Athugasemdir Axels Kristjánssonar vegna verklegs skotprófs vegna hreindýraveiða

Reykjavík, 6. júní 2012.

Umhverfisráðuneytið,
Skuggasundi 1,
150 REYKJAVÍK.

VERKLEGT SKOTPRÓF VEGNA HREINDÝRAVEIÐA.

Ég skrifa þetta bréf vegna fyrirmæla um skotpróf, sem Umhverfisstofnun hefur sent þeim veiðimönnum, sem úthlutað var leyfum til hreindýraveiða á þessu ári. Ég fékk að vísu ekki úthlutað leyfi í ár, en ég er ákveðinn í að sækja um leyfi næsta ár, ef til kemur. Þar sem ég hef skotið a.m.k. 50 hreindýr í 30 ferðum síðan 1963, tel ég mig hafa næga reynslu til að tjá mig um þær reglur, sem stofnunin hefur sett um verklegt skotpróf veiðimanna.
Með 14. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994 var umhverfisráðherra heimilað að leyfa veiðar á hreindýrum. Í grein þessari voru síðan nánari reglur um útfærslu á þessari heimild, þ.á.m. fjölda dýra, hverjir mættu veiða o.s.frv. Í 9. mgr. 14. gr. var mælt fyrir um, hverjir mættu taka að sér leiðsögn með hreindýraveiðum.


Með lögum nr. 63/2011 var 9. mgr. laga nr. 64/1994 breytt og hún aukin verulega. Þar er m.a. ákveðið, að áður en veiðimaður fer til hreindýraveiða skuli hann hafa staðist verklegt skotpróf á síðustu 6 mánuðum og skilað inn staðfestingu á því fyrir 1. júlí ár hvert.
Þessum nýju fyrirmælum laganna fylgja ekki nánari fyrirmæli um hið „verklega skotpróf“, hvorki um hvernig skuli prófa né hverjir skuli prófa. Í hina nýju lagagrein vantar heimild til setningar reglugerðar um framkvæmd prófsins, og engin fyrirmæli eru í lögunum um að ráðherra skuli setja slíka reglugerð.
Þann 1. febrúar 2012 sendi Umhverfisstofnun út tölvupósta til veiðikortahafa og lýsti eftir umsóknum eftir leyfum til hreindýraveiða. Ekkert kom þar fram um, að einhverjar breytingar hefðu verið gerðar á kröfum um hæfni veiðimanna. Um-sóknarfrestur var til 15. febrúar.
Þann 10. febrúar 2012 sendi Umhverfisstofnun tölvupósta til veiðikortahafa um framkvæmd verklegra skotprófa fyrir hreindýraveiðimenn. Þar kemur fram, að reglugerð, sem fylgi ofangreindri lagabreytingu sé enn í smíðum, en í henni komi fram þau atriði, sem varði nánari útfærslu prófsins.
Að loknum útdrætti, sem fór fram síðast í febrúar 2012, var þeim, sem höfðu verið dregnir út, send tilkynning um það og þeim jafnframt gert að greiða staðfestingar-gjald.
Þann 7. maí 2012 gaf umhverfisráðherra út reglugerð nr. 424/2012 um verklegt skotpróf vegna hreindýraveiða. Umhverfisstofnun sendi síðan veiðileyfahöfum tölvupóst þann 30. maí 2012, þar sem þeim var tilkynnt, að samkvæmt reglugerð 424/2012 þurfi hreindýraveiðimenn að fara í skotpróf til að staðfesta hæfni sína til að fella hreindýr. Jafnframt var tilkynnt, að veiðimaður þurfi að hafa staðist skot-prófið fyrir 1. júlí. Í 9. gr. reglugerðarinnar segir, að hún sé sett skv. 14. gr. laga nr. 64/1994 og öðlist þegar gildi, þ.e. 7. maí 2012.
Um lagalegu hliðina á þessu vil ég segja þetta:
Af 9. mgr. 14. gr. laga nr. 64/1994 eins og henni var breytt með lögum nr. 63/2011 verður ekki séð, að ráðherra hafi haft heimild til að setja reglugerð um framkvæmd verklegs skotprófs né hvaða kröfur skulu gera til veiðimanna í slíku prófi. Þetta er augljós galli á löggjöfinni og ljóst, að reglugerð nr. 424/2012 um verklegt skotpróf vegna hreindýraveiða hefur ekki stoð í lögum og er því marklaus. Verði henni engu að síður haldið til streitu í framkvæmd, er ljóst, að hún tók ekki gildi fyrr en 7. maí 2012 og getur því ekki tekið til þeirra, sem höfðu fengið úthlutað veiðileyfum fyrir þann tíma og greitt tilskilið staðfestingargjald. Verði reglugerðinni haldið til streitu, eru brostnar forsendur þeirra umsækjenda, sem fengu úthlutað leyfum og greiddu staðfestingargjald.
Um vinnubrögðin við setningu reglugerðarinnar og fyrirhugaða framkvæmd prófsins er þetta að segja:
Reglugerðin var sett 11 – ellefu - mánuðum eftir að lögin, sem hún er sögð byggj-ast á (án heimildar), voru sett. Umhverfisstofnun lét líða 23 daga áður en hún sendi veiðileyfishöfum tölvupóst og krafðist þess, að þeir hefðu allir lokið prófinu innan eins mánaðar, þ.e. fyrir 1. júlí 2012. Þar eru gefin upp nöfn á 18 félögum eða samtökum, sem hafi heimild til að framkvæma prófin. Af þeim voru þá 5 til-búin að hefja prófin.
Með reglugerðinni var Umhverfisstofnun falið að útbúa skotmark til að nota við prófið. Sú stofnun hefur sent frá sér sýnishorn af slíku skotmarki, sem er hringur, 14. cm. í þvermál. Prófmanni ber að skjóta 5 skotum á 5 mínútum í þetta skot-mark á 100 metra færi, og skulu öll skotin lenda innan hringsins eða snerta hann. Þessa þraut leysa fáir aðrir en reyndar markskyttur. Markskothæfni og veiðiskot-hæfni er sitt hvað.
Reyndir hreindýraveiðimenn nota eitt skot á hverja bráð, sárasjaldan 2 og nánast aldrei 3. Sá sem ekki getur þetta, á ekki að stunda hreindýraveiðar.
Fyrir prófið ber að greiða kr. 4.500, og veiðimaðurinn er fallinn á prófinu, ef ein kúla af 5 lendir utan hringsins. Hann er fallinn, ef 4 fyrstu kúlurnar lenda beint í miðpunkt hringsins en sú 5. lendir 1-2 mm. utan hringsins. Honum er þá heimilt að endurtaka prófið tvisvar (fyrir 1. júlí) og greiða kr. 4.500 til viðbótar í hvort sinn.
Fær veiðimaður, sem ekki stenst pófið, endurgreitt staðfestingargjald veiðileyfis-ins?
Með vísan til framanritaðs vil ég segja þetta:

Ráðherra getur ekki sett reglugerð án heimildar í lögum. Í lögunum frá 1994, eins og þau voru fyrir breytinguna 2011, eru ýmsar heimildir til að setja reglugerðir en engin, sem varðar skotpróf. Í lögunum frá 2011, þar sem sett er inn krafan um verklegt skotpróf, er engin slík heimild.

Í tölvupósti Umhverfisstofnunar frá 10. febrúar var efni reglugerðar, sem ráðherra var sagður ætla að setja (án lagaheimildar), en var ekki komin út, kynnt af Um-hverfisstofnun. Í þeim tölvupósti var einnig kynnt, hvernig Umhverfisstofnun hyggðist útfæra kröfur löggjafans um verklegt skotpróf. Umhverfisstofnun (ekki ráðuneytið) setti síðan allar reglur um skotprófið, þ.m.t. stærð skotskífu og fjölda skota.

Hér með skora ég á ráðherra að fella reglugerð nr. 424/2012 úr gildi án tafar og fela Umhverfisstofnun að afturkalla öll fyrirmæli, sem stofnunin hefur sent út um verklegt skotpróf. Telji ráðherra nauðsynlegt að setja slíka reglugerð, ber fyrst að afla heimildar Alþingis til þess.

Verði sett að nýju reglugerð um verklegt skotpróf, skora ég á ráðherra og Um-hverfisstofnun að haga reglum þannig, að sanngirni og skynsemi ráði för, ekki einhver boða- og banna-árátta né óvild í garð skotveiðimanna. Tekið verði tillit til athugasemda minna hér að framan, m.a. með lengri undirbúningstíma, sem verði a.m.k. 6 mánuðir, en í lögum nr. 63/2011 er gert ráð fyrir allt að 12 mánuðum. Þá verði skotskífan stærri og ekki verði þess krafist, að fleiri en 3 skot lendi innan hringsins.

Sjálfsagt er, að haft verði náið samband við félög skotveiðimanna, ef og þegar reglugerð verður sett að nýju.

Virðingarfyllst

Axel Kristjánsson

Tags: hefur, síðan, veiðar, vegna, skotpróf, úthlutað, þessari, leyfi, verklegt, villtum
You are here: Home