Veiðikortakerfið

 

 

Veiðitölur - er eitthvað að marka þær?

Ég er oft spurður hvort þessi veiðitölusöfnun sé ekki bara tíma- og peningasóun. Sú virðist ekki vera raunin út frá þeim veiðitölum sem við höfum nú undir höndum. Ég get tekið sem dæmi veiðitölurnar frá 1995. Veidd hreindýr voru 329 eða sama tala og hreindýrakvótinn var það sama ár. Refa- og minkaveiði var nokkru hærri en skýrslur frá sveitarfélögum gáfu til kynna sem er eðlilegt, því það eru ekki allir sem veiða þessi dýr sem krefjast verðlauna. Rjúpnaveiðin var 123.000 rjúpur en SKOTVÍS hafði gert neyslu­könn­un 1994 þar sem kom fram að það ár hefðu verið etnar 110.000 rjúpur. All­ar þær veiðitölur sem við höfum fengið til þessa hafa staðist. Þó vil ég benda á, og þá sérstaklega gæsa­veiði­mönnum sem veiða saman, að skipta aflanum eftir veiðiferðir svo veiðin verði ekki tvískráð á veiðiskýrslur.

 

Hvernig eru veiðitölurnar notaðar?

Margir halda að veiðitölurnar séu settar inn í einhverja jöfnu, síðan margfaldað, deilt, dregið frá og þannig fáist út einhver veiðikvóti sem settur verði á. Síðan skrifa menn kannski meiri veiði á skýrslurnar til þess að sýnast vera með meiri veiðireynslu og halda að þeir fái aukinn kvóta út á það (Smugu­syn­dróm). Í þetta verða veiðitölurnar aldrei notaðar, einfaldlega vegna þess að það er óframkvæmanlegt. Í fyrsta lagi eru veiðiskýrslurnar nafnlausar og í öðru lagi þá þyrfti að ráða aragrúa veiðieftirlitsmanna til þess að fylgjast með veiðimönnum. Veiðitölur eru ekki annað en eitt tæki af mörgum til þess að fylgjast með villtum dýrastofnum á Íslandi og í raun verða þær fyrst dýr­mætar þegar við erum búnir að fá veiði­tölur fyrir 10-15 ár. Þær eru notað­ar ásamt merkingum og taln­ing­um til þess að meta veiðiálag á stofna. Í framtíðinni verða veiðikortakerfið og veiðitölurnar því hið mesta hags­muna­tæki fyrir skotveiðimenn þegar upp koma spurningar um friðun og vernd veiðistofna.

 

Hvað er framundan?

Veiðistjóraembættið markaði sér þá stefnu í upphafi veiðikorta­kerf­­isins að vera sveigjanlegt og opið fyrir breytingum. Við stefnum að því að geta á næsta ári boðið veiðimönnum upp á að velja stærð á veiðikortunum (kredit­korta- eða veiðileyfastærð) og einnig að efla heimasíðu okkar á net­inu. Við settum okkur það markmið að lækka rekstrarkostnaðinn ár frá ári og það virðist ætla að takast. Ég þakka veiðimönnum ánægjuleg samskipti á liðn­um árum og SKOTVÍS fyrir frá­bært samstarf og vona sannarlega að fram­hald verði þar á.

Áki Ármann Jónsson
veiðistjóri

Tags: mér, hafði, lét, þar, málið, þetta, hverju, okkar
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Veiðikortakerfið