Rjúpnasnafs

rjupnasnafs

Síðastliðin 20 ár eða svo þá hefur það verið fastur punktur í undirbúningi jólahátíðarinnar á mínu heimili að búa til rjúpnasnafs. Á Þorláksmessu hef ég haft það fyrir vana að hamfletta jólarjúpurnar ásamt veiðifélaga mínum og nokkrum öðrum góðum kunningjum.

Á meðal þess sem ég hef nýtt af rjúpunni er innihald sarpsins. Það er að segja ef ég er svo heppinn að hafa skotið rjúpur með nýtínt innihald, grænt rjúpnalauf, kvisti og ber. Þetta verður að vera alveg ferskt / nýtínt. Það er auðvitað afar misjafnt á milli ára hvað ég er heppinn með þetta, en ég reyni að skrapa saman að lágmarki ca. eitt desilítramál. Það magn nægir mér til að setja í eina flösku. Innihald sarpsins set ég í vodkaflösku (eins hlutlausan vodka og hægt er).  Það passar að taka úr flöskunni staup eða tvö, áður en innihald sarpsins er sett í flöskuna með teskeið. Flaskan er síðan merkt með ártali og sett til hliðar í geymslu til næsta  Þorláksmessukvölds. Ég geymi hana við stofuhita í dimmum skáp.

Það er gaman að fylgjast með því hve liturinn á innihaldi flöskunnar er fljótur að breytast. Úr því að vera glær yfir í það að verða coníakslitaður. Að ári liðnu þegar ég er síðan að ljúka við að setja aftur á flösku, þá sigta ég það sem er orðið ársgamalt. Helli fyrst á gróft sigti til að taka laufið, kvistina og berin frá og sigta síðan vökvann í gegnum kaffipoka, tvisvar sinnum. Og síðan er tekið eitt staup til smökkunar og flaskan sett til hliðar í geymslu.Þessi snafs hefur verið sparisnafs hjá mér og  það liggur við að maður sé nískur á hann. Nota hann aðeins til hátíðarbrigða. En það er gaman að eiga marga árganga í skápnum hjá sér til að bera saman. Það er enginn árgangur alveg nákvæmlega eins hvað varðar lykt og bragð, eins og gefur að skilja. Fer allt eftir því hvað kemur úr sarpi rjúpunnar það og það árið.

Á myndinni sést greinilega rjúpnalaufið í botninum, með fallega grænum lit (stækkið myndina til að sjá það betur).  Síðan sér maður hvað vínið er orðið fallegt á litinn eftir 9 mánuði í geymslu. Þessi flaska er merkt 2011 og verður opnuð á Þorláksmessu 2012. Þá verður liturinn orðinn aðeins dekkri og svo er alltaf jafn gaman að finna laufanganina þegar maður opnar flöskuna

Veiðikveðja, Jón Pálmason.

Tags: verið, síðan, innihald, verður, maður, gaman, heppinn, flaskan, flöskuna, staup, hjá, eftir, sett
You are here: Home