Ályktun aðalfundar 2012 - Almannaréttur, ferðafrelsi og nýting

Flutningsmaður tillögu: Stjórn Skotvís á aðalfundi félagsins 31. janúar 2012.

Greinargerð
Skotveiðimenn og útivistarfólk almennt hafa áhyggjur af stöðu og þróun almannaréttar. Frá því að lög nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlenda og afrétta voru sett á Alþingi og Óbyggðanefnd tók til starfa, hefur ekki verið nægilega skýrt hvernig staðið verði að verndun almannaréttar til framtíðar á svæðum sem áður töldust til almenninga og afrétta og eru nú orðin að þjóðlendum.

Stjórnvöld þurfa að standa vörð um almannarétt á þessum svæðum, en frelsi til að ferðast um Ísland er gersemi sem ber að verja. Tryggja þarf öllum hópum útivistarfólks ferðafrelsi á fyrrgreindum svæðum og gæta skal þess að réttur almennings til nýtingar sé varinn.

Ályktun
Aðalfundur SKOTVÍS 31. janúar 2012 beinir þeim tilmælum til stjórnvalda til að verja og styrkja þennan rétt og tryggja aðkomu frjálsra félagasamtaka að setningu laga og reglugerða er varða þessi mikilvægu mál. Einnig eru stjórnvöld hvött til að beita ekki undanbrögðum við túlkun laga og sáttmála (Árósarsáttmálinn) til að komast hjá því að eiga raunverulegt samráð við frjáls félagasamtök.

Tags: skotvís, réttur, 2012, stjórnvöld, ferðafrelsi, janúar, afrétta, svæðum, laga, nýtingar, almennings, varinn, tryggja
You are here: Home