Þjóðlendur og almannaveiðiréttur


17-19-1.jpg Til að vinna þetta vandasama verk skipaði forsætisráðherra svo­kallaða Óbyggðanefnd haustið 1998. Nefndinni ber að kanna og skera úr um hvaða land telst til þjóðlendna og hver séu mörk þeirra og eignarlanda. Einnig ber henni að skera úr um mörk þess hluta þjóðlendu sem nýttur er sem afréttur, úrskurða um eignar­réttindi innan þjóðlendna auk þess sem henni hafa verið falin tiltekin verkefni við að skipta landinu upp í sveitar­félög. Nefndin á að hafa lokið störfum árið 2007. Í mars sl. kvað nefnd þessi upp fyrstu úrskurði sína. Í greinar­stúf þessum er ætlunin að gera stutt­lega grein fyrir þýðingu þjóð­lendu­laga og úrskurðum óbyggða­nefndar fyrir skot­veiði­menn, hvaða rétt al­menn­ingur mun hafa til skot­veiða innan þjóð­lendna og niður­stöðum nefndarinnar í fyrstu úrskurð­um hennar.

 

Almennt um veiðirétt

Áður en lengra er haldið er ekki úr vegi að rifja stuttlega upp nokkur meginatriði varðandi veiðirétt og eignarhald hans.
Villt dýr og selir eru eigandalaus verðmæti eða náttúrugæði. Eignarréttur að villtum dýrum sem veidd eru stofnast með svokallaðri töku. Með töku er átt við stofnun eignarréttar sem á sér stað með umráðatöku verðmætis sem þá er ekki eignarrétti háð. Töku villtra dýra og sela köllum við í daglegu tali veiðar. Slík taka er þó ekki öllum heimil því frá upphafi byggðar á Íslandi hefur rétturinn til að veiða spendýr og fugla verið tengdur eignarhaldi á landi. Þannig hefur veiðiréttur verið hluti svokallaðra fasteignarréttinda.
Veiðirétti hefur því verið mis­jafnt farið eftir því hvernig eignar­haldi á landi er háttað. Til ein­föld­unar má segja að löndum og svæðum utan þéttbýlisins hafi almennt verið skipt í þrjá flokka eftir eignar­haldi þeirra, þ.e. jarðir, afrétti og al­menn­inga.
Jarðir (heimalönd jarða/lögbýli) hafa þannig ávallt fallið í flokk eignar­landa og almenningar í flokk eiganda­lausra svæða. Afréttir hafa hins vegar hvort heldur sem er getað verið eigna­rlönd eða eigandalaus svæði. Með setningu þjóðlendu­lag­anna var flokkun lands eftir eignar­haldi í raun fækkað í tvo þ.e. annars vegar eignar­lönd og hins vegar þjóð­lendur, en í þann flokk falla af­réttir sem enginn getur sannað eignarrétt sinn til og almenningar.
Á eignarlandi er landeiganda einum heimilar dýraveiðar og ráðstöfun þeirra. Landeigandi ræður því hvort og þá hverjir stunda veiðar á landi hans skv. 2. mgr. 8. gr. laga um vernd friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum. Al­menn­­ingi eru hins vegar heimilar veiðar „... á afréttum og almenningum utan landareigna (eignarlanda) lög­býla, enda geti enginn sannað eignar­rétt sinn til þeirra...“. skv. 1. mgr. 8. gr. sömu laga. Fyrir setningu þjóð­lendu­laganna var almenningi því heimilt að veiða á þeim svæðum sem verða að þjóðlendum. Spurning er hvort sá réttur gildi áfram?

 

Veiðiréttur í þjóðlendum

 

17-19-3.jpg

 

Hvorki í lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum (hér eftir kölluð villidýralög) né lögum um þjóðlendur er fjallað berum orðum um veiðirétt í þjóðlendum. Til þess að komast að niðurstöðu um veiði­réttinn þarf því að rýna í ákvæði beggja laganna, bera þau saman og skýra.
Í þjóðlendulögunum er því m.a. lýst yfir að ríkið verði eigandi hvers konar landsréttinda sem ekki eru háð einkaeignarrétti innan þjóð­lendna. Veiðiréttur á villtum fuglum og dýrum fellur í þann flokk og tilheyrir því í raun ríkinu skv. lögun­um. Að jafnaði þarf að fá leyfi hjá viðkomandi sveitar­stjórn til nýtingar sambærilegra lands­réttinda og veiði­réttar innan þjóð­lendna. Hins vegar er einnig tekið fram að slík leyfi þurfi m.a. ekki varð­andi réttindi sem fengin eru öðrum með lögum.
Í þjóðlendulögunum er gerður skýr munur á eignarlandi og þjóð­lend­um en tekið skal fram að hug­takið landar­eign í villidýra­lögun­um hefur í raun sömu merkingu og hugtakið eignar­­­land í þjóðlendu­lögun­um. Sam­kvæmt villidýralögun­um gildir einka­veiði­réttur land­eig­anda aðeins á landar­­eignum/eignarlandi og þ.a.l. ekki á þjóð­lendum. Að sama skapi gildir almannaveiðiréttur á afréttum og al­menn­ingum utan landar­eigna/­eignar­landa lögbýla. Þrátt fyrir að afréttir verði ekki til sem hugtak um eignar­hald á landi og því síður al­menn­ingar þegar Óbyggða­nefnd hefur lokið störf­um, verður með hlið­sjón af framangreindu að telja að al­manna­­veið­iréttur gildi á þjóð­lendum. Fram­an­­­greint styðst einnig við um­mæli sem forsætisráðherra, Davíð Odds­­­son, lét falla á Alþingi þegar frum­varp til þjóð­lendu­laga var til umræðu þar. Að­spurður af Krist­jáni Pálssyni al­þingis­mann­i um veiðirétt á villtum fuglum og villtum spendýrum svaraði hann svo:
„Engin ástæða er til að ætla að með frv. sé verið að skerða þær ákvarðanir Alþingis sem liðnar eru hvað þetta varðar eða framtíðar­möguleika Alþingis hvað þetta varðar eftir að lögin hafa verið sett. Þetta þýðir með öðrum orðum að þeim reglum er nú gilda, þar með lög nr. 64/1994, og ákvæðum sem þar standa er í engu haggað þrátt fyrir þau lög sem við erum að undirbúa samþykkt á um þjóðlendur. Ég tek því undir það með hv. þingmanni að það er misskilningur aðila sem hafa óttast að með lagasetningunni sé verið að gera breytingar hvað það varðar. ...”
Þar sem réttindi þessi eru fengin almenningi með villidýra­lögun­um verður jafnframt að slá því föstu ekki þurfi að sækja um leyfi til við­kom­andi sveitarstjórna til skot­veiða á þjóðlendum.
Þrátt fyrir framangreint er ljóst að nauðsynlegt er að breyta villi­dýralögunum til þess að gera þetta skýrara og til að tryggja rétt al­menn­ings til skotveiða á þjóðlendum. Eðli­legast verður að telja að kveðið verði á um það berum orðum að almanna­veiðiréttur gildi á þjóðlendum. Því mun stjórn SKOTVÍS beita sér fyrir á komandi vetri.

 

Þýðing þjóðlendulaga og úrskurða óbyggðanefndar fyrir skotveiðimenn

Að því gefnu að almanna­veiði­rétt­ur gildi á þjóðlendum munu úrskurðir Óbyggðanefndar hafa verulega þýðingu fyrir skotveiðimenn. Af öllum þeim dómum sem gengu á 20. öld, um eignarhald á svæðum utan byggðamarka, var einungis í tveimur tilvikum skýrlega fallist á að land væri undirorpið beinum eignarrétti. Lang­líklegast er því að Óbyggðanefnd komist að þeirri niðurstöðu að meiri­hluti lands á hálendi Íslands verði þjóðlendur þegar nefndin hefur lokið störfum.
Þegar nefndin hefur kveðið upp úrskurði sína mun heldur ekki ríkja um það nein óvissa lengur hvar heimilt er að stunda skotveiðar án þess að óska eftir leyfi landeiganda. Hægt verður að skoða það á korti. Þetta er þó með þeim fyrirvara að heimilt er að skjóta úrskurðum nefndarinnar til dóm­stóla innan sex mánaða frá því niður­staða hennar hefur verið birt í Lög­birtingablaðinu. Niðurstaða nefndar­innar er því ekki endanleg fyrr en ljóst er hvort úrskurði hennar verður skotið til dómstóla. Verði úrskurði skotið til dómstóla liggur endanleg niðurstaða ekki fyrir fyrr en að lokinni upp­kvaðningu héraðsdóms eða eftir atvik­um hæstaréttardóms, verði niðurstöðu héraðsdóms áfrýjað til Hæstaréttar.

 

Úrskurðir óbyggðanefndar í Árnessýslu

Í mars sl. kvað nefndin upp sína fyrstu úrskurði, sjö talsins. Vörð­uðu þeir allir landsvæði í uppsveitum Árnessýslu. Úrskurðir þessir eru mjög vandaðir og ítarlegir og ljóst að nefndin hefur lagt í þá mikla vinnu. Í úrskurðunum er kafli sem kallaður er „Almennar niðurstöður Óbyggða­nefnd­ar“. Þar gerir nefndin grein fyrir almennum athugunum og niður­stöð­um sínum um staðreyndir og laga­atriði sem þýðingu hafa við úrlausn málanna. Þessi kafli er í raun hinar almennu forsendur sem úr­skurð­irnir byggjast á og gera má ráð fyrir að úrskurðir nefndarinnar í framtíðinni muni byggjast á. Greinarhöfundur hvetur þá sem áhuga hafa á þessum málum að kynna sér þessa kafla sérstaklega.
Hér eru ekki tök á því að fara ofan í framangreindar for­sendur nefndarinnar né einstakar niður­­­stöður hennar. Almennt má þó segja að úrskurðirnir séu í samræmi við fræðikenningar og dómafordæmi frá síðustu öld er þessi mál varða og eru almennt viðurkennd. Athygli vekur þó að nefndin virðist gefa landa­merkjabréfum nokkuð meira vægi auk þess sem hún gerir ekki kröfu um að hægt sé að sýna fram á órofa yfirfærslu eignarréttinda lands frá landnámi til dagsins í dag. Rétt þykir einnig að taka fram að nefndin gerir ekki mikið úr fordæmisgildi þeirra dóma, sem gengið hafa í sakamálum vegna meintra ólögmætra fuglaveiða, m.a. þar sem vafi í slíkum málum um eignarhald og landamerki er ávallt túlkaður meintum sakamanni í hag. Ekki er því óhugsandi að svæði, sem talin hafa verið eigandalaus á grund­velli slíkra dóma, verði í meðferð óbyggðanefndar talin eignar­lönd.
Í samræmi við þetta og eins og búast mátti við í ljósi fræði­kenn­inga og eldri dóma, varð það niður­staða Óbyggðanefndar að mestur hluti þess svæðis sem nefndin fjallaði um í þessum sjö úrskurðum teldist til þjóð­lendna (sjá nánar meðfylgjandi kort um niðurstöður nefndarinnar varðandi landssvæði í Árnessýslu). Nefndin komst þó að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum um Biskups­tungna­afrétt og efstu lönd í Biskupstungna­hreppi (mál nr. 4/2000) að víðáttu­mikið svæði, sem afmarkast í grófum dráttum af línu dreginni frá Rauðafelli til norðaustur í Hagavatn (við rætur Hagafellsjökuls í Langjökli), frá Haga­vatni til suðausturs um Sandvatn niður að Hvítá, væri eignarland (sjá kort).
Þrátt fyrir það gefa þessir fyrstu úrskurðir nefndarinnar tilefni til að ætla að þegar nefndin hefur lokið störfum muni stærsti hluti hálendis­svæða á Íslandi teljast þjóðlendur. Verði svo, og haldist almanna­veiði­réttur til skotveiða innan þjóðlendna, eru þjóðlendulögin líklegast ein mesta réttarbót sem íslenskum skotveiði­mönn­um hefur hlotnast. Það verður því spennandi að fylgjast með störfum nefndar­innar næstu ár og afdrifum þeirra úrskurða hennar sem látið verður reyna á fyrir dómstólum.
Áhugasömum er bent á heima­síðu Óbyggðanefndar. Rétt er að benda á að kort sem sýnir niður­stöður nefndarinnar í Árnessýslu er hægt að skoða á heimasíðu Óbyggða­nefndar obyggdanefnd.is. Á síðunni er jafnframt hægt að nálgast upplýsingar um störf nefndarinnar og þjóðlendu­lögin og fylgjast með gangi mála.
Að lokum vill undirritaður hvetja þá skotveiðimenn sem hyggja á veiðar í uppsveitum Árnessýslu að kynna sér niðurstöður nefndarinnar og veiða ekki á svæðum sem úrskurðuð hafa verið sem eignarlönd án leyfis landeiganda.

 

Með ósk um gott veiðitímabil og hóflega veiði,
Ívar Pálsson, varaformaður SKOTVÍS.


Heimildaskrá:
Auk laga, heimasíðu Alþingis og Óbyggðanefndar og úrskurða Óbyggða­nefndar studdist greinar­höfundur við eftirtalin rit við samningu greinarinnar:
1. Ívar Pálsson 1998: Skotveiðar (Réttarstaða skotveiðimanna), kandídatsritgerð við lagadeild Háskóla Íslands.
2. Þorgeir Örlygsson 1995: Um eignarhald á landi og náttúruauðlindum, Afmælisrit Gauks Jörundssonar, Reykjavík.

Tags: voru, verið, slík, kölluð, lagi, ríkið, svæði, þessi, enginn, sinn, sannað, eignarrétt, lögunum
You are here: Home Tímaritið SKOTVÍS Greinar um málefni Aðrar greinar Þjóðlendur og almannaveiðiréttur