Ályktun aðalfundar 2012 - Veiðistjórnun á Íslandi

Flutningsmaður: Sólmundur Tr. Einarsson á aðalfundi félagsins 31. janúar 2012

Greinargerð
Frá upphafi búsetu á Íslandi hefur þjóðin ávallt þurft að treysta á það sem landið og hafið gáfu sér til lífsviðurværis og marga hildina háð við oft óblíða náttúru þess. Þannig hafa skapast ákveðnar hefðir varðandi fuglaveiðar,selveiðar,hvalveiðar og fiskveiðar margskonar. Menn nýttu sér nánast allt sem umhverfið gaf bæði úr ríki jurta,fugla og dýra. Hefðir eins og eggjatekja á vorin og veiðar á sjófugli og landfugli voru algjör nauðsyn, þar sem þannig fékk fólk nauðsynlegt nýmetið. Refurinn var einasta rándýrið hér á landi þar til minkurinn illu heilli var fluttur til landsins og grenjaveiðar á ref hófust því mjög snemma til að halda refastofninum niðri, en hann sótti mjög í búfé og olli miklum usla þar sem fuglar voru.

En hvað hefur gerst með tilkomu Umhverfisráðuneytis fyrir nokkrum áratugum? Þar á bæ hefur komið fram hvert bannið á fætur öðru er varðar veiðar hverskonar og því miður oft illa ígrundaðar ástæður þeirra. Einskonar geðþóttaákvarðanir hafa ráðið ferðinni og án grundvallar rannsókna og klekkt út með því að náttúran skuli njóta vafans. Þetta byrjaði með að Össur Skarphéðinsson umhverfisráðherra þáverandi ákvað að minnka rjúpnaveiðitímann verulega og síðan tók Siv Friðleifsdóttir við og bannaði rjúpnaveiðar í tvö ár. Allir Umhverfisráðherra hafa síðan stöðugt krúnkað í rjúpnaveiðitímann og nú er svo komið að aðeins er leyft að veiða í örfáa daga á ári.Raunverulegar ástæður fyrir fækkun rjúpnastofnsins eins og veruleg fjölgun refa,ránfugla og vargfugla eða umhverfisbreytinga hafa ekki verið nægilega rannsakaðar. Núverandi Umhverfisráðherra fer þó öllum öðrum fram og vill ekki styrkja grenjaveiðar fjárhagslega þannig að fyrir séð er að refnum á Íslandi muni fjölga all verulega.

Þá var komið á legg nefnd á vegum ráðuneytisins til að kanna stöðu svartfugla við Ísland og nú leggur meirihluti nefndarinnar til að friða eigi 5 svartfuglastofna í 5 ár vegna fækkunar þeirra, þrír nefndaraðilar voru á móti. Hér kastar nú endanlega tólfunum þar sem lengi hefur það verið kunnugt að sjófuglum hefur fækkað um nær allt norðanvert Atlandshafið vegna fæðuskorts, en misjafnlega mikið eftir svæðum. Bara við Ísland er áætlað að sjófuglar éti um 2 milljónir tonna árlega af sjávarfangi, sem er reyndar svipað magn og fiskafli landsmanna. Kristján Lilliendahl og Jón Sólmundsson sérfræðingar á Hafró hafa unnið nokkur ár við rannsóknir á sjófuglum við Ísland er varðar fjölda þeirra og hvað þeir éta og hafa skrifað nokkrar greinar þar að lútandi (Sjófuglar í lífríki hafsins og An estimate of summer food consumption of six seabirds species in Iceland . (ICES Journal of Marine Sciences,54:624-630.1997). Handbærar upplýsingar sýna að líklega er sandsíli (Ammodytes marinus) mikilvægasta fæða sjófugla við Ísland. Á norðurlandi er loðna (Mallotus villosus) aðalfæða sjófugla, en annars staðar við landið er það sandsíli. Aðal ástæða fækkunar sjófugla við Ísland er sú að sandsíli hefur minnkað verulega og kerfisbundið er gengið á loðnustofninn við Ísland, ekki bara á veturna heldur einnig síðsumars og á haustin. Nýjasti veiðikvóti á loðnu við Ísland er nú 765.000 tonn og svo leggja þeir til 400.000 tonn verði áætlað til hrygninga. Hvað er þá áætlað að sjófuglinn og fiskurinn éti mikið af loðnu á Íslandsmiðum, verður þá nokkuð eftir? Þarna liggur veruleg orsök þess að sjófugli fækkar tímabundið við Ísland, fuglinn hefur ekki nóg æti og er í beinni samkeppni við loðnuveiðar landsmanna og minnkunar sandsíla- og trönusílastofna af sömu orsökum. Bann við skotveiðum á sjófugli og eggjatöku hafa lítið að segja við slíkar aðstæður.

Ályktun
Aðalfundur Skotvís haldinn 31. janúar 2012 skorar því hér með á Umhverfisráðuneytið að þar á bæ sýni menn þá skynsemi að rannsaka og kynna sér vel ástæður breytinga á lífríki lands og sjávar áður en ákvarðanir um veiðistjórnun, boð og bönn eru teknar. Það sæmir ekki jafn upplýstu fólki og Íslendingum að láta þekkingarleysi njóta vafans.

Tags: hefur, þar, hafa, íslandi, þannig, 2012, komið, veiðar, áætlað, ástæður, sjófugli, sjófugla, ísland, umhverfisráðherra
You are here: Home