Fæðuskortur, ekki skotveiðar, mesti áhrifavaldur fækkunar svartfugla


Í ljósi talsverðar umræðu um stöðu veiða á svartfugli að undanförnu birtir Skotvís hér úttekt um málið sem unnin var fyrir tímarit félagsins síðasta haust.

Skotveiði ein og sér hefur ekki teljandi áhrif á svartfuglsstofna að mati Umhverfisstofnunar og Skotvís. Þetta kemur meðal annars fram í skýrslu um verndun og endurreisn svartfuglsstofna sem birt var í lok árs 2011. Hópnum var falið að fjalla sérstaklega um nýtingu og veiðar hér á landi í ljósi stöðu stofnanna. Skortur á fæði við varpstöðvar og breytingar á veðurfari eru að öllum líkindum stærsti áhrifavaldurinn á stærð stofna. Þá drepast þúsundir fugla sem lenda í netum, en upplýsingar um það eru rýrar. „Veiðar [svartfugla] eru um eða innan við 1% af stofnstærð og verður því að teljast að áhrif veiða séu mjög lítil,“ segir í séráliti Umhverfisstofnunar. Samstaða var í hópnum um friðun á teistu en talið er að stofn hennar sé aðeins milli tíu til tuttugu þúsund, en stofnar annarra svartfugla eru margfalt stærri.
Þrátt fyrir þetta hefur svarið falist í því að takmarka veiðar, síðast með því að stytta veiðitíma sem nú lýkur þann 25. apríl í stað 10. maí áður. Enn sem komið er hefur hvorki verið gerð gangskör í öðrum mikilvægum þáttum, líkt og skráningu fugla sem drepast í netum né stórauknum rannsóknum, sem lagðir voru til í svartfuglaskýrslunni.

Breytingar á veðurfari
Í skýrslunni Hnattrænar loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á Íslandi er fjallað um áhrif veður- og loftslagsbreytinga á íslenskan fuglastofn og lífríki. Í skýrslunni segir að ætla mætti að hlýnun sjávar yki framleiðni sjávarlífríkis. „Þessu virðist öfugt farið með svartfugla og lunda sem eru norðlægar tegundir og munu hugsanlega hörfa norðar undan hlýnun loftslags hér við land, einkum ef því fylgja verulegar breytingar á fæðuskilyrðum og sjávarhita. Vísbendingar eru um að stofnar þeirra hafi að jafnaði minnkað á hlýskeiðum en vaxið á kuldaskeiðum, sbr. breytingar á veiði lunda í Vestmannaeyjum frá 1898 til 2010,“ segir í endurreisnarskýrslu svartfuglsstofna. Hlýnunin virðist um leið flýta varpi fuglanna. Árið 2012 var veiðitímabil álku, langvíu, stuttnefju, teistu og lunda stytt. Áður hafði veiðitímabilinu lokið 10. maí en lýkur nú 25. apríl hvert ár. Rökin fyrir breytingunni eru meðal annars að með hlýnun loftslags og sjávar hefji fuglarnir nú varp fyrr en áður. Fram kemur í Hnattrænum loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á Íslandi að breytingar hafi m.a. orðið nærri heimskautasvæðum á útbreiðslu þörunga, dýrasvifs og fiskitegunda, bæði í ferskvatni og í sjó. Þá kemur fram að ástæða fækkunar sjófugla á svæðinu hafi „[...] verið rakin til víðtækra umhverfisbreytinga í hafinu við landið.

Margir sjófuglastofnar við suður-, vestur og austurströndina byggja afkomu sína að stórum hluta á sandsíli og er líklegt að ástæða fækkunar í sjófuglabyggðum þar stafi af lægð sandsílastofnsins 2004–2006“.

Áhrif fiskveiða talsverð
„Svartfuglar farast einkum í þorsk-, ýsuog hrognkelsanetum. Hrognkelsanet hafa líklega mest áhrif á teistu, en þorsk- og ýsunet á svartfugl, einkum langvíu,“ segir í endurreisnarskýrslunni. Þá kemur fram að dæmi séu um að þúsundir fugla hafi veiðst í einni veiðiferð. Brotalöm virðist vera á skráningu atvikanna. „Því miður virðist skorta á að skipstjórar skrái allan meðafla og erfitt hefur reynst að fylgja þessu ákvæði eftir. Reyndin virðist vera sú að það teljist til undantekninga að fuglar séu skráðir sem meðafli.“ Í grein Ævars Petersen fuglafræðings sem birt var í Náttúrufræðingnum árið 2002 er nefnt dæmi um einn bát sem hafi skráð 8000 svartfugla sem meðafla á einu ári. Í skýrslu Hafrannsóknarstofnunarinnar frá í sumar um meðafla sjófugla og sjávarspendýra í fiskveiðum við landið, er enn fremur fjallað um ónógar skráningar og ósamræmi í þeim. Lagt er til að aðferðir við skráningu verði endurskoðaðar.

Meðafli
Meðafli sjófugla, sela og hvala í fiskveiðum er óhjákvæmilegur og hefur fylgt fiskveiðum frá upphafi en í mismiklum mæli eftir veiðarfærum, hafsvæðum og árstímum. Á undanförnum árum hafa sjónir manna beinst í auknum mæli að vistkerfi hafsins í heild, þar á meðal ástandi og sjálfbærni dýrastofna sjávar. Ekki aðeins þeirra dýrastofna sem nýttir eru til veiða heldur einnig þeirra sem eru óæskilegur meðafli við veiðarnar. „Líkur á því að spendýr komi sem meðafli við fiskveiðar eru mismiklar eftir gerð veiðarfæra og tegund og stærð dýranna. Erlendar kannanir benda til þess að víðast séu mestar líkur á að sjávarspendýr veiðist í net en yfirleitt nokkru minni í önnur veiðarfæri. Nokkuð ljóst er að svo er einnig í fiskveiðum hér við land,“ segir í áðurnefndri skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um meðafla frá í sumar. Meðafli sjófugla og sjávarspendýra hefur verið skráður í afladagbækur í grásleppuveiðunum í takmörkuðum mæli frá árinu 1992. Skráning sjófugla í netralli Hafrannsóknarstofnunar hófst 2009. Gögn eru því afar takmörkuð og eru ólíkleg til að gefa rétta mynd. Þessi skortur á gögnum er eitt af því sem vinnuhópur um verndun og endurreisn svartfuglastofna benti á. Í Hafróskýrslunni er að finna samandregnar niðurstöður úr netralli stofnunarinnar. Samantektartafla skýrslunnar sýnir tæplega 4500 langvíur sem meðafla í netum árið 2013. Meðafli stuttnefju, lunda, álku, teistu og óskilgreindra svartfugla eru skráðir rétt rúmlega sex hundruð í netralli Hafró. „Þær niðurstöður sem hér liggja fyrir eru háðar ýmsum annmörkum sem leiða af brotakenndum gögnum og óvissu um áreiðanleika þeirra. Engu að síður teljum við gögnin nægja til að leggja mat á meðafla sjávarspendýra og sjófugla í fiskveiðum hér við land,“ segir í skýrslu Hafrannsóknarstofnunar um gæði talnagagna.

Makríllinn étur fæðu fuglsins
Sandsíli eru mikilvæg fæða svartfugla, t.d. lunda, en líka makríls. Fiskifræðingar hafa leitt líkur að því að aukin ganga makríls í íslenska lögsögu hafi veruleg áhrif á sandsílastofninn enda éti fiskurinn töluvert af seiðum. Í rannsóknarleiðangri Hafrannsóknarstofnunar á sandsíli árið 2013 kom í ljós að seiðin lendi líklega strax í miklu afráni frá fiskum eins og makríl en einnig hvölum og sjófuglum. Ekki liggi þó fyrir gögn um þessa ályktun. Aðrar mögulegar skýringar á lélegri nýliðun gætu verið lítið æti, óhagstætt hitastig sjávar eða önnur umhverfisáhrif. Valur Bogason, útibússtjóri Hafrannsóknarstofnunar í Vestmannaeyjum, var í leiðangrinum. „Sílið hefur ekkert verið að rétta úr kútnum og það eru allir árgangar orðnir mjög litlir. En við fengum svolítið af seiðum í Faxaflóa í fyrra og vorum með svolitla eftirvæntingu um hvernig því myndi reiða af en þau hafa ekki verið að skila sér sem eins árs sandsíli. Þannig að ég býst við því að það verði áframhaldandi lélegt ástand á sílinu einhver ár í viðbót,“ sagði Valur við fréttavefinn Vísi vegna málsins. Hann bætti við að nauðsynlegt sé að fá nýliðun í sandsílastofninn í meira en eitt ár til að stofninn rétti úr kútnum. Spurður hvort hann hafi af þessu áhyggjur sökum þess hve mikilvægt fæði sandsíli sé svarar hann: „Jú, enda höfum við séð það á ástandi sjófuglastofna við suður- og vesturströndina að þeim hefur gengið illa með varp undanfarin ár og það má að mestu rekja það til ástands sandsílastofnsins.“ Um lundann og hvort hann fengi næga fæðu sagði hann:

„Nei og hann hefur verið að reyna að keyra þetta á öðrum fæðutegundum undanfarin ár en gengið misvel. Enda eru ekki margar tegundir hér við suðurströndina sem geta komið inn fyrir ungann þó fullorðni fuglinn geti kannski lifað á átu og öðru. En hann kemur ekki unga upp á því.“ Makríll var áberandi við Ísland árið 1944.
Árið 2005 barst talsvert tilkynninga til Hafrannsóknarstofu um makríl. Makrílafli var fyrst skráður af Fiskistofu árið 1996 en fram til 2005 var þessi afli oftast veiddur utan íslenskrar lögsögu. Veiði á makríl tók stökk árið 2008 samhliða mikilli aukningu í göngu hans til Íslands.

Sextíu þúsund fuglar
Ætla má að stofnar svartfugla, að frátalinni teistu, nemi milljónum. Skoða má áhrif veiði í því samhengi. Árlega birtir Umhverfisstofnun tölur úr veiðiskýrslum veiðimanna. Sé veiði svartfugla árið 2014 skoðuð sést að hún nemur í heild um 60 þúsund fuglum. Þar af er lundi rúmlega 30 þúsund fuglar en lundi er að mestu veiddur í háf. Veiði á álku árið 2014 var um sjö þúsund fuglar, um 4500 stuttnefjur, rúmlega 15 þúsund langvíur og 1600 teistur. Nefnd um endurreisn svartfuglastofnsins var einhuga um að rétt væri að friða teistu. Benda má á að frá árinu 1998 hefur veiði á svartfugli dregist verulega saman.

Teista
Nefndin benti enn fremur á að teista væri sennilega ekki heppileg veiðitegund vegna líffræði sinnar, lifnaðarhátta og lítillar stofnstærðar. Teistan er grunnsævisfugl og verpir í klettagjótum, urðum og sprungum. Erfitt er að meta stærð stofnsins og áhrif veiða á hann en gróflega hefur verið áætlað að íslenski stofninn sé kringum 10.000-20.000 pör. „Fremur lítið er vitað um stofnþróun hjá teistunni en vöktun teistu í Flatey og á Ströndum bendir sterklega til talsverðrar fækkunar allmörg síðustu ár. Samkvæmt veiðitölum Umhverfisstofnunar var meðalveiði árin 1995-2010 rúmlega 3.000 teistur undanfarin ár en rúm 5.000 þegar mest var. Samkvæmt því er skotveiðiálagið verulegt (allt að 10-15%). Afföll vegna drukknunar í veiðarfærum, einkum í hrognkelsanetum, eru talin af svipaðri stærðargráðu skv. endurheimtum fuglamerkja,“ segir í endurreisnarskýrslunni sem kom út árið 2011. Tölur Umhverfisstofnunar benda eins og áður segir til þess að dregið hafi úr veiði um helming frá því að hún kom út. Skotvís er fylgjandi því að banna veiðar á teistu.

Stefna stjórnvalda
Viðamikil skýrsla um vernd, velferð og veiðar villtra fugla og spendýra kom út árið 2013 en í skýrslunni er fjallað um þær meginreglur sem nefnd um nytjaveiðar á fuglum leggur til að hafðar séu að leiðarljósi varðandi skotveiðar. Þar segir að lykilforsenda þess að heimila skotveiðar eigi að vera að bráðin sé nýtt á einhvern hátt og að allir fuglar og egg þeirra eigi að grunni að vera friðaðir en veiðar skuli byggja á rökstuddum undanþágum. Mikilvægt sé að veiðimenn geri allt sem í þeirra valdi standi til að aflífa bráð á sem skjótastan og sársaukaminnstan hátt og í þeim tilvikum sem veiðimönnum takist það ekki beri þeim skylda til að gera allt sem þeir geti til að finna og aflífa skotsærða fugla. Nefndin tekur um leið fram að hér sé um almennar meginreglur að ræða og að í einhverjum tilfellum eiga rökstuddar, skilgreindar undantekningar frá þeim rétt á sér, sem útfærðar eru í lögum eða reglugerðum. Það getur t.d. átt við ef ekki er hægt að nytja viðkomandi tegund að öðrum kosti og hvað varðar sölu á skilgreindum tegundum. Í athugasemdum Skotvís við Skýrslu nefndar um vernd og nýtingu svartfugla frá árinu 2011 er bent á að veiðar hafi ekki úrslitaáhrif um stærð stofnanna. Þá myndi bann við veiði, sem meirihluti nefndarinnar lagði til, gera ókleift að meta áhrif veiði á stærð stofna. Einnig hefur Skotvís bent á með skýrum hætti að markmið friðunar séu óskýr. Hvergi sé til dæmis nefnt í friðunartillögunum hvert ástand stofna þurfi að vera til þess að veiða megi úr þeim.

Er bann á skotveiðum auðvelt fyrir stjórnmálamenn?
Hér hafa ýmis áhrif á stofna svartfugla verið reifuð og vitnað til vinnu stjórnvalda í þá veru. Ítrekað kemur fram að áhrif skotveiða á fuglastofna eru óveruleg á meðan fæðuskortur og breytingar á loftslagi hafi veruleg áhrif og aðrir umhverfisþættir líkt og áhrif eldgosa á svartfuglastofna eru óþekktir. Þá er veruleg brotalöm á skráningu og rannsóknum áhrifa fiskveiða á stofna.

Árleg fækkun svartfuglastofna frá miðjum níunda áratug síðustu aldar er milli 1-3% að meðaltali eftir því um hvaða tegund er að ræða. Skotveiðar eru innan við eitt prósent stofna að jafnaði. Forsenda veiðanna er að þær séu sjálfbærar og eru skotveiðimenn mjög áfram um það. Það sýnir sig til að mynda að þegar minna er um fugl að þá er minna veitt. Veiðibann eða takmarkanir eru eina beina úrræði yfirvalda og stjórnmálamanna, eins og raunar bent er á í séráliti Skotvís í svartfuglaskýrslunni. Í stóra samhenginu er hins vegar ljóst að þetta úrræði má sín lítils - raunar einskis - ef ekki fylgja með aðrar aðgerðir og umfangsmiklar rannsóknir.

Tags: veiða, hefur, verður, þetta, stöðu, svartfugla, fugla, áhrif, annarra, hópnum
You are here: Home