Umferðarréttur og skotveiðar

Hugtakið umferðarréttur

Í sinni einföldustu og rýmstu mynd má segja að í um­ferðarrétti felist réttur manna til frjálsrar farar um land, lög og loft og réttur til dvalar í skemmri tíma í tengsl­um við för. Réttur þessi er svo mis­mun­andi m.a. eftir eignar­haldi á því svæði sem ferðast er um, mann­virkjum sem þar hafa verið reist, ferðamátanum sem notaður er og hvort um er að ræða land, vatn eða sjó, eins og vikið verð­ur að hér á eftir.

 

Staða innan fræðikerfis lögfræðinnar

Um umferðarrétt al­menn­ings er að mestu fjallað í til­tölulega ungri fræði­grein lög­fræðinnar um­hverfis­­réttinum. Hann hefur verið skil­greind­ur sem safn þeirra réttarreglna sem fjalla um vernd umhverfis okkar í víð­tækum skilningi. Undir þetta réttarsvið fellur því einnig veiðilöggjöfin. Um­hverfis­rétturinn hefur þó tæpast meiri tengsl við nokkra aðra grein lögfræðinnar en eignar­réttinn enda fjallar umhverfis­rétt­urinn öðrum þræði um þær skorður sem eignarréttinum eru settar til vernd­ar umhverfinu. Umræðan um um­ferðar­rétt almennings fellur í raun undir þessi tvö réttarsvið, umhverfisrétt og eignarrétt, þar sem almannaréttur hefur ávallt í för með sér takmarkanir á eignarráðum annarra. Í umræðu um umferðarrétt almennings rekast því ávallt á tvenn sjónarmið sem erfitt er að samræma þ.e. annars vegar kröfur land­eig­anda um fullkomin yfirráð yfir landar­eignum í skjóli eignarréttar og hins vegar hagsmunir almennings um að fá að ferðast um landið án tálmana.
Félagsleg náttúruvernd og almannaréttur
Reglurnar um umferðarrétt almenn­ings eru reistar á náttúru­vernd sem byggir á félagslegum við­horf­um eða svokallaðri félagslegri nátt­úruvernd. Með henni er átt við það vaxandi hlutverk náttúruverndar, að tryggja að almenningur geti notið nátt­úrunnar með sem flestum gæðum henn­ar. Megininntak félagslegrar nátt­úru­verndar er því umferðar- og dvalar­réttur almennings. Félagsleg náttúru­vernd fjallar því um og stuðlar að hin­um svokallaða almannarétti þ.e. lög­vörð­um heimildum almennings til um­ferðar um fósturjörðina og til annarrar nýtingar landsins gæða s.s. til veiða og berja-, blóma- og grasatínslu ofl. Um­ferðar- og dvalarrétturinn eru því mikil­vægustu réttindin sem felast í almanna­rétti og í raun grundvöllur þess að hægt sé að njóta hinna rétt­ind­anna sem í honum felast. Meginákvæði íslenskra laga um umferðarrétt er í 14. gr. náttúruverndarlaga. Auk hennar eru fleiri ákvæði í náttúruverndarlögum er varða umferðarrétt almennings en um hann er og fjallað í ýmsum öðrum lög­um eins og nánar verður vikið að hér á eftir.

 

Forn lög um umferðarrétt almennings

Grágás

Í upphafi Íslandsbyggðar var hug­takið náttúruvernd auðvitað ekki til, hvað þá hugtakið félagsleg náttúru­vernd. Það þýðir hins vegar ekki að um­ferðar- og dvalarréttur almennings hafi ekki verið til staðar. Í Grágásar­lögum, hinum fornu lögum þjóð­veld­is­ins sem giltu til ársins 1271, voru ýmsar reglur um umferðar- og dvalarrétt almenn­ings. Ekki er ætlunin hér að fara djúpt í réttarsöguna en þó má minnast á nokkur ákvæði.
Samkvæmt Grágás virðist mönn­um almennt hafa verið heimilt að fara um annarra manna lönd enda annars óhægt um vik að ferðast þar sem engir voru vegirnir og því óhjá­kvæmi­legt að fara um lönd annarra. Í mörgum ákvæðum Landbrigðisþáttar er þannig gert ráð fyrir umferð manna um annarra lönd. Sem dæmi um þetta má nefna 50. kap. Þar sem mönnum voru heimilaðar veiðar fugla í annars landi er á götu þeirra yrðu á leið um landið. Mönnum var einnig heimilt að fara gagngert til veiða í annarra lönd til að veiða nokkrar tegundir fugla, refi, birni og rostunga. Til þess að auðvelda um­ferð voru einnig nokkuð mörg ákvæði, t.d. varð skv. 17. kap Landa­brigðis­þátt­ar að setja hlið með hjörum lægi garður um þjóðbraut þvera. Samkvæmt 37. kap. var mönnum heimilt að höggva við er óx um þjóðbraut þvera og tálm­aði för.
þar sem menn fóru hægar yfir en menn gera í dag á malbikuðum veg­um og vélfákum, var umferðar­rétt­ur­inn sem slíkur lítils virði ef menn gátu ekki áð og leyft hestum sínum að bíta og hvílast eða aflað sjálfum sér mat­ar á langri för. †mis ákvæði voru því um þetta. Þannig máttu menn t.d. æja hrossum sínum í annarra landi um sum­ar, þar sem mættist slátta og sina, en eigi skyldi í sláttu æja, skv. 35. kap. og skv. 50. kap máttu menn veiða fugla á för um landið og tína ber og söl til átu á staðnum. Almennt verður því að segja að almannarétti til umferðar hafi verið nokkuð vel borgið í þjóð­veldis­lög­un­um.

 

Jónsbók.

Um lögbók þá er Járnsíða kallað­ist og gilti frá 1271 þar til Jóns­bók leysti hana af hólmi 1281, verður ekki fjallað hér. Í Jónsbókarlögum voru keimlík ákvæði og í Grágásarlögum og umferðarréttur virðist því hafa verið nokk­uð á sama veg og áður. Ákvæði Jóns­bókar um veiði voru nánast sam­hljóða ákvæðum Grágásarlaga og virð­ast hafa gert ráð fyrir rúmum um­ferðar­rétti. Sem dæmi um önnur lík ákvæði er vörðuðu umferðarrétt mætti nefna 21. kap landsleigubálks en skv. henni var mönnum heimilt að höggva við er lá um þjóðbraut þvera og skv. 24. kap landsleigubálks var mönnum heim­ilt að æja hestum sínum þar sem ekki hafði verið slegið fyrr. Þess ber að geta að Jónsbók er að hluta talin gildandi réttur enn í dag þ.á.m. áðurgreind ákvæði 21. og 24. kap. landsleigubálks.

 

Meginregla náttúruverndarlaga um almannarétt til umferðar, sögudrög

Fyrstu náttúruverndarlögin nr. 48/1956.
Frá árinu 1965 hafa meginákvæðin um umferðarrétt almennings á landi verið í náttúruverndarlögum. Í 6. gr. fyrstu náttúruverndarlaganna, frá ár­­inu 1956, var fjallað um umferðarrétt almennings. Greinin hljóðaði svo: “Al­menningi er heimil för um land­svæði utan landareigna lögbýla, svo og dvöl á þessu svæði í lögmætum tilgangi. Gang­andi fólki er heimil för um óræktuð lönd manna utan þéttbýlis og dvöl þar í því skyni að njóta náttúr­unnar (sé land girt, er aðeins heimilt að fara í gegnum hlið á girðingunni), enda hafi dvöl þar ekki í för með sér óhagræði fyrir land­eig­anda eða aðra rétthafa að landinu. ... För um ræktuð landsvæði er háð leyfi for­ráðamanna lands, svo og dvöl þar.” Hlytist tjón af slíkri umferð skyldi greiða rétthöfum bætur eftir mati náttúru­verndarnefndar.

 

Núgildandi náttúruverndarlög

nr. 93/1996.
Ný náttúruverndarlög voru sett árið 1971 nr. 47/1971 og byggðu þau að stofni til á lögunum frá 1956. Í frum­varpinu sem fyrst var lagt fyrir Alþingi við breytinguna á lögunum árið 1971, var grein sem að mestu svar­aði til áðurnefndrar 6. gr. laganna frá 1956. Greininni var hins vegar breytt í meðförum þingsins og varð 11. gr. laga nr. 47/1971 því svohljóðandi: “Al­menn­ingi er heimil för um landsvæði utan landareigna lögbýla, svo og dvöl á þessum svæðum í lögmætum tilgangi. Gangandi fólki er því aðeins heimil för um eignarlönd manna, að þau séu órækt­uð og ógirt og að dvöl manna þar hafi ekki í för með sér ónæði fyrir bú­pen­ing né óhagræði rétthafa að land­inu. Sé land girt þarf leyfi landeiganda til að ferðast um það eða dveljast á því. Sama gildir um ræktuð landsvæði.”
Með þessari breytingu var um­ferðarréttur almennings tak­markaður frá því sem áður hafði verið því nú var almenningi óheimilt að fara um girt lönd án leyfis. Áður hafði mönn­um verið heimilt að fara um órækt­uð girt svæði, þó ekki nema í gegn­um hlið á girtum svæðum. Þessi breyting var því í ósamræmi við eitt meginhlutverk náttúruverndarlaganna skv. 3. mgr. 1. gr. Þeirra þ.e. að lögin ættu að auðvelda þjóðinni umgengni við náttúru landsins og auka kynni af henni (félagsleg náttúruvernd). Líklega hafa margir Alþingismenn ekki gert sér grein fyrir því hvaða áhrif þessi breyt­ing gæti haft enda fór hún í gegnum Alþingi án þess að haldbær rök sé að finna fyrir henni í lögskýringar­gögn­um. Ný náttúru­verndar­lög voru svo sett árið 1996, en með þeim voru gerð­ar viðamiklar breyt­ingar á stjórn nátt­úru­verndarmála en fáar efnisbreytingar. Fyrrnefndri 11. gr. var ekki breytt en hún varð að 14. gr. nýju náttúru­verndar­­laganna nr. 93/1996.

 

Umferð um eignarlönd

Almennt

þar sem umferðarréttur er í raun hluti eignarréttarlegra réttinda skiptist landið í grundvallaratriðum í tvennt hvað heimildir til umferðar varðar þ.e. annars vegar land sem undir­orpið er beinum eignarrétti manna þ.e. eignarland s.s. heimalönd jarða og hins vegar land utan landar­eigna lögbýla þ.e. almenninga og afrétti sem ekki eru háðir einstaklings­eignar­rétti. Um umferð um eignarlönd verður fjallað fyrst, en með eignarlandi er átt við landsvæði sem lúta einstakl­ings­eignarrétti tiltekins aðila og getur þar verið um að ræða sérhvern þann aðila sem átt getur réttindi og borið skyld­ur skv. íslenskri réttarskipan þ.m.t. ríkið sjálft. Sá hængur er þó á þessari að­greiningu að hún getur verið nokkuð óljós, þar sem orkað getur tvímælis hvaða svæði eru háð einstaklings­eignar­rétti og hver séu mörk þeirra. Yfir­lýs­ing­ar um landamerki í afsölum og landa­merkjaskrám eru ekki öruggar eignar­heimildir að hálendissvæðum eins og nýlegir dómar Hæstaréttar hafa leitt í ljós. Þessi mörk verða því oft ekki leidd í ljós nema að undangenginni ítarlegri rannsókn hverju sinni.

Meginreglan um umferðarbann án leyfis og 2. mgr. 14. gr. náttúruverndarlaga.
Frá upphafi Íslandsbyggðar hefur ein­staklingseignarrétturinn verið einn af hornsteinum réttar­skipunar­inn­ar og svo er enn í dag. Samkvæmt íslenskri lögfræði er á því byggt að í eignar­rétti felist heimildir til hvers konar umráða og ráðstafana yfir hlut, að svo miklu leyti sem ekki eru sér­stak­ar takmarkanir á því gerðar í lögum. Eigandi fasteignar (þ.m.t. lands) ræður því yfir henni með öllum gögnum og gæðum þ.m.t. hverjir um hana fara svo fremi að ekki séu gerðar sérstakar tak­mark­anir á þessum rétti hans í lögum. Í raun má því segja að umferð um eignar­lönd án leyfis land­eig­anda sé óheimil mæli lög ekki sérstaklega fyrir um slíkan rétt.
Á nokkrum stöðum í lögum er, af tilliti til almannahagsmuna, mælt fyrir um slíkar heimildir almennings. Mikilvægustu fyrirmælin af þessum toga er að finna í 2. mgr. 14. gr. náttúru­verndarlaga nr. 93/1996 og segja má að þau séu meginregla íslensks réttar um umferðarrétt almennings um eignarlönd. Samkvæmt greininni þurfa fjögur skilyrði að vera uppfyllt til að mönnum sé heimil umferð um eignar­lönd án samþykkis landeiganda.
Í fyrsta lagi er einungis fótgangandi mönnum heimil umferð um eignarlönd án leyfis. Því er almennt óheimilt að ferðast um eignarlönd á ann­an hátt. Fræðimenn hafa þó talið að rétt sé að líta svo á að för á annan hátt sé heimil, valdi hún almennt ekki meiri spjöllum eða truflun en umferð fót­gan­gandi manna s.s. för á skíðum, skautum ofl. Í öðru lagi þarf land að vera ógirt. Í þriðja lagi þarf land að vera óræktað og í fjórða lagi má dvöl manna hvorki hafa í för með sér ónæði fyrir búpening né óhag­ræði fyrir rétt­hafa. Öll þessi skil­yrði þurfa að vera uppfyllt. Í öðrum til­vikum þarf því leyfi landeiganda eða rétt­hafa. Það má því segja að réttur almenn­ings til umferðar um eignar­lönd sé alfarið undir landeiganda kominn þar sem hann getur afnumið allan slíkan rétt með því einu að girða land sitt af. Sérreglur rýmka þennan rétt þó nokkuð eins og komið verður að hér á eftir.
Á grundvelli sama ákvæðis, að uppfylltum sömu skilyrðum, er mönnum heimil dvöl eða skömm viðstaða t.d. í tjaldi, á óræktuðum og ógirtum eignarlöndum. Hve lengi slík dvöl er heimil er hins vegar óljóst en einnar nætur dvöl hlýtur að teljast í lagi enda tjalda menn sjaldan skemur en til einnar nætur.
þrátt fyrir að jörð fari í eyði fellur réttur eiganda hennar ekki niður. Sömu reglur gilda því um slíkar jarðir og önnur eignarlönd. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. ábúðarlaga, nr. 64/1974, telst jörð eyðijörð hafi hún ekki verið setin í tvö ár. Hún telst þó engu að síður til lögbýla. Réttur manna til umferðar um slíkar jarðir getur þó orðið rýmri falli ræktað land í órækt, þar sem fjarlægja ber girðingar á eyðijörðum sem ekki eiga að byggjast aftur skv. 1. mgr. 3. gr. girðingarlaga nr. 10/1965. Þetta gildir þó bara að engin not séu af girðingunni.

 

Vegalög

nr. 45/1994

Flokkun vega, þjóðvegir og almannavegir

Samkvæmt vegalögum eru vegir í grófum dráttum flokkaðir í fjóra flokka: þjóðvegi, almannavegi, einka­vegi og vegi sem ekki tilheyra neinum hinna flokkanna. Almenningi er að sjálfsögðu heimil för um alla þjóðvegi landsins en það eru þeir vegir skv. 7. gr. vegalaga „... sem ætlaðir eru almenn­ingi til frjálsrar umferðar, haldið er við af fé ríkisins og upp eru taldir í vegaáætlun, safn­vega­áætlun og landsvegaskrá.“ Almenn­ingi er einnig heimil för um svokallaða almannavegi, en það eru þeir vegir, skv. 1. málsl. 9. gr. vegalaga, „...sem ekki teljast þjóðvegir en eru í eigu opinberra aðila og eru ætlaðir almenningi til frjálsr­ar umferðar.“

 

Einkavegir

Samkvæmt 2. málsl. 9. gr. vegalaga eru einkavegir „...þeir vegir sem ekki teljast þjóðvegir og eru kostaðir af einstaklingum, fyrirtækjum eða opin­berum aðilum.“ Um þá gildir sú megin­regla, skv. 10. gr. vegalaga sbr. 1. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 14. gr. Þeirra, að eigendur þeirra hafa fullt forræði yfir þeim þ.m.t. hverjir mega nota þá. Þessu forræði eiganda vegarins (veghaldara) geta þó verið takmarkanir settar sem leiða til þess að almenningur eigi rétt á að ferðast um veginn. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. vegalaga getur ráðherra heimilað eignarnám lands til lagningar einkavega. Slíka heimild getur hann bundið ýmiss konar skilyrðum, skv. 2. mgr. greinarinnar, s.s. um umferðarrétt um veginn. Annað er að skv. 16. gr. vegalaga er heimilt að veita fjárveit­ing­ar til lagningar ýmissa vega þ.m.t. vega sem falla myndu undir einkavegi. Sam­kvæmt 3. mgr. 16. gr. má binda slíka fjár­veitingu skilyrðum um afnot vegar. Það er því rann­sóknar­efni hverju sinni hvort almenningi er heimil umferð um einkavegi en meginreglan er þó sú að umferð er ekki heimil án samþykkis eig­anda. Þetta gildir þó bara um annars konar umferð en umferð fótgangandi manna, því almennt verður að telja að meginregla 14. gr. náttúruverndarlaga gildi um fótgangandi vegfarendur þótt um veg sé farið. Sé einkavegur ógirtur (vegur telst girtur þó á honum sé hlið) er umferð gangandi vegfarenda heimil um hann að öðrum skilyrðum 14. gr. uppfylltum.

 

Vegir, stígar og götutroðningar sem ekki teljast til neins vegaflokks

Mikilvæg regla um umferðarrétt almennings kemur fram í 40. gr. vegalaga. Samkvæmt henni er landeiganda heimilt gera girðingu yfir veg, stíg eða götutroðning er liggur yfir land hans og telst ekki til neins vegaflokks. Honum er þó skylt að hafa hlið á veginum. Slíku hliði má hann ekki læsa, né má hann með öðru móti hindra umferð um veginn, nema með leyfi sveitarstjórnar. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar má skjóta úrskurði sveitar­stjórnar til vegamálastjóra. Þessi grein tak­markar því ákvæði 14. gr. nátt­úru­verndar­laganna þannig að öllum er heimil umferð eftir vegi, stíg eða götu­troðningi, þótt um ræktað eða girt land liggi, sé vegurinn ekki einkavegur. Það kann hins vegar að vera erfiðleikum bundið að skera úr um það hvort slíkur vegur telst einkavegur og erfitt er að gefa almennar leið­bein­ingar um slíkt mat. Þó mætti hafa hlið­sjón af því hvort vinna og kostnaður hefur verið lagður í „veginn“, breidd hans, tilgangi o.fl. Slóðar eða þröngir stígar falla þó væntanlega utan hugtaksins einkavegur. Engin takmörk eru sett fyrir því hvernig ferðast megi um slíka “vegi” og því verður að gera ráð fyrir að heimilt sé að fara um þá á ökutækjum er henta við­komandi „vegi“.

 

Umferðarréttur almennings meðfram ám, vötnum og sjó

Samkvæmt 25. gr. náttúru­verndar­laga nr. 93/1996, er bannað að setja byggingar, girðingar eða önnur mannvirki á sjávarströnd eða vatns­bakka og árbakka þannig að hindri frjálsa umferð fótgangandi manna. Bannið nær þó ekki til þeirra bygginga eða mannvirkja sem nauðsynleg eru vegna atvinnurekstrar, þ.m.t. íbúðarhús bænda, né þau sem reist eru með leyfi réttra yfirvalda skv. gildandi skipulagi.
Bann við gerð mannvirkja, er hindra frjálsa för um þessi svæði skv. 25. gr. náttúruverndarlaganna, þreng­ir meginreglu 14. gr. Þeirra og rýmk­ar umferðarrétt fótgangandi manna. Því þarf ekki að leita leyfis land­­­eiganda til þess að ganga meðfram ám, vötnum eða sjávarströnd. Hvað varð­ar umferð að slíkum svæðum, vegna umferðar meðfram þeim, gilda reglur 14. gr. náttúruverndarlaga sem áður er lýst og reglur vegalaga. Rýmri reglur um umferð að slíkum svæðum gilda þó skv. ákvæðum vatnalaga, í tengslum við umferð á vatni eins og greint verður frá hér á eftir.
Umferðarréttur almennings á ám, vötnum og sjó.
Í vatnalögum nr. 1571923 eru ýmis ákvæði um umferðarrétt. Sam­kvæmt 11. gr. Þeirra er öllum heimilt að nota vatn til sunds, umferðar, einnig á ís, þar sem landeiganda er það baga­laust, enda fari það ekki í bága við lög, sam­þykktir eða annað lögmætt skipu­lag. Í 115. gr. laganna er svo mælt fyrir um það að öllum sé rétt að fara á bátum og skip­um um öll skipgeng vötn og skurði. Ráð­herra getur þó bannað almenn­ingi slíka umferð. Heimild til um­ferðar um land vegna slíkrar um­ferðar er svo veitt í 2. mgr. 119. gr. sbr. og 117. gr. laganna. Sam­kvæmt henni er öllum er nota vatn til umferðar eða fleyt­ingar heimil sú um­ferð um vatns­bakka og afnot af honum sem nauð­syn­leg er vegna umferðar um vatn­ið. Þetta sér­ákvæði gengur því framar ákvæðum 14. gr. náttúru­verndar­laga og veitir mun rýmri rétt til umferð­ar en það, bæði um ræktuð og girt lönd.
Hvað varðar umferð um hafið þá er þess að geta að almenningi er örugglega heimil umferð utan netlaga jarða, en telja verður að þau nái 115m frá stórstraumsfjöruborði. Hvað um­ferð um netlög varðar telja fræðimenn að sama regla gildi og skv. 11. gr. vatna­laga þ.e. að öllum sé heimil umferð um netlög án leyfis, sem er eiganda að meina­lausu.

 

Sérreglur um umferðarrétt veiðimanna

Undantekningarregla 10. gr. laga nr. 64/1994, “villidýralaga”
Eins og áður hefur verið greint frá höfðu menn nokkuð rúman rétt til veiða og umferðar um eignarlönd, skv. ákvæðum Jónsbókar. Með veiði­til­skip­uninni frá 1879 var almannaréttur til veiða á eignarlandi að mestu felldur niður. Réttur landeiganda var það sterk­­ur að óheimilt var að elta særðan fugl inn á annarra land án leyfis. †mis ákvæði hafa þó heimilað rýmri rétt til um­ferðar um eignarlönd vegna veiða t.d. 5. gr. laga nr. 89/1941, um eyðingu svart­baks og 7. gr. veiðitilskipunar­inn­ar. Öll slík ákvæði hafa nú verið felld úr gildi.
Eitt ákvæði veitir veiðimönnum þó rýmri rétt til umferðar en öðrum. Samkvæmt 2. mgr. 10. gr. „villidýra­lag­anna“ er veiðimanni skylt að hirða bráð sína. Særi hann dýr ber honum að elta það uppi og aflífa sé þess nokkur kostur. Í því skyni er veiðimanni bæði skylt og heimilt að elta særða bráð inn á land sem hann hefur ekki heimild til að fara um né veiða á. Heimild þessi byggir á mann­úðarsjónarmiðum, en til að koma í veg fyrir misnotkun er kveðið á um að í slíkum tilvikum sé bráðin eign land­eiganda.

 

Ríkisjarðir

Jarðir í eigu ríkisins falla undir hugtakið „landareignir lögbýla“ í 1. mgr. 14. gr. náttúruverndarlaganna. Veiðar og umferð um þær án leyfis er því óheimil. Þetta hefur mörgum sviðið þar sem jarðir þessar eru sumar lítt nýtt­ar og jafnræðis hefur ekki verið gætt hvað varðar aðgang að þeim. Þann 7. mars 1997 skipaði umhverfisráðherra nefnd sem gera átti tillögu um, hvernig unnt væri að veita skotveiðimönnum aðgang að slíkum jörðum. Nefnd þessi lauk störfum sl. vetur.
Hún gerði það að tillögu sinni að eyðijarðir í eigu ríkisins yrðu opn­að­ar skotveiðimönnum eins og kost­ur væri. Annars vegar er gert ráð fyrir að skot­veiðar verði heimilaðar á eyði­jörð­um, sem ekki eru í leigu eða nýtt­ar með öðrum hætti og hins vegar á jörðum sem eru í leigu, hafi jarðadeild Land­búnaðar­ráðuneytisins gert sam­komu­lag um slíkt við leigutaka. Gert er ráð fyrir að listi yfir slíkar jarðir, ásamt landa­merkja­lýsing­um og reglum fyrir skotveiði­menn, verði birtur í B-deild Stjórnar­tíð­inda við upphaf hvers veiði­tíma­bils. Fyrsta slíka auglýsingin verð­ur vænta­lega birt nú á haustdögum. Slíkar aug­lýs­ingar eru því fyrirfram sam­þykki land­eiganda um heimild til umferðar og veiða á slíkum jörðum og rýmkar um­ferðarréttur skotveiðimanna til muna, enda um nokkuð margar jarð­ir að ræða.

 

Umferð utan eignarlanda

Meginregla 1. mgr. 14. gr. náttúruverndarlaga nr 93/1996.
Samkvæmt 1. mgr. 14. gr. náttúru­vern­darlaga er almenningi heimil för um landsvæði utan landareigna lög­býla, þ.e. svæði sem ekki eru háð ein­stakl­ings­eignarrétti, s.s. afrétti sem svo er ástatt um og almenninga.
Með afréttum er í víðtækasta skilningi átt við hvers konar land ofan byggðar, sem notað er til sumar­beitar fyrir búfé. Menn verða þó að hafa í huga að afréttir geta verið í einka­eigu og þá gilda um umferðarrétt sömu reglur og skv. 2. mgr. 14. gr. náttúruverndarlaga. Þegar réttindi til afréttar byggir einvörðungu á upp­rekstrar- eða beitarrétti frá fornu fari, er við það miðað að einungis sé um afréttareign viðkomandi aðila að ræða, en ekki fullkomið eignarland. Þá gildir regla 1. mgr 14. gr. náttúr­urverndar­laga. Allar líkur benda til þess að svo sé um flesta afrétti á landinu, sbr. nýlega dóma Hæstaréttar. Með almenningum er átt við landsvæði, sem engin getur talið til einstaklingseignarréttinda yfir. Almenningar geta því einnig verið afréttir. Sömu reglur gilda um um­ferðar­rétt um almenninga og afrétti í afréttareign.

 

þjóðlendur

skv. lögum nr. 58/1998
Á Alþingi nú á vordögum árið 1998, voru lögfest lög nr. 58/1998, um svokallaðar þjóðlendur. Þessi lög marka ákveðin tímamót þar sem þeim er ætlað á næstu árum að leysa úr þeim endalausu deilum sem staðið hafa í áratugi um eignarhald á ýmsum hálendissvæðum hér á landi þ.e afréttum og almenningum. Segja má að megintilgangur laganna sé tvenns konar. Annars vegar að skera úr um það í eitt skipti fyrir öll hvaða afréttir séu háðir einstaklingseignarrétti og hins vegar að kasta eign ríkisins á þá afrétti sem ekki eru háðir slíkum rétti, því þrátt fyrir að enginn hafi getað sannað einstaklingseignarrétt að svæði hafa dómstólar ekki fallist á að slík svæði væru í eigu ríkisins sbr. t.d. Hæsta­réttar­dóm frá 28. desember 1981 (Land­mannaafréttardómur seinni). Í grófum dráttum verður þetta gert með þeim hætti að sett verður á laggirnar nefnd (óbyggðanefnd) sem kanna á hvernig eignarrétti er háttað að landi. Hún skal svo úrskurða um það hvort land fellur undir eignarland eða þjóð­lendu en skjóta má úrskurðum hennar til dómstóla. Miðað er við að nefndin hafi lokið störfum fyrir árið 2007.
Í 1. gr. laganna er þjóðlenda skilgreind svo, Landsvæði utan eignar­landa þó að einstaklingar eða lög­aðilar kunni að eiga þar takmörkuð eignarréttindi. Undir þjóðlendur falla því almenningar og afréttir sem ekki teljast til eignarlands. Í 2. gr. laganna er kveðið á um það að íslenska ríkið sé eigandi lands og hvers konar lands­réttinda og hlunninda í þjóðlendum sem ekki eru háðar eignarrétti. En hvað þá um umferðarrétt almennings á svæðum sem gerð verða að þjóð­lend­um? Verður hann eins þröngur og á eignarlöndum fyrst ríkið telst eigandi þeirra?
Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að með lögunum sé verið að skipta landinu annars vegar í eignarlönd og hins vegar þjóðlendur. Í þessu felst að gerður er munur á eignarlöndum og þjóðlendum þrátt fyrir að þjóðlendur verði undirorpnar eignarrétti ríkisins. Óþarfi er að gera þennan greinarmun ef sömu reglur eiga að gilda um þessi svæði. Víða í greinargerðinni kemur einnig fram að umráð ríkisins sem eiganda verða ekki hin hefðbundnu og virku eignarráð landeiganda, heldur stendur ríkið álengdar sem eins konar forræðisaðili.
Í 1. gr. laganna er eignarland skilgreint þannig, “Landsvæði sem er háð einkaeignarrétti þannig að eigandi landsins fer með öll venjuleg eignarráð þess innan þeirra marka sem lög segja til um á hverjum tíma”. Í 1. mgr. 14. gr. laga um náttúruvernd segir, eins og áður hefur verið getið, að almenningi sé heimil för um landsvæði utan landareigna lögbýla. Þetta ákvæði hefur verið túlkað þannig að almenningi sé heimil för um svæði sem ekki eru háð einkaeignarrétti og eru því ekki eignarlönd. Því verður að telja að almenningi verði almennt heimil för um þjóðlendur, svo og dvöl þar í lögmætum tilgangi skv. 1. mgr. 14. gr. náttúruverndarlaga, enda verða þær ekki að eignarlöndum í hefbundinni merkingu þess hugtaks.
Um afrétti og almenninga og þ.a.l. bráðlega þjóðlendur, er almenn­ingi því heimil för og er engin áskiln­aður gerður um það hvernig ferðast megi. Mönnum er því almennt heimilt að fara um slík svæði þótt girt séu eða stunduð sé á þeim ræktun. Umferð um þessi svæði er þó ákveðin takmörk sett af ákvæðum náttúruverndarlaga. Annars vegar af almennum ákvæðum um umgengni um þessi svæði og hins vegar vegna reglna er gilda um sérstök náttúruverndarsvæði.
Almennar umgengnisreglur í náttúruverndarlögum
Í 1. mgr. 16. gr. náttúruverndarlaga er orðuð sú grundvallarregla að öllum sé skylt að sýna varúð svo að náttúru landsins sé ekki spillt að þarflausu. Spjöll sem framin eru á náttúru landsins, með ólögmætum hætti af ásetningi eða gáleysi, varða refsingu.

 

Akstur utan vega

Ráðherra skal, skv. 2. mgr. 16. gr., setja reglugerð um akstur utan vega, umferð hesta, umgengni í óbyggðum, merkingu bílaslóða og vega, og leyfilegan öxulþunga vél­knú­inna ökutækja sem fara um óbyggð svæði. Þar sem hætta er á náttúru­spjöll­um er akstur utan vega og merktra slóða óheimill. Meginreglan er því sú að akstur utan vega er leyfilegur. Reglur skv. greininni setti ráðherra með auglýsingu nr. 433/1993. Sam­kvæmt þeim er allur óþarfa akstur utan vega og merktra slóða þar sem náttúru­spjöll geta hlotist bannaður. Með náttúruspjöllum er einkum átt við spjöll á gróðri, jarðvegi og jarðmynd­unum og myndun nýrra slóða. Nauðsynlegum akstri í óbyggðum skal jafnan haga svo að engin náttúruspjöll eða lýti á landi hljótist af.
Samkvæmt 3. mgr. 16. gr. náttúru­verndarlaga getur Náttúruvernd ríkisins í verndarskyni, tímabundið takmarkað umferð eða lokað svæðum í óbyggðum. Slíkar ákvarðanir ber ráð­herra að staðfesta og birta í Stjórnar­tíðindum.

 

Umferðarréttur um náttúruverndarsvæði

Í 26.-33. gr. náttúruverndarlaga er fjallað um stofnun ýmissa náttúru­vernda­rsvæða s.s. náttúruvætta, frið­landa, þjóðgarða og fólkvanga. Öll þessi svæði geta hvort heldur verið inn­an marka eignarlanda eða utan þeirra, nema hvort tveggja sé. Telja verður að meginreglur um umferðarrétt almenn­ings, um eignarlönd eða utan þeirra, gildi um slík svæði nema mönnum sé veitt­ur frekari réttur eða sérstakar tak­markan­ir á umferðarrétti gerðar í þeim stjórnvaldsreglum er hvert einstakt svæði varða. Hvað varðar friðlönd, skv. 28. gr. náttúruverndarlaga, skal í frið­lýs­ingu kveðið á um umferðarrétt almenn­ings og skv. 4. mgr. 29. gr. náttúruverndarlaganna, er fjallar um þjóðgarða, skal ráðherra setja reglugerð um meðferð og rekstur þjóðgarða og umgengni almennings.
Sem dæmi um takmarkanir í slíkum friðlýsingum má nefna að umferð er oft bönnuð á tilteknum tíma vegna fuglaverndunar. Í friðlýsingu Ástjarnar í Hafnarfirði er þannig kveðið á um umferðarbann frá 1. maí til 15. júlí, sbr. auglýsing í Stjórnar­tíð­ind­um B-deild, nr. 189/1978. Umferðar­bann getur þó gengið lengra en þetta og umferð verið alfarið bönnuð allt árið, sjá t.d. friðlýsingu Surtseyjar, Stjt. B-deild nr. 122/1974, eða óheimil án leyfis eða tilkynningar til náttúr­u­verndar­ráðs. Menn verða því að kynna sér þær reglur sem settar eru um hvert svæði fyrir sig. Reglur þessar ættu að vera mönnum nokkuð aðgengilegar þar sem umhverfisráðherra er skylt að gefa út náttúruminjaskrá fjórða hvert ár og auglýsa hana í Stjórnartíðindum. Síðasta auglýsing er nr. 631 frá árinu 1995. Auglýsingar þessar eru birtar í B-deild Stjórnartíðinda og í þeim er skrá yfir öll náttúruverndarsvæði og tilvísun í hvar reglur um hvert svæði sé að finna í Stjórnartíðindum. Sérstök lög kunna þó einnig að gilda um einstök svæði s.s. lög nr. 59/1928 um friðun þingvalla og lög nr. 53/1995 um vernd Breiðafjarðar og verða menn því að kynna sér þau.

 

Lokaorð

Breyttir búskapar- og atvinnu­hætt­ir, byggðaþróun og rýmri frítími hafa leitt til þess að þörf almennings fyrir hvers konar útivist hefur aukist. Bættar samgöngur, aukin kynning og heilsunæmi útivistar hefur einnig leitt til þess að sífellt fleiri gera útivist að áhugamáli sínu. Þessi þróun hefur endurspeglast í aukinni umræðu um þessi mál síðustu árin. Af þessum ástæðum hefur vægi félagslegrar náttúruverndar aukist til muna síðustu áratugi og mun fara vax­andi í fyrirsjáanlegri framtíð. Hvað umferðarréttinn varðar hefur ekki margt breyst á síðustu áratugum og lagaákvæðin um hann því að mörgu leyti úr takti við tímann og úrbóta því þörf. Þeirra kann þó að vera skammt að bíða, þar sem nú er að störfum nefnd sem vinnur að endurskoðun náttúru­verndar­laga nr. 93/1996, þ.á.m. Þeim ákvæðum er varða umferðarrétt almenn­ings.
Við þá endurskoðun er mikil­væg­ast að afnema bann við umferð um girt en óræktuð eignarlönd enda slíkt bann alveg ástæðulaust. Einnig mætti breyta hugtakanotkun eða skýra hugtökin út í viðkomandi greinum þannig að almenningi sé ljóst hvað átt er við. Rýmka mætti umferðarrétt um ræktuð lönd, á þeim tíma sem umferð um þau veldur hvorki tjóni né óhagræði fyrir eigendur þeirra s.s. Þegar jörð er frosin og snjór yfir öllu. Við breytingar sem þessar verður þó ávallt að hafa í huga stjórnarskrárvarinn eignarrétt manna en um leið má ekki gleyma því að almannaréttur til umferðar og til að njóta náttúrunnar, er einnig sjálfsögð mannréttindi sem ekki ber að skerða né takmarka að ástæðulausu eins og gert var með náttúruverndarlögunum frá 1971.

Ívar Pálsson
er í stjórn SKOTVÍS

Auk laga, Stjórnartíðinda og Alþingistíðinda var stuðst var við eftirtalin rit við samningu greinarinnar:

1. Árni Kolbeinsson 1995: 
Kröfur til landnota - árekstrar, rit landverndar, Útilíf og almannaréttur,    erindi flutt á ráðstefnu á Hótel Loftleiðum 24. apríl 1995.
2. Gunnar G. Schram 1995: Umhverfisréttur.
3. Grágás, 
útgáfa Gunnars Karlssonar, Kristjáns Sveinssonar og Marðar Árnasonar, 
Mál og Menning, Reykjavík 1992.
4. Karl Axelsson 1996: 
Um skorður umhverfisréttar við nýtingu lands og náttúruauðlinda, Tímarit lögfræðinga, 2. hefti.
5. Páll Sigurðsson 1981: 
Athugasemdir um nokkra þætti íslenskrar umhverfislöggjafar, 
Úlfljótur 1-2 tbl.
6. Páll Sigurðsson 1995: Almannaréttur, rit landverndar, 
Útilíf og almannaréttur, erindi flutt 
á ráðstefnu á Hótel Loftleiðum 24. apríl1995. Stefán Már Stefánsson 1978: Almannaréttur og landnýting, 
Úlfljótur 1. tbl.
7. Sigurður Líndal 1978: Almannaréttur og landnýting, Úlfljótur 1. tbl.
8. Þorgeir Örlygsson 1995:  
Um eignarhald á landi og náttúruauðlindum, 
Afmælisrit Gauks Jörundssonar. 

Tags: geta, þess, hafa, reglur, flókna, varða, ferðast, réttur, skil, skotveiðimenn, leitt, þó, menn, þessu
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Umferðarréttur og skotveiðar