Um óskýrar refsiheimildir og réttarstöðu veiðimanna

Picture 20.jpgMennirnir neituðu sök að öðru leyti en því að þeir játuðu að hafa ekki haft veiðikort meðferð­is umrætt sinn, en voru sakfelldir í málinu og hvorum þeirra um sig gert að greiða kr. 50.000 í sekt til ríkissjóðs, þola sviptingu á skotvopna- og veiðileyfi í eitt ár og upptöku á tveimur haglabyssum og 15 rjúpum.

 

Notkun vélsleða og fjór­hjóla er bönnuð við veiðar

Hér verður kastljósinu einkum beint að öðrum ákæruliðnum, þ.e. þeim að fara á vélsleða á veiðislóð.  Það skal áréttað strax að mennirnir voru ekki ákærðir fyrir veiðar af sleðun­um heldur að hafa farið á vélsleða á veiðislóð og gengið til veiða.
Mennirnir voru ákærðir fyrir brot á 17. tl. 1. mgr. 9. gr. laga um veiðar á villtum fuglum og spen­dýrum nr. 64/1994 (hér eftir nefnd veiðilög), en greint ákvæði hljóðaði svo á þeim tíma er atvik þessa máls áttu sér stað:
Við veiðar er m.a. óheimilt að nota: Vélknúin farartæki, nema báta á sjó til fuglaveiða enda gangi þeir ekki hraðar en níu sjómílur meðan á veiði stendur. Vélknúin farartæki á landi má nota til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vegaslóðum. Skotvopn skulu vera óhlaðin meðan á akstri stend­ur. Þau skulu einnig vera óhlaðin nær vélknúnu farartæki á landi en 250 m.
Á vorþinginu 2003 n.t.t. þann 14. mars s.l. voru samþykkt breytingalög við veiðilögin sem breyta ákvæði 17. tl. 1. mgr. 9. gr. þ.a. á eftir orðunum vélknúin farartæki á landi í 2. málslið 17. tl 1. mgr. 9. gr. kom önnur en vélsleða og fjórhjól. Lög þessi tóku gildi þann 15.10. 2003.
Í athugasemdum við áðurnefnt breytingaákvæði segir: Hér er lagt til að óheimilt verði að stunda veiðar á fjórhjólum og vélsleðum. Er lagt til að þetta gildi almennt um veiðar á landi. Að öðru leyti vísast til almennra athugsemda við frumvarpið.
Í hinum almennu athugasemdum við frumvarpið segir m.a.: Að auki er í frumvarpi þessu lagt til að óheimilt verði að stunda veiðar á fjórhjólum eða vélsleðum. Skv. 17. tölul. 1. mgr. 9. gr. gildandi laga er heimilt að nota vélknúin ökutæki og þar á meðal vélsleða og fjórhjól til að flytja veiðimenn til og frá veiðilendum og þá eingöngu á vegum eða merktum vega­slóðum. Nokkuð hefur borið á því að veiðimenn á slíkum torfærutækjum hafi ekki farið eftir framangreindum reglum, enda er akstur utan vega almennt heimill samkvæmt náttúruverndarlögum, nr. 44/1999, þegar jörð er snævi þakin og frosin, sbr. 17. gr. laganna. Þó að ljóst sé að ákvæði laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum gangi framar náttúruverndarlögum að þessu leyti þykir nauðsynlegt í ljósi reynsl­unnar að herða á þessum takmörkunum og banna þessi farartæki alfarið við veiðar. Með því er leitast við að torvelda för veiðimanns um veiðislóð og minnka það svæði sem hann kemst yfir í einni veiðiferð.
Athyglisvert er að löggjafinn virðist hafa tekið þá ákvörðun að banna einungis fjórhjól og vélsleða við veiðar. Því er hægt að álykta að leyfilegt sé að fara á torfærutæki eins og sexhjóli á veiðislóð, svo fremi að ekið sé eftir vegi eða vegslóða.

 

Lagaskil

Þegar eldra ákvæði 17. tl. 9. gr. veiðlaganna er skoðað með hliðsjón af ákvæði breytingalaganna við sama ákvæði vakna óneitanlega nokkrar spurningar varðandi háttsemi þá sem ákærðu í málinu var gefin að sök:
Var það refsivert að hafa verið utan vega og merktra slóða á vélsleða? Þvert á móti, þannig segir í 1. mgr. 17. gr. laga nr. 44/1999 um náttúruvernd:
Bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega. Þó er heimilt að aka slíkum tækjum á jöklum, svo og á snjó utan vega utan þéttbýlis svo fremi sem jörð er snævi þakin og frosin.
Aftur á móti er refsivert að vera á almennum vegum á vélsleða, sbr. 2. og 43. gr. umfl. nr. 50/1987, sbr. reglugerð nr. 575/2001, Viðauka I, 43. gr. Það kostar heilar 5.000 kr. að brjóta gegn því ákvæði og jafnvel meira sbr. dóm Hæstaréttar sem finna má í dómasafni 1997 bls. 1760.
Er það refsivert að hafa verið á vélsleða utan vega og merktra­ slóða á vélsleða á leið á veiðislóð? Svo er ekki að mati þess er þetta ritar þó héraðsdómur Austurlands hafi komist að gagnstæðri niðurstöðu. Af hverju­ var þá verið að breyta lögum nr. 64/1994, á þann veg að verið væri að gera slíka háttsemi refsiverða? Það er óumdeilt að heimilt var samkvæmt eldra ákvæði 17. tl. 9. gr. veiðilaganna að fara á vélsleða á veiðislóð, en einung­is eftir vegi eða vegslóða. Vandinn er sá að vélsleðum, sem þó var heimilt að nota til að komast á veiðislóð í tíð eldri laga, er óheimilt að aka á vegum. Ef framangreind krókaleið er farin væri hægt að halda því fram að vélsleða hafi allt frá setningu veiðilaga verið bannað að nota til þess að komast á veiðislóð.

 

Túlkun refsilaga

Ákæruvaldið krafðist þess í málinu að þágildandi 17. tl. 1. mgr. 9. gr. veiðilaga væri túlkuð þann­ig að óheimilt hafi verið að aka á vélsleðum í umrætt sinn utan vega og vegslóða. Með öðrum orðum, ef ákærðu hefðu ekið eftir vegi, þá hefði ákæruvaldið væntanlega litið svo á, að ekki hafi verið um refsiverða háttsemi skv. veiðilögunum að ræða. Samkvæmt umferðarlögum er þó ljóst, að akstur vélsleða á almennum vegum er refsi­verður eins og áður var getið. 
Að mati þess er þetta ritar voru tvær leiðir færar við skýringu á 17. tl. 1. mgr. 9. gr. veiðilaganna. Annars vegar var hægt að komast að þeirri niðurstöðu að umferðarlög, náttúru­verndarlög og veiðilög stang­ist svo rækilega á, að það sé yfirhöfuð refsi­vert að vera á vélsleða, sértu að hugsa um veiðar. Hér notar greinarhöf­undur orðið hugsa vegna þess að skv. 2. mgr. 19. gr. veiðilaga er refsað fyrir tilraunabrot eins og um fullframið brot væri að ræða.
Hins vegar hefði verið hægt að túlka eldra ákvæði 17. tl. 1. mgr. 9. gr. veiðilaga þannig, að notkun vélsleða við veiðar gengi ekki gegn skýrri grundvallarreglu umferðarlaga og náttúruverndarlaga um torfærutæki, og notkun slíkra farartækja hafi þannig verið heimil til að komast á veiðislóð, enda séu þau notuð á sinn hefðbundna og umfram allt leyfilega hátt.
Einnig var nauðsynlegt að gefa þeirri breytingu á veiðilögunum, sem tók gildi 15.10. s.l., eitthvert innihald og leggja skýr orð greinargerðar til grundvallar þar sem segir að með lagabreytingunni sé verið að banna þá notkun vélsleða, sem dómurinn taldi ákærðu vera seka um í þessu máli. Ef löggjafinn telur ástæðu til að banna einhverja háttsemi, þá getur það ekki verið vegna annars en að hún sé ekki bönnuð fyrir! Eða hvað?

 

Réttarstaða veiðimanna í kjölfar lagabreytingar

Dómurinn frá 30.10. s.l. er skýr en vekur upp margar spurning­ar um réttarstöðu veiðimanna. Þannig virðist samkvæmt dóminum veiðimönn­um hafa verið algerlega bannað að fara á vélsleðum á veiðislóð fyrir lagabreytinguna, sem tók gildi 15.10. s.l., en með tilkomu hennar er það alveg skýrt að notkun vélsleða og fjórhjóla er bönnuð við veiðar, þ.e. við að komast á veiðislóð. En hvenær er maður á veiðum? Samkvæmt orðskýringum veiðilaga eru veiðar að handsama eða drepa villt dýr. Þegar um er að ræða fuglaveiðar er einnig átt við eggjatöku. Samkvæmt eldra ákvæði 17. tl. 1. mgr. 9. gr. veiðilaganna er óheimilt að nota vélknúin ökutæki við veiðar en heimilt að fara á þeim á veiðislóð, en einung­is á vegum eða merktum vegslóðum. Með dómi héraðsdóms Austurlands, sem hér er til umfjöllunar, og nýlega breytingu á veiðilögunum í huga er athyglisvert að skoða fáein dæmi:
Setjum svo að veiðimaður taki á leigu fjallakofa, t.a.m. Sæ­nauta­sel á Jökuldalsheiði, um hávetur, keyrir þangað á vélsleða og gistir um nóttina en fari í rauðabítið morgun­inn eftir gangandi til veiða. Er þessi ímyndaði veiðimaður að brjóta reglu 17. tl. 1. mgr. 9. gr. veiðilaganna? Undirritaður hallast að því að svo sé miðað við túlkun héraðsdóms í máli því sem hér er til umfjöllunar.
Á hreindýraveiðum hefur notkun fjórhjóla tíðkast til þess að komast á veiðislóð og færa dýrið til byggða eftir að það hefur verið fellt, enda um stór og þung dýr að ræða. Samkvæmt dómi héraðsdóms Austurlands hefur slík notkun fjórhjóla verið óheimil frá setningu veiðilaganna árið 1994 og alveg ljóst að hún hefur verið óheimil frá 15.10. 2003.
Hvað með minka- og refaveiðar? Hvernig færu þær fram, einkum að vetrarlagi, ef torfærutæki væru ekki notuð, og til slíkra veiða er beinlínis hvatt af ríki og sveitarfélögum? Þær fara oftar en ekki fram utan alfaraleiðar á slóðum þar sem engir vegir eru og sem stærstan hluta ársins eru einungis færar torfærutækjum.
Samkvæmt veiðilögunum virðist meira að segja óheimilt að aka að fuglavarpi í þeim tilgangi að taka egg nema eftir vegi eða vegslóða.
Samkvæmt greinargerð var markmiðið með títtnefndri breytingu á veiðilögunum, að stuðla að verndun dýrategunda, sem veiðar eru þó heim­ilar á, einkum rjúpunni. Þessi verndar­sjónarmið eiga ekki við í tilfelli veiða á dýrum eins og hreindýrum, refum og minkum. Engu að síður taka lögin ekki tillit til þessa og notkun fjórhjóla og vélsleða er alfarið óheimil við veiðar sama hver bráðin er.

 

Óskýr refsiheimild

Þegar allt kemur til alls er ákvæði 17. tl. 1. mgr. 9. gr. veiði­laganna eins óskýrt og frekast getur orðið bæði fyrir og eftir lagabreyting­una, sem tók gildi þann 15.10. s.l., og þann­ig um óskýra refsiheimild að ræða. Krafan um skýrleika refsiheimilda er ein grundvallarregla refsi­réttarins og kemur hún m.a. fram í 1. gr. al­mennra hegningarlaga nr. 19/1940, en þar segir:  Eigi skal refsa manni, nema hann hafi gerst sekur um háttsemi, sem refsing er lögð við í lögum, eða má öldungis jafna til hegðunar, sem þar er afbrot talin. Og af ákvæðum 2. gr. hegningarlaga er ljóst, að það er ekki heimilt að sakfella mann fyrir háttsemi sem ekki er refsiverð þegar hún er framin, þó hún kunni að vera orðin það þegar dómur gengur. Skýr refsilög geta orkað sem sanngjörn og eðlileg við­vörun, en óskýr lög kunna beinlínis að leiða menn í þá gildru að brjóta af sér. Önnur grundvallarregla refsirétt­arins er sú að allan vafa um um hvort refsiákvæði taki til háttsemi beri að virða ákærða í hag og meginreglan er að velja þann skýringarkost sem er sakborningi hagfelldari, ef um tvo skýringar­kosti er að velja.

Við greinarskrifin studdist höf­undur við rit Jónatans Þór­munds­sonar prófessors, Afbrot og refsiábyrgð II, þó ekki sé vitnað beint í það.

Höfundur starfar sem lögmaður hjá Regula-lögmannsstofu á Egilsstöðum og var verjandi mannanna tveggja sem sakfelldir voru í málinu, sem til umfjöllunar hefur verið á síðunum hér að framan.

Tags: voru, október, veiðar, árið, 2002, meðferðis, austurlands, veiðikort, hinar, ólögmætu, jökuldalsheiði, ólögmætar, rjúpna­veiðar, fólust, mennirnir
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Um óskýrar refsiheimildir og réttarstöðu veiðimanna