Vatnajökulsþjóðgarður

Eins og flestum félagsmönnum er vonandi kunnugt um hefur stjórn SKOTVÍS unnið mikið starf á síðastliðnu ári í tengslum við skotveiðar í Vatnajökulsþjóðgarði.

Strax á undirbúningsstigi þjóðgarðsins vöknuðu efasemdir á meðal veiðimanna um það hvort veiðar myndu fá að halda sér í óbreyttri mynd innan þess svæðis sem færi undir þennan nýja þjóðgarð. Stjórnvöld lofuðu því að frelsi manna til að veiða yrði ekki skert enda ætti þessi nýji þjóðgarður að endurspegla ný viðhorf og nýjar aðferðir við stjórn og stofnun þjóðgarða.

Skemmst er frá því að segja að þessi fyrirheit eru vart sjáanleg í tillögum þeim sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs hefur fært umhverfisráðherra til staðfestingar. SKOTVÍS tók til varna þegar í mars 2010 þegar fréttist að drög að stjórnar- og verndaráætlun fyrir Vatnajökulsþjóðgarð innihéldi miklar takmarkanir varðandi veiðar á gæsum, rjúpum og hreindýrum. Stjórn SKOTVÍS hefur sent ályktanir og athugasemdir til stjórnar austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs, ásamt umhverfisráðherra, stjórn og stjórnarformanni Vatnajökulsþjóðgarðs. Þeir sem að málinu koma fyrir hönd SKOTVÍS hafa sömuleiðis fundað með ráðherra, stjórn og öðrum sem koma að stjórnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Fundað hefur verið með starfsmönnum umhverfisráðuneytisins og aðstoðarmannai ráðherra og er óhætt að segja að sjónarmið skotveiðimanna hafa skilað sér til allara þeirra sem að málið varðar. Málið hefur fengið töluverða athygli í fjölmiðlum, m.a. í fréttatímum RÚV og Stöð 2. Margar greinar hafa verið skrifaðar um málið sem hafa birst í Fréttablaðinu, Morgunblaðinu og DV.

Staða þessa máls í dag er sú að tillögurnar sem stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs sendi til umhverfisráðherra í september eru inni á borði hennar og bíða þar staðfestingar. Málið er semsé í höndum ráðherra sem hefur heimild til að samþykkja, hafna eða breyta tillögunum eftir atvikum. Óvíst er hvenær ráðherra mun taka ákvörðun en það er von þeirra sem hafa unnið að málinu fyrir hönd SKOTVÍS að ráðherra taki til greina vel rökstuddar athugasemdir okkar sem byggðar eru á bestu mögulegu upplýsingum.

Elvar Árni Lund
Tags: hefur, hafa, verið, skotvís, ráðherra, málið, unnið, veiðar, segja, þessi, þeirra, stjórn, staðfestingar, vatnajökulsþjóðgarðs
You are here: Home