Veiðar manna og dýra

Veiðimenn hafa hins vegar safnað gríðarlegum fjárhæðum sem runnið hafa til náttúruverndarmála. Í því sam­bandi mætti nefna endurvinnslu vot­lendis og annars kjörlendis fyrir villt dýr og vísindarannsóknir. En hvað skyldi nú vera helsta ógnunin við villt dýr? Eru það skotveiðimenn?

  52-55-1.jpg

Veiðar manna og dýra

Við megum ekki gleyma því að það eru ýmsir aðrir en maðurinn sem veiða, mörg dýr lifa á veiðum. Þessi dýr köllum við rándýr, alla vega sum þeirra, en í flestum tilvikum er það rangnefni þar sem dýrin eru ekki að ræna neinu. Veiðarnar eru í nátt­úru­legu eðli þeirra. Það er ekki fyrr en maðurinn fer að ráðskast með nátt­úr­una og reyna að aðlaga hana sínum þörfum að illa fer og dýr verða að rándýrum. Í því sambandi mætti nefna innflutning á villimink til Íslands á sín­um tíma. Minkurinn hefur haft meiri og afgerandi áhrif á íslenska náttúru en allar skotveiðar landsmanna frá upphafi. Breska skotveiðifélagið lét kanna veiðar annarra „dýra“ en mannsins í Bretlandi. Niðurstöður rannsóknarinnar voru m.a. birtar í tímaritinu Shooting Times. Greinin í blaðinu nefndist Mirror, mirror on the wall, who’s the baddest of them all? Í könnuninni voru athugaðar veiðar 16 dýrategunda. Sum dýranna voru mjög afkastamikil við veiðarnar, það sem kom þó mest á óvart var að það dýr sem sló öll met við veiðarnar var kisi, gamli góði heimiliskötturinn. Breskir kettir drepa árlega 250 milljónir fugla og annarra dýra.

 

Ógnunin mikla

Dýrunum stafar þó ekki mesta hætt­an af veiðum manna og dýra. Það eru margir ógnvaldar sem eru mun hættu­legri og einn þeirra er bíllinn. Rann­sóknir í Svíþjóð sýna að þar í landi verða 500.000 - 1.000.000 fuglar fyrir bíl árlega og drepast. Þá verða um 250.000 - 500.000 ýmissa smádýra fyrir bíl. Í því sambandi mætti nefna brodd­gelti, héra, kanínur, íkorna og refi. Við þessar tölur bætast svo stærri dýr eins og elgir og hirtir. T.d. er vitað að 25.000 hérar, 40.000 kanínur og 20.000 fasanar eru drepin árlega í umferðinni í Svíþjóð. Þetta eru helm­ingi fleiri dýr en eru árlega skotin af veiði­mönnum. Helsta ógnunin við villta fugla í Ástralíu er gríðarlegt skóg­ar­högg, einn af hverjum fimm fugl­um er í útrýmingarhættu vegna þess. Áætlað er að 71/2 milljón fugla drepist árlega vegna skógarhöggsins og talið er að hvorki fleiri né færri en 25 fuglategundir hafi dáið út vegna þess. Nútíma tækni og óstjórnleg græðgi mannsins er því helsta ógnunin við villt dýr - ekki veiðar.

 

Veiðimenn - stöndum vörð um náttúruna

52-55-4.jpg Það er skylda allra veiðimanna að vernda náttúruna eins vel og kostur er. Vitaskuld viljum við nýta hana og við viljum að þeir dýrastofnar sem við veiðum úr séu sterkir og hraustir. Öll viljum við getað stundað veiðar úti í náttúrunni um ókomin ár. Reynsla erlendis frá hefur sýnt okkur að ýmis mannanna verk geta haft hörmulegar afleið­ing­ar og hafa hreinlega orðið til þess að villtir dýrastofnar hafa hrunið. Iðulega eru þess­ar um­deildu framkvæmdir sagð­ar gerðar til að skapa atvinnu og auka hagsæld. Íslensk náttúra er viðkvæm, þess vegna verð­um við að kanna vel hvað allt rask í náttúrunni hefur á villt dýr. Þetta á við um allar fram­kvæmd­ir, svo sem lagningu vega, rafmagnslína, gerð uppi­stöðu­lóna, jarðgangna og ekki síst áhrif mengandi efna sem sleppt er út í náttúruna. Með sam­stilltu átaki þjóðarinnar tókst að bjarga Eyjabökkum frá eyðileggingu. Nú eru fyrir­hug­aðar miklar breytingar á vinnslu kísilkúrs úr Mývatni. Mývatnssvæðið er einstakt á norðurhveli jarðar og ef vist­væn­um eiginleikum þess er breytt þá er verið að breyta fyrir­bæri sem ekki er til annars staðar í veröldinni. Gísli Már Gíslason prófessor hefur bent á að í raun sé Mývatn anda­verks­miðja Evrópu. Sá fjöldi andar­unga sem kemst á legg við Mývatn samsvarar fjölda þeirra andarunga sem lifir af í allri norðanverðri Skandina­víu. Þess vegna koma fyrir­hug­aðar framkvæmdir í Mý­vatni okkur skotveiðimönnum við. Nauðsynlegt er að fá úr því skorið hvaða áhrif fyrir­huguð kísilgúrvinnsla úr Mý­vatni muni hafa á fuglalífið.

Sigmar B. Hauksson
formaður SKOTVÍS
Tags: hafa, samtök, skot-, telja, falsa, ýmsir, ljúga, dýr, vinnubrögð, íslendingar, staðreyndir, mætavel, veiðar, þessi, þessum
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Veiðar manna og dýra