Ályktun aðalfundar 2012 - Fagleg veiðistjórnun

Flutningsaðili: Stjórn Skotvís á aðalfundi félagsins 31. janúar 2012

Greinargerð
Fagleg uppbygging veiðistjórnunar hér á landi hefur ekki staðist væntingar skotveiðimanna frá setningu laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Dregið hefur úr vægi veiðistjórnunar frá því að Veiðistjóraembættið var gert að deild innan Umhverfisstofnunar. Á sama tíma og ábyrgrar og faglegrar veiðistjórnunar er hvað mest þörf, hafa stjórnvöld brugðist við með þeim hætti að draga sífellt úr stuðningi sínum við vöktun og rannsóknir. Lítið mark hefur verið tekið á álitum og tillögum veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar, sem málaflokkurinn heyrir undir samkvæmt lögum. Umhverfisráðuneytið hefur gert ákvarðanir um friðun og nýtingu dýrastofna að pólitísku þrætuefni, byggt á þröngri túlkun takmarkaðra rannsókna, í stað þessa að styrkja eitt mikilvægasta stjórntækið (veiðistjórnun, e: Wildlife Management) til að viðhalda jafnvægi í náttúru Íslands.

Ályktun
Aðalfundur Skotvís 31. janúar 2012 beinir þeim tilmælum til umhverfisráðherra að taka upp öflugt og markvisst samstarf við Skotveiðifélag Íslands og koma á samræðu til að snúa við þessarri þróun. Aðalfundurinn leggur áherslu á að veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar fái skýrara og umfangsmeira hlutverk við ákvörðun fyrirkomulags nýtingar úr dýrastofnum, fái að kynna sér álit annarra sérfræðinga út fyrir raðir Náttúrufræðistofnunar Ísland og að veiðistjórnunarsviðið í samráði við Ráðgjafanefnd um úthlutun úr Veiðikortasjóði, hafi fullt umboð til að skilgreina og forgangsraða hvaða grundvallar rannsóknarspurningum þurfi að svara þegar fé er veitt úr Veiðikortasjóði.

Aðalfundur veitir stjórn Skotvís fullt umboð til að beina öllum sínum kröftum til að stuðla að breyttri þróun þessa málaflokks.

Tags: hefur, skotvís, 2012, umboð, janúar, gert, villtum, fullt, friðun, fái, veiðistjórnunar, stjórn, þessa, sínum
You are here: Home