Veiðistjórnun á hrakhólum

“...þá er ekki endalaust hægt að fela sig á bak varúðarregluna svokölluðu þegar viljinn til að rannsaka og fá meiri vitneskju er ekki til staðar...”sagði formaður Skotveiðifélags Íslands (SKOTVÍS), Elvar Árni Lund í viðtali við RÚV um helgina þegar hann svaraði spurningum fréttamanns um stöðu svartfuglastofna. Þessi örfáu orð segja allt sem segja þarf um stöðu rannsókna og veiðistjórnunar og vilja stjórnvalda til að styðja við sjálfbæra þróun. Þá er ekki einungis átt við nýtingu svartfugla, heldur allra villtra dýra í íslenskri náttúru. 

Metnaðarfull áform um sterkar undirstöður veiðistjórnunar með tilkomu „villidýralaganna” 1994 hafa ítrekað verið gengisfelld og útþynnt frá því þau voru sett. Vöktun og rannsóknir eru með minnsta móti og af einhverjum ástæðum er álit Umhverfisstofnunar (UST) lágt skrifað í umhverfisráðuneytinu.  Í lögunum er UST (áður Veiðistjóraembættið) falin yfirumsjón veiðistjórnunar í nánu samstarfi við Náttúrufræðistofnun (NÍ), sem hefur það hlutverk að vakta ástand lífríkis. Veiðikortasjóður átti að vera súrefnið í þessu ferli og víðtæk sátt náðist meðal skotveiðimanna um útfærslu á veiðikortagjaldi og skilum á veiðiskýrslum. Áhersla var lögð á að gjaldið væri ekki skattur, heldur þóknun fyrir umsýslu auk framlags þar sem skotveiðimenn leggðu sitt af mörkum með því að fjármagna rannsóknir, vöktun og stýringu á stofnum villtra dýra.  Þar að auki var öflugri upplýsingaveitu komið á fót til að afla gagna um umfang veiða.

Við gerð laganna lagði SKOTVÍS ríka áherslu á að stjórnvöld myndu ekki draga úr framlagi sínu til rannsókna og vöktunar, en nú  er staðan sú að í hvert skipti sem talið berst að veiðiþoli stofna, þá er „varúðarreglunni“ beitt einhliða vegna skorts á þekkingu. Í ofanálag hefur það gerst í tvígang á skömmum tíma, svo eftir er tekið, að skautað er framhjá áliti UST; í haust við ákvörðun um fækkun veiðidaga á rjúpu og svo skilar UST séráliti í starfshópnum um svartfugla.  Kerfið stendur því á brauðfótum, ákvarðanir eru ekki byggðar á hlutlægum vísindum, heldur huglægu mati ráðherra sem fellur að pólitískri stefnu, sbr. áherslur á minka og refaveiðar, og því er tiltrú á veiðistjórnunarkerfið í lágmarki um þessar mundir.

Í öllu talinu um náttúruvernd í gegnum árin, hefur umhverfisráðuneytið ekki lagt stofnunum sínum til neina teljandi fjármuni í beinar rannsóknir og vöktun á stofnum villtra dýra, það er öll náttúruverndin í verki! Á sama tíma hafa stjórnvöld tekið á sig miklar skuldbindingar vegna vöktunar á lífríkinu sem er risavaxið verkefni, kostar mikið fé og nær einnig til stofna sem ekki er veitt úr.  Þær 425 milljónir sem NÍ hafði til ráðstöfunar 2011 dugðu fyrir háum rekstrarkostnaði húsnæðis og föstum launagreiðslum, sáralítið var til ráðstöfunar til að sinna vöktun og rannsóknum á vettvangi.  Forstjóri NÍ getur kannski leiðrétt mig ef hér er einhver misskilningur á ferð.  Því ber þó að halda til haga að NÍ fékk nýverið úthlutað tæpum 600 milljónum úr sjóðum ESB til að kortleggja lífríki Íslands. Sú upphæð segir meira en mörg orð um umfang vöktunarverkefna, en hafa ber í huga að þetta er einskiptisaðgerð en vöktun lífríkis er eilífðarverkefni.

Veiðikortasjóður, sem er samkeppnissjóður, hefur því ekki bara verið eina fjármögnunarleiðin til rannsókna á lífríki Íslands, heldur hefur hann í gegnum tíðina aðallega verið nýttur til vöktunar og umsýslu.  Skotveiðimönnum er mjög umhugað um rekstur sjóðsins, en fram til þessa hefur umhverfisráðuneytið nýtt hann til niðurgreiðslu á lögbundinni starfsemi NÍ (vöktun) og er stærstur hluti sjóðsins í raun frátekinn á hverju ári til slíkra verkefna.  Slíkt er andstætt tilgangi samkeppnissjóða og um þetta er til álit umboðsmanns Alþingis Nr. 4140/2004 þar sem þeim tilmælum er beint til ráðuneytisins að ráða bót á þeirri mismunun sem umsækjendur sjóðsins standa frammi fyrir.

Hér er ekki verið að draga úr mikilvægi vöktunar, slíkum verkefnum þarf að sinna. En það hljóta allir að sjá að takmarkaðir fjármunir Veiðikortasjóðs ná engan vegin utanum þetta verkefni.  Það  er því ekkert jafnræði í því að skotveiðimenn einir eigi að kosta vöktunarverkefni á villtum dýrastofnum, þar sem skyldan hvílir á stjórnvöldum þó svo að ekkert sé veitt úr viðkomandi stofni. Hér þyrfti umhverfisráðuneytið að spýta í lófana og standa við skuldbindingar sínar, reisa við veiðistjórnunarkerfið eins og var lagt upp með með fullum stuðningi veiðimanna og leggja í metnaðarfull rannsóknarverkefni sem veita svör!

Umhverfisráðuneytið hefur hinsvegar gefið tóninn hvers má vænta um fyrirkomulag veiðistjórnunar.  Ekkert tillit er tekið til álits UST og unnið er eftir tilgátum og „varúðarreglunni“, engu fé er veitt úr ríkissjóði til að styðja við rannsóknir og vöktun á lífríki Íslands sem er forsenda nýtingar og enginn áhugi er á samstarfi við hagsmunaðila.

Nú þegar til stendur að færa auðlindamálin í heild sinni yfir í eitt ráðuneyti (Umhverfis og auðlindaráðuneyti), þ.m.t. fiskveiðarnar, við hverju má þá búast, verða sömu vinnubrögð viðhöfð í þeim málaflokki?

Arne Sólmundsson, ritari Skotveiðifélags Íslands - Grein birtist í Morgunblaðinu 12. janúar 2012

Tags: allra, rannsókna, allt, stöðu, segja, orð, örfáu, svartfuglastofna, svaraði, spurningum, fréttamanns, veiðistjórnunar, þessi, stjórnvalda, þarf
You are here: Home