Innflutningur á veiðidýrum

 

 

Hvers vegna eru dýr flutt inn?

Helstu ástæður þess að dýr hafa verið flutt til nýrra heimkynna eru: (1) til ræktunar, (2) til að koma upp stofni veiðidýra og nýta þá kjöt og skinn, (3) rándýr hafa verið flutt inn til að veiða óæskileg dýr og (4) dýr hafa verið flutt inn til að auðga tegunda­fjölbreytni á svæðinu. Á síðari árum hafa flutningar á dýrum verið notaðir æ oftar til að stuðla að verndun fágætra tegunda. Í einstaka tilfellum hafa dýrin verið flutt inn á ný svæði en oftar þangað sem tegundin hefur dáið út eða þar sem stofnar eru veikburða.

 

Áhrif og afdrif innfluttra dýra

Fyrir rúmum áratug tók Svíi nokkur saman yfirlit um inn­flutning á spendýrum og fuglum og vistfræðileg áhrif slíkra aðgerða (Torbjörn Ebenhard 1988: Introduced birds and mammals and their ecological effects. Swedish Wildlife Res. 13(4)). Honum tókst að afla sér upplýsinga um 330 tegundir sem fluttar hafa verið inn um heim allan frá 1559. Innflutningur á spendýrum reynd­ist vera mun áhættusamari en inn­flutn­ingur á fuglum; í 40% tilvika ollu inn­flutt spendýr merkjanlegum breytingum á umhverfi sínu en innfluttir fuglar höfðu hins vegar yfirleitt óveruleg áhrif á um­hverfið. Beitaráhrif voru algengasta vanda­málið sem tengdist innflutningi á spendýrum og áttu þar hlut að máli um þriðjungur þeirra spendýra sem flutt voru inn. Í 17% tilvika ollu spendýr verulegum áhrifum með afráni og áttu þar bæði hlut að máli svokallaðar alætur og rándýr.
Innflutningur á dýrum til meginlanda hefur að jafnaði óveruleg áhrif saman­borið við innflutning þeirra til eyja, en þetta fer að vísu eftir því hversu vel gengur að halda stofnstærð og útbreiðslu innfluttra tegunda í skefjum. Sem dæmi um óbætanleg áhrif aðskota­dýra eru rotturnar sem sluppu af skipi sem strandaði við Lord Howe-eyju við austurströnd Ástralíu árið 1919 en þær útrýmdu á næstu 20 árum 5 fugla­teg­und­um sem var hvergi að finna annars staðar í heiminum. Innflutt dýr hafa einn­ig flutt með sér sjúkdóma og sníkju­dýr sem orðið hafa innlendum tegund­um skeinuhætt. Loks hafa inn­fluttar teg­und­ir (og húsdýr) kyn­bland­ast við inn­lend dýr og því valdið erfða­fræðilegu tjóni.
Alls hafa 118 tegundir spendýra verið fluttar til nýrra heimkynna, vísvitandi eða fyrir slysni (Ebenhard 1988). Tíu vinsælustu tegundirnar (54% af 788 innflutningstilraunum) eru: Kanína, köttur, brúnrotta, svartrotta, húsamús, „eyjarotta” (Rattus exulans), svín, kýr, geit og hundur. Hver þessara tegunda hefur verið flutt inn 20 sinnum eða oftar. Athygli vekur að ekkert þessara dýra, nema e.t.v. svín og geit, hafa verið flutt inn sem veiðidýr; allt eru þetta húsdýr eða svokölluð meindýr.
Alls hafa 212 tegundir fugla verið fluttar til nýrra heimkynna. Þetta eru aðallega andfuglar, hænsnfuglar, dúfur og páfagaukar. Umræddir tegunda­hópar eru aðeins um 12% af fuglategundum í heim­inum en í tæplega helmingi allra inn­flutningstilrauna á fuglum hafa þessir fuglahópar komið við sögu. Tíu vin­sælustu fuglategundirnar eru: Hús­­dúfa, gráspör, hæna, stari, fashani, starategund (common myna), Jövu­spör, gullfinka og zebradúfa. Fashani er eini veiðifuglinn á þessum lista og hefur raunar mikla sérstöðu meðal inn­fluttra veiðitegunda vegna þess hversu víða hann finnst núorðið.

 

Innflutningur á dýrum til Íslands

Ef undan eru skilin húsdýr og mein­­dýr sem borist hafa af slysni til landsins eru fá dæmi þess að reynt hafi verið að auðga upp á dýralífið hér með því að flytja hingað nýjar teg­undir. Froskar voru fluttir hingað árið 1895 og sleppt við Þvotta­laug­arnar í Reykjavík en drápust fljótlega. Hérar (líklega snæhérar) voru fluttir hingað þrisvar sinnum á 18. og 19. öld, án þess að þeir næðu hér fótfestu. Þá hafa kanínur víða lagst út og lifa sums staðar hálfvilltar, svo sem í Öskjuhlíð, en þær virðast eiga erfitt með að bjarga sér hér á landi. Sauð­naut voru flutt hingað tvisvar frá Græn­landi um 1930 en drápust öll fljótlega.
Eina dæmið um vel heppnaðan innflutning á dýrum hingað til lands eru hreindýrin sem komu hingað í fjórum hópum á jafnmarga staði á árunum 1771-1787. Einn hópurinn var settur á land í Hafnarfirði og dreifðist hann og dafn­aði á Reykja­nesskaga frá Hengla­fjöllum vestur undir Keili. Þessum dýrum fækkaði mikið um 1880 og síð­ustu dýrin dóu út um 1930. Hið sama gerðist með dýrin sem sleppt var í Eyja­­firði; þeim fjölgaði mikið í fyrstu og dreifðust austur í Þingeyjarsýslu en þau dóu út eða hurfu um 1930. Hrein­dýrin á Austur­landi eru nú meira og minna samfellt frá Þistilfirði í norðri suður í Hornafjörð en fara ekki vestur fyrir Jökulsá á Fjöllum. Hreindýr sem fara vestur fyrir Kolgrímu voru til skamms tíma skotin til að varna því að bú­fjár­sjúkdómar bærust í Suðursveit og Öræfi.
Hér á landi hefur vísvitandi inn­flutningur á dýrum að mestu legið niðri í mannsaldur, ef undan er skilinn takmarkaður innflutningur á hús- og gæludýrum. Um 1930 var hins vegar mikill áhugi á innflutningi dýra og þá var stofnað Veiði- og loð­dýraræktarfélag Íslands sem hafði m.a. á stefnuskrá sinni að stuðla að fjölgun dýrategunda á Íslandi, sérstaklega með tilliti til rækt­unar loðdýra og veita vernd gegn eyðingu innlendra dýra­tegunda. Meðal helstu for­göngu­manna félagsins voru þeir Gunnar Sigurðs­son frá Selalæk og Ársæll Árna­son, bókaútgefandi. Félagið gaf út ritið Loðdýrarækt og þar má glöggt sjá þann eldmóð en um leið skammsýni sem einkenndi fyrstu starfsárin.
Meðal þeirra dýra sem ætlunin var að flytja inn voru snæhérar, en um þá skrifaði Ársæll Árnason árið 1931 í 1. hefti Loðdýraræktar: „Ég veit, að það yrði yrði mörgum fleiri en mér óblandin ánægja að sjá þessi skjalla­hvítu smádýr þjóta um fjalls­hlíðarnar okkar, eða lífga upp á tómlegar heið­arn­ar með sínu ein­kennil­ega, skopp­andi stökki, eða hopp­andi uppréttir á hinum löngu afturlöppum, eins og smá­strákar, er stolist hafa út á nærskyrtunni einni saman, eins Sverdrup kemst að orði.”
Ársæll Árnason flutti minka til landsins, þrátt fyrir varnaðarorð eins fremsta náttúrufræðings okkar, Guðm­undar G. Bárðarsonar, sem skrifaði grein í Náttúrufræðinginn er hann nefndi Jafnvægisröskun í náttúr­unni. Ársæll svaraði því m.a. til: „Við mundum telja það happ en ekki óhapp, ef minkar færu að lifa hér villtir.” Mink­urinn slapp fljótlega úr haldi og breidd­ist hratt um landið en snæhérar voru aldrei fluttir til hingað eftir þetta, þrátt fyrir að sérstök lög um friðun þeirra hafi gilt allt fram undir 1990.
Óhætt mun að fullyrða að búfjár­sjúkdómar sem bárust hingað með kynbótadýrum og land­nám minks­ins um og fyrir miðja þessa öld hafi gert Íslendinga afar tor­tryggna gagnvart inn­flutn­ingi á dýrum.

 

Alþjóðlegir samningar, viðmið og íslensk lög

Ríó-samningurinn svonefndi um um­hverfi og þróun var staðfestur af Íslands hálfu árið 1994 og er markmið hans meðal annars að vernda líffræðilega fjölbreytni. Í 8. gr. samn­ingsins er kveð­ið á um skyldur aðildar­þjóðanna til að koma í veg fyrir inn­flutning, halda í skefj­um eða eyða þeim aðskota­teg­und­um sem ógnað geta vist­kerfum, bú­svæð­um og inn­lendum teg­und­um. Í nýju náttúru­verndar­lögunum íslensku (41. gr.) sem gengu í gildi 1. júlí 1999 er gert ráð fyrir því að umhverfisráðherra setji reglu­gerð um skráningu, innflutning, ræktun og dreif­ingu lifandi, framandi lífvera. Í þeirri reglugerð á einnig að birta skrá yfir tegundir sem óheimilt er að flytja til landsins, svo og tegundir sem heimilt er að rækta hérlendis og sleppa í villtri náttúru. Sérstök nefnd skal vera ráðherra til ráðgjafar og skulu stjórn­völd leita umsagnar hennar og Nátt­úru­vernd­ar ríkisins áður en tekin er ákvörð­un um innflutning, ræktun og dreif­ingu framandi lífvera.
Auk þess eru í gildi ýmis lög er varða innflutning á dýrum en þau taka flest mið af hugsanlegri sjúk­dóma­­­hættu. Hér má nefna lög nr. 54/1990 um innflutning dýra og lög nr. 25/1993 um dýrasjúkdóma og varn­ir gegn þeim. Einnig má nefna lög nr. 15/1994 um dýravernd og heimild um­hverfisráðherra í 7. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum til að setja reglugerð um sölu, inn­flutning og útflutning villtra dýra og hluta þeirra, svo og egg. Drög að þeirri reglugerð hafa legið óafgreidd á fjórða ár í umhverfisráðuneytinu.
Flestar vestrænar þjóðir hafa sett ströng lög og reglur er taka til hugsanlegs flutnings á dýrum til nýrra heim­kynna. Undantekningarlaust er gert ráð fyrir einhvers konar um­hverfis­­mati á hugsanlega áhættu sem slíkur innflutningur getur haft á heilsu manna, líffræðilega fjölbreytni og vernd vistkerfa. Alþjóðlega náttúru­vernda­r­­ráðið (IUCN) hefur tekið saman ítar­legar reglur og gátlista um inn­­flutning á tegundum (sjá á heima­síðu þeirra: iucn.org/themes/ssc).

 

Möguleikar á innflutningi dýra til Íslands

†msar tegundir veiðidýra gætu án efa lifað góðu lífi hér á landi ef þær væru fluttar hingað og sleppt í nægjanlega miklu magni og hugsan­legum keppinautum þeirra og rán­dýrum væri haldið í skefjum. Meðal þeirra er krónhjörtur sem vart á náttúrulega óvini hér á landi. Einnig koma til greina fjalla­geitur, fjallafé og snæhérar. Líklegt er að sjónarmið gróðurverndar og skóg­ræktar muni stangast á við huganlegan innflutning þessara grasbíta, auk hættunnar á útbreiðslu framandi sjúkdóma.
Af fuglum sem hugsanlega væri hægt að flytja inn má nefna fashana og lyngrjúpu; báðar þessar tegundir gætu borið sjúkdóma í okkar helsta veiðifugl, rjúpuna og lyngrjúpan er auk þess keppinautur við rjúpuna um beitilönd og varpsvæði. Einnig kemur til greina að flytja hreindýr til annarra lands­hluta en Austurlands en strangar varnir gegn búfjársjúkdómum hafa í reynd komið í veg fyrir það hingað til.
Mér hefur fundist vera fremur lítill áhugi á því hér á landi að flytja hingað ný veiðidýr; þeir sem auka vilja fjölbreytni í veiðum hafa margir hverjir sótt til útlanda og tekist á við bráðina í sínum náttúrulegum heimkynnum. Nýlega var veitt heimild fyrir innflutningi á fashönum til eldis og nú í vor var nokkrum fashönum sleppt í Hallormsstaðaskóg á vegum Skógræktar ríkisins. Ætlunin er meðal annars að meta hvort þessi tegund geti þrifist hér. Ég tel afar ólíklegt að tilraun þessi beri tilætlaðan árangur þar sem fuglarnir eru ekki með senditæki og því verður nánast ómögulegt að fylgjast með afdrifum þeirra í skógarþykkninu.
Frekari tilraunir með fashana í íslenskri náttúru, svo og hugsan­legur innflutningur á öðrum veiði­dýrum, verður að byggjast á ítarlegu mati þar til bærra aðila og síðan form­legu leyfi umhverfis­ráðherra. Kostnaður við slíkt mat getur orðið mikill og því vart á færi annarra en opinberra aðila að standa straum af því. Áður en ráðist er í slíkan kostnað þarf að marka skýra stefnu varðandi inn­flutning á veiði­dýrum. Slíkt er ekki hægt án ítarlegra umræðna um þetta efni en lítið hefur borið á þeim hér á landi síðan á mektardögum veiði- og loðdýra­ræktar­félagsins um 1930.

Kristinn Haukur Skarphéðinsson
Náttúrufræðistofnun Íslands
Tags: hafa, aðrar, innflutning, tegundir, rætt, reynt, manna, náð, dýrum, fjallað, stuttlega, fuglum, verður, grein, þessari
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Innflutningur á veiðidýrum