Ályktun frá stjórn SKOTVÍS - Tillaga að verndaráætlun fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs

Reykjavík 15. mars 2010 

Ályktun stjórnar Skotveiðifélags Íslands vegna tillögu að verndaráætlun fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. 

Skotveiðifélag Íslands undrast þær tillögur og þau vinnubrögð sem liggja fyrir í tillögu að verndaráætlun fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs. Þar koma fram tillögur um bann við veiðum á hreindýrum, gæsum og rjúpum á ákveðnum svæðum innan þjóðgarðsins. Skýrsluhöfundar hafa ekkert samband haft við viðeigandi hagsmunaaðila, í þessu tilfelli Skotveiðifélag Íslands, þrátt fyrir að lagt sé til að gengið sé á rétt skotveiðimanna með tillögunni. Það bendir til þess að viðunandi hagsmunaaðilagreining hafi ekki verið unnin af skýrsluhöfundum.  

Tillagan var kynnt á fundi þann 11. mars sl. á Hótel Héraði og var Skotveiðifélagi Íslands aldrei tilkynnt um þennan fund.  Það er athyglisvert þar sem fram kemur á heimasíðu Vatnajökulsþjóðgarðs að svæðisráð, sem ber ábyrgð á tillögunni, verði á staðnum til taka á móti ábendingum og athugasemdum varðandi drögin að verndaráætluninni. Miðað við þetta má draga þá ályktun að skýrsluhöfundar hafi ekki kært sig um athugasemdir frá skotveiðimönnum og þeirra hagsmunasamtökum. 

Þegar drögin eru lesin kemur í ljós að lítill sem enginn rökstuðningur fylgir þessum tillögum við veiðibanni og fordómar virðast ríkja gagnvart sportveiðum. Af orðalagi skýrslunnar má lesa að slíkar veiðar séu á lægri skör en hefðbundnar nytjar (atvinnuveiðar) og veiðar heimamanna. Slíkt hlýtur að teljast til vankunnáttu á málaflokknum sem hefði verið einfalt mál að útskýra fyrir viðkomandi ef málið hefði verið borið undir rétta hagsmunaðila. Rökin sem dregin eru fram halda ekki og sem dæmi um það er tillaga um bann við rjúpnaveiðum. Í kafla 11.3 a) í tillögunni segir:

„Rjúpnaveiði á Snæfellsöræfum eru fyrst og fremst sportveiði og telst vart til hefðbundinna nytja. Umferð um svæðið að hausti getur valdið spjöllum á vegum og krefst aukins eftirlits og viðveru landvarða. Lagt er til að rjúpnaveiði verði óheimil innan marka þjóðgarðsins á Snæfellsöræfum”

Þessi rök halda engan veginn enda kemur það á daginn að í stað þess að landverðir þurfi að hafa eftirlit með vegum þarf einhver annar í staðinn að fylgjast með að rjúpnaveiðar séu ekki stundaðar á svæðinu. Ef raunveruleg ástæða er sú að starfsmenn þjóðgarðsins og aðrir óttast um afdrif vega þá er nærtækara að leggja til bann við umferð á þeim í stað þess að ætla rjúpnaskyttum og sportveiðimönnum skemmdir á þeim. Eins er þessi kafli í hrópandi mótsögn við það sem á undan hefur komið í skýrslunni, en kafli 9.3 fjallar um hvernig hvetja megi til aukinnar útvistar og hreyfingar yfir vetrarmánuðina á svæðinu, en það eru einmitt rjúpnaveiðimenn sem stunda útivist af kappi um vetrarmánuði. Jafnframt skal bent á að slíkt bann getur komið niður á rekstraraðilum gistiheimila á svæðinu er veita utanaðkomandi veiðimönnum beina, á annars frekar annalitlum tíma ársins. 

Í tillögunni segir að rjúpnaveiðar teljist vart til hefðbundinna nytja. Nýting íslenska rjúpnastofnsins er aftur á móti mjög gott dæmi um stofn sem hefur verið nýttur um aldir og veiðar úr honum geta því vart talist annað en hefðbundnar nytjar. Sennilega eru veiðar á rjúpum, gæsum og hreindýrum einhver sterkasta hefð fyrir hverskonar nýtingu sem finna má um þetta svæði. Það er ekki fyrr en á allra síðustu árum sem hefð hefur skapast fyrir útivist á svæðinu sem ekki tengist veiðum eða smalamennsku. Lengst af var þetta svæði úr alfaraleið fyrir almenning og þeir einir sem stunduðu smalamennsku og veiðar áttu þangað erindi. 

Það er fleira sem er mótsagnakennt í tillögunni. Í kafla 5.2 er fjallað um svæði sem þarfnast sértækra aðgerða. Þar segir:

„Á austursvæði er ekki hægt að benda á nein svæði sem nú þarfnast sérstakra aðgerða til að varðveita eða viðhalda náttúru“. 

Samt er lagt til í kafla 11.3 að veiðar verði bannaðar á svæðum sem hefð er fyrir að veiðar séu stundaðar á. Eins og áður segir fjallar kafli 9.3 um hvatningu til aukinnar útvistar og hreyfingar yfir vetrarmánuðina. Þar er beinlínis hvatt til aukinnar útvistar á svæðinu og þar á meðal er sérstaklega minnst á skotveiðimenn. Ekki er hægt að sjá að samkvæmt þessari grein að það stafi óánægja með umferð veiðimanna á svæðinu. Í annarri grein laga nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð segir:

„Markmiðið með stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs er að vernda landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar svæðisins og gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru þess og sögu.

Það er einmitt þessi almenningur sem með þessari tillögu er vegið að en mikill fjöldi veiðimanna til dæmis af höfuðborgarsvæðinu hefur sótt þetta svæði heim sér til ánægju og til að upplifa íslenska náttúru við veiðar á sterkum veiðistofnum.  

Fram kemur í kafla 11.3 b) í tillögunni að veiðum á gæsum ætti að vera stýrt á svæðinu. Veiðum á gæsum og öðrum villtum fuglum er nú þegar stýrt samkvæmt lögum nr. 64/1994 og eru gæsaveiðar heimilar frá og með 20. ágúst samkvæmt ákvörðun umhverfisráðherra. Þá er varp og fellitími gæsa löngu afstaðinn og stendur afar sterkur heiðargæsastofn vel undir þeim veiðum sem eru stundaðar á þessu svæði.

Loks er það ótækt að það sem fram kom á undirbúningsstigum þjóðgarðsins skuli ekki vera í heiðri haft, en það kom margoft fram á fundum nefndar um stofnun þjóðgarðsins að veiðar skyldu ekki vera bannaðar eða takmarkaðar innan þjóðgarðsins. 

Varðandi bann við hreindýraveiðum á svæðinu þá telur stjórn Skotveiðifélags Íslands víst að eitthvað um þá tillögu muni berast frá Félagi leiðsögumanna um hreindýraveiðar innan tíðar. 

Stjórn Skotveiðifélags Íslands leggur til að textinn í kafla 11.3 í tillögu að verndaráætlun fyrir austursvæði Vatnajökulsþjóðgarðs verði felldur út í heild sinni og í staðinn greint frá því að hefð sé fyrir veiðum á svæðinu og þeim skuli haldið í sama fari og var áður en umrætt landsvæði varð að þjóðgarði.  

Stjórn Skotveiðifélags Íslands áskilur sér rétt til að koma á framfæri, í framhaldi af þessari ályktun, fleiri athugasemdum innan tíðar til þeirra sem málið varðar. 

Virðingarfyllst,stjórn Skotveiðifélags Íslands  

Ályktun þessi er send til eftirtaldra aðila:

Umhverfisráðherra

Framkvæmdarstjóra og stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs

Svæðisstjórn austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs

Félagi leiðsögumanna með hreindýraveiðum

Skotveiðifélagi Austurlands

Skotveiðifélagi Reykjavíkur

SAMÚT  

Tags: skotveiðifélag, þar, íslands, mars, hafi, ályktun, verndaráætlun, austursvæði, vatnajökulsþjóðgarðs, tillögu, skýrsluhöfundar, tillögur, þennan
You are here: Home