Stöndum vörð um Þjórsárver

  46.jpg

 

Þjórsárver

Einn af áhugaverðustu og merki­leg­ustu stöð­um á Íslandi eru Þjórs­árver. Þjórs­árver eru gróðurvin svo að segja á miðju hálendinu. En það sem gerir ver­in svo áhugaverð í augum okk­ar skot­veiðimanna er að þar eru stærstu varp­svæði heiðagæsa sem þekkt eru í ver­öldinni. Talið er að allt að 10.000 pör verpi þar og líklegast eru þar einn­ig um 4.000 gelfuglar. Svo merkileg þóttu Þjórsárver að þau voru friðlýst í des­ember árið 1981. Þá eru verin á lista Ramsar yfir alþjóðlega mikilvæg vot­lendissvæði. Þar að auki eru Þjórs­ár­ver flokkuð sem IBA, eða Important Bird Areas – alþjóðlega mikilvæg fugla­svæði.

 

Norðlingaöldulón

Nú hafa borist þær fréttir að Lands­­­virkjun vilji gera uppi­stöðu­­­lón nánast í verunum, lón sem nefnt hefur verið Norðlingaöldulón. Lóns­­hæðin er í 575 metra hæð yfir sjávar­­­máli og yrði lónið um 28 fer­kíló­metrar að stærð, eða svipað stórt og Mý­vatn. Þá er talið að um 1,4 fer­kíló­metrar gróins lands fari undir vatn. Í við­tali í Morgunblaðinu er meðal ann­ars þetta haft eftir forstjóra Lands­virkj­unar, “slíkt lón rýrir ekki verulega náttúru­verndar­gildi Þjórsárvera.” Nú er það svo að helstu sérfræðingar okk­ar sem hafa stund­að rannsóknir í Þjórs­árverum telja að Norðlinga­öldu­lón muni hafa veruleg áhrif á verin og eru því ekki sammála forstjóra Lands­virkj­unar. Mætti í því sambandi nefna skýrslu Þórunnar Ellen Þórhallsdóttur, Á­hrif miðlunarlóns á gróður og jarð­veg í Þjórsárverum sem kom út árið 1994.

 

Norðlingaöldulón og heiðagæsin

Fyrir okkur skotveiðimenn er þýð­ingar­­mesta spurningin í þessu máli hvaða áhrif Norð­linga­öldu­lón geti haft á heiðagæsastofninn? Fugla­fræð­ingar, íslenskir og erlendir, hafa verið sam­mála um að Þjórsárver geti haft úr­slita­­áhrif fyrir tilveru heiða­gæsa­stofn­sins. Gróðurlega séð eru Þjórsárver með mikla sérstöðu út frá sjónarmiði hálendis­gróðurs og sem lands­lags. Í verunum er túndrugróður sem lýsir sér í því að þarna er sífreri í jörðu allt árið. Þarna er mesta rústa­svæði landsins, en rústir eru íslinsur sem myndast og við það lyftist jarð­vegur­inn ofann linsunnar og til verður stór þúfa, nokkrir metrar á hvern kant. Ofan á þessum rústum eða þúfum verpa heiðagæsirnar. Rústirnar eru með fyrstu blettunum til að verða snjó­lausar í annars flötu landi. Fyrst þegar rústirnar rísa eru þær brúnar með mosa, en smátt og smátt gróa þær og enda svo sumar með því að falla saman ef íslinsan bráðnar. Þess má geta að margar rústirnar eru mjög gamlar. Norð­linga­öldulón mun án efa hafa veruleg áhrif á Þjórsárver. Með tilkomu lónsins myndi grunn­vatns­staðan hækka töluvert. Þessi hækkaða grunn­vatnsstaða umhverfis lónið getur svo aftur haft áhrif á sífrerann og rúst­irnar. Hættan er sú að íslinsur gætu bráðnað og rústirnar horfið, snjór liggi því lengur á landinu og því geti gæs­irnar ekki orpið. Önnur áhrif lónsins sem ekki liggja eins í augum uppi eru að vegna sveiflu í vatns­hæð myndast fjara sem þornar og veldur foki og upp­blæstri, einnig verður strand­rof af völd­um öldugangs. Þá hafa heyrst þær hug­myndir að taka vatn ofan ver­anna og veita framhjá þeim. Þetta yrði eins­konar blóðtaka því vatnið er lífæð ver­anna. Slíkt gæti valdið lækkaðri grunn­vats­stöðu og þornun, líkt og við að ræsa fram votlendi. Þetta hefði í för með sér breytingar á gróðri og hættu á upp­blæstri og rofi, auk ófyrirséðra áhrifa á sífrerann og rústirnar.

 

Landsvirkjun og þjóðin

Umræðan um Eyjabakka og virkj­un á Austurlandi er víðtækasta og al­mennasta umræðan um náttúru­vernd sem verið hefur hér á landi til þessa. Þessi umræða hefur haft mikil áhrif og þá ekki síst á stjórnmálamenn og yfir­völd. Það kemur því nokkuð á óvart að Lands­virkjun skuli hætta sér út á eins hálan ís og að ætla að hefja verklegar fram­­­­kvæmdir á Þjórsárvera­svæð­inu. Þjórs­­­­­ár­ver tilheyra afrétti Gnúp­verja. Skoðana­­könnun sem gerð var sýnir að 70% þeirra eru á móti fyrir­huguðum framkvæmdum á Norð­linga­öldu og í og við Þjórsárver. Þess má geta að þegar árið 1972 mótmæltu Gnúp­verjar öllum framkvæmdum á þessu svæði. Í könnun sem Gallup gerði fyrir Landsvirkjun, og birt var 23. júní síðast liðinn, kom í ljós að 52% landsmanna eru andvíg mynd­un Norð­lingaöldulóns. Skoðana­könnun DV frá því 13. júní segir að 62% þjóð­arinnar séu á móti skerðingu Þjórs­árvera. Þá hefur varaformaður Fram­sókn­ar­flokksins, Guðni Ágústsson land­­búnaðar­ráðherra og þingmaður Sunn­lendinga, sagt að “þessari perlu eig­um við ekki að raska eða skapa ó­frið um hana.” Það er því ljóst að ekki verð­ur friður um gerð Norðlinga­öldu­lóns því samkvæmt rannsóknum fær­ustu vísinda­manna þjóðarinnar mun Norð­linga­öldu­lón hafa gífurleg áhrif á Þjórs­ár­verin, því túndrusvæði eins og verin eru mjög viðkvæm fyrir öllum breyt­ingum og breytingar gætu haft ófyr­irséð keðju­verkandi áhrif.

 

SKOTVÍS, heiðagæsin og Þjórsárver

Norðlingaöldulón mun gjör­breyta ásýnd Þjórsárvera­svæð­is­ins. Lands­­­lagslega séð eru Þjórsárverin stór­brotin og einstök. Þetta er gróður­vin milli jökulalda en áður en komið er í verin er búið að aka yfir svarta sanda og hraun. Verin birtast svo skyndilega iðja­græn á milli jökulaldanna, með Hofs­jökul og skrið­jökla hans í baksýn, og svo fellin Arnar­fell hið mikla og Hjartafell. Það sem skiptir þó höfuð­máli fyrir íslenska skot­veiði­menn, eins og áður hefur komið fram, er það að breytingar og allt rask í Þjórs­­árverum geta að mati fugla­­fræð­inga haft úrslitaáhrif fyrir til­vist heiða­gæsa­stofn­sins. Þá áhættu get­um við hrein­lega ekki tekið. Gísli Már Gísla­son prófessor og formaður Þjórs­ár­­nefnd­ar hefur sagt að “Lands­virkjun hef­ur þegar fengið meira rafmagn af þessu svæði en upp­haf­lega var gert ráð fyrir. Það er einfaldlega nú þegar búið að nýta þá orkumöguleika sem rýra hvað minnst náttúru­verndar­gildi Þjórs­ár­vera.” Niðurstaðan er því sú að það er stað­reynd að Norðlinga­öldu­lón mun hafa veruleg áhrif á lífríki og nátt­úru Þjórs­­árvera – enginn veit hvað þessi áhrif geta verið víðtæk. Þau gætu haft það í för með sér að Þjórsárver, stærsta varp­svæði heiðagæsa sem þekkt er í ver­öldinni, yrðu það ekki lengur.

Sigmar B. Hauksson
Tags: félagið, þess, þar, veiðidýra, verði, stofnanir, vegna, fyrirtæki, yfir­völd, betra, grípi, móti, varhugaverðra
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Stöndum vörð um Þjórsárver