Verðhrun - Pistill frá félagsmanni


100 rjúpur biðu í frystikistunni

En því má ekki gleyma að margir hafa talsverðar aukatekjur af því að stunda fuglaveiðar og margir aðrir selja allan þann afla sem þeir ekki nýta sjálfir þó þeir vilji ekki kalla sig atvinnuskyttur. Það er þá ekki til að græða á veiðunum heldur til þess eins að reyna að láta þær standa undir sér, en það er varla mögulegt eins og mál standa í dag. Flestir muna eftir verð­stríð­inu á rjúpunum síðasta vetur þegar hver kaupmaðurinn á fætur öðrum barði niður verðið þar til hægt var að fá rjúpur á innan við 300 krónur stykkið. Þá var mig farið að svima. Hugurinn leitaði ítrekað niður í frystikistuna þar sem rúmlega 100 rjúpur biðu eftir því hlutskipti að verða seldar og áttu pen­ing­arnir að létta undir í hinum árvissa en alltaf jafn erfiða „jólaróðri”. Ég taldi þó að þetta væri bara tímabundið ástand, brosti út í annað og hugsaði keik­ur „hvaða andsk_.. fífl eru þetta að gefa rjúpurnar sínar, nei ég tek nú ekki þátt í þessum fíflagangi. Mínar rjúpur verða engum gefnar, heldur seldar þegar ekkert verður orðið til og þá skal einhver óheppinn kaupmaðurinn sko aldeilis fá verk í veskið sitt!” það þarf víst ekki að fjöl­yrða um verkinn þann. Hann varð nú eng­inn og enn eru rjúpurnar í fryst­in­um. Það voru allir búnir að nota tæki­fær­ið og verða sér úti um nóg af rjúpum á meðan verðið var svona lágt. Aðrir ein­faldlega sátu hjá því annars hefðu þeir þurft að borga með fuglinum og það gerir enginn heilvita maður, nema þá kannski skotveiðimenn?
það þýðir þó ekki að einblína á rjúpur heldur alla íslenska villi­bráð. Kannski er hreindýrakjötið undan­­skilið en verðlagning á veiði­leyf­um hreindýra hefur komið í veg fyrir sömu þróun þar. Gæs, sem flestir kalla herra­mannsmat, er ekki dýr matur í dag, ekki dýrari en hver önnur sunnu­dagssteik. Þar liggur hundurinn graf­inn. Villibráð er dýr allsstaðar sem ég hef komið, bæði í Evrópu og Ameríku og þegar villibráð er annars vegar borg­ar maður töluvert mikið meira fyrir vik­ið. Ég get nefnt sem dæmi að í Skot­landi kostar rjúpa átta pund hjá slátrara, sem eru um níu hundruð krónur. Það þykir ekki dýrt, því þeir sem kaupa villi­bráð­ina vita að þeir eru að fá besta mögu­lega hráefni sem til er og eru alveg til í að borga meira fyrir vikið. Ég reikna með að formaður félagsins geti staðfest þetta, enda sjálfsagt fáir með víðförlari bragðlauka en hann hér á landi.

 

Engin aðför að kaupmönnum

það er ekkert því til fyrirstöðu að íslenskir veiðimenn geti snúið þessu við. Það eina sem þarf er sam­staða um lágmarksverð á hverri tegund fyrir sig og örlítil biðlund, því hana má ekki vanta þegar kaupmennirnir fara að þrjóskast við. Við verðum líka að koma fólki í skilning um hvers konar hráefni er um að ræða þegar talað er um ís­lenska villibráð þannig að allir verði sátt­ir, ekki bara við veiðimennirnir. Ég vona að enginn taki þessum skrifum sem einhverri aðför að kaupmönnum, síð­ur en svo. Þó má ekki gleymast að hingað til hafa þeir stjórnað verðinu. Að mínu mati hefur ástandið þó skánað síðan Pétur Pétursson, kenndur við Kjöt­búr Péturs, hætti rekstri. Á meðan hann rak sína verslun fóru margir eftir honum með sitt verð í innkaupum og verður það að segjast að það var oft í lægri kantinum. Ég verð samt að koma því að hér að ég er ekki að sverta Pétur á neinn hátt heldur aðeins að segja frá staðreyndum. Vil ég taka fram að ég ber mikla virðingu fyrir honum sem veiði­manni, það mættu víst fleiri taka hann sér til fyrirmyndar við veiðar. Einnig er oft kunnáttuleysi ríkjandi þegar þjarkað er um verð.

 

„þetta eru nú meiri tittirn­ir....varla orðnir fleygir!”

Mig langar að nefna sem dæmi að eitt sinn kom ég með tíu urtendur, sem ég hafði skotið, til kaupmanns og hugðist selja honum þær. Hann setti upp mikinn „bisness” svip og sagði: „þetta eru nú meiri titt­irn­ir, það tekur því varla að borga þér fyrir þessa ræfla, varla orðnir fleygir!” Ég ákvað nú að leiða manninn í allan skilning um hvers kyns fygli þetta væru og byrjaði að messa með miklum sann­færingar­krafti hvers konar veislumatur þetta væri. Það er skemmst frá því að segja að ég fór sömu leið út úr búðinni, með endurnar í pokanum og ef ég man rétt voru þær étnar heima skömmu síðar. Þvílíkt sælgæti, enda myndi ég ekki selja nokkrum manni urtönd í dag! Meðan þær eru ekki metnar að verð­leikum, heldur stærð, borða ég þær sjálf­ur. Vegna stærðar eru þær nánast verðlausar og er það mikil synd.
Það er því augljóst að ekki væri lengi verið að þurrka út álfta­stofn­inn ef veiðar á honum væru leyfð­ar á meðan þessi sjónarmið eru ríkjandi. Þessu verður að breyta og ég get alveg lofað ykkur því að það gerir enginn nema við veiðimenn. Þó verkið sé ærið er þessi Golíat engu stærri eða erfiðari en sá sem Davíð atti kappi við hér forð­um, þannig að það er nokkuð ljóst að boltinn er hjá okkur þessa stundina. Kannski er best að vera ekkert að sparka honum frá okkur fyrr en allir eru á eitt sáttir. Ég vil því beina þeirri spurn­ingu til stjórnar SKOTVÍS hvort ekki verði hægt að hafa spjallfund um þetta málefni snemma á næsta veiði­tíma því þetta er jú hagsmunamál. Það að vernda hagsmuni veiðimanna er nú einu sinni það sem félagið gerir.
Svona að lokum langar mig bara að óska ykkur öllum ánægjulegra stunda við veiðarnar, bestu kveðjur.

Kjartan Ingi Lorange
félagsmaður í SKOTVÍS
Tags: láta, hluta, skemma, ánægjuna, hafið, ódýrar, ekkert, veiðar, þær, vera, fæstir, farið, félaga, þann, langt
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Verðhrun - Pistill frá félagsmanni