Fréttatilkynning frá stjórn SKOTVÍS - Áhrif veiða og annarra þátta á rjúpnastofninn

Fréttatilkynning frá Skotveiðifélagi Íslands – SKOTVÍS

-          áhrif veiða og annarra þátta á rjúpnastofninn

 

FRÉTTATILKYNNINGUNNI FYLGJA MYNDIR SEM BEST ER AÐ LESA Í PDF SKJALI [HÉR]

Þann 2. október 2013 var gefin út reglugerð (910/2013um rjúpnaveiðitíma til þriggja ára þar sem leyfilegum veiðidögum var fjölgað úr 9 í 12, sem er að mati SKOTVÍS jákvætt skref, m.a. með tilliti til bættu öryggi veiðimanna auk þess sem dregið er úr óvissu um veiðarnar ár hvert. Hafði SKOTVÍS í mörg ár óskað eftir að veiðistjórnun á rjúpum væri tekin föstum tökum og var ákvörðun ráðherra um að gefa út fastan veiðitíma til næstu þriggja ára fagnaðarefni.

Hvað varðar fjölda leyfilegra veiðidaga, vill SKOTVÍS engu að síður ítreka fyrri áherslur sínar varðandi veiðitíma á rjúpum, þar sem lagt er til að stunda megi veiðar að minnsta kosti í 18 daga, yfir sex vikna tímabil. Rökstuðningur SKOTVÍS byggir á þeirri staðreynd að á þeim árum sem veiðidögum fækkaði úr 69 í 9, hafi fjöldi leyfilegra veiðidaga engin áhrif á sóknina. Sá árangur sem náðst hefur við að ná niður heildarveiðinni megi rekja til sölubanns á rjúpnaafurðum, sem sett var á árið 2005 og hefur verið í gildi síðan.

Þó svo að vel megi rökstyðja að fjöldi leyfilegra veiðidaga séu fleirri en 18 dagar og lengur en 6 vikur, telur SKOTVÍS að stíga eigi varlega til jarðar við fjölgun daga umfram þessar tillögur. Með þessu móti ætti að skapast nægilegt svigrúm fyrir veiðimenn, stofnanir og fræðimenn til að rannsaka áhrif annarra þátta en veiða.

Í ljósi þessarra staðreynda er tímabært að huga að þessum tillögum, þ.a. að hægt sé að setja dagaumræðuna á ís og verja tíma og fjármunum í önnur mikilvægari málefni og afla meiri þekkingar um aðra þætti en veiðar.

Á árlegum yfirlitsfundifundi ráðuneytis, NÍ, UST, Fuglaverndar og SKOTVÍS þann 8. september s.l. var að venju farið yfir þróun rjúpnastofnsins, horfur með stofnstærð 2014 og áætlað veiðiþol. Á fundinum kom fram að heildarafföll frá 20. apríl 2013 hefðu náð lágum gildum (þrátt fyrir veiðar) og veiðiþol stofnsins sé nú um 48.000 fuglar (miðast við tæplega 9% af hauststofni í byrjun nóvember 2014).

Fulltrúar þeirra aðila sem sátu fundinn eru allir sammála um að þau heildarafföll sem endurspeglast í dánarstuðli Z2 séu ennþá of há og að ekki hafi tekist að útskýra tilurð s.k. „Viðbótaraffalla“ (bláar súlur á mynd 4), þ.e. þau afföll sem eru ekki útskýrð beint sem „Veiðiafföll“ eða s.k. „Náttúruleg afföll“.

Menn greinir hinsvegar á um mismunandi tilgátur hvernig beri að útskýra „Viðbótarafföll“ og hvort eðlilegt sé að gera ráð fyrir því að „Náttúruleg afföll“ séu fasti í Z2.

NÍ lítur málið þeim augum að meðhöndla beri „Náttúruleg afföll“ sem fasta í Z2, og því eigi að vinna með þá tilgátu að viðbótarafföllin megi rekja til veiða, þar sem engar veiðar voru stundaðar á friðunarárunum 2003/2004. Rétt er þó að geta þess að forsendur NÍ miðast við meðaltal þessarra tveggja ára.

SKOTVÍS lítur málið þeim augum að ekki beri að meðhöndla „Náttúruleg afföll“ sem fasta í Z2, því það gefi ekkert svigrúm til að útskýra óvænt afföll hjá fullorðnum fuglum eða umhverfisbreytingar sem gætu valdið breytingum á Z2. Með þessarri nálgun megi útskýra „Viðbótarafföll“ sem birtast óháð því hvort veitt er eða ekki öll önnur ár (mynd 5), stundum margföld veiðin!

Mikilvægt er að halda til haga þeim árangri sem náðst hefur með sölubanni sem sett var á árið 2005. Þannig tókst að halda veiðum mjög nærri ráðgjöf NÍ (tæplega 9% af hauststofni á veiðitíma), en sterk rök hníga að því að sölubannið hafi reynst mjög áhrifaríkt stjórntæki til að takmarka sóknina í stofninn við þetta gildi og þar með fjölda veiddra rjúpna.

Verkefninu um viðreisn rjúpnastofnsins er hinsvegar hvergi nærri lokið, því þrátt fyrir að markmiði um hófsamar veiðar hafi verið náð, hafa heildarafföll áfram verið talsvert umfram þau mörk sem stefnt hefur verið að.

SKOTVÍS hefur gagnrýnt þá ofuráherslu sem lögð er á að útskýra þessi „Viðbótarafföll“ með veiðum, en nú reynir virkilega á að framangreindir aðilar rökstyðji mál sitt á betur hönnuðum vettvangi til að ná samstöðu um nálgun í næstu skrefum – Stefna SKOTVÍS miðast við að eiga málefnalegt samstarf við stjórnvöld, stofnanir og fræðimenn og hefur í því skyni virkjað nokkur Fagráð sem sjá um að móta málefnavinnu félagsins á ýmsum sviðum á eins miklum faglegum grunni og kostur er. Fagráð um vöktun, rannsóknir og stjórnun villtra dýrastofna hefur lagt í mikla vinnu við að rýna fyrirliggjandi gögn, niðurstöður, túlkanir og aðgerðir til að geta tekið þátt í málefnalegu samstarf við framangreinda aðila.

Á fundinum sem nefndur var hér að framan, kom fram skýr vilji allra aðila til að móta samstarfsvettvang um vöktun, rannsóknir og stjórnun rjúpnastofnsins. Þessari áherslu var komið formlega á framfæri við fulltrúa ráðuneytisins á fundinum sem fékk það verkefni að taka málið áfram – SKOTVÍS bendir einnig á að nefnd sem skilaði af sér skýrslu í maí 2013 um Vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra leggur einnig mikla áherslu á að slíkur vettvangur sé skapaður til að heildstæð þekking nýtist við að taka upplýstari ákvarðanir.

Nú er boltinn hjá ráðuneytinu, því allir aðrir sem að málinu koma hafa lýst sig samþykka til að taka umræðuna áfram á slíkum vettvangi.

Nú í aðdraganda veiðanna og á meðan þeim stendur biður SKOTVÍS veiðimenn um að sýna öðrum gott fordæmi í anda siðareglna skotveiðimanna, njóta útiverunnar og félagsskaparins þessa 12 daga sem leyft er að veiða, tína upp tóm skothylki og skilja ekkert eftir nema sporin sín – Þannig höfum við áhrif á framtíð skotveiða!

 

“Þá er veiðidagur góður þegar hóflega er veitt, með talsverðri líkamlegri áreynslu, vakandi náttúruskyni og sært dýr liggur ekki eftir að kveldi”

21. október 2014

Stjórn Skotveiðifélag Íslands – SKOTVÍS

 

[Greinagerð með fréttatilkynningu]

[Grein um tengsl milli veiðidaga og sóknardaga]

Tags: fundinum, hefur, þar, verið, skotvís, veiðar, hafi, afföll, áhrif
You are here: Home