Helvítis hakkið

„Svo er það helvítis hakkið“ sagði ágætur og þekktur veiði­maður þegar hann náði í hrein­dýra­kjötið til kjöt­iðnaðar­manns­ins. Það er allt of algengt að veiðimenn og fjöl­skyldur þeirra kunni ekki að laga gómsæta rétti úr hreindýrahakki. Þetta er á vissan hátt dapurlegt, því úr hakkinu má laga aldeilis frábæra rétti, - já hreinan hátíðarmat. Margir veiðimenn telja sig ekkert hafa að gera með skrokk af heilu hreindýri. Satt best að segja er ég undrandi á því; staðreyndin er nefnilega sú að hreindýrakjöt er einhver hollasti og besti matur sem völ er á. Margir matreiða hreindýrakjöt aðeins á hátíðis­dögum, sem veislumat, en úr hakkinu má laga frábæran hvers­dags­mat. Mín reynsla er sú að krökkum og unglingum, sem oft vilja ekki borða villibráð, finnst réttir úr hrein­dýrahakki frábærir. Nefna mætti kjötbollur, hamborgara og pastarétti.

 

Góða veislu gjöra skal

Hreindýrahakkið er fitusnautt en hefur nákvæmlega sömu bragð­eiginleika og vöðvarnir. Í uppskriftum, sem iðulega koma frá Noregi eða Svíþjóð, er mælt með því að saman við hreindýrahakkið sé blandað svínahakki. Ég mæli hins vegar með því að nota frekar kinda- eða lambahakk, - gjarnan feitt. Íslenska sauðkindin er nánast villibráð og kindakjöt á því vel við hrein­dýrahakkið. Þá eru uppskriftirnar iðulega allt of flóknar. Bragðgæði villibráðar eru einstök, þess vegna á að nota allt krydd sparlega. Því einfaldari sem marteiðslan er, því betra. Segja má að íslensk villibráð kryddi sig sjálf.

 Picture 51.jpg

Hreindýra­borgari

Já, hvers vegna ekki? Hamborgarar úr villibráðarkjöti eru vinsælir í Alaska, en þá er notað kjöt af elg eða hreindýri. Tilvalið er að glóðarsteikja hreindýraborgarana og best er að hafa þá frekar þykka, þeir verða að vera rauðir og safaríkir.
Það sem þarf:

 • 400 gr hreindýrahakk
 • 1 tsk paprikuduft
 • ½ tsk cayenepipar
 • 1 tsk salt
 • 1 msk ólífuolía

 

 1. Blandið öllu saman nema ólífuolíunni. Formið fjóra hamborgara og penslið þá með olíunni. Steikið þá á grilli.
 2. Gott er að hita hamborgarabrauðið á grillinu. Á hamborgurunum er gott að hafa gráðost, rauðan lauk í örþunnum sneiðum, ósætt gróft sinnep, tómata í sneiðum og sýrðar gúrkur.

Tilvalið er að hafa með hrein­dýra­borg­ur­unum Coleslaw, sem er banda­rískt hrásalat.


Í Coleslawsalatið þarf:
¼ hvítkálshaus, rifinn niður með rifjárni
1 gulrót, rifin niður með rifjárni, - frekar fínt
1 dl majones
2 dl sýrður rjómi
1 msk rauðvínsedik
salt og pipar

 1. Blandið saman majonesi og sýrðum rjóma. Bragðbætið með rauðvínsediki. Kryddið með salti og pipar.
 2. Blandið grænmetinu saman við sósuna.

Með hreindýraborgurunum er gott að hafa kaldan bjór.

 

Sænskar kjötbollur

Sænskar kjötbollur eru heimsfrægar. Nú er svo komið að matsölustaðir IKEA verslan­anna eru að verða með stærri veitinga­­húsakeðjum heims. Vin­sælasti réttur­inn á matseðli IKEA eru, og kemur ekki á óvart, kjöt­bollurnar.
Hér kemur uppskrift af sænskum hrein­­dýra­­­kjötbollum sem eru frá­bærar. Krökk­­unum finnst þessar bollur algjört æði.
Það sem þarf í þennan rétt er:

 • 400  gr hreindýrahakk
 • 100 gr ær- eða lambahakk (svínah.)
 • 5 msk ókryddað brauðrasp
 • 2 ½  dl rjómi
 • 1 gulur laukur, lítill
 • 2 msk smjör   
 • 1 egg
 • Salt og pipar eftir smekk
 • 2 msk    smjör
 • ólífuolía

 

 1. Steikið laukinn í 2 msk. af smjöri og látið hann kólna. Blandið saman brauðraspi og rjóma.
 2. Blandið saman hreindýrahakki, kinda­hakki, lauk, rasp/rjóma­blönd­unni, eggi. Kryddið með salti og pipar.
 3. Mótið litlar kjötbollur. Efnið í hverri bollu á að vera u.þ.b. 2 msk. Steikið bollurnar í blöndu af ólífuolíu og smjöri á pönnu. Þegar búið er að steikja bollurnar er lok sett á pönnuna og slökkt undir. Látið pönnuna standa á hellunni í 10 mín.

Með hreindýrabollunum er gott að hafa kartöflumús, sveppasósu, sýrðar gúrkur; og góð sulta er algjör nauðsyn.

 

Pasta

Pasta og villibráð er öndvegismatur. Finna má marga slíka öndvegisrétti frá Norður Ítalíu. Hér kemur uppskrift af pastasósu sem er frábær, bragðgóð og mettandi. Kosturinn við þessa uppskrift er að pastasósuna má auðveldlega frysta og nota eftir hendinni.
Það sem þarf er:

 • 3 gulir laukar, fínt saxaðir
 • 2 hvítlauksrif, fínt söxuð
 • 200 gr sellerírót, rifin með rifjárni
 • ólífuolía
 • 1 kg hreindýrahakk
 • 1 ds niðursoðnir tómatar
 • 1 dl tómatkraftur (puré)
 • 2 dl rauðvín
 • 2 dl vatn
 • 2 gulrætur, rifnar með rifjárni
 • 1 teningur eða 1 msk villibráðarkraftur
 • 2 lárviðarlauf
 • ½ tsk kanill
 • 5 einiber
 • salt og pipar

 

 1. Laukur og sellerí er steikt í matarolíu. Bætið hreindýrahakkinu við og steikið.
 2. Þegar búið er að steikja hreindýrahakkið eru tómatar, tómatkraftur, vín, vatn og rifnu gul­ræturnar settar í pottinn. Látið suðuna koma upp. Bætið því næst í pottinn villi­bráðar­­krafti, muldum lárviðarlaufum og eini­berjum.
 3. Látið réttinn sjóða í 60 mín. Kryddið því næst með kanil, salti og pipar. Látið malla í 15 mín. til viðbótar. Ef sósan verður of þykk má bæta vatni í pottinn.

Með þessum rétti hafið þið það pasta sem þið viljið.

Tags: iðulega, hreindýrakjöt, hreindýrahakkið, hakkið, helvítis, margir, hakkinu, allt, segja, laga, nota, villibráð, veiðimenn