Minkaveiðiátak Skotveiðifélags Íslands 2008

Minkurinn er mikill vágestur í íslenskri náttúru. Jafnvel má kveða svo fast að orði að hann sé eitt helsta umhverfisslys Íslandssögunnar. Frá því að minkurinn var fluttur hingað til lands árið 1931 hefur hann stööðugt numið land á nýjum stöðum. Nú má telja að hann megi finna umhverfis allt Ísland. Þrátt fyrir að gríðarlegum fjárhæðum hafi verið varið til að útrýma mink halda honum í skefjum hefur það ekki borið tilætlaðan árangur. Þess vegna er nauðsynlegt að herða enn baráttuna gegn minkinum. Skotveiðifélag Íslands hefur því ákveðið að grípa til þjóðarátaks til eyðingar minks. Þátttaka í átakinu er öllum heimil. Tilgangur átaksins er að veiða eins marga minka og unnt er á ári hverju og halda með því stofninum í skefjum og helst að útrýma honum alveg, í það minnsta á viðkvæmum stöðum í íslenskri náttúru.

 

Minkaveiðiátak Skotvís

Skipulag átaksins er eftirfarandi:

Íslendingar eru hvattir til að veiða mink. Þegar minkurinn hefur verið veiddur er tekin mynd af bráðinni og veiðimanninum og hún send til Skotveiðifélags Íslands, helst með tölvupósti til This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. í pósti til:

Skotveiðifélag Íslands
Holtagerði 32
200 Kópavogur

Einnig má senda skriflegt vottorð þar sem aðili sem náð hefur lögaldri vottar að viðkomandi hafi veitt minkinn. Með myndinni vottorðinu þurfa að fylgja eftirfarandi upplýsingar: Nafn veiðimanns og kennitala, heimilisfang, sími og tölvupóstfang. Þá þurfa að fylgja upplýsingar um það hvar minkurinn var veiddur, þ.e. sveitarfélag og staður. Þá þarf að tilgreina veiðiaðferð þ.e.a.s. hvort minkurinn var veiddur mað skotvopni, í gildru eða með hundi.

Verðlaun

Hver sá sem veiðir mink og sendir Skotvís mynd vottorð fær að launum fallega barmnælu með mynd af minki. Átakinu er skipt í þrjá þætti:

 1. Veiðar með skotvopni
 2. Veiðar í gildru
 3. Veiðar með hundi

Nöfn allra þeirra sem veiða mink fara í pott sem dregið verður úr 1. desember 2008.

Flokkarnir sem verðlaun verða veitt fyrir eru þrír og verða sex verðlaun veitt í hverjum flokki:

a) Veiðar með skotvopni:

 1. Garmin eTrex Legend Cx GPS ásamt íslandskorti.
 2. Minkagildra frá Hlað.
 3. Bókin „Veiðar á villtum fuglum og spendýrum“ eftir Einar Guðmann.

 

b) Veiðar í gildru:

 1. Garmin eTrex Legend Cx GPS ásamt íslandskorti.
 2. Minkagildra frá Hlað.
 3. Bókin „Veiðar á villtum fuglum og spendýrum“ eftir Einar Guðmann.

 

c) Veiðar með hundi:

 1. Garmin eTrex Legend Cx GPS ásamt íslandskorti.
 2. Minkagildra frá Hlað.
 3. Bókin „Veiðar á villtum fuglum og spendýrum“ eftir Einar Guðmann.

 

Allir geta tekið þátt

veiðikort til að stunda veiðar á minki með gildru eða hundi. Sé skotvopn notað við veiðarnar þarf viðkomandi vitaskuld að hafa skotvopnaleyfi. Eftirtalin atriði eru þó afar áríðandi: Brýnt er að börn undir 16 ára aldri stundi ekki veiðar á minki nema í fylgd með fullorðnum. Þá er mikilvægt að fullorðnir kenni unglingum, 16 ára og eldri að veiða mink með gildru eða hundi.
Skotveiðifélag Íslands vill þó taka það skýrt fram að minkaveiðar unglinga undir 18 ára aldri eru alfarið á ábyrgð foreldra eða forráðamanna. Þá ber minkaveiðimönnum að virða eignarrétt landeigenda. Minkaveiðar eru því óheimilar á landi í einkaeigu nema með leyfi landeigenda.

 

Veiðiaðferðir

Þremur aðferðum er beitt við veiðar á minki en það eru veiðar með skotvopni, í gildru og með hundi. Við veiðar með hundi er skotvopni oft einnig beitt.

Veiðar með skotvopnum

Yfir fengitímann, frá byrjun febrúar fram í marslok, leggjast steggirnir í mikil ferðalög. Fara þeir á flakk og reyna að makast við sem flestar læður. Á þessum tíma er kjörið fyrir veiðimenn að vera á ferðinni, einkum snemma á morgnana og síðdegis. Minkurinn er aðallega á ferðinni á nóttunni. Minkurinn er helst á ferðinni við ströndina við ár, læki og vötn. Á þessum tíma er hvað árangursríkast að stunda minkaveiðar með skotvopnum. Ef veiðimaður verður var við ný spor eftir mink getur verið árangursríkt að leggja út æti, t.d. silung og liggja fyrir minkinum.

Í ágúst yfirgefa afkvæmin móður sína og fara á flakk. Eru þeir yfirleitt allir saman til að byrja með og sökum reynsluleysis eru þeir auðveld bráð. Á þessum tíma, fram í september, er því upplagt fyrir skotveiðimenn að stunda minkaveiðar. Á tímabilinu maí til ágústloka eru um 87% allra minka veiddir á Íslandi.

Veiðar í gildru

Veiðar í gildru er talsverð list og er sjálfsagt fyrir þá sem eru að hefja gildruveiðar að leita í smiðju eldri og reyndari gildruveiðimanna. Þeir sem stunda gildruveiðar þurfa að kynna sér vel lífshætti minksins. Minkurinn er iðulega á ferðinni í ljósaskiptunum og nálægt vatni; lækjum, ám og vötnum.

Minkurinn hefur þá náttúru að fara helst ekki yfir hindranir, heldur fara meðfram þeim. Þá skríður hann gjanan inn í holur, göng, rör og ræsi. Hann fer iðulega inn í kofa og undir báta sem hefur verið hvolft.

Gæta þarf fyllsta öryggis við lagningu gildra og tryggja vel að gæludýr komist ekki í þær. Þrátt fyrir að minkurinn sé grimmur og illa séður ber veiðimönnum skylda til að vitja um gildrurnar reglulega og aflífa dýrin á mannúðlegan hátt. Þess má geta að 27% þeirra minka sem veiddir eru hér á landi eru veiddir í gildrur.

Veiðar með hundi

Veiðar með minkahundum eru mjög árangursríkar. Hið næma þefskyn hundsins og veiðieðli hans gerir hann einkar hæfan til minkaveiða. Góð samvinna verður að vera milli hunds og manns og þarf hundurinn að hlýða húsbónda sínum. Minkur sem verður hunds var reynir að flýja. Reynir hann iðulega að bjarga sér með því að skríða í holur eða urð. Þá gildir að ná minkinum út. Árangursríkt er að blása lofti inn í holuna t.d. úr þrýstiloftskúti eða laufblásara.

Skotvís hvetur veiðimenn að nota ekki olíu eða bensín til að flæma mink úr fylgsni sínu. Af því getur hlotist talsvert tjón á náttúrunni. Minkaveiðar með hundi eru árangursríkar, 73% minka sem hér eru veiddir eru veiddir með hundi. Rétt er að geta þess að yfirleitt eru minkarnir aflífaðir með skotvopnum. Veiðar með minkahundi eru spennandi og skemmtilegar og því kjörið fyrir veiðimenn sem hafa tækifæri til að útvega sér minkahund og hefja veiðar. Gott er að læra minkaveiðar með hundi af reyndum veiðimönnum.

 

Fróðleiksmolar um mink

Minkurinn (mustela vison) er af marðarætt. Minkurinn hér á Íslandi á uppruna sinn í N-Ameríku. Minkaeldi hófst hér á Íslandi árið 1931. Fljótlega slapp minkurinn úr búunum og talið er að fyrsta grenið hafi fundist við Elliðaárnar árið 1937. Minkurinn býr yfir mikililli aðlögunarhæfni og var hann fljótur að aðlagast aðstæðum í íslenskri náttúru. Árið 1966 er talið að hann hafi verið búinn að nema allt Ísland. Hann má nú finna alls staðar á láglendi og víða á hálendinu.

Bæði steggir og læður verða kynþroska á fyrsta ári. Fengitími minksins hefst í febrúar og er hámark hans í lok mars og stendur fram í apríllok. Minkar eignast afkvæmi einu sinni á ári og er það yfirleitt í maí. Hver læða eignast að meðaltali 6,8 afkvæmi. Steggirnir koma ekki nálægt uppeldi afkvæma og er það læðan sem sér um að fæða þá og kennir þeim að veiða. Í byrjun ágúst yfirgefa afkvæmin móður sína og fara að bjarga sér á eigin spýtur. Minkurinn er mikill tækifærissinni í fæðuvali og étur það sem mest er af hverju sinni. Segja má að matseðill minksins sé árstíðabundinn. Yfir veturinn étur hann mikið af sjávarfangi; hornsíli, lax- og silungsseiði. Á vorin og sumrin éta þeir egg og ófleyga unga og á haustin iðulega hagamýs. En þeir éta ýmislegt annað eins og bitmýslirfur, lirfur úr búum hunangsflugna og frjókorn. Þá er það þekkt atferli minka að draga birgðir í búið og drepa meira en þeir geta torgað.

Á afmörkuðum svæðum getur minkurinn nánast útrýmt ákveðnum stofnum fugla. Í því mætti nefna teistu og þórshana. Árlega veiðast 5.000 - 7.000 minkar á Íslandi.

Tags: minkaveiðar, hefur, verið, verður, veiðar, minkurinn, gildru, mink, hundi, minka, veiddir, eftir, þeir, fara
You are here: Home