað eftir upplýsingum um landarmerki og önnur gögn er varða veghald vegarins uppá Víðidalstunguheiði og átt samtöl við sveitarstjóra til að miðla málum auk þess aflað upplýsinga frá Vegagerðinni sem hefur styrkt gerð vegarins uppá Víðidalstunguheiði með almannafé.

Framanaf hafði sveitarfélagið einnig brotið jafnræðisreglu stjórnsýslulaga með því að mismuna Íslendingum í gjaldtöku eftir búsetu. Sveitarstjórn virðist þó hafa lýst sig sammála áliti SKOTVÍS í þessum lið og viðurkennt brot sitt hvað þetta varðar, sem undirstrikar nauðsyn þess að sýna stjórnvöldum og opinberum stofnunum stjórnsýslulegt aðhald.

Það sem gerir aðgerð Húnaþings vestra einstaklega óskammfeilna gagnvart almenningi, er að ríkið hefur einnig gert kröfu á þetta sama landsvæði sem breytir réttarstöðu skotveiðimanna til hins betra meðan málið er tekið fyrir af óbyggðanefnd. Því lítur SKOTVÍS svo á að veiðar séu heimilar á þessu svæði, með vísan í 8.gr laga um verndun, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (nr. 64/1994) þar sem segir:

Öllum íslenskum ríkisborgurum, svo og erlendum ríkisborgurum með lögheimili hér á landi, eru dýraveiðar heimilar í almenningum, á afréttum utan landareigna lögbýla, enda geti enginn sannað eignarrétt sinn til þeirra.

Krafa íslenska ríkisins í ofangreint landssvæði er jafrétthá kröfu sveitarfélagsins og því er íslenskum þegnum (sbr. skilgreininguna hér að ofan) heimilt að veiða í þessu landi þar til óbyggðanefnd hefur kveðið upp úrskurð sinn og hugsanlega hæstiréttur.  Ólíklegt er því að dómstólar muni taka fyrir kærur út af þessarri stöðu.  

Til glöggvunar, er veiðimönnum bent á að hægt er að nálgast upplýsingar um umrætt svæði á vef óbyggðanefndar, þar sem er að finna kort af svæðinu auk kröfulýsingu ríkisins, en á blaðsíðu 3-4 er þjóðlendulínunni lýst mjög vel.

... Þjóðlendulína sem aðgreinir heimalönd frá afréttarsvæðum suður á miðhálendið (Auðkúluheiði, Forsæludalskvíslar, Grímstunguheiði, Haukagilsheiði, Víðidalstunguheiði, Núpsheiði, Húksheiði, Aðalbólsheiði og Staðarhreppsafrétt (Óspaksstaðadalur)) 
Byrjað er á punkti í Blöndu við Vallgil (1), þaðan er haldið beint vestur í Fiskilæk (2), og þaðan áfram í vestur að Karyrðlingatjörn (3). Úr þeim punkti er haldið suður um Skammbeinstjörn (4), og áfram eftir þeirri línu suður í Friðmundarhöfða (5). Þaðan er haldið í suður að norðanverðu Eyjavatni (6), en þaðan beygt í vestur að vörðu sem er á há Bótarfjalli (Bótarfelli) (7) og svo áfram vestur að Vatnsdalsá móti Svínalækjarás (8). Úr ásnum er Vatnsdalsá fylgt norður þar til Sjónarhólslækur fellur í hana (9), og er Sjónarhólslæk fylgt að upptökum (10) en þaðan er bein lína norður að Sýrsvatni (Sílvatni) (11). Sýrsvatnslæk (Sílvatnslæk) er svo fylgt að Selkvísl (12) og þaðan áfram til Álku (Álkugils) (13). Úr Álkugili er Fremri-Skútalæk fylgt að Sellæk við Fremstasel (14) og þaðan er læknum fylgt að upptökum (15), þar sem svo er dregin bein lína að Kleppukvísl (16). Kvíslinni er svo fylgt þar til hún rennur í Kleppavatn (17), frá vatninu er svo dregin lína í norðvestur um Heiðamótaás að Kornsárvatni (18). Frá vatninu er farið í vestur að Bergárvatni (19) og þaðan í suður í Öxnártjörn (20), frá tjörninni er Öxná fylgt að Víðidalsá (21) og Víðidalsá svo fylgt að ós Ytri-Kjálkalæks (22), en honum er svo fylgt að upptökum (23) og þaðan dregin lína í vestur að hæsta punkti Sauðholts (24). Þaðan er farið beint suður í læk Tjarnarhólakvísl (25) sem er fylgt að Fitjá (26) sem er svo fylgt að Hestakrókum (27). Úr Hestakrókum er farið beint vestur í Fanngil (28) og gilinu fylgt í Austurá (29) sem er svo fylgt að Þorvaldsá (30) og henni er svo fylgt að grjóthól sem nefndur er Kastali (31). Þaðan er dregin bein lína í suður að landamerkjasteini á Kvíslavatnsás (32) og þaðan bein lína í vestur að ósi Núpsár (33). Síðan er svo Núpsá fylgt vestur að Lambsás (34). Úr Lambsás er svo farið í vestur að Túnaselju við Vesturá, undan Önundarfitjum (35). Frá þeim punkti er farin sjónhending í Vesturá (36) og henni fylgt þar til Lambá rennur í hana (37) og þaðan er dregin bein lína vestur í poll er Brennikvísl rennur í úr vestri (38). Brennikvísl er svo fylgt inn til Síkár (39) sem er svo fylgt suður að upptökum sínum (40). Þaðan er dregin lína að upptökum Skútakvíslar (41) við sýslumörk Mýrasýslu, sem er lokapunktur. 

 

Vegir og heimildir fjallskiladeilda til að loka vegum
Heimildir fjallaskiladeilda til að loka vegum hafa einnig verið til umræðu, en þær geta sótt um heimild til sveitarstjórnar til að loka veginum uppá Víðidalstunguheiði.  Sú ákvörðun verður að vera á rökum reist og bókuð sérstaklega í fundargerðum sveitarstjórnar.  Hægt er að kæra slíka ákvörðun til ráðherra (55. gr. Vegalaga, sjá neðar) og mun SKOTVÍS veita sveitarstjórn stjórnsýslulegt aðhald þegar kemur að þessum lið.  Umræddur vegur hefur um árabil verið styrktur af almannafé og ber fjallskildeild að hafa veginn opinn almenningi samkvæmt samningi við Vegagerðina og eingöngu fara fram á lokun hans ef nauðsyn krefur, t.d. vegna öryggis vegfarenda og skemmda vegna aurbleytu.  Veiðimenn hafa lent í því að koma að lokuðu hliði uppá Víðidalstunguheiði og voru ekki gefnar neinar skýringar á lokuninni, frost var í jörðu, bíll hafði nýverið farið um veginn og ekkert sem benti til þess ofangreindar ástæður lokunar hafi átt við.  SKOTVÍS hefur farið fram á bókanir þess efnis og mun fylgja því máli eftir. 

Þeir veiðimenn sem hyggja á veiðar á þessu svæði, er bent á að setja sig í samband við sveitarstjórn Húnaþings vestra og óska eftir upplýsingum um ástand vegarins og hugsanlegar lokanir.  Ef vegurinn er lokaður, skal óska eftir afriti af samþykkt sveitarstjórnar ásamt rökstuðningi, þ.a. tryggt sé að veginum hafi verið lokað eftir löglegum leiðum, en í Vegalögum segir 

55. gr. Vegir sem ekki tilheyra vegflokki.

  • Nú liggur vegur, stígur eða götutroðningur yfir land manns og telst eigi til neins vegflokks samkvæmt lögum þessum og er landeiganda þá heimilt að gera girðingu yfir þann veg með hliði á veginum en eigi má hann læsa hliðinu né með öðru móti hindra umferð um þann veg nema sveitarstjórn leyfi.
  • Ákvörðun sveitarstjórnar skv. 1. mgr. má leggja undir úrskurð ráðherra.

Á þessu stigi er Húnaþing vestra ekki viðurkenndur landeigandi að ofangreindu landssvæði og því hefur réttarstaða skotveiðimanna batnað eftir að ríkið gerði kröfu í sama svæði.  Hver svo sem úrskurður óbyggðanefndar/Hæstaréttar verður, munu skotveiðimenn sýna sóma sinn í því að gangast við þeirri niðurstöðu og virða rétt réttmætra landeigenda eins og kveðið er á um í siðareglum félagsins.  SKOTVÍS vill ennfremur hvetja landeigendur og ábúendur til að stuðla að innleiðingu siðareglna meðal þeirra veiðimanna sem fá að veiða í einkalöndum.

 

Stjórn SKOTVÍS

 
Tags: hefur, þar, skotvís, eftir, þessu, farið, fylgt, þaðan, vestur, suður, lína, dregin, upptökum
You are here: Home