Eru umhverfisyfirvöld að gera illt verra! (Aðsend grein)

Merktar tilvitnanir í greininni eru úr þriggja eininga rannsóknarverkefni Hálfdáns H. Helgasonar B.S. nema árið 2008, “Fæða refa á hálendi Íslands.” 

Inngrip umhverfisyfirvalda í rjúpnaveiðar eru orðin árlegur viðburður hér á landi. Það leiðir hugann að því hvort tiltekin markmið frá árinu áður hafi ekki náðst. Öll inngrip í náttúruna hljóta að hafa afleiðingar og má því ætla að fagfólk, sem mótar stefnuna í þessum efnum, geri áhættumat þar sem áhætta og afleiðingar eru kortlagðar og rýndar áður en gripið er til aðgerða. Árlegar síðbúnar aðgerðir yfirvalda gefa tilefni til að ætla að árangur inngripsins hafi ekki verið ásættanlegur eða að ráðist hafi verið í slíkar aðgerðir án þess að áhættumat lægi fyrir. Ef slíkt mat hefur verið gert og markmið skilgreind hverju sinni, sem gripið var til aðgerða, væri fróðlegt að fá að vita hvort búið er að rýna og skilgreina í hverju vanmatið, sem leiddi til þess að grípa þarf til enn afdrifaríkari aðgerða á hverju ári, var fólgið.

Efast má um vísindaleg og fagleg vinnubrögð.

Að því er starfsmaður Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) tjáði mér á sínum tíma hafði hugmyndin um bann við rjúpnaveiðum á Mosfellsheiðinni ekki verið frá NÍ komin. Hann sagði: “Ráðherra hafði samband við mig og segist ætla að friða og óskaði eftir ráðleggingu um friðunarsvæði. Ég dró hring utan um það svæði sem rjúpurnar með radíósendunum frá NÍ höfðu farið lengst og lagði það til sem friðland.“ Ef þetta er rétt voru áhættugreiningin og vísindin ekki djúpstæð.

Samkvæmt spjalli við fyrrum stjórnarmenn í Skotveiðifélagi Íslands (Skotvís) má ætla að álíka vinnubrögðum hafi verið beitt þegar ákveðið var að stækka friðaða svæðið á Mosfellsheiðinni og láta það ná yfir allt suðvesturhorn landsins. Í spjallinu kom fram að Umhverfisráðuneytið og Skotvís hefðu komist að samkomulagi um að ekki yrði hróflað við veiðum á landsvísu ef Skotvís féllist á friðun á suðvesturhorninu eins og hún er enn í dag. Ef satt er, hver voru þá vísindalegu rökin í þessu tilviki, hvert var markmiðið og hefur það náðst?

Afleiðingar svæðisbundinnar friðunar rjúpu umhverfis stærsta þéttbýlissvæði landsins.

Það er nokkuð víst að hvort tveggja, aðgerðir og aðgerðarleysi hafi afleiðingar. Við vitum hvað við höfum en getum aðeins áætlað og reynt að meta afleiðingar inngripa og aðgerða. Ef við gefum okkur að hlutfall veiðmanna sé í réttu í hlutfalli við mannfjölda á hverjum stað má ætla að helmingur veiðimanna búi á suðvesturhorni landsins. Ef marka má orð vísindamanna NÍ er Reykjanesið ekki kjörlendi rjúpu, óðöl karra eru stærri en gengur og gerist og ekki er fjalllendinu til að dreifa. Að þessu gefnu má hugleiða hvort og þá hvaða afleiðingar friðun á Reykjanesinu og næsta nágrenni hefðu haft. Ég komst að eftirfarandi niðurstöðu.

Veiðimenn búsettir á suðvesturhorni landsins, sem margir hverju létu sér nægja nánasta umhverfi sitt til veiða, voru með friðuninni neyddir til að leita á önnur mið. Vegna mikillar fyrirhafnar og ferðakostnaðar er sennilegt að viðkomandi leiti á fengsælli staði og vilji koma heim með fleiri rjúpur í hverri veiðiferð en áður. Jafnframt má ætla að óheyrilegur kostnaður og aukin fyrirhöfn verði viðkomandi hvatning til að veiða í minnst tvo daga með samsvarandi líkum á meiri afla.

Hver verður að svara fyrir sig en mín niðurstaða er sú að það sé í hæsta máta undarlegt að friða svæði þar sem náttúrulegar aðstæður gefa lítinn kost á rjúpu en margir vilja veiða. Þess í stað er öllum herskaranum vísað út af svæðinu yfir á önnur mið þar sem með réttu má ætla að fengur verði meiri. Þetta er eins og að eiga tvo peningaskápa, geyma skiptimyntina í öðrum en auðæfi sín í hinum, setja þrefalda læsingu á þann með skiptimyntinni en láta hinn standa opinn. Er ekki líklegra til árangurs að friða það frjósama en leyfða veiðar á því magra. Ef svæðisbundin friðun á að skila varanlegum árangri væri nær að friða N- Þingeyjasýslu og leyfa þess í stað veiðar á suðvesturhorninu. Þannig mætti ætla að íslenska rjúpnastofninum verði endanlega borgið og íslenskir veiðimenn geti notið rjúpnaveiða um ókomnar aldir.

Friðunin á landsvísu leiddi til gnægðar matar fyrir varg

Árið 2003 voru rjúpnaveiðar bannaðar á landsvísu í tvö ár en það bann leiddi til þess að rjúpnastofninn stækkaði umtalsvert. Fyrir marga hljómar friðun sem töfraorð sem geti aðeins haft jákvæðar afleiðingar. En er það svo? Er ekki þörf á að gera áhættumat; finna, rýna og meta hugsanlegar neikvæðar og jákvæðar afleiðingar áður en gripið er til slíkra aðgerða?

Þegar rjúpnaveiðar voru bannaðar á landsvísu höfðum veiðimenn veitt u.þ.b. 70 til 160.000 rjúpur árin þar á undan. Friðunin leiddi til þess að álíka fjöldi rjúpu var skilinn eftir í náttúrunni þegar lokað var á veiðar. Væntanlega voru það fyrst og fremst fálki og refur sem nutu góðs af herlegheitunum og komu vel undan vetri. Ef að líkum lætur má ætla að slík búbót leiði ekki aðeins til þess að dýrastofnar, sem þessa njóta, eigi auðveldara með að lifa af veturinn heldur verði þeir frjósamari að vori. Ungviði fjölgar og lífslíkur þess aukast. Að lokum kemur að því að jafnvægið raskast og afæturnar verða fleiri en rjúpnastofninn þolir og allt fer í sama farið.

Tilvitnun:

Rjúpur skipuðu stóran sess í fæðu tófa í N- Múlasýslu og fundust í sýnum úr öllum sýslum nema A- Húnavatnssýslu. Líklegast er að tíðni rjúpna í fæðu fylgi stofnsveiflum rjúpnastofnsins en hann nær toppi á u.þ.b. 10 ára fresti en fellur aftur stuttu eftir það (Ólafur Karl Nielsen 1999).

Þetta er væntanlega allt gott og blessað ef afæturnar geta ekki snúið sér annað í fæðuöfluninni og fækkar í framhaldi af fallandi rjúpnastofni. En hvað ef afæturnar geta leitað annað til fæðuöflunar í stað þess að falla með rjúpnastofninum? Hafa ekki minkur og refur nóg æti í fjörum landsins þegar þeir hafa lokið rjúpnaveislunni og hindra þar með næstu uppsveiflu rjúpunnar.

Tilvitnun:

Rjúpnastofninn (Lagopus muta) sveiflast á um 10 ára fresti og er eina fæðutegund íslensku tófunnar sem sveiflast. Þar sem sveiflan er ekki eins kröpp og hjá læmingjum getur tófan snúið sér að annarri fæðu á meðan rjúpnastofninn er í lægð (Páll Hersteinsson 2004).

Hvað tekur við eftir friðun

Hvað tekur svo við þegar friðun lýkur? Er endanlega lausnin fundin og ástandið orðið varanlegt? Ég held því miður, eins og málum er háttað, að því sé því öfugt farið og margir hugsi sér gott til glóðarinnar þegar friðun lýkur. Eftir tveggja ára friðun á sínum tíma minntist ólíklegasta fólk, sem ekki hafði sýnt mikla tilburði til rjúpnaveiða áður, skyndilega vopna sem það átti í fórum sínum. Eftir að vopnin voru dregin undan rúmi var haldið til veiða í þeirri trú að afli væri auðfengnari en áður. Þannig er hætt við að friðun veki væntingar um mikla veiði og geri þar með árangurinn að engu frá fyrsta degi.

Hver einasti fugl nýtist

Hversu oft göngum við fram á dauða fugla eða beinagrind af fugli? Ég hef spurt all marga sem ferðast mjög mikið í náttúrunni bæði sumar og vetur, hvort þeir gengju oft fram á hræ af fugli. Svarið var einfalt; “nei aldrei eða svo til aldrei.“ Nú eru hundruð þúsunda fugla sem eru hér allt árið eða hafa viðkomu einhvern hluta ársins. Hvert fara þeir til að deyja? Hvers vegna rakst ég ekki á eitt einasta hræ á þriggja daga rjúpnaveiðum, hvorki fiður, kló né gogg, ekki einu sinni særða eða dauða rjúpu eftir fjölmennar veiðar gærdagsins. Ef hrafn eða fálki kæmust einir í hræ af nýdauðum fugli væri líklegt að beinin lægju eftir. Af þessu má ætla að með eigin vængjatökum komi fuglar sér sjálfir til himna að jarðvist lokinni. En flest okkar, sem veiðum fugla, höfum áttað okkur á að svo er ekki því að annars væri frystikistan okkar tóm. Einhver hreinsar umhverfið samviskusamlega. Af Guði almáttugum frátöldum er varla öðrum til að dreifa en ref og mink. Þess vegna dreg ég þá ályktun að öll náttúrleg afföll nýtist ref og mink að einhverju leyti. Það sem hrafn, fálki eða örn hefur ekki etið þann daginn hirða og grafa refur eða minkur og geyma þar til hungur sverfur að. Þannig koma þessi dýr sér upp miklum matarforða þegar náttúruleg afföll eru sem mest snemma á haustin. Ekki verðum við veiðimenn til þess að spilla þeirri veislu þar sem við megum ekki hefja veiðar fyrr en refurinn hefur fyllt öll forðabúr sín til að hafa það gott og lifa af veturinn.

Tilvitnun:

Athuganir Theódórs Gunnlaugssonar benda til þess að tófur hér á landi sem veiða rjúpur éti þær sjaldnast strax heldur grafi og geymi enda eru þær veiddar að vetri til og geymast því betur (Theódór Gunnlaugsson 1945).

Tilvitnun:

Sýnt hefur verið fram á að jákvæð tengsl eru á milli fjölda grenja í ábúð inn til lands á N-Austurlandi og þéttleika rjúpna með tveggja ára töf þó svo að áhrif á frjósemi dýranna væru ekki marktæk (Páll Hersteinsson 1984).

Gerir seinkun og stytting á veiðitíma illt verra?

Samkvæmt því, sem mér hefur skilist við lestur fræðigreina og erindi fræðimanna um rjúpnaveiðar, er mikilvægt að veiðar fari fram sem fyrst eftir að ungar eru orðnir ætir. Þannig veiðum við hluta af þeim fugli sem annars verður náttúrulegum afföllum að bráð. Það er ekki eingöngu að náttúrulegar afætur veiði sér til matar því að ætla má að fugl, sem flýgur á girðingar, rafmagnslínur og bíla eða drepst með öðrum hætti án þess að lenda í frystikistu veiðimanna, komi rándýrum til góða. Þess vegna má ætla að bráð, sem lendir í höndum veiðimanna, dragi úr lífslíkum afætanna. Tófan tjaldar ekki til einnar nætur og dauður fugl, sem hún finnur við girðingu að hausti, kemur sér vel sem vetrarforði og fyrir yrðlinga að vori.

Tilvitnun:

Stofnstærð tófu á Íslandi hefur aukist verulega síðustu tvo áratugi. Haustið 1978 var lágmarksstofnstærð 1300 dýr en árið 2001 var sú tala komin yfir 7000 dýr. (Páll Hersteinsson 2004).

Í reiknimódeli NÍ, sem notað er til að ákvarða veiðiþol á rjúpu, er gert ráð fyrir að veiðar bætist að fullu við náttúruleg afföll. Þetta er trúverðug forsenda þar sem veiðar eru eingöngu leyfðar frá byrjun nóvember eftir að stærsti hluti náttúrulegra affalla hefur gengið yfir og líklegt að þeir fuglar, sem ennþá lifa, séu sterkir einstaklingar sem gætu lifað af veturinn. Síðan gerir illt verra að veiðar á þessum árstíma eru oft mjög auðveldar þar sem rjúpan er orðin hvít og lýsir sem endurskinsmerki í auðu landi, situr á snjósköflum eða hefur komið sér fyrir í giljum og skorningum sem veiðimenn þekkja. Þar að auki gefa fáir veiðidagar kost á beinskeyttari og harðari veiðiaðferðum en ella. Það er annaðhvort nú eða aldrei.

Þess vegna er það undarlegt að það sé að frumkvæði Náttúrufræðistofnunar Íslands að veiðitíma var frestað þar til í nóvember með þeim rökum að dagsbirta ráði mestu um veiðiálag þegar stofnunin staðfestir í eigin reiknilíkani að veiðiálagið nýti ekki að neinu leyti þær rjúpur sem annars falla af náttúrulegum orsökum á þessum árstíma. Í byrjun nóvember er skotbjart frá kl. 9 á morgnana til kl.18 á kvöldin. Ég fullyrði að það eru ekki margir veiðimenn sem nýta allan þann tíma til veiða, hvorki í september né nóvember. Í nóvember er veiðimönnum hinsvegar stefnt í hættu við vafasamar aðstæður þegar allra veðra er von, hvort sem er á þjóðvegum eða í óbyggðum landsins. Það væri fróðlegt að sjá niðurstöður úr reiknilíkani NÍ út frá þeirri forsendu að aðeins mætti veiða í september.

Óvissa um veiðar að ári hvetur til óhóflegrar veiða.

Hætt er við að sú óvissa, sem ríkir á hverju hausti um hvort leyft verði að veiða rjúpu, verði veiðimönnum hvatning til óhóflegra veiða. Mörgum finnst lítið til um rjúpnalaust jólaborð og leggja stund á rjúpnaveiðar með því hugarfari einu saman. Þegar sú tilfinning hefur skotið rótum að minnkandi líkur verði á að rjúpnaveiðar verði leyfðar næsta haust sé freistandi að tryggja sér rjúpur til þar næstu jóla í stað þess að gæta hófs við veiðarnar.

Sníkjudýr og áreiti

Árum saman hefur NÍ verið með ýmsar kenningar varðandi afföll á rjúpu. Fyrir nokkrum árum mátti skilja sem svo að sníkjudýr ýmiss konar væru ein aðal orsök mikilla affalla en nú er það áreiti veiðimanna. Ef sú er raunin er illa komið fyrir ráðgjöf NI um seinkun og styttingu veiðitímans þegar búið er að loka þeim svæðum þar sem af náttúrulegum ástæðum er lítið af fugli en flestir veiðimenn sóttu. Það er ekki von á góðu þegar veiðidögum er fækkað og síðan beðið eftir að náttúruleg afföll gangi yfir (þar á meðal vegna sníkjudýra) áður en veiðar eru heimilaðar. Ef við viljum hitta sem flesta Íslendinga á sem skemmstum tíma er þá skynsamlegast að byrja á Langanesi á miðjum sumarleyfistíma þegar fólk er dreift um landið eða ættum við að leggja leið okkar í miðbæ Reykjavíkur á menningarnótt?

Veljum Langanesleiðina

Í venjulegu árferði er allir varpfuglar á Íslandi komnir með stálpaða og matmikla unga í byrjun september. Þá halda veiðimenn til almennra fuglaveiða á landi og sjó sem þykir sjálfsagt og eðlilegt. Um rjúpuna láta menn gilda önnur lögmál sem vert er að íhuga betur. Eru ungar of smáir í september? Er rjúpan á þeim tíma svo auðveld bráð að hætt verði við ofveiði? Er hún of dreifð og svo vel falin í sumarbúningi sínum að veiðar verði of krefjandi? Vilja veiðimenn að rjúpan sé orðin sýnileg og farin að hópa sig á vísa staði til að hægt verði að ganga að henni með lítilli fyrirhöfn. Eða er ástæðan sú að veiðimenn vilja að gæsaveiði ljúki fyrst til að þeir geti einbeitt sér alfarið að rjúpnaveiðunum?

Breyting til betri vegar

Að mínum dómi munu veiðar á rjúpu frá byrjun september til 15. október í stað nóvemberveiða breyta miklu. Fuglar, sem að óbreyttu falla af náttúrulegum orsökum, verða meðal þeirra sem lenda í höndum veiðimanna. Rjúpan er enn í sumarbúningi og fellur vel að umhverfinu. Hún er dreifð um uppeldisstöðvarnar langt fram eftir september, lítið farin að hópa sig og því ekki líklegt að hægt verði að ganga að henni vísri í giljum og sköflum. Veiðimenn þyrftu að temja sér nýja hætti, leita á nýjar slóðir, skjóta fuglinn á flugi og þeir, sem mest hafa veitt hingað til, þurfa að sætta sig við minni afla. Jafnframt færu veiðarnar fram á sama tíma og gæsaveiðar og þar með dreifðist álagið milli þessara tegunda. Veiðidagur á gæs verndar rjúpur á sama tíma og líklegt er að það slái örlítið á þá tryllingslegu spennu og kapp sem myndast við upphaf hvers rjúpnaveiðitímabils.

 

Hugsanleg áhrif þeirrar hugmyndar að veiða rjúpu frá byrjun september fram í miðjan október.

Jákvætt fyrir rjúpnastofninn:

 • veiddir fuglar sem annars féllu í náttúrulegum afföllum
 • rjúpan er íllsjáanleg í sumardragt
 • veiðimenn þurfa að tileinka sér nýja veiðiaðferðir
 • rjúpan er ekki farin að safnast á hefðbundna veiðistaði
 • veiðiálag dreifist þar sem verið er að veiða gæs og fl. fugla á sama tíma
 • lítil lykt er af fuglinum fyrir hunda að vinna úr

Neikvætt fyrir rjúpnastofninn:

 • ?

Jákvætt fyrir veiðimenn:

 • minni óvissa um veiðar næsta árs
 • meira af rjúpu á veiðislóð
 • skemmtilega krefjandi veiðar
 • betra veður til útivistar
 • óhætt er að veiða fleiri fugla miðað við stofnstærð á hverjum tíma
 • minni hætta í umferðinni vegna slæmrar færðar
 • minni hætta á hættulegum veðrum

Neikvætt fyrir veiðimenn:

 • fyrri veiðireynsla gagnast minna
 • minni afli
 • meira krefjandi veiðar
 • rjúpan sést illa í umhverfinu
 • rjúpan hefur ekki hópast á hefðbundna veiðistaði
 • veiðimenn þurfa að velja á milli gæsa- og rjúpnaveiða
 • lítil lykt er af fuglinum fyrir hunda að vinna úr

 

Hugsanleg áhrif þeirrar hugmyndar að leyfa rjúpnaveiðar á suðvesturhorninu en friða þess í stað N- Þingeyjasýslu.

Jákvætt fyrir rjúpnastofninn:

 • endanlega trygg afkoma rjúpnastofnsins á besta kjörlendi landsins
 • minna álag veiðimanna þar sem mest er af fugli
 • minni veiði á landsvísu miðað við stofnstærð

Neikvætt fyrir rjúpnastofninn:

 • aukið álag á SV landi
 • hætt við aukningu á ref og öðrum rjúpnaætum í N-ÞS ef ekki er brugðist við

Jákvætt fyrir veiðimenn:

 • trygging fyrir varanlegri verndun rjúpunar
 • auknar líkur á að rjúpa berist út frá S- ÞS á önnur svæði þegar vel árar
 • stærra veiðsvæði nálægt þéttbýli
 • minni ferðakostnaður
 • færri veiðimenn þurfa að sækja langt til veiða
 • líklegt að dragi úr öðrum takmörkunum yfirvalda til rjúpnaveiða
 • líkleg fjölgun veiðidaga

Neikvætt fyrir veiðimenn:

 • engar veiðar í N- ÞS
 • N- Þingeyingar og aðrir sem veiða nú í N- ÞS þurfa að finna sér aðra staði
 • minni veiði á landsvísu miðað við stofnstærð

Hafnarfirði 15. nóvember

Ferdinand Hansen

Tags: þess, þar, verið, áður, hverju, hafi, inngrip, aðgerðir, markmið, áhættumat, afleiðingar, ætla, gripið, inngripsins, áhætta
You are here: Home