Skoðanakönnun Skotvís


Fyrst var spurt um aldur félags­manna. Flestir félagsmanna eru á aldr­­­inum 30-50 ára. Stærsti hópurinn er 31-35 ára og 41-45 ára. Meðalaldur félags­­manna SKOTVÍS er því 41 árs. Þessar tölur koma ekki á óvart og eru mjög svipaðar og annars staðar á Norður­­löndum.
Næst var spurt hversu margar byssur félagsmenn eiga. Þá kom í ljós að alls reyndust þessir 183 sem þátt tóku eiga 407 haglabyssur, 215 riffla og 36 skammbyssur. Hver félags­mað­ur á þá að meðaltali 2,24 hagla­byss­ur, 1,17 riffla og 0,19 skamm­byss­ur. Þessar upp­lýs­ingar koma ekki á óvart, ljóst er að hagla­­byssan er helsta veiði­vopn ís­lenskra skotveiðimanna. Þó má segja að riffil­eignin sé meiri en búast mátti við.
Þá var spurt hversu marga daga á ári félagsmenn stunduðu skot­veiðar. Alls reyndust þessir 183 eyða 3303 dögum til þeirra verka, eða að meðaltali rúmlega 18 daga á ári. Mjög misjafnt var hvað menn eyddu mörg­um dögum til veiða, allt frá 1-2 dögum upp í 130 daga en flestir þó í 15-30 daga á ári. Þess má þó geta að félag­smenn SKOT­VÍS eru í nær öllum tilfellum mjög áhuga­samir skot­veiði­menn og telja má því víst að þeir verji fleiri dögum til skot­veiða en veiði­menn sem eru utan félags­ins. Líklegast stunda um 7.000 Íslend­ingar skot­veiðar og vart meir en tæpur helm­­ingur þeirra, eða um 3.000, hafa skot­veiðar sem helstu dægra­stytt­ingu sína. 18 dagar eru fleiri dagar en veiði­menn í nágrannalöndum okkar nota til veið­a. Ástæðurnar eru ýmsar, þó þær helst­ar að íslenskir veiðimenn eru mun nær veiðilendunum en nágrannar okkar og þrátt fyrir allt er ódýrara að stunda skotveiðar hér á Ís­landi en í flestum nágranna­löndum okkar.
Næst var spurt hvernig hagla­byssur félagsmenn ættu. 71 reynd­­ust eiga einhleypu, 103 eiga tví­hleypu, 58 eiga pumpu og 135 eiga hálf­sjálfvirka haglabyssu. Niðurstaðan var sú að svipað margir félagsmenn eiga einhleypu og pumpu, eða u.þ.b. þriðji hver maður. Tæplega annar hver skot­veiðimaður á tvíhleypu og rúm­lega 70% skotveiðmanna eiga hálf­sjálf­­­virka haglabyssu. Það er því ljóst það sem menn höfðu grun um að hálf­sjálfvirka haglabyssan er vinsælust á með­al íslenskra skotveiðimanna. Þó eiga margir tvíhleypu og álykta má að æ fleirri skotveiðmenn eignist tví­hleyp­­ur og að vinsældir þessa skemmti­­­lega veiðivopns fari vaxandi.

Fimmta spurning var hvort skot­veiðimenn leigi veiðilendur til rjúpna- og/eða gæsaveiði. 19 svöruðu játandi eða rúmlega 10% en 164 svöruðu neitandi eða tæplega 90%. Ljóst er því að fæstir hafa leigt sér veiði­lendur til rjúpna- og/eða gæsa­veiði. Þessar upplýsingar koma nokk­uð á óvart því töluvert af landi í nágrenni Reykjavíkur, sunnan lands og vestan, hefur verið leigt til veiði­manna. Staðreynd málsins er hins vegar sú að aðeins 10% leigja land til veiða. Líkur eru á að það séu efnameiri veiðimenn sem leigja veiðilendur og í einhverjum mæli taka menn sig saman og leigja land í sameiningu. Þar sem hegðunar­mynstur grágæsarinnar hefur breyst nokkuð undanfarin ár og hún sækir minna í tún en áður, ástæðan er aukið veiðiálag, fjölgar þeim veiði­mönnum sem telja það ekki vænlegt að leigja tún til gæsaveiða lengur. Þá fjölg­ar ferða­þjónustubændum og marg­ir þeirra leigja húsnæði og leyfi til rjúpnaveiða. Þetta fyrirkomulag er mun ódýrara og heppilegra fyrir veiði­menn en að leigja jarðir til rjúpnaveiða.

Þá var spurt hvort skotveiðimenn hefðu greitt fyrir veiðileyfi. Játandi svöruðu 62 eða tæplega 34% og neitandi svöruðu 121 eða rúmlega 66%. Þannig hefur u.þ.b. 1 af hverjum 3 skotveiðimönnum greitt fyrir veiði­leyfi. Þessar upplýsingar koma einnig á óvart þar sem frekar fáir veiðimenn hafa greitt fyrir veiðileyfi. Þetta er áhugavert þar sem þeim landeigendum fjölgar sem selja leyfi til skotveiða á jörðum sínum. Það er hins vegar nokkur hefð fyrir því hér á Íslandi að skotveiðimenn í þéttbýli eigi ættingja eða vini á landsbyggðinni sem þeir fá að veiða hjá. Þetta fyrirkomulag er auðvitað hið ákjósanlegasta, þá fjölgar þeim veiðimönnum stöðugt sem keypt hafa sér jarðir eða eiga sumarbústaði víða um land og þurfa því ekki að greiða fyrir veiðileyfi.
Því næst var spurt hversu miklum fjár­munum skotveiðimenn eyddu í skotveiðar á ári hverju. Nokk­uð misjafnt var hvað menn eyddu í veiðar á ári, allt frá 2.000 krónum upp í 400.000 krónur. Flestir voru þó á bilinu 50.000 – 60.000 kr. Alls eyddu þessir 183 skotveiðimenn 12.476.000 króna í skotveiðar eða alls u.þ.b. 69.000 kr. á mann. Því má álykta sem svo að menn eyði rúmlega 3.800 krónum hvern þann dag sem þeir eru að veiðum. Ef miðað er við stang­veiðar eru skotveiðar ódýrt tóm­stunda­gaman, þó svo að stofn­kostað­ur­inn sé tölu­verður. Góð byssa endist út ævina og tiltölulega litlar tísku­sveifl­ur eru á meðal skotveiðimanna. Þá undirstrika þessar upplýsingar það sem kom fram í spurningunum um hvort greitt væri fyrir veiðileyfi eða leigðar veiðilendur.

Þá var spurt hvort skotveiðimenn telji að grípa þurfi til einhverra aðgerða til verndar rjúpunni. Játandi svöruðu 112 eða rúmlega 61% en neitandi svöruðu 71 eða tæplega 40%. Ljóst er að ríflegur meirihluti skot­veiði­manna er þeirrar skoðunar að grípa beri til aðgerða til verndar þess­um ágæta fugli sem er svo vinsæll á jólaborði landsmanna. Þess ber að gæta að rjúpnastofninn er í lágmarki og veiði var frekar treg í fyrra, árið 2000. Reynslan sýnir að landsmenn eru frekar tilbúnir að grípa til friðunar- eða varnaraðgerða þegar stofninn er í lág­marki en þegar hann er í hámarki.

Næst var spurt að ef til kæmi að grípa þyrfti til aðgerða til varnar rjúpunni hvort skotveiðimenn vildu frekar stytta veiðitímann eða banna sölu á villibráð til verslana og veitinga­húsa. Alls vildu 50 skot­veiði­menn fremur stytta veiðitímann eða rúm­lega 27% en alls 133 vildu banna sölu á villibráð eða tæplega 73% skot­veiðimanna. Þar sem töluvert hefur verið fjallað um þessi mál á fundum SKOTVÍS hefur stjórn félagsins lagt sig fram um að kanna hug félags­manna til þessarra mála. Þess vegna var jafnhliða þessari skoðanakönnun sem hér er birt í gangi könnun á vef­síðu félagsins www.skotvis.is. Þessi könnun stóð í 5 mánuði og spurt var: Ef draga þarf úr veiðum á rjúpu og gæs á næstu árum og talið er að þurfi að grípa til einhverra aðgerða hvað myndir þú kjósa? Boðið var upp á 3 svarmöguleika og var niðurstaðan sú að 36 vildu stytta veiðitímann, 112 vildu banna sölu á villibráð til verslana og veitingahúsa og 33 höfðu aðrar hugmyndir. Athyglisvert þótti okkur hversu margir höfðu aðrar hugmyndir og 33 einstaklingar merktu við þann kost, en 66 sendu inn athugasemdir og gerðu grein fyrir atkvæði sínu eða vildu koma einhverju að sem þeir töldu skipta máli. Á þessum skrif­um sést meðal annars að það eru margir sem vilja breyta veiðitímanum og þá fremur taka framan af tímanum en aftan af honum. Eftir sem áður eru það flestir veiðimenn sem vilja banna sölu á villibráð til verslana og veitinga­húsa. Það er ljóst að skotveiðimenn eru andsnúnir styttingu veiðitímans. Einnig hefur verið rætt um að friða stór svæði en sú hugmynd virðist ekki hafa teljandi fylgi þar sem veiðiálag eykst því til mikilla muna á þeim svæðum sem veiða má á. Það er sem sagt meirihluti fyrir því að ef það þurfi að grípa til einhverra aðgerða til varn­ar rjúpunni þá séu fleiri sammála um að banna sölu á bráð til veitingahúsa og verslana. Þessi aðgerð er svipuð og gripið hefur verið til víða annars staðar í heiminum, t.d. í Bretlandi og Banda­ríkjunum, í stuttu máli sagt að villi­bráð sé ekki markaðsvara.

Tíunda spurning var á þann veg að spurt var hvort skot­veiði­menn myndu vera fylgjandi banni á veiðum með hálfsjálfvirkum hagla­byss­um. Já svöruðu alls 43 eða rúmlega 23% en nei svöruðu 140 eða tæplega 77%. Um þessa spurningu þarf ekki að fjöl­yrða, það er ljóst að mikill meiri­hluti er á móti því að hálfsjálfvirkar hagla­byssur verði bannaðar til veiða. Það hefur verið skoðun stjórnar SKOT­VÍS að mikilvægast sé að menn séu góðar skyttur og kunni að skjóta og nota vopnin rétt, þá skipti ekki máli hvort byssan sé tvíhleypa eða fjölskota. Hins vegar er afar mikilvægt að veiði­menn fylgi settum reglum og hafi pinnann í byssum sínum, svo þær séu þriggja skota en ekki fimm skota. Reynslan sýnir að lítt þjálfaðar skyttur særa eða hitta ekki með fjórða og fimmta skoti.
Því næst var spurt að ef draga yrði úr veiðum á grágæs hvaða að­gerðum skotveiðimenn væru helst fylgjandi. Gefinn var kostur á að merkja við eitt eða fleiri af þrem svörum, a)banna veiðar með hálfsjálf­virkum haglabyssum, b)banna sölu á gæs­um á almennum markaði til versl­ana og veitingahúsa, og c)stytta gæsa­veiðtímann. Alls vildu 20 banna veiðar með hálfsjálfvirkum haglabyssum eða tæplega 11%, alls vildu 123 banna sölu til verslana og veitingahúsa eða rúm­lega 67%, og alls vildu 40 stytta veiði­tím­ann eða tæplega 22%. Niðurstöður þess­arar spurn­ingar eru augljósar, flestir skot­veiðimenn vilja líkt og með rjúpuna banna sölu á gæsum til verslana og veitinga­húsa.

Þá var komið að þeirri spurningu sem stjórn SKOTVÍS var hvað for­vitnust um að fá svör við. Spurt var hver skoðun félagsmanna á starf­semi SKOT­VÍS væri. Svarmöguleikar voru 5: a)mjög ánægður, b)frekar ánægð­ur, c)hef enga skoðun, d)frekar óánægður og e)mjög óánægður. Alls reyndust 58 vera mjög ánægðir með starfsemi félagsins eða tæp 32%, 98 reyndust vera frekar ánægðir eða tæplega 54%, 20 höfðu enga skoðun á starfsemi félagsins eða tæplega 11% og aðeins 7 voru frekar óánægðir eða tæp­lega 4%. Enginn reyndist vera mjög óánægður. Þessar niðurstöður gleðja stjórn félagsins óumræðilega því u.þ.b. 85% félagsmanna eru annað hvort mjög ánægðir eða frekar ánægð­ir með starfsemi félagsins. At­hyglis­vert er að yngri félagsmenn eru frekar ánægð­ari með starfsemi félagsins en þeir eldri. Þá eru magnveiðimenn frekar óánægð­ari með starfið en hófveiði­menn.

Næsta spurning var ekki síður áhugaverð fyrir stjórn félagsins en þar var spurt hver skoðun félags­manna væri á tíma­ritinu SKOTVÍS – fagriti um skot­veiðar og útivist sem félagið gefur út árlega. Þar voru sömu svarmöguleikar og í spurningunni á undan og reyndust 81 vera mjög ánægður með blaðið eða rúmlega 44%, 82 reyndust vera frekar ánægðir eða tæplega 45%, 19 reyndust ekki hafa neina skoðun á blaðinu eða rúmlega 10% og aðeins einn var frekar óánægður með blaðið. Enginn reynd­ist vera mjög óánægður með tímaritið SKOT­VÍS. Ekki glöddu niðurstöður þess­arar spurningar síður hjörtu stjórn­ar og starfsmanns þar sem 89% félags­manna eru annað hvort mjög ánægðir eða frekar ánægðir með málgagn félagsins. Flestir þeirra sem ekki höfðu neina skoðun á blaðinu voru mjög ungir félagsmenn, og því líklegast verið stutt í félaginu og ekki séð öll tölublöð þessa ágæta tímarits.

Þá var spurt hvort félagsmenn stunduðu skotæfingar. Játandi svör­uðu 101 eða rúmlega 55% en neit­andi svöruðu 82 eða tæplega 45%. Nið­urstöður þessarar spurningar ollu nokkr­um vonbrigðum þar sem það er nánast skylda allra þeirra sem stunda skotveiðar að æfa sig eins vel og unnt er. Þess vegna rekur SKOTREYN (Skot­veiðifélag Reykjavíkur og nágr­ennis) sem er deild innan SKOTVÍS æfinga­völl uppi í Miðmundardal og vinna SKOTREYNAR-menn óeigin­gjarnt og fórnfúst starf svo félags­menn SKOTVÍS og aðrir skot­áhugamenn geti þjálfað sig og orðið betri veiðimenn.

Í fimmtándu spurningu var spurt hvort félagsmenn teldu að tak­marka ætti notkun haglaskota með blý­höglum við veiðar. Alls svöruðu 75 þessari spurningu játandi eða tæplega 41% en neit­andi svöruðu 108 eða rúmlega 59%.

Næstu spurningu var beint til þeirra sem svöruðu síðustu spurn­ingu játandi og var falast eftir svari við þeirri spurningu hvaða að­ferðum félagsmenn vildu beita til að tak­marka notkun haglaskota með blý­höglum. Annars vegar var spurt hvort menn vildu banna algjörlega blýhögl og vildu 24 af þeim 75 sem svöruðu síðustu spurningu játandi banna þau algjörlega eða 32%. Hins vegar var spurt hvort banna ætti notk­un blý­haglaskota við veiðar á gæs og önd en leyfa við veiðar á rjúpum, svartfugli og á skotæfingasvæðum. Alls 51 reynd­ust frekar vera á þeirri skoðun eða 68%. Ljóst er að um­ræðan um bann við notkun blýhagla er mjög skammt á veg komin á meðal íslenskra skotveiðmanna. Ljóst er að fræða þarf skotveiðimenn enn frekar um þessi mál og ræða þau innan félags­ins. Við viljum benda á að hér í blaðinu er grein um blýhögl og högl úr öðrum efnum.

Síðasta spurningin var svo­hljóð­andi, átt þú veiðihund sem þú notar við veiðar? Alls reyndust 27 eiga veiðihund eða tæplega 15%. Notkun veiðihunda er því ekki almenn hér á landi enn sem komið er en leiða má að því líkum að þeim veiðimönnum fjölgi stöðugt sem nota hunda við veiðar. Þó má telja ólíklegt að meirihluti íslenskra skotveiðimanna muni nota hunda til veiða.
Niðurstöður þessarar skoðana­könn­­unar munu koma stjórn félags­­ins að miklu gagni. Hún mun auð­­velda stjórninni að taka ákvarðanir í ýmsum málum er snerta veiðar og við stefnumótun félagsins á næstu ár­um. Stjórn­völd og Alþingi leita nú orðið í aukn­­um mæli til SKOTVÍS um álit fél­ags­ins á lögum, reglu­gerð­um, þings­­ályktunar­tillögum og ýmsum mál­um er snerta veiðar á villtum dýrum hér á landi. Að lokum viljum við þakka þeim félagsmönnum sem tóku þátt í þessari viðamiklu könnun fyrir þeirra framlag við að veita upp­lýs­ing­ar um skoðanir skot­veiði­­manna á þeim málum er snerta skot­veiðar á Ís­landi. Tags: ári, stunda, hins, eðli, þar, hafa, verið, skotvís, upplýsingar, vegar, skotveiðar, tíma, stjórn, hversu, þeir
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Skoðanakönnun Skotvís