Í sigtinu - Skotveiðar á sel

Picture 4.jpg

Elstu heimildir um skotveiðar á sel eru frá lokum 17. aldar. Þær jukust síðan mikið á 19. öld og fram á 20. öld voru gerðir út bátar til skotveiða á sel, sjá bók Ólafs E. Friðrikssonar Skotveiðar í íslenskri náttúru, Iðunn 1996. Áhugamenn um skotveiðar hafa margir hverjir reynt fyrir sér við selveiðar og haft ánægju og gagn af. Um margt er undirbúning­urinn svipaður hreindýraveiðum. Það þarf að afla sér útbúnaðar til þess að geta heimt veidd dýr, gera að þeim og ganga frá kjötinu til varðveislu. Í þess­ari grein ætla ég ekki að gera verkun og fláningu skinna og meðhöndlun selkjöts og spiks að umtalsefni, heldur fjalla lítillega um veiðarnar sjálfar.

 

LAGALEG ATRIÐI

Gamla tilskipunin um veiði er enn í gildi um selveiðar. Enginn má veiða á landi annars manns án leyfis! Öllum íslenskum ríkisborgurum eru heimilar selveiðar utan landhelgi lögbýla. Almennt er selur ófriðaður í ósum lax og silungsveiðiáa. Ýmiss sérákvæði eru í gildi, sem takmarka skotveiðar á sel og allt of langt má yrði að fjalla um, sem veiðimenn verða að kynna sér á hverjum stað (sýslumenn og lögreglustjórar). Þekktustu dæmin eru: Bann við sela­skotum í Breiðafjarðareyjum, innan línu sem hugsast dregin frá Eyrarfjalli sunnan Breiðafjarðar um Stagley hálfa mílu frá Oddbjarnarskeri nyrðra og í Bjargtanga í Barðastrandarsýslu. Bann við skotmennsku nær fuglabjörgum og æðarvarpi en í 2 km fjarlægð á tíma­bilinu 15. apríl til 14. júlí. Einnig er skotmennska óheimil nær hefðbundn­um selalögnum, en hálfa danska mílu (2,5 km ef ég man rétt).

 

SELIR SEM VEIÐIDÝR

Ef allt er tínt til þá er mögulegt að komast í færi við sex selategundir við Ísland: landsel, útsel, blöðrusel, vöðusel, hringanóra og kampsel. Þeir tveir fyrstnefndu kæpa hér við land og mynda íslenska stofna. Þeir tveir síðastnefndu eru mjög sjaldgæfir og ólíklegt að skotveiðimenn komist í tæri við þá. Landselir og útselir eru hér við ströndina allt árið um kring, en hinir eru flækingar sem koma árvisst að landinu. Um líffræði þessara tegunda er fjallað í bók Vöku-Helgafells Íslensk spendýr, sem kom út fyrir stuttu­ í ritstjórn Dr. Páls Hersteinssonar prófessors í spendýrafræði við Háskóla Íslands. Það verður því ekki fjallað nákvæmlega um líffræði þessara sela­tegunda hér, en áhugasömum vísað í bókina. Í henni eru einnig myndir sem gagnast vel til þess að þekkja tegundir í sundur. Allar nefndar flækingstegundir eru hér við land vor, sumar og haust í einhverjum mæli og eru algengastar við norðanvert landið.
Stærsta dýr sem hugsanlegt er að veiða hér er fullvaxinn blöðruselsbrimill, hann rétt slær full­vöxnum útselbrimli við. Nú mundi einhver segja að rostungur væri stærri, sem er rétt, en rostungar eru ekki selir strangt til tekið og eru ekki ár­viss­ir gestir hér, svo ég sleppi þeim. Atlantshafsrostungur er hins vegar með vinsælum „trophy“ veiðidýrum í Norður Ameríku (sjá bókina The Perfect Shot North America eftir Craig Boddington, gefin út af Safari Press Inc. Árið 2003, 215 bls.) Ég hélt sjálfur lengi vel að alfriðun þeirra næði einnig til Íslands, en svo mun ekki vera, því þeir eru ekki friðaðir í tilskipuninni um veiðar hér við land og svokallað villidýrafrumvarp nær ekki til rostunga né sela.
Besta kjötið, sem fer náttúrulega eftir smekk, er af ungum útselsurt­um. Almennt er kjötið bragðbetra hjá ungum dýrum en gömlum. Hver sela­teg­und hefur sitt bragð. Vöðuselir eru bragðgóðir einnig, betri en landselir, að dómi höfundar. Fleiri selategund­ir hefur höfundur ekki smakkað.

 

LÍFRÆÐILEG ATRIÐI GAGNLEG SKOTVEIÐUM Á SEL

Landselur

Landselur getur orðið rúmlega 2 m að lengd og yfir 100 kg að þyngd. Kynjamunur er lítill en brimlar nokkru stærri og breiðleitari en urtur. Landsel er að finna allt í kring um landið. Landselir eru þrekvaxnir og kubbslegir, með hundslaga höfuðlag. Nasirnar koma saman að neðanverðu og mynda v. Venjulega er litur dýra dökk­ur, steingrár eða gulgrár á baki, með þéttum dökkum eða ljósum dílum. Á hliðum og kviði er hann ljósgrár. Kæpingar og kópauppeldistími er í maí til júlí. Á þessum tíma verða skotveiðimenn að gæta þess að drepa ekki urtuna frá kópnum, því þá veslast hann upp og drepst hungurdauða. Landsel hefur fækkað um þriðjung við landið síðan 1980. Stofnmatið 2003 var um 10 þúsund dýr. Kópar landsels, vorkópar, eru veiddir í net á sumrin og einnig kemur fjöldi þeirra í fiskinet sem vetrungar (sjá árlega skýrslu Hafrannsóknastofnunar um ástand nytjastofna og aflahorfur). Landselur er auðveld veiðibráð, hvort sem skotið er úr bát eða frá landi. Fljótur í sjóinn ef styggður, en forvitinn og kemur í átt til manna svona eins og til þess að skoða þá.

 

Útselur

Útselur getur orðið 3 m að lengd og yfir 300 kg að þyngd. Höfuðið er stórt og frammjótt og með hringmyndaðan múla og langt snjáld­ur. Útselurinn hefur mun hærra nef og lengra trýni en landselurinn. Nasirnar eru næstum samsíða, mynda | |. Kynjamunur er allnokkur. Brimlar stærri en urtur og dekkri á litinn, næst­um svartir. Litur urta er yfirleitt grár með mósvörtum dílum á baki og á hliðum, en einlitur á kviði, höfði og hreifum. Kæping og kópauppeldi er frá miðjum september langt fram í nóvember. Þá verða veiðimenn að gæta þess að drepa ekki urtur frá kópum sínum. Útsel hefur fækkað mikið á tímabil­inu 1982-2002, úr 10 í 5 þúsund dýr. Þeir eru talsvert veiddir hér við land og koma einnig í fiskinet. Útseli má finna um land allt en algengastir eru þeir við Vestur-,­
Norðvestur- og Suðausturland. Út­selur er mjög stygg­ur á landi og fljótur í sjóinn við minnstu truflun. Í sjón­um fær hann að því er virðist falska öryggis­kennd og nálgast menn til þess að skoða þá, að því er virðist. Hann tollir þó ekki lengi við og færir sig utar og fylgist með úr fjarlægð, eða oftar en ekki fer burt. Það þarf því að nýta færin sem gefast. Útselsbrimlar að stærstu gerð eiga það til að nálgast menn, með nasirnar rétt upp úr sjónum. Það ætti ekki að skjóta­ á þá í þessari stellingu, heldur sýna þolinmæði og bíða betra færis. Dýr sem nefið hefur verið skotið af veslast smám saman upp og deyr kvalafullum dauðdaga.

 

Blöðruselur

Blöðruselir geta orðið 3 m að lengd og yfir 350 kg að þyngd. Brimlar eru stærri en urtur og þeir geta blásið upp húðfellingar ofan á trýninu og blásið eldrautt miðnesið út eins og blöðru út um aðra nösina. Liturinn er silfurgrár með dökkbrún­um flekkjum á búk. Höfuð og hreifar eru einnig dökkbrún. Feldur blöðruselskóps er blágrár á baki en silfurgrár á síðum og kviði. Blöðruselir fara um öll Íslandsmið djúpt undan landi. Helst eru það veik dýr sem skríða á þurrt. Blöðruselir eins og vöðuselir kæpa á ísnum norðan Jan Mayen í mars-apríl. Stofninn þar er talinn vera um 150 þúsund dýr. Blöðruselsveiðar hér við land fara helst fram á bátum. Þekktasti veiðiskapurinn eru blöðruselsveiðarnar í Skjálfanda, sem miða að því að vernda afla í fiskinetum. Blöðruselir eru skæðir í fiskinetum, bíta gat á kvið ánetjaðs fisks og sjúga lifrina og innyflin úr, jafnvel í djúpliggjandi þorskanetum, því selirnir eru miklir kafarar. Greinilegt er að veiðireynsla og útsjónarsemi skiptir verulegu máli, ef árangurinn á að verða einhver á blöðruselsveiðum. Þau dýr sem veiðast hér við land eru brimlar í miklum meiri hluta.

 

Vöðuselur

Vaxtarlagi vöðusels svipar til landsels, en sá fyrrnefndi er nokkru­ stærri að jafnaði. Getur hann orðið 2 m að lengd og 140 kg að þyngd. Kynin eru svipuð að lit og lögun. Fullvaxnir vöðuselir hafa dökkan skjöld yfir bakið og eru svartir á höfði og dindli. Ungu dýrin sem helst koma hingað eru með silfurgráan feld með óreglulegum dökk­um dílum, kallaðir dropaselir. Selirnir koma að Íslandsströndum mjög víða, en síst þó við Suðurströndina. Næstu kæpingarstaðir við Ísland eru á haf­ísnum norðan Jan Mayen. Þar er talið að kæpi um hálf milljón vöðusela ár hvert í mars mánuði. Vöðuselsstofnar í heimshöfunum hafa stækkað mikið, að undanskildum Barentshafsstofninum. Litlar líkur eru á því að menn komist í skotfæri við vöðuseli úr landi. Menn þurfa að hrinda báti á flot.

 

Hringanóri

Hringanóri er minnst­ur norrænna sela, mjög líkur landsel. Hann er einkennisselur Grænlandsstranda og mikið veiddur þar af frumbygg­jum. Stofnstærðin er metin að lágmarki nokkrar milljónir dýra. Getur orðið næstum 2 m að lengd og 125 kg að þyngd. Á bakinu eru dökkgráir smáblettir umluktir ljósri­ rönd. Aðallitur baksins er grár og kviðurinn er ljós. Hringanórar heimsækja Íslands­strendur síðla vetrar og snemma vors. Sérstaklega finnast þeir fyrir norðan, en einnig hafa þeir sést á Faxaflóa. Hringanórar virðast reglulega koma í Eyjafjörð alveg inn í Poll og hvíla sig þar á ísnum. Höfundur hefur einnig séð þá liggjandi á ís innst inni í Ísafirði, Ísafjarðardjúpi.

 

Kampselur

Kampselir hafa einkennandi stór og löng veiðihár, sem rúll­ast upp í endann þegar þau þorna. Urtur eru stærri en brimlar og hafa fjóra spena, eða tveimur fleiri en hinar sela­tegundirnar. Höfuðið er hlutfallslega lítið, hnöttótt og mjóslegið. Augun eru lítil og stutt á milli þeirra. Kampselir eru frekar litlausir og verða hár og tannlausir með aldrinum. Fullorðin dýr eru oft mósvört eða dökkstálgrá, en geta verið með næstum svart bak. Haus og hreifar eru oft ryðrauðir. Kampselir eru sjaldgæfir gestir hér við land, fyrir norðan, vestan og aust­an. Það vekur þó oft allmikla at­hygli þegar þeir koma því dýrin liggja dögum saman á svipuðum stað og láta ekkert trufla sig. Hægt er að ganga að þeim taka myndir, jafnvel „klóra þeim á bakinu“, rólyndi þeirra er með eindæmum. Þeir eru því allt of auðveld veiðibráð, nema menn vilji endilega fá einn uppstoppaðan í safnið. Andstætt öðrum selategundum, sem hér er fjall­að um og eru fiskætur, éta kampselir ýmsa botnhryggleysingja.

 

SKOTIÐ Á SEL

Á landi

Picture 5.jpgBest er að miða rétt ofan og aftan við framhreifana, í brjóstholið mitt. Þá fer kúlan í hjartað og lungun. Hausinn verður þá heill og mögulegt að stoppa hann upp. Skinnið á fullorðn­um sel að stærstu gerð er mjög þykkt, hálfur sm eða meira, og innan við það er þykkt spiklag sem kúlan þarf að brjótast í gegnum áður en í hjartað eða lungun er komið, svo öfluga kúlu þarf til þess að stöðva dýrið sem þegar við skotið tekur heiftarlegt viðbragð í átt til sjávar. Riffill af kalíber .243 verður að teljast algert lágmark og kúla með opnum eða sljóum oddi sem hefur að minnsta kosti 180 kgm (1.764 júl) slagkraft á 100 m færi, eins og Ólafur E. Friðriksson fjallar um í bók sinni Skotveiðar í íslenskri náttúru sem gefin var út af Iðunn árið 1996. Stærstu selir þurfa jafnvel kalíber .260.

 

Í sjónum

Eina færið sem gefst á sel í sjó er skot í hausinn þegar hann stend­ur upp úr yfirborðinu. Skotið þarf að fara inn í gegnum hauskúpuna í heil­ann, svo dýrið drepist samstundis og kafi ekki burt í andaslitrunum. Miða skal rétt við hlustina í sömu hæð og lína í gegnum auga og hlust myndar. Skotstaðurinn sést best á hlið. Skot beint framan á sel sem teygir trjónuna fram til þess að hnusa er vafasamt, því þá er nefið ofar augunum og einungis spik ofan sjólínu. Þannig getur skotið helsært dýr, en ekki drepið heiladauða því hauskúpan er ósködduð. Skot í gegnum auga í þessari stöðu getur einnig farið framhjá hauskúpunni og helsært dýr en ekki drepið strax. Til þess að ná hliðarskoti má reyna þá veiðibrellu, ef menn eru tveir, að sá byssulausi gangi rólega frá þeim sem liggur með byssuna til annar hvorrar handar. Mjög líklega fylgir selurinn honum með augunum og snýr þá vanganum í skotmanninn. Í sjónum er mögulegt að steindrepa sel með minni kúlnastærð en á landi, enda er færið yfirleitt mun styttra. Útselir hafa verið drepnir með kalíberum .22-250 og landselir með .22 á stuttu færi af góðum skyttum. Blöðruselir hafa verið skotnir með O og O-O höglum úr 3“ haglabyssum. Stærri kúlustærðir veita þó mun meira öryggi og tryggja það að særð dýr sleppi ekki úr augsýn, til þess eins að veslast upp og drepast annars staðar eftir langt dauðastríð.

 

ÞAÐ ÞARF AÐ NÁ BRÁÐINNI

Selur skotinn á landi er auðveld bráð. Hann má sækja á þar til gerðu ökutæki og lyfta eða spila upp í kerru.
Selur skotinn frá landi rekur sjaldnast upp í fjöru. Hann getur sokkið fljótlega, rekið frá landi eða rekið með ströndinni á stað sem ekki er mögulegt að vaða út í. Til dæmis getur hann rekið upp á áreyrar straumharðra jökulfljóta. Ef ekki skal synda eftir seln­um þarf bát.
Selur skotinn úr bát er einnig­ auðveld bráð, nema þegar dýrið tekur upp á því að steinsökkva. Mótorbátar eru það snarir í snúning­um að ekki tekur langan tíma að sigla að bráðinni og tryggja hana, en ef skotið er úr árabát er hentugt að hafa handbæran skutul með línu til þess að skutla í selinn. Það er gamla lagið. Skotvopnalausir menn skutluðu seli hér á árum áður, með þar til gerðum selskutlum, eins og lýst er í Íslenskum sjávarnytjum Lúðvíks Kristjánssonar. Þórður á Dagverðará vissi nákvæm­lega hve langur tími leið þar til sokkinn selur steig upp til yfirborðsins og hvar það mundi vera, en það gerist þegar gas hefur myndast í maga og innyflum vegna gerjunar. Þórður sagði bara engum, að ég best veit, þetta leyndarmál sitt. Okkur hinum er sokkinn selur tapaður! Reyndir staðkunnugir veiðimenn tryggja endurheimtur veiðinn­ar með því að skjóta sel einungis yfir grunnu vatni og yfir hreinum botni þar sem selurinn getur sést, svo stjaka­ megi honum upp. Einnig má nota skautuð sólgleraugu eða kassa með gleri í botninum, til þess að sjá betur ofan í sjóinn. Hvort selur flýtur eða ekki fer að mestu leyti eftir því hversu feitur hann er. Selir eru feitastir fyrir kæpinguna og horaðastir eftir hana og hárlosið, en þá fasta þeir. Útselir eru feitastir í júlí og ágúst. Landselir eru feitastir í maí. Reynslan hefur kennt mönnum að urtur fljóta frekar en brimlar, einnig að selir fljóta síður í ferskvatni en sjó. Ég hef hlustað á heitar umræður á milli veiðimanna um hvort eigi að skjóta sel rétt er hann kemur úr kafi, eða rétt áður en hann kafar. Ég ætla ekki að ræða það frekar hér, en tel að veiðimenn eigi að einbeita sér að því að ná góðu vangafæri, frekar en bíða eftir öndun dýrsins. Selir anda frá sér áður en þeir kafa! Það gera þeir til þess að fara í kaf með sem minnst loft, sem kemur í veg fyrir að þeir fái köfunarveiki.
Særður selur sem snýst til varn­ar getur verið stórhættuleg­ur. Hann bítur og klórar og reynir að flýja. Bitið er það sterkt að fingur geta farið af og jafnvel útlimir brotnað og blæðandi sár hlotist af. Klóri selur mann eru miklar líkur á selameini, sem sýkill úr selnum veldur ef hann fær greiðan aðgang að blóðrásinni í gegn­um opin sár og klór. Sýkillinn leggst sér í lagi á liðamót og veldur bólgum og sársauka. Liðamótin geta stífnað og menn fengið staurfingur, ef ekki er leitað læknis í tíma. Þegar farið er inn í sel er sjálfsagt að nota hanska. Ganga má úr skugga um hvort selur sé lifandi eða dauður með því að reka eitthvað upp í opin augu hans. Loki selurinn auganu er hann augljóslega lifandi, en geri hann það ekki er hann dauður. Ef minnsti vafi leikur á því að dýrið sé dautt er full ástæða til að eyða á það einu skoti til viðbótar.

 

Lokaorð

Mér finnast selveiðar bæði spennandi og skemmtilegar. Selir eru sýnd veiði en ekki gefin. Mikið tilstand getur verið að komast á veiðistað og endurheimta bráðina, ekki ósvipað hreindýraveiðum, sem ég hef einnig kynnst. Mínar selveiðar snérust um öflum rannsóknagagna, en slík söfnun selasýna er ekki stunduð nú. Skotveiðimenn mega þó búast við því að þeir verði beðnir um að taka líffærasýni, þegar slíkar rannsóknir verða settar af stað aftur.
Hringormanefnd greiðir 50 krónur á kg veidds útsels og 3000 krónur fyrir neðri kjálkann. Einnig 4000 krónur fyrir söltuð haustkópaskinn. Samtök selabænda hafa gefið út myndband sem lýsir verkun selskinna, sem fæst keypt hjá Árna Snæbjörnssyni hlunnindaráðunaut hjá Bændasamtökunum, Bændahöllinni við Hagatorg. Ólafur E. Friðriksson lýsir einnig verkun selskinna og sundrun sels í bókinni skotveiðar í íslenskri nátt­úru.
Á netinu eru sportveiðar á sel auglýstar, sjá http://www.huntingiceland.com/
Erlingur Hauksson
sjávarlíffræðingur

Tags: hafa, dýrin, menn, séu, knýr, selveiða, selveiðum, bráðinni, mikilvægast, allmargir, sult­urinn, selskinn, markaðir
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Í sigtinu - Skotveiðar á sel