Veiðipróf fyrir sækjandi hunda

Prófað er í fjórum flokkum:

 • Unghundaflokkur (UFL): Í UFL eru hundar sem á prófdaginn eru 9-24 mánaða.
  Byrjendaflokkur (BFL): Í BFL eru hundar eldri en 24 mánaða, sem hafa ekki náð 1. einkunn þrisvar sinnum í UFL. Hundur getur farið upp um flokk eftir að hafa fengið 1. einkunn einu sinni í UFL eða BFL.
  Opinn flokkur (OFL): Í OFL eru hundar sem hafa fengið 1. einkunn í UFL eða BFL. Þeir hundar sem hafa fengið 1. einkunn í OFL þrisvar sinnum, færast sjálfkrafa upp í ÚVFL og geta því ekki tekið þátt í OFL. Hundur sem einu sinni hefur verið skráður í ÚVFL, verður ekki skráður á annan hátt eftir það.
  Úrvalsflokkur (ÚVFL-B og ÚVFL-A): Í ÚVFL eru hundar sem náð hafa 1. einkunn í OFL.

 

UFL og BFL

UFL og BFL eru oft hafðir saman enda er útfærslan á prófinu sú sama. Hafa skal a.m.k. fjórar sóknir á fremur sléttu og þægilega yfirförnu landi og tvær sóknir í djúpt vatn. Skjóta skal a.m.k. þremur skotum í prófi fyrir hvern hund, og skal hund­urinn vera í taumi þegar skotið er. Engum skotum skal hleypt af meðan hundurinn er í vinnu. Nota skal létta bráð, t.d. rjúpu, önd eða máv. Haga skal prófi þannig að hægt sé að dæma staðsetningu (marking), stýr­ingu hunds og sjálfstæða vinnu.

 

OFL

Leitast skal við að hafa prófsvæðið sem líkast náttúru­legri veiðislóð, bæði land og vatn. Hafa skal fæstar sex sóknir, þar af a.m.k. tvær í vatni. Skjóta skal a.m.k. þremur skotum fyrir hvern hund í prófi, en hundurinn skal vera laus þegar skotið er. Þyngri bráð má nota en í UFL og BFL, t.d. gæs eða skarf. Haga skal prófi þannig að hægt sé að dæma staðsetningu (mark­ing), stýringu hunds og sjálfstæða vinnu.

 

ÚVFL-A

A-próf er skipulagt sem eins dags veiðiferð. Lágmarksþátttaka er tveir hundar. Dómari getur mest dæmt sex hunda á dag. Lágmarksfjöldi fugla skal felldur. Minnst fjórar sóknir þarf til að einkunn sé gefin.

 

ÚVFL-B

Leitast skal við að hafa prófsvæðið sem líkast náttúrulegri veiðislóð, en þó má umhverfi vera erfiðra yfirferðar en í OFL. Sóknir skulu vera fæstar fjórar á landi og þrjár í vatni. Sóknir skulu vera lengri en í OFL. Öll sóknarvinna, leitarvinna og staðsetning (marking) skal vera mun erfiðari en í OFL. Í ÚVFL skal hundur sækja blint í eða yfir vatn og verða fyrir ýmsum truflunum við vinnu, t.d. þannig að bráð er látinn falla rétt við hann í miðri sókn og skoti hleypt af og hundurinn látinn sækja bráð innan um gervifugla. Þess er krafist að hundar heiðri vinnu hvers annars. Á B-prófi skulu hundarnir sækja kalda bráð sem er í góðu ásigkomulagi. Bráðina má frysta einu sinni, en hún skal vera vel þiðin fyrir prófið. Bráðinni er kastað fyrir hundinn bæði á landi og í vatn. Einnig skal hundurinn leita að fuglum sem hann hefur ekki séð falla. Þegar fugli er kastað er skoti hleypt af í sömu átt og kastað er. Skothvellur og útkast á fugli getur átt sér stað á meðan hundurinn er að vinna.

 

Umsagnir dómara

Dæma skal hæfni og vilja hunds til sóknar á dauðri bráð, bæði á landi og í vatni. Eftirfarandi skal dæma sérstaklega hjá hverjum hundi fyrir sig:
Þefvísi
Fjarlægðarstjórnun
Staðsetning
Stöðugleiki
Sóknarvilji
Meðferð á bráð
Sundhæfni og vinnuvilji í vatni
Almenn hegðun
Samstarfsvilji
Sókn (frjáls leit)
Hraði
Úthald
Þegar dómari telur sig hafa séð nóg til að geta dæmt hund getur hann stöðvað prófið þótt ekki sé búið að sækja alla bráð.

 

Sókn (frjáls leit)

Sóknin skal vera þannig að hundurinn leitar svæðið ákveð­ið og skipulega. Sé þess óskað skal hund­­urinn leita ákveðið svæði. Hund­ur skal vera rólegur í nálægð lifandi, ósærðs fugls. Óákveðinn hundur dæmist niður. Ófullnægjandi sóknir geta orðið til þess að dómari stöðvar prófið.

 

Hraði og úthald

Hundur skal vinna með góðum hraða án þess þó að hæfi­leik­inn til að staðsetja bráð fari forgörð­um. Hundur sem þreytist fljótt dæmist niður vegna úthaldsleysis.

 

Þefvísi

Þefvís hundur notar vindátt við leit þannig að hann fer skipu­lega yfir leitarsvæðið og hleypur nán­ast beint að bráð eftir að lykt af henni hefur slegið fyrir vit hans. Hundur skal geta rakið slóð á markvissan hátt. Hundur sem fer yfir sýnilega bráð, án þess að taka eftir henni, dæmist niður.

 

Fjarlægðarstjórnun

Hundurinn á að hafa athygli á stjórnanda sínum og hlýða fljótt og örugglega skipunum sem honum eru gefnar, þrátt fyrir fjarlægð, bæði á landi og í vatni. Í UFL og BFL er eingöngu ætlast til að hundurinn fari í þá átt sem honum er vísað. Hundur sem ekki hlýðir endurteknum skipunum dæmist niður.

 

Staðsetning

Hundur skal geta staðsett og munað hvar einn eða fleiri fuglar falla og vera fljótur að sækja eftir skipun. Skilyrði er að hundurinn hafi góða yfirsýn yfir svæðið þar sem fuglinn fellur. Hleypa skal af skoti og haglabyssu beint í þá átt sem fuglinum er kastað. Séu bráðirnar fleiri en ein skal gæta þess að gott bil sé á milli fuglana. Sæki hundurinn ekki, getur dómari stöðvað prófið, sérstaklega í ÚVFL. Ef hundurinn hefur aug­ljós­lega ekki staðsett bráð, og leitar á röng­um stöðum til að byrja með, dæmist hann niður fyrir það þó svo að hann finni bráðina að lokum.

Stöðugleiki

Þegar skoti er hleypt af á hundur­inn að vera rólegur og kyrr á sínum stað. Ef skotið er á meðan hundurinn er í vinnu skal hann ótruflaður ljúka sínu verki. Hundur sem sýnir lítinn stöðugleika er dæmdur niður fyrir það. Rjúki hundurinn af stað áður en skipun er gefin eða sýni mikla skothræðslu getur dómari stöðvað prófið og/eða dæmt hundinn úr prófi.

 

Sóknarvilji

Hundur á, án ítrekaðra skipana, að sækja bráð með hraða og öryggi. Alvarlegra brot er ef hann skiptir á bráðum í sókn. Áhugi, hraði og einbeitni sýna sóknarvilja hans. Ef þvinga þarf hund til að þess að sækja, eða ef hann hefur ekki nokkurn áhuga á því, getur dómari stöðvað prófið og dæmt hundinn úr prófi. Í vafatilfellum skal ákvörðunin byggjast á fleiru en einu atriði.

 

Meðferð á bráð

Ekki má sjá á bráð eftir að hundur hefur sótt hana. Hann skal halda bráðinni vel í kjaftinum þannig að hann missi hana ekki og að hún hindri ekki eðlilegar hreyfingar hans. Þegar hundur hefur fundið bráð á hann að skila henni beint til stjórnanda. Dómari skal athuga bráð eftir að hundur hefur skilað henni til stjórnanda. Ef hundur tyggur eða bítur fuglinn dæmist hann niður. Ef hund­urinn missir eða fer illa með hann á annan hátt getur dómari stöðvað prófið.

 

Sundhæfni og innuvilji í vatni

Vel syndur hundur sem stekkur viljugur út í vatn og syndir með ákafa, þrátt fyrir gróður og aðrar hindranir, sýnir góða sundhæfni. Vatns­­hræddur hundur sem ekki fæst út í vatn dæmist niður og má jafnvel dæma hann úr prófi.

 

Almenn hegðun

 • Hundur má ekki sýna árásarhneigð í prófi.
 • Hundur skal ekki láta aðra hunda hafa áhrif á sig í prófi.
 • Hundur má ekki gelta eða væla í prófi.
 • Ef hundur sýnir eitthvað af ofan­töld­um atriðum dæmist hann niður.

Samstarfsvilji

Vilji til þess að vinna með stjórnanda og vinnuvilji hunds­ins er grunnur þess að hægt sé að dæma hundinn. Einnig er metið hversu auðveldlega hundur lætur að stjórn og eiginleikar hans sem „sækis“ við mis­mun­andi aðstæður.

 

Stöðvun á prófi

Atriði sem veita dómara rétt til þess að stöðva frekari þátttöku hunds í prófi:
Algerlega ófullnægjandi sóknir
Ef hundur lætur ekki að stjórn
Skothræðsla
Ef hundur fer illa með bráð
Ef hundur fer ekki út í vatn
Dómari stöðvar ekki prófið nema að vel athuguðu máli. Ef dómari stöðvar próf skal hann vísa í eitthvað af ofantöldum atriðum og skýra það út fyrir þátttakanda.

 

Einkunnargjöf

UFL & BFL

 • Til þess að hljóta 1. einkunn í þessum flokkum þarf hundurinn að fara í gegnum allt prófið, sýna góða samvinnu, mjög góðan vinnuvilja, mikla sóknargleði og ekki gera nein stór mistök.
  2. einkunn fær sá hundur sem fer í gegnum allt prófið, sýnir góðan vinnuvilja og sóknargleði, en litið er fram hjá mistökum sem sýnilega eru vegna ungs aldurs og/eða skorts á þjálfun.
  Hundur sem sýnir vinnuvilja og sóknaráhuga, en gerir þó einhver mistök sem mætti rekja til ungs aldurs og/eða skorti á þjálfun, fær 3. einkunn, þó svo hann klári ekki allt prófið.

 

OFL

 1. einkunn hlýtur sá hundur sem fer í gegnum allt prófið af öryggi og leysir verkefnin svo til fullkomlega og þannig að dómara sýnist þar fara góður veiðisækir.
 2. einkunn fær sá hundur sem fer í gegnum allt prófið þokka­lega vel en gerir smávægileg mistök sem draga hann ekki niður.

Til þess að fá 3. einkunn þarf hundurinn að hafa sýnt góða vinnu og mikinn áhuga. Þrátt fyrir nokkur mistök á ekki að útiloka hann frá einkunnargjöf, þó svo að hann ljúki ekki við prófið.

ÚVFL A og B

Í úrvalsflokki A & B á að gera miklar kröfur til vinnu hundsins.
 • Til þess að hljóta 1. einkunn þarf hundurinn að fara í gegnum allt prófið á framúrskarandi hátt og leysa öll verkefni fullkomlega rétt og að dómari álíti viðkomandi hund frábæran veiðisæki.
 • Hundur fær 2. einkunn fyrir að hafa farið í gegnum allt prófið, sýnt ágæta vinnu og leyst öll verkefni svo til villulaust.
 • Til þess að fá 3. einkunn þarf hundurinn að fara í gegnum allt prófið, sýna góða vinnu og leysa öll verkefnin án stórra mistaka.
Öll notkun á gaddakeðjum, raf­­magns­ólum og því líku er bannað á prófi. Einnig er harkaleg ögun á hundi bönnuð meðan á prófi stendur.
Ef fólk hefur áhuga á að fræðast meira um veiðipróf, þá er hægt að nálgast allar upplýsingar um þau á skrif­stofu HRFÍ eða hafa samband við veiðiprófsdómara fyrir retriever­hunda. Fyrir þá sem ætla sér að nota hund við veiðar þá er markviss þjálfun nauð­synleg. Veiðiprófin eru til þess að fá hlut­lausan aðila til að sjá hvort sú þjálfun hefur komist til skila. Það er von mín að þeir sem nota retriever­hunda til veiða mæti á veiðiprófin til að athuga hvað megi betur fara við þjálfun hundsins. Það er ekkert leiðinlegra en að eyða veiði­túrnum í strögl við hundinn sinn. Ég læt fylgja með umsögn í OFL um einn labrador hund. Tags: hans, keppni, veiðipróf, hundur, hunda, sækjandi, prófaður, sama, augum, vinnan, allt, þetta, einn
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Veiðipróf fyrir sækjandi hunda