15. október og veiðistjórnun (Aðsend grein)

Ég er orðinn svo gamall í veiðibransanum að þegar kom að rjúpnaveiðum áður fyrr þá var 15. október fyrir okkur nánast heilagur dagur, en það var fyrsti dagur rjúpnaveiða á Íslandi og hafði verið þannig í heilan mannsaldur. Svo gerðist það að Umhverfisráðuneyti var stofnað 1990 og þá fóru ýmsir áður óþekktir hlutir að gerast og oftar en ekki óvinveittir okkur veiðimönnum. Sá fyrsti sem gengdi þessu embætti var Júlíus Sólnes, skynsamur verkfræðingur og hann hlustaði á þá sem málið varðaði áður en hann tók ákvarðanir, en því miður var hans vera sem Umhverfisráðherra ekki löng. Þá tók við Össur Skarphéðinsson sem reyndar er líffræðingur að mennt, en hann átti það til að sýna vald sitt með því að taka fram fyrir hendur starfsmanna Veiðistjóraembættisins [1] [2] [3] varðandi ráðgjöf með ófyrirleitnum hætti auk þess að skipa þáverandi veiðistjóra Páli Hersteinssyni heitnum, ágætis manni og framsæknum að flytja embættið til Akureyrar án sýnilegrar ástæðu, ella gæti hann hætt sem slíkur og það gerði Páll því miður og gerðist prófessor í refafræðum við Háskóla Íslands.

 

Össur Skarphéðinsson sýndi vald sitt oftar en einu sinni og þrengdi rjúpnaveiðitímann tímabundið og gaf tóninn hvernig á EKKI að stunda veiðistjórnun og hafa ekkert frumlegra fram að færa en fækkun veiðidaga.  Næsti ráðherra var Eiður Guðnason, mjög sérstakur í orðum og athöfnum og ekki tókst að koma neinu vitrænu um veiðistjórnun inn fyrir hans embætti. Guðmundur Bjarnason sem tók við af Eiði hlustaði og reyndi þó að framkvæma hluti á yfirvegaðan hátt.  Í tíð Sif Friðleifsdóttur voru framkvæmdir ófyrirgefanlegir hlutir í anda Össurar Skarphéðinssonar með því að banna alfarið rjúpnaveiðar í tvö ár, vel styrkt af Náttúrufræðistofnun Íslands og fólki sem nánast ekkert vissi um veiðistjórnun og notaði hin frægu orð og athafnir Össurar Skarphéðinssonar að láta allt "njóta vafans" hvaðeina sem átti í hlut og sér í lagi ef framkvæma átti eitthvað þar sem ekki nokkrar eða litlar rannsóknir eða þekking lágu að baki. Eftir Sif sem Umhverfisráðherra hafa ráðherrar í þessu mikilvæga ráðuneyti nær allir verið haldnar nánast sjúklegri vanvirðingu á skotveiðimönnum þessa lands og rústað þessari gamalgrónu ánægju og gleði að hlakka til fyrsta rjúpnaveiðidagsins 15. október sem var nánast heilagur í okkar huga. 

Við tókum okkur alltaf frí fyrstu 3 daga veiðitímans og gátum skipulagt hann með löngum fyrirvara. Ég man þá tíð að við 4 ungir líffræðingar á Hafró fórum tæp 20 ár í röð saman til rjúpna á Holtavörðuheiði og víðar og gistum alltaf í sama bústað nr. 67 í Munaðarnesi og oftast vorum við með fjölskyldur okkar með i bústaðinn. Þessi tími var okkur mjög mikilvægur og þar treystust mörg vináttubönd ekki bara okkar heldur einnig barna og maka. Veiðin er ekki bara það að fara um fagra íslenska náttúru og njóta hennar við misjöfn skilyrði, heldur er félagsskapurinn mikils virði og það að geta og hafa tækifæri til að ferðast um fjöll og firnindi þessa dásamlega lands og stunda sínar veiða af skynsemi og þekkingu. Ég hef oft hugsað til þessa fólks sem endalaust mótmælir skotveiðum á sama tíma og það hefur ekki hugmynd um hvað það í raun er að tala um, einfaldlega vegna þess að það þekkir ekkert inná skotveiðar eða það sem þeim fylgir. Er það ekki svona sem þekkingarleysi er látið njóta vafans og þar við situr. Ég man þá tíð er við ungir líffræðingar á Hafró stóðum fyrir því að stofna Skotveiðifélag Íslands (SKOTVÍS) árið 1978 og það mikið að erlendri og kunnugri fyrirmynd. Það var nefnilega okkar fyrsta skilyrði að virða fagra náttúru þessa lands og stunda okkar veiðar af þekkingu og tillitssemi við land og bráð og ekki síst rétt okkar sem borgara þessa lands til veiða og umferða um landið, en þar var víða pottur brotinn og er enn. Við höfum unnið verulega á í þessum efnum þau 34 ár sem liðin eru frá stofnun SKOTVÍS og enn er á brattann að sækja, en ég er stoltur af því sem áunnist hefur og að einhverjir hlusta á okkur þó ekki séu þeir margir innan veggja Alþingis sem það gera því miður.  Þúsundir Íslendinga stunda einhverskonar skotveiðar og því er ekki hægt að ganga algjörlega fram hjá þeirri staðreynd.  Vonandi birtist 15. október einhvern tíma aftur sem fyrsti  árlegi "Rjúpnaveiðidagur" Íslendinga.
 
Lifið heil, góðu veiðimenn Íslands

Veiðikveðja, Sólmundur Tr. Einarsson

Tags: áður, október, okkur, fyrsti, gerðist, miður, tók, veiðistjóraembættisins, ráðgjöf, hætti
You are here: Home