Aðalfundur 2011 - Skýrsla formanns

Ræða Sigmars B. Haukssonar formanns Skotveiðifélags Íslands á aðalfundi félagsins 22. febrúar 2011 í Gerðubergi 

Ágætu félagsmenn, vinir og samstarfsmenn.
SigmarB.jpg
Að þessu sinni ávarpa ég ykkur í síðasta sinn sem formaður okkar ágæta félags. Á aðalfundi félagsins í fyrra lýsti ég því yfir að ég myndi ekki gefa kost á mér til formennsku í SKOTVÍS á aðalfundi 2011. Ég vil nota tækifærið hér og þakka þeim mörgu félagsmönnum sem hafa haft samband við mig á liðnum vikum og hvatt mig til að gefa kost á mér áfram sem formaður eða í stjórn félagsins. Við ykkur vil ég segja það að undanfarin fjögur ár höfum við haft valið lið fólks í stjórn SKOTVÍS. Mér er nær að halda að hver einasti stjórnarmaður gæti sinnt starfinu sem formaður SKOTVÍS með miklum ágætum.

Þá mun ég hér á eftir flytja tillögu um nýjan formann, þar er um að ræða mann sem ég og núverandi stjórn SKOTVÍS treystum til góðra verka, mann sem lengi hefur verið virkur félagi í SKOTVÍS og setið í stjórn félagsins nú í nokkur ár og skilað þar góðu verki. Ég er því afar sáttur að láta nú að störfum sem formaður en ég hef heitið því, að í það minnsta næstu tvö árin, að vera nýjum formanni og stjórn félagsins innanhandar, sé þess óskað.

Formaður SKOVÍS 1996 - 2011

Ég var fyrst kosin formaður Skotveiðifélags Íslands 1996, ég hef því gengt formennsku í félaginu í 15 ár. Það er nokkuð langur tími og hef ég heyrt að þessi langi tími, sem formaður, hafi komið niður á vexti og viðgangi SKOTVÍS. Þessar gagnrýnis raddir hafa vissulega aðeins komið úr einni átt og læt ég þær mér þær litlu máli varða og legg ekki dóm á hvort þær séu réttar eða rangar, um það verða aðrir um að dæma. Ég vil hinsvegar nota tækifærið og benda á, að á þessum 15 árum, hefur engin annar en ég, boðið sig fram til formennsku í SKOTVÍS. Þá vil ég benda á að 1998, 2001, 2004 og 2006 bauðst ég til að hætta sem formaður. 2001 og 2006 var leitað með logandi ljósi eftir nýjum formanni án árangurs. Ég hef ávalt - ég endurtek ÁVALLT, verið tilbúin að standa upp úr stól formanns SKOTVÍS. Ég hef hinsvegar alltaf fengið mikla hvatningu til sinna þessu starfi og fyrir þann  mikla stuðning sem ég notið í þessi 15 ár er ég gríðarlega þakklátur. Varðandi langa setu á formannsstóli að þá er ég ekki einn um það, forseti vor Ólafur Ragnar Grímsson hefur verið í embætti í 15 ár - en það er nú önnur saga.

Upphafið

Skotveiðifélag Íslands er stofnað 23 September 1978. Helstu hvatamenn að stofnun félagsins voru ungir fiskifræðingar, tiltölulega nýkomnir heim frá námi. Á námsárum sínum erlendis höfðu þeir kynnst fornum veiðihefðum ýmissa landa Evrópu og ýmsum siðareglum tengdum veiðum. Á þessum tíma var lítið fjallað um þessi mál hér á Íslandi, veiðihefðir þjóðarinnar byggðumst fyrst og fremst á því að afla matar - að veiða sem mest. Undirbúningur að stofnun félagsins og umræður um tilgang félags um skynsamlega skotveiði fór aðalega fram innan veggja Hafró en þar störfuðu ungir fiskifræðingar sem áttu það sameiginlegt að vera miklir áhugamenn um skotveiðar. Þeir sem þarna voru í fararbroddi voru þeir Ólafur Karvel Pálsson, Eyjólfur Friðgeirsson og Sólmundur Einarsson.
Ég starfaði á þessum tíma í sama húsi og þeir félagar, Skúlagötu 4, en þar var þá Ríkisútvarpið til húsa. Fundir voru haldnir í kjallara Hafró og var vel vandað til stofnunar hins nýja félags. Ýmsir aðrir merkir menn komu að stofnun félagsins, í því sambandi vil ég einkum nefna þá Finn Torfa Hjörleifsson, Sverri Scheving Thorsteinsson, Pál Dungal, Vilhjálm Lúðvíksson, samstarfsmann minn á Útvarpinu Stefán Jónsson, Agnar Koefod Hansen, Braga Melax. Ólaf Jóhannsson, Skjöld Þorgrímsson og Bjarna Kristjánsson.

 Á sama tíma var nokkur umræða á meðal stangveiðimanna um siðfræði veiða og um þessar mundir var veiðifélagið Ármenn stofnað og komu ýmsir að stofnun þess félags sem voru í hópi stofnanda SKOTVÍS. Fyrsti formaður SKOTVÍS var Sólmundur Einarsson. Óhætt er að segja að stofnendur SKOTVÍS og fyrsta stjórn, hafi verið talsvert á undan sinni samtíð. Þessir frumkvöðlar lögðu megin áhersluna á siðfræði veiðanna og skynsamlega nýtingu náttúrunnar, það er að segja náttúruvernd í verki. Kjarninn í siðareglum félagsins var, sýnið landi og lífríki fyllstu aðgát, farið vel með veiðibráð, virðið rétt landeigenda, standið vörð um eigin rétt. Finnur Torfi Hjörleifsson tók síðan við formennsku af Sólmundi og að ári liðnu tók Sverrir Scheving Thorsteinsson við formennskunni. Það má halda  langa tölu um störf Sverris í þágu SKOTVÍS. Hann var í senn einarður baráttumaður fyrir réttindum skotveiðimanna, já réttindum alls útivistarfólks, hann var fræðimaður og góður kennari sem með frábærum dugnaði og þekkingu hefur átt hvað mestan þátt í að bæta og breyta til batnaðar ímynd skotveiða hér á landi. Síðar fór að halla talsvert undan fæti í starfsemi félagsins, margt kom til, fjárskortur og ekki síst tímaskortur félagsmanna. Leikar fóru þannig að Sólmundur Einarsson var aftur kosinn formaður og tókst honum með eljusemi og fórnfúsu starfi að endurreisa félagið, ef svo má að orði komast. Á þessum tíma munaði sára litlu að SKOTVÍS lognaðist út af. Ég leyfi mér að fullyrða, að án eljusemi Sólmundar og áhuga væri SKOTVÍS ekki það sterka félag sem það er í dag. SKOTVÍS hefði ekki þann sess sem félagið hefur í Íslensku samfélagi, ákvarðanir um stjórn veiða og málefni skotveiðimanna taka stjórnvöld ekki nema í samráði við SKOTVÍS. Haukur Brynjólfsson átti mikinn þátt í endurreisn félagsins og hefur ávalt verið ötull baráttumaður fyrir réttindum veiðimanna og annars útivistarfólks.

Veiðisel

Fyrstu árin í sögu SKOTVÍS var samkomustaður félagsmanna í Veiðiseli, Skemmuvegi 14.
Í Veiðiseli voru haldnir fræðslufundir sem lengi vel voru afar vel sóttir. Myndaðist fljótt þarna kjarni sem lét sig aldrei vanta á fundi og voru þessir menn helstu driffjaðrirnar í starfi  SKOTVÍS. Skemmtilegur þáttur í starfinu í Veiðiseli var að þar gátu ungir og óreyndir veiðimenn sótt í smiðju til þeirra eldri. Þó svo að margir áhugaverðir fyrirlestrar hafi verið haldnir á fundunum í Veiðiseli var það þó félagsskapurinn og frjóar umræður um allt milli himins og jarðar sem voru hvað skemmtilegastar. Því miður misstum við húsnæðið á Skemmuveginum  og ekki reyndist grundvöllur fyrir að útvega annað húsnæði og halda þessari starfsemi áfram.

Landssamtökin SKOTVÍS

Stofnendur SKOTVÍS voru stórhuga og var hugmyndin sú að stofna félög út um allt land, þannig að SKOVÍS yrði nokkurskonar regnhlífarsamtök. Talsverður áhugi var víða á landsbyggðinni og voru stofnuð skotveiðifélög á nokkrum stöðum og voru sum þeirra, til dæmis félagið í Grundarfirði, nokkuð virk. Ekki varð þó úr stofnun landssamtakanna SKOTVÍS. Helstu ástæður voru þær að SKOTVÍS hafði ekki neitt fjármagn til að vinna að framgangi þessa máls, til dæmis að senda menn út á landsbyggðina til að vinna að stofnun félaga. Flóttinn af landsbyggðinni var hafinn, margir landsbyggðarbúar fluttu til Reykjavíkur eða á suð-vestur hornið. Oftast var það þannig að það var einn eldhugi sem hélt uppi starfi félagsins og þegar hann flutti burtu dó félagið. Það sem hafði þó úrslitaáhrif á að ekki tókst að stofna og reka skotveiðifélög á landsbyggðinni var að með tilkomu lottósins fengu íþróttafélög og þar með skotíþróttarfélög smá styrki frá ÍSÍ. Það var því mun hagstæðrar fyrir fámenn félög að vera skotíþróttarfélag fremur en skotveiðifélag.

Veiðikortakerfið

Frá árinu 1983 höfðu verið umræður í gangi um nauðsin þess að safna veiðitölum. Einkum  átti þetta við um rjúpuna. Lengi höfðu verið talsverðar deilur um stærð rjúpnastofnsins, áhrif veiða á hann. Veiðikortakerfið hafði gefist vel í Danmörku og Svíþjóð og fyrir utan það að afla áhugaverðra upplýsinga um umfang veiða var þarna komin leið til að afla fjármagns til rannsókna á veiðidýrum. Það var svo ekki fyrr en 1992 að skriður komst á þetta mál og 1993 var ákveðið að taka breyta starfsemi embætti veiðistjóra. Veiðistjóri átti ekki lengur að vera yfir meindýraeyðir ríkisins. Sett var á laggirnar það kerfi sem við þekkjum í dag. Mikil andstaða var meðal  margra skotveiðimanna um þetta mál, margir veiðimenn, þá einkum á landsbyggðinni máttu ekki heyra á þetta minnst og miklar umræður voru innan SKOTVÍS um kosti og galla þessa fyrirkomulags. 1994 áttum við Ólafur Karvel Pálsson formaður  SKOTVÍS  fund fund með þáverandi umhverfisráðherra Össuri Skarphéðinssyni. Össur lagði hart að okkur Ólafi að styðja upptöku þessa nýja kerfis. Það var áhugavert fyrir mig að hlýða á þá náttúrufræðingana og doktorana að ræða kosti og galla hins nýja kerfis. Við Ólafur vorum sammála um að kostir veiðikortakerfisins væru mun fleiri en gallarnir. Við lögðum ríka áherslu á að stilla yrði gjaldi fyrir veiðikort í hóf og vorum við og ráðherra sammála um að hæfilegt gjald vari svipað og verð á skotapakka. Þá lagði Ólafur ríka áherslu á, að þrátt fyrir hið nýja kerfi, drægi ríkið ekki úr fjárveitingum til rannsókna á veiðidýrum, þessu svarði Össur ekki. Þá töldum við Ólafur afar brýnt að veiðimenn fengu að koma að úthlutunum úr Veiðikortasjóði, með því móti væru meiri líkur á að veiðimenn yrðu fylgjandi veiðikortakerfinu styddu þróun þess og uppbyggingu, þessu var Össur sammála hét okkur því að verða við þessum óskum okkar.
Raunin varð þó önnur, við höfðum ekkert um kerfið að segja eða úthlutanir úr sjóðnum. Það tók okkur 17 ára þrotlausa baráttu að fá fulltrúa SKOTVÍS í ráðgjafanefnd um úthlutanir ú veiðikortasjóði. Að vísu er rétt að halda til haga að 1996 var skipuð nefnd til að vera ráðuneytinu til ráðgjafar um úthlutanir úr Veiðikortasjóði. Fulltrúi SKOTVÍS í nefndinni var Sólmundur Einarsson. Nefnd þess vann mikla og góða vinnu og gerði tillögur um rekstur og skipulag sjóðsins. Ráðuneytið kaus að fara ekki eftir þessum tillögum og var nefndin ekki kölluð aftur saman þó að SKOTVÍS hafi krafist þess.

SKOTVÍS á krossgötum

1993 og 94 má segja að starfsemi SKOTVÍS hafi verið í tilvistar kreppu. 1993 var veiðitími á rjúpu styttur um 22 daga vega bágs ástands stofnsins, klippt var aftan af tímanum, eða frá 1 des til 22 des. Þetta var gert án nokkurs samkomulags við veiðimenn. Mikil ólga var á meðal veiðimanna vegna þessa máls. Ljóst var að stjórnvöld lytu ekki á Skotveiði félag Íslands sem málsvara veiðimanna. Þá var það staðreynd að SKOTVÍS yrði ekki, um sinn allavega, landsamband skotveiðifélga. Félagsmenn voru of fáir eða tæplega 750. Nauðsinlegt var að breyta starfsemi félagsins, gera það breiðara, gera starfsemina fjölbreyttari, SKOTVÍS var í raun á þessum tíma frekar þröngur klúbbur. Þá var afar mikilvægt að koma á sambandi við stjórnvöld, bjóða til samstarfs, semja við stjórnvöld um að SKOTVÍS væru hagsmunasamtök ALLRA Íslenskra skotveiðimanna og að ekki yrðu teknar ákvarðanir um skipulag veiða og önnur mál sen tengdust skotveiðum nema að bera málin fyrst undir félagið og reyna að finna lausnir í deilumálum sem almenn sátt væri um.

Formaður SKOTVÍS

1996 er ég kosin formaður SKOTVÍS, hafði áður verið varaformaður. Satt best að segja var ég algjörlega óundirbúin að taka við formennskunni. Ólafur Karvel hafði verið formaður í stuttan tíma, hann var drífandi, hugmyndaríkur og vinsæll á meðal félagsmanna . Ólafur vildi hætta vegna starfa sinna hjá Hafró, meðal annars þurfti hann að vera löngum stundum úti á sjó vin fiskirannsóknir. Lagði ég til, að ég leysti Ólaf af sem formann í eitt til tvö ár, hann kæmi svo aftur og tæki við formennskunni. Í fyrstu tók Ólafur þessari hugmynd  bara vel en þegar hann var hættur ákvað hann að draga sig alveg úr starfinu og var ekki tilbúin að koma aftur í stjórn. Það má segja að sú ákvörðun hafi verið skiljanlega, bæði vegna anna og þá hafði Ólafur unnið mikið starf fyrir félagið frá stofnun þess. Mér var fljótlega ljóst að mikilvægasta verkefni SKOTVÍS á þessum tíma væri að ná samningum við stjórnvöld um samstarf og samráð. Veiðitími á tuttugu og tveimur fuglategundum var styttur eða samræmdur eins og það var kallað. Ekkert samráð var haft við SKOTVÍS eða veiðimenn um þessa aðgerð. Meðal annars var veiðitími á blesgæs og helsingja stuttur um 10 daga, veiðar voru ekki leyfðar fyrr en 01 sept í staðin fyrir 20 ágúst. Þetta var gert, að sagt var, til að koma í veg fyrir dráp á ófleygum ungum. Eins og flestum er eflaust kunnugt um verpa þessar tegundir á Grænlandi og koma hér við á leið sinni til Bretlandseyja  og því varla um ófleyga unga að ræða. Þá var á þessum tíma, 1994 - 1995, starfandi nefnd um skipulag miðhálendisins. Engin fulltrúi útivistarfólks, svo sem jeppamanna, hesta- eða skotveiðimanna eða ferðafélaga átti sæti í nefndinni. Kannist þið við umræðuna. SKOTVÍS var fyrsta útivistarfélagið til að mótmæla þessum vinnubrögðum. Til að takast á við þetta verkefni, það er að segja, að koma á samvinnu við stjórnvöld, ákváðum við að fara samningaleiðina, leggja fram rök máli okkar til stuðnings og fá stjórnmála- og embættismenn að samningaborðinu til þess að hlusta á okkur, ræða málið. Það voru ekki  allir sammála þessari aðferðarfræði, fannst við ekki vera nógu herská og ákveðin. Ég var iðulega gagnrýndur fyrir linkind, að sýna ekki nægjanlega hörku, að vera of mikill diplomat. Reynslan hefur hinsvegar sýnt okkur að sú stefna sem SKOTVÍS tók á sínum tíma hvað varðar samskipti félagsins við stjórnvöld reyndist vera rétt, hefur skilað okkur þeim árangri sem við þó höfum náð á undanförnum árum.

Skrifstofa SKOTVÍS

1996 opnaði SKOTVÍS skrifstofu að Laugavegi 103 og 18 júlí sama ár réðum við starfsmann í hluta starf, Hjördísi Andrésdóttur, mikinn kvenskörung. Þetta var auðvitað algjör fífldirfska, við áttum enga peninga og félagsmenn voru rétt innan við 500. Nú þurftum við sem sagt að fara greiða laun og húsaleigu. Skrifstofan var notuð til fundarhalda og þangað gátu félagsmenn komið og fengið sér kaffibolla og rætt málin. Einkum hvöttum við félagsmenn af landsbyggðinni til að koma við hjá okkur. Nú var farið á fullt að afla nýrra félaga og ég fór að eiga fundi með þingmönnum og við buðum þingmönnum iðulega á fundi til okkar. Þá fórum við að senda þing og embættismönnum margskonar upplýsingar og fróðleik um vopn og veiðar. Við tókum upp samstarf við veiði- búðirnar, olíufélögin, bílaumboðin og fleiri. Við fórum að skrifa í blöðin um ýmis málefni er snertu veiðar og landréttarmál. Við kyntum okkur fyrir fjölmiðlafólki og hægt og bítandi fór þetta kynningarstarf að bera árangur. Fjölmiðlar fóru að hafa samband við okkur að fyrra bragði, við fórum að fá lagafrumvörp til umsagnar,  ráðuneytin fóru að leyta til okkar og biðja um fulltrúa félagsins í ýmsar nefndir og félögum fór að fjölga. Skotveiðifélag Íslands var orðið málsvari Íslenskra skotveiðimanna.

Útgáfumál

Allt frá stofnun SKOTVÍS hafa stjórnir félagsins lagt áherslu að að gefa út fréttabréf og senda til félagsmanna. Þessi útgáfa var til að byrja með skrykkjótt - fór eftir efnum og ástæðum. Frá 1993 kom þó út fréttabréf SKOTVÍS nokkuð regluleg. Þetta var fjölritað hefti með engum myndum, afar einfalt að allri gerð en kom þó að ágætum notum. Rit þetta kom út tvisvar á ári að meðaltali. Okkur stjórnarmönnum var þó fljótt ljóst að nauðsinlegt væri að Íslenskir skotveiðimenn ættu sér öflugt málgagn. 1995 var því ráðist í það stórvirki að gefa út glæsilegt tímarit, SKOTVÍS fagrit um skotveiðar og útivist. Nú hefur þetta blað okkar komið út í 15 ár. Ég fullyrði það hér, ágætir félagar, að ekkert sem við höfum gert hefur haft eins mikli áhrif á kynningu, vöxt og viðgang félagsins og útgáfa þessa blaðs okkar. Við höfum frá upphafi vandað mjög til útgáfunnar. Við notuðum blaðið óspart til að kynna félagið og helstu baráttumál okkar skotveiðimanna. Við dreifum árlega á milli 5 til 600 blöðum frítt til ýmissa hagsmunaaðila og stofnanna. Blaðið er mikið lesið af fólki sem ekki eru endilega skotveiðimenn. Einar Haraldsson var með mér í því að hefja útgáfuna og leggja grunninn að henni. Ég minnist þess að eitt vorið áttum við talsvert af gömlum blöðum. Einar tók sig þá til og fór með nokkra kassa á Landsspítalann og dreifði blaðinu þar og á nokkrum biðstofum lækna víða um borgina. En þess má geta að kona Einars er hjúkrunarfræðingur. Útgáfu saga SKOTVÍS blaðsins verður ekki sögð nema að geta ómetanlegrar aðstoðar Jóns Karlssonar bókaútgefanda en hann aðstoðaði okkur á ýmsan hátt og þá ekki síst varðandi hagstæða prentun á blaðinu, hönnun þess og öflun myndefnis. Fjölmargir hafa komið að útgáfu blaðsins í þessi 15 ár, hygg ég að ég  skyggi ekki á neinn þó ég minnist sérstaklega á þá Guðna Einarsson, Ólaf Nielsen og Arnór Þóri Sigfússon sem hafa skrifað reglulega í blaðið frá upphafi útgáfu þess. Í dag, 15 árum síðar, er tímaritið SKOTVÍS, helsti upplýsingabanki á Íslensku, um skotveiðar á Íslandi og málefni tengd þeim.

Vörugjaldið

Lengi vel var svo kallað vörugjald vinsæll skattstofn hér á landi. Meðal annars var 25% vörugjald á byssur skot og skyldar vörur. Hinsvegar var þetta vörugjald ekki á golf vörum. Skíðum og útbúnaði til stangveiða. Þetta vörugjald á byssur var okkur í stjórn SKOTVÍS mikill þyrnir í augum. Var ákveðið að taka þetta mál sérstaklega fyrir og einbeita sér að því.
1997 átti ég fund með þáverandi fjármálaráðherra Friðriki Sófussyni. Hann var ófáanlegur til að fella þetta óvinsæla vörugjald niður. Þá gripum við til þess ráðs að fá stjórnar þingmenn til samstarfs við okkur, áttum við marga fundi út af þessu máli. Leikar fóru þannig að ein af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, Kristján Pálsson, flutti tillögu þess efnis að vörugjald á byssur og skot yrði fellt niður. Við SKOTVÍS menn reyndum eftir mætti að kynna málstað okkar fyrir þingheimi. Þessi mikla vinna skilaði svo sannarlega árangri því þegar málið koma til afgreiðslu í þinginu, var það samþykt, vörugjaldið var fellt niður. Þetta hafði veruleg áhrif, byssur lækkuðu í verði og smygl á byssum, sem hafði verið töluvert, lagðist nánast af. Þá urðu byssur frá Bandaríkjunum nokkuð ódýrari hér á landi en víðast hvar annarstaðar í Evrópu.

Rabbfundir SKOTVÍS

Til að byrja með var talsverður áhugi á meðal félagsmanna SKOTVÍS að sækja ýmiskonar fræðslufundi. Fundirnir voru þó misvel sóttir, það fór þó nokkuð eftir efni fundarins. 1995 var afráðið að halda mánaðarlega rabbfundi yfir veturinn og voru þeir haldnir í Ráðhúskaffi  við Tjörnina, hjá félagsmanni okkar Baldri Öxdal. Þessir fundir voru haldnir, nánast mánaðarlega í ein 10 ár. Misjafnlega vel var mætt á fundina, en yfirleitt mættu sjaldnast færri en svona um 10 manns og flest vorum við 130 en það var fundur sem haldin var í kjölfar ákvörðun ráðherra að friða rjúpuna í 3 ár. Hvernig sem á því stóð var betur mætt á rabbfundina fyrir jól en eftir áramót. Mikill áhugi var á Þjóðlendumálum  sem við SKOTVÍS menn létum okkur mikið varða. Höfðum við líklegast eina 7 fundi um þennan málaflokk meðal annars fjölmennan fund á Hótel Borg með fulltrúum allra stjórnmálaflokka á Alþingi.
Þróun rabbfundanna í Ráðhúskaffi var svipuð og fundanna í Veiðiseli  á sínum tíma með tíð og tíma fór fundamönnum að fækka og æ erfiðara var að finna áhugaverð mál til að fjalla um á fundunum. Undir lokin voru það eiginlega sömu mennirnir sem alltaf mættu.
Upp úr 2000 fórum við að efla og þróa heimasíðu félagsins , staðreyndin var einfaldlega orðin sú að menn kusu frekar að leyta sér fróðleiks á netinu en að mæta á rabbfundi.
Þessum rabbfundum var því sjálfhætt og meiri kraftur settur í að þróa heimasíðuna.

Skotvopnanámskeið og lögreglunnar

Fljótlega eftir stofnun SKOTVÍS komu upp hugmyndir að félagið kæmi að einhverju leyti að því að kenna veiðimönnum veiðisiðfræði, veiðidýrafræði og það sem skipti máli varðandi skotvopn og skotfimi. Sverrir Scheving Thorsteinsson beitti sér mjög í þessu máli og átti marga fundi með lögreglunni og ýmsum þeim er málið varðaði. 1990 náðist samkomulag á milli SKOTVÍS og Dómsmálaráðuneytisins um þetta mál. Umsjón fyrir hönd ráðuneytisins hafði lögreglan í Reykjavík. SKOTVÍS menn útbjuggu námsgögn og kenndu á námskeiðunum. Það er skemmtilegt að segja frá því að margir sem sóttu þessi námskeið hafa oft haft orð á því hvað þau hafi verið áhugaverð og vel fram sett. Lítill munur er á þeim skotvopnanámskeiðum  sem haldin eru í dag og þessum námskeiðum okkar SKOTVÍS manna. Þetta námskeiðahald átti þó eftir að hafa afdrifaríkar afleiðingar fyrir SKOTVÍS. Þeir sem kenndu á námskeiðunum tóku engin laun fyrir starfann heldur létu þóknunina renna til félagsins. Löngu seinna fengum við innheimtu bréf frá Ríkisskattstjóra þess efnis að félagið skuldaði rúma eina miljón vegna vangoldins virðisauka. Við komum af fjöllum, könnuðumst ekki við málið, síðar kom í ljós að það var verið að rukka okkur fyrir virðisauka vegna þóknunar fyrir kennslu á námskeiðunum, hinsvegar hafði virðisauki aldrei verið innheimtur eða greiddur af lögreglunni. Tollstjóraembættið og Fjármálaráðuneytið gengu hart fram í þessu máli, við áttum að borga, hvað sem það kostaði. Gert var árangurslaust lögtak á skrifstofunni. Margir komu að því að reyna leysa þetta mál, það fór svo að lokum að velgjörðarmaður okkar og félagi í SKOTVÍS, Guðlaugur þór Gunnlaugsson bjargaði málum. Við fengum styrk frá Fjármálaráðherra og borguðum skuldina. Þarna sannaðist hið fornkveðna að,, gott er að eiga góða að” og sambönd okkar inn í Þingið skipti þarna öllu máli.

SKOTVÍS 20 ára 1998

Á 20 ára afmæli félagsins má segja að settu marki mínu og stjórnar félagsins hafði verið náð. Stjórnvöld litu á félagið sem hagsmunasamtök Íslenskra stjórnvalda, félagið varð orðið landssamtök, starfsemi félagsins var fjölbreytt og virk. Á afmælisdaginn höfðum við móttöku í félagsheimili Fríkirkjunnar í Reykjavík og þeirri  móttöku hlutu fyrstu heiðursfélagar Skotveiðifélags Íslands gullmerki félagsins, auðvitað voru það þeir Sverrir Scheving Sólmundur.

Skipulag hreindýraveiða

Á þessum tíma var aðal baráttumál okkar tillögur að breytingum á skipulagi hreindýraveiða. Þetta var stór mál, eins og flestir vita var gamla fyrirkomulagið þannig úr garði gert að hrepparnir fyrir austan stjórnuðu veiðunum, áttu eiginlega hreindýrin og gátu ráðstafað dýrunum að vild. Eiginlega var ekki hægt að tala um hreindýraveiðar í þessu sambandi, nær var að tala um hreindýra slátrun í þessu sambandi. Kröfur okkar voru skýrar, allir landsmenn áttu að eiga þess kost að veiða hreindýr, ein kennitala - eitt dýr.
Tillögur okkar þóttu skynsamar og hlutu talsverða hljómgrunn. Sveitarstjórnarmenn fyrir austan vildu hins vegar ekki sleppa þessari skeið úr aski sínum sem þeir töldu hreindýrin vera. Við bentum hinsvegar á að með fjölgun veiðimanna myndi tekjur á svæðinu aukast. Þeir lögðu þá talsverða áherslu á að sveitarfélögin myndu stjórna veiðunum, ekki einhverjir menn hér fyrir sunnan. Lítið þokaðist í þessum málum og minnist ég þess að við eyddum miklum tíma í þetta mál en að virtist á árangurs. Umhverfis og landbúnaðarráðherra, Guðmundur Bjarnason skipaði þá þingmannanefnd til að vinna tillögur um skipulag veiðanna. Sá galli var þó á gjöf Njarðar að þingmennirnir í nefndinni voru allir þingmenn Austurlands og voru loka tillögur þeirra mjög litaðar af skoðunum og kröfum sveitarstjórnarmanna. Við gátum alls ekki samþykt þessar tillögur, en gátum lítið gert því þær voru á fleygiferð í gegnum þingið. Ég átti langan fund með Guðmundi ráðherra og starfsmönnum í Umhverfisráðuneytinu og reyndi eftir mætti að sannfæra menn um að aldrei yrði almenn sátt um tillögur þingmannanefndarinnar. Við breyttum svo aðeins um baráttuaðferð, snerum okkur beint til félaga okkar fyrir austan, sem margir voru í SKOTVÍS. Þá höfðum við samband við sveitarstjórnarmenn í þéttbýlinu fyrir austan og ýmsa aðila í ferðaþjónustu og skyldum greinum. Þetta skilaði árangri því tveir þingmenn sem voru í nefndinni skiptu um skoðun eða réttara sagt voru tilbúnir að taka tillit til tillagna okkar SKKOTVÍS manna. Þá er rétt að geta þess að embættismenn í Umhverfisráðuneytinu voru sammála okkur SKOTVÍS mönnum að verulegu leiti, leikar fóru því þannig í lokinn að viðunandi sátt náðist í þessu máli. Þó svo að við náðum ekki fram öllum okkar kröfum þá var kerfinu gjörbreytt til hins betra, það er að segja eitt dýr, ein kennitala. Vitaskuld þarf veiðistjórnunar kerfi eins og það sem við búum við núna hvað varðar skipulag hreindýraveiða að vera í stöðugri endurnýjun. Fullnægjandi lausn verður þó ekki náð í þessu máli fyrr en hreindýrum verður fjölgað hér á landi, það er eina lausnin.
Eins og staðan er í daga þá má segja að 4000 veiðimenn séu að sækja um að veiða 1000 hreindýr. Það er því í dag, eitt helsta baráttumál SKOTVÍS að fjölga hreindýrum og höfum við og munum á næstu vikum leggja mikla áherslu á þetta mál.

Veiðar á ríkisjörðum

Þeim félagsmönnum fjölgaði stöðugt sem höfðu samband við skrifstofu SKOTVÍS og báðu um upplýsingar hvar mætti veiða. Mál höfðu þróast í þá átt að margir efnameiri veiðimenn leigðu tún og akra af bændum og jafn vel góð rjúpnaveiðilönd . Það kveiknaði því sú hugmynd hjá okkur í stjórninni að taka upp viðræður við Landbúnaðarráðuneytið um að opna ríkisjarðir fyrir skotveiðimenn. Ræddum við þetta mál við Guðmund Bjarnarson ráðherra og tók hann okkur vel. Í þetta sinn voru þó embættismenn í ráðuneytinu á móti þessum tillögum okkar, töldu að þetta væri ekki framkvæmanlegt. Við fengum nú Ólaf Örn Haraldsson þáverandi alþingismann í lið með okkur. Við, ég og stjórnarmennirnir Einar Haraldsson og Ívar Pálsson lögðum mikla vinnu í þetta mál, margir þingmenn höfðu skilning á þessum kröfum okkar en, eins og áður sagði, voru embættismennirnir þessu mótfallnir. Ólafur Örn van kappsamlega að þessu máli, leikar fór þannig að lokum að Guðmundur Bjarnason ráðherra samþykkti að heimila skotveiðar á þeim jörðum ríkisins sem hentuðu til veiða og voru ekki í leigu. Þetta skipti miklu máli fyrir félagsmenn SKOTVÍS, ekki síst fyrir rjúpnaveiðimenn. Við héldum sagt best að segja að þetta fyrirkomulag væri komið til að vera, en svo var aldeilis ekki. Snillingurinn Guðni Ágústsson lét að vera sitt annað verk sem landbúnaðarráðherra að afnema þetta fyrirkomulag. Hvað um það - það ætti núna að vera auðveldara að opna aftur ríkisjarðirnar aftur og heimilar þar veiðar, fordæmið er komið, væntanlega tekur ný stjórn SKOTVÍS þetta mál upp aftur.

Eyjabakkar

1999 voru hugmyndir um stóriðjuframkvæmdir á austurlandi ornar af veruleika. Meðal annars voru hugmyndir upp um að sökkva Eyjabökkum undir vatn eða Eyjabakkar færu undir uppistöðulón. Eyjabakkar voru stærsta fellisvæði heiðagæsa í heiminum. Þessar  fyrirhuguðu framkvæmdir gætu haft ófyrirsjánlegar afleiðingar fyrir heiðagæsina. Mjög margir Íslendingar voru á móti þessum framkvæmdum, hinsvegar var fólkið fyrir austan flest hvert afar fylgjandi þessum framkvæmdum. Þetta var mikið hitamál í samfélaginu.
Í raun tókust tvær fylkingar á, þeir sem vildu virkja og byggja álver og þeir sem voru alfarið á móti framkvæmdunum, vildu láta náttúruna njóta vafans. Stjórn SKOTVÍS ræddi þetta mál í þaula og voru haldnir almennir félagsfundir um málið. Niðurstaðan var sú að SKOTVÍS hefði engar skoðanir hvort ætti að virkja eða ekki, hinsvegar vildum við þyrma Eyjabökkum, tryggja að þeim yrði ekki sökkt undir uppistöðulón, ýmsir aðrir og betri kostir væru í boði. Leikar fóru þannig að mörg félög og einstaklingar sameinuðust í samtökum sem börðust fyrir að Eyjabökkum yrði ekki fórnað. SKOTVÍS var áberandi í þessari baráttu og vakti þátttaka okkar talsverða athygli og til gamans má geta þess að margir gengu í félagið á þessum tíma. Við kappkostuðum að vera málefnaleg í þessari baráttu, við gátum sýnt fram á það með gildum rökum að framkvæmdirnar myndu hafa talsverð áhrif á heiðagæsastofninn. Leikar fóru svo þannig, eins og allir vita að Eyjabökkum var þyrmt, en, eftir á að hyggja þá var það athyglisvert hvað við fengum mikla, já og jákvæða umfjöllun með þátttöku okkar í þessari baráttu. Við vorum bara ekki einhverjir byssukarlar sem hugsuðum ekkert um annað en skjóta ,,saklaus dýr” eins og einhver sagði. Við eru ábyrg samtök, náttúruverndarsamtök í verki.

Rjúpan

Upp úr 1990 fréttum við að Náttúrufræðistofnun hefi áhyggjur að stöðu rjúpunnar. Veiðitími á rjúpu var styttur um 22 daga 1993, án samráðs við veiðimenn eða SKOTVÍS, var mikil reiði í okkar röðum, að ekki skyldi hafa verið haft neitt samráð við okkur um þessa ákvörðun.
Ólafur Nielsen hélt á hverju hausti fyrirlestra fyrir okkur um stöðu rjúpnastofnsins og skrifaði árlega greinar í SKOTVÍS blaðið. Áhyggjur Ólafs voru þær helstar stofnsveiflur rjúpunnar voru að minka, stofninn að dragast saman og afföll rjúpunnar of mikil. Stjórn SKOTVÍS fjallaði af og til um þessi mál en menn voru ekki á því að grípa þyrfti til einhverra aðgerða til verndar rjúpunni. Árið 2000 fóru margir okkar að skipta um skoðun í þessum efnum, líklegast væri ekki hjá því komið að takmarka veiða á einhvern hátt, gögn Ólafs sýndu svart á hvítu að rjúpnastofninn gæti hæglega hrunið. Menn deildu talsvert um þessi mál, margir sögðu að veiðar hefðu engin áhrif á rjúpuna, aðrir, þá aðalega eldri og reyndari veiðimenn sögðu að Íslenski rjúpnastofninn væri svipur hjá sjóna miðað við það sem hann hafði verið áður, eða um 1960 og allt fram að 1970. Til þess að komast til botns í þessu máli og finna einhver ráð sem almenn sátt væri um varðandi uppbyggingu rjúpnastofnsins
hélt SKOTVÍA alþjóðlega rjúpnaráðstefnu á Grand Hotel 05 október 2002, sérfræðingar frá Skotlandi, Noregi, Svíþjóð og Íslandi héldu erindi á ráðstefnunni. Ráðstefnan var vel sótt og vakti talsverða athygli. SKOTVÍS vildi vinna að því með stjórnvöldum að móta aðgerðir til að styrkja rjúpnastofninn. Í könnun sem við gerðum 2001 og birtist í SKOTVÍS blaðinu töldu rúm 61% félagsmanna að grípa þyrfti til einhverra aðgerða til verndar rjúpunni. Tæp 73 % veiðimanna vildu stytta veiðitímann, rúm 27% banna sölu á rjúpu á almennum markaði.  Niðurstaðan var sú að SKOTVÍS lagði til við stjórnvöld að byrjað yrði á því að setja á sölubann og ef það dygði ekki, að þá yrði að stytta veiðitímann. Umhverfisráðherra Siv Friðleifsdóttir var þessu sammála, og var hafin undirbúningur þess að setja á sölubann.
Þá kom í ljós að sölubann yrði að fara fyrir þingið, er skemmst frá því að segja að þingið hafnaði sölubanni. Það voru einkum frjálshyggjumenn á þingi sem voru á móti banninu.
Nú brá svo einkennilega við að við heyrðum ekkert frá stjórnvöldum, illa gekk að ná eyrum ráðherra, það var eins og enginn vildi tala við okkur lengur. Þetta voru satt best að segja einkennilegir tímar. Það var svo 09 júní 2003 sem ég var kallaður á fund í ráðuneytið, bað ég Arnór Þórir Sigfússon að koma með mér og vera mér til halds og trausts. Ráðherra tjáði okkur að til stæði að banna rjúpnaveiðar í 5 ár eða frá 2003 til 2007. Upphófst nú mikið rifrildi, aðalega á milli mín, ráðherra og Kristins Hauks Skarphéðinssonar, Arnór og Ólafur Nielsen ræddu málin hinsvegar meira yfirvegað. Ég lagði til að fengnir yrðu erlendir sérfræðingar til að endurmeta stöðuna, en við það var ekki komandi, bað ég þá um frest til að koma með tillögur að öðrum aðgerðum, ráðherra varð við þessari ósk okkar, sendum við svo tillögur okkar til ráðuneytisins nokkrum dögum síðar. Kjarni tillagna okkar var að fá erlendan sérfræðing til ráðuneytis, setja á sölubann og stytta veiðitímann. 24 júlí var ég svo boðaður á fund í Ráðuneytinu ásamt Ívari Pálssyni varaformanni. Það er skemmst frá því að segja að tillögum okkar var hafnað og Sömuleiðis tillögum Umhverfisstofnunar, en ráðherra hafði hinsvegar ákveðið að rjúpnaveiðibannið yrði aðeins í 3 ár. Nú hófst gríðarlegt áróðursstríð, ég hygg að haustið 2003 og fyrrihluta árs 2004 höfum við haldið um 18 eða 24 fundi um rjúpuna. Ég átti ótal fundi með þingmönnum og við vorum dugleg að skrifa í blöðin. Mér er enn ráðgáta hversvegna Siv hætti að ræða við okkur á sínum tíma og hvers vegna hún greip til svo róttækra aðgerða sem raun bar vitni. Ein ástæðan var líklega sú að ríkisstjórnin var óvinsæl vegna framkvæmdanna á austurlandi og ákveðinn embættismaður í ráðuneytinu var ákafur fylgismaður veiðibanns. Við SKOTVÍS menn unnum mjög skipulega, vorum duglegir, eins og áður sagði að halda fundi og söfnuðum mikið af upplýsingum sem við sendum svo frá okkur í allar áttir. Ári eftir veiðibann voru nokkrir þingmenn komnir á okkar skoðun. Stofnuð var samstarfsnefnd um rjúpuna og framtíðar nýtingu hennar. Kristinn Haukur Skarphéðinsson stýrði starfi nefndarinnar og fórst honum það vel úr hendi. Mestu skipti þá að orðið varð við þeirri ósk okkar SKOTVÍS manna að fá hingað til lands Dr. Tomas Willebrand og má segja að með aðkomu hans að  málinu hafi náðst sátt . Leikar fóru þannig að veiðibann á rjúpu var fellt úr gildi eftir aðeins tvö ár. Ég vil ekki segja að SKOTVÍS hafi fagnað sigri, og þó - tillögur okkar hlutu hljómgrunn, að veiðar á rjúpu eiga að vera tómstundagaman, sjálfsagt er að rjúpan sé ekki markaðsvara ef stofninn á undir högg að sækja, rjúpnaveiðar eiga að vera sjálfbærar, ef þurfa þykir er sjálfsagt að stytta veiðitímann. Eftir á að hyggja má segja að veiðibann sé góð leið og árangursrík, en - allar aðgerðir til að vernda veiðidýr, byggja upp stofna veiðidýra, koma á fót árangursríku veiðistjórnunarkerfi, heppnast ekki nema að það sé gert í góðu og nánu samstarfi við veiðimenn. Því verður ekki á móti mælt, að friðunin bar þann árangur að rjúpnastofninn tók heldur betur við sér og  rjúpunni fjölgaði talsvert. Hinsvegar er það einnig athyglisvert og íhugunarvert að rjúpunni fjölgar ekkert frekar á stórum svæðum þar sem hún er friðuð, sumstaðar fækkar henni meira að segja. Það sem skiptir þó höfuð máli í þessu sambandi er að veiðarnar séu sjálfbærar og að sátt sé um veiðistjórnunarkerfið.

Samfélagsverkefni SKOTVÍS

Til að kynna félagið og sýna þjóðinni að við viljum vernda náttúru landsins og ganga vel um þá auðlind, sem stofnar veiðidýra eru, höfum við frá stofnun félagsins beitt okkur fyrir ýmsum verkefnum. Fyrsta verkefnið sem skipti verulegu máli í þessum efnum voru siðareglur SKOTVÍS sem voru á sínum tíma einstakt framlag. Við hófum fyrst allra að tala um sölubann á villibráð sem aðferð til að vernda stofna villtra dýra sem eiga undir högg að sækja. Tillögur um sölubann á rjúpu á sínum tíma átti hvað mestan þátt í að laða fólk til fylgis við þá stefnu SKOTVÍS að markviss veiðistjórnun væri árangursríkari aðferð en handahófskendar friðanir til verndar rjúpunni. 2001 hleyptum við af stokkunum átakinu ,,Láttu ekki þitt eftir liggja” veiðimenn voru hvattir til að taka með sér notuð skothylki, sín og annarra aftur til byggða - ,, ef pláss er fyrir skothylkin á veiðislóð er rými fyrir þau aftur heim” eins og sagði I auglýsingunni. Við unnum þetta átak í samvinnu við OLÍS og stóða það í 3 ár. Átak þetta skilaði feikna góðum árangri, þúsundum skothylkja var safnað. Óhætt er að segja að átak þetta, hafi orðið til þess að nú orðið hirða flestir veiðimenn notuð skothylki sem þeir rekast á og taka með sér heim. 2007 efndi SKOTVÍS til átaks, þar sem félagsmenn og aðrir voru hvattir til að veiða mink. Lögð var áhersla á að fá veiðimenn, eigendur frístundahúsa og annað útivistarfólk til að stunda minkaveiðar í gildru.
Þeir sem sendu okkur mynd af sér með með dauðum mink, fengu sent fallegt barmmerki.
Þá létum við gera DVD disk um gildruveiðar og bækling um sama efni. Einnig gáfum við út bækling um vetrarveiðar á ref. Í vinnslu er fræðslumynd um verkun og meðferð villibráðar og þá er í bígerð átaka um vorveiðar á ref í samvinnu við Norska skotveiðifélagið. Þá erum við að undirbúa, í samvinnu við Umhverfisstofnun, gerð fræðsluefnis um slysaskot, eða aðferðir til að koma í veg fyrir að særður fugl sleppi frá veiðimanni. Það er að segja, hvernig á að meta fjarlægð í bráðina, hraða hennar og aðra þætti er varða að hæfa bráðina á þann hátt að hún komist ekki undan. Þetta verkefni vinnum við í góðri samvinnu við vini okkar í Danska Skotveiðifélaginu

Alþjóðlegt samstarf

SKOTVÍS hefur lengi verið í samstarfi við Norræna Skotveiðisambandið, sem eru  samtök Skotveiðifélaga á Norðurlöndunum. Við höfum haft mikið gagn af þessu samstarfi, ekki síst á sviði fræðslu og  kynningarmálum en einnig hafur Sambandið aðstoðað okkur á ýmsan annan hátt. Þá höfum við verið í góðu sambandi við FACE sem eru Evrópusamband Skotveiðifélaga  og afar öflug samtök í Brussel. Ljóst er að ef Ísland gengur í Evrópusambandið er nauðsinlegt að SKOTVÍS gangi í FACE. Frá árinu 2003 höfum við verið í samvinnu við BASC Scotland um nýtingu og rannsóknir á sameiginlegum gæsa- stofnum, og kom SKOTVÍS þessu samstarfi á. Kveikjan að þessu samstarfi var að sameina eða samhæfa betur rannsóknir á gæsum og fyrirkomulag veiða.

Umhverfisstofnun

Árið 2003 var ný stofnun sett á laggirnar, Umhverfisstofnun, nokkrar minni stofnanir, þar á meðal embætti veiðistjóra, voru sameinaðar. Fram til þessa höfðu samskipti SKOTVÍS og Veiðistjóra verið mjög góð. Fyrstu ár UST voru erfið, samstarfsörðugleikar innan og utan stofnunarinnar. Samstarf okkar við Áka Ármann Jónsson og hans fólk á Veiðistjórnunarsviði, var eftir sem áður mjög gott. Eftir að Áki tók við nýju starfi innan stofnunarinnar var minna leitað eftir samstarfi við okkur. Talsverður órói var innan Umhverfisstofnunar, tíð framkvæmdastjóraskipti og að því að virtist lítill áhugi á málefnum okkar veiðimanna. Með nýjum forstjóra komu nýir tímar, ef svo má að orði komast, Hjalti Guðmundsson sviðsstjóri boðaði okkur SKOTVÍS menn á sinn fund og komið var á formlegu samstarfi SKOTVÍS og UST. Í dag er samstarf okkar við Umhverfisstofnun með miklum ágætum og er stefnt að því að þróa það enn frekar.

Fjölgun félagsmanna SKOTVÍS

Fjölgun félagsmanna SKOTVÍS hefur ávalt verið eitt af helstu verkefnum stjórnar félagsins. Það hefur gengið misjafnlega og fyrir því eru ýmsar ástæður. Um 4% Íslendinga stunda skotveiðar, árlega eru gefin út 11 til 12.000 veiðikort. Fjöldi veiðikorta segir þó ekkert um fjölda veiðimanna því margir hafa veiðikort án þess að stunda skotveiðar. Það sem skiptir máli í þessum efnum er fjöldi veiðiskýrsla, fjöldi þeirra sem raunverulega stunda skotveiðar. Hverjir eru skotveiðimenn, þeir sem haf rannsakað veiðar, til dæmis í Svíþjóð, Danmörku og í Skotlandi, segja að skotveiðimaður sé sá sem stundi skotveiðar 6 daga eða fleiri á ári. Samkvæmt því eru raunverulegir skotveiðimenn um 5 til 6000 hér á landi.
Ef veiðikortakerfið er krufið til mergjar mætti álíta að þeir sem hafa skotveiðar sem sitt helsta áhugamál séu um 3000, við höfum því talið að eðlilegt gæti verið að félagsmenn SKOTVÍS væru um 2000. Okkur hefur af og til tekist að fjölga félögum nálægt því að vera um 1400 - 1600, okkur hefur hinsvegar tekist illa upp að halda í þessa viðbót eða 3 til 400 félagsmenn. Samkvæmt skoðanakönnun sem við gerðum árið 2001 voru 85% félagsmanna SKOTVÍS frekar ánægðir eða mjög ánægðir með félagið sitt. Þegar rjúpnaveiðibannið var sett á hættu tæplega 400 félagsmenn að greiða félagsgjöldin. Þessir félagsmenn fóru ekki að týnast aftur inn í félagið fyrr en búið var að aflétta veiðibanninu.Árið 1996 kom út hið merka verk, bókin ,, Skotveiðar í Íslenskri náttúru”. Til að afla nýrra félaga var ákveðið í samráði við útgáfuna, Bókaforlagið  Iðunn” að bjóða öllum sem eignuðust bókin fría aðild að SKOTVÍS, hugmynd okkar var sú að aðeins skotveiðimenn myndu fá sér þessa bók eða fá hana að gjöf. Þarna misreiknuðum við okkur herfilega, vissulega fjölgaði félagsmönnum um einhver ósköp, en mjög margir sem eignuðust bókina voru ekki veiðimenn og höfðu því engan áhuga á því að vera í félaginu, og flestir félagsmenn SKOTVÍS eignuðust bókina og voru skráðir aftur í félagið. Þetta endaði með ósköpum, félagaskráin hrundi og þegar upp var staðið skilaði þetta átak engu. Ég hef  skoðað fjölda veiðimanna í skotveiðifélögum í Evrópu Ég fæ ekki betur séð en að í flestum löndum sé fjöldi félagsmanna svipaður  og hér hjá okkur. Hinsvegar hafa Norðurlöndin algjöra sérstöðu í þessum efnum, þar eru nánast allir skotveiðimenn eða um 80% félagsbundnir. Ástæðan er sú að stjórnvöld í þessum löndum gera það nánast að skildu að veiðimenn séu félagsbundnir. Skotveiðifélag Íslands verður aldrei virkilega stórt og öflugt félag fyrr en við tökum upp sama kerfi og frændur okkar á Norðurlöndunum. Þetta er verkefni sem við erum þegar farin að huga að.

Vatnajökulsþjóðgarður

Sem kunnugt er hefur staðið nokkur styr um nýstofnaðan Vatnajökulsþjóðgarð. Hefta á frelsi manna til aksturs og veiða, án þess að lögð hafa verið nokkur haldbær rök sem styðja þessar takmarkanir. Ég þarf ekki að fara nánar út í þessi mál hér, flest ykkar þekkið til stöðu þessara mála. Ég vild þó geta þess að SKOTVÍS hefur í samráði við Ferða- klúbbinn 4 x 4 látið gera mynd til sýningar í Sjónvarpi  þar sem viðhorfum okkar sem viljum ,, nýta og njóta” náttúrunnar á okkar hátt. Ég hygg að þessi mynd sé á vissan hátt tímamótaverk sem mun hafa talsverð áhrif á alla umræðu um náttúruvernd hér á landi á næstunni. Myndin verður frumsýnd innan tíðar og verður ykkur, félagsmönnum SKOTVÍS auðvitað boðið á frumsýninguna.

Takk fyrir mig

Ágætu vinir og félagar, ég læt nú af störfum sem formaður Skotveiðifélags Íslands. Þetta hefur verið ánægjulegur tími, oft erfiður, en það hefur aldrei verið leiðinlegt eða lognmolla í kringum okkur. Okkur hafa stundum orið á mistök, við gagnrýndum rjúpnaransóknir Náttúrufræðistofnunar, töldum þær ekki gefa rétta mynd af ástandi stofnsins, þar höfðum við rangt fyrir okkur. Þegar margir félagsmenn hættu að greiða félagsgjaldið  vegna veiðibanns á rjúpu ,brugðumst við ekki nóu fljótt við. Við leigðum dýrt húsnæði sem við höfðum ekki not fyrir, við vorum með starfsmann og allur útgáfukostnaður vegna SKOTVÍS blaðsins hækkaði og tekjur af auglýsingum drógust saman. Félagið fór að safna skuldum, okkur tókst þó tiltölulega fljótt að rétta við fjárhag félagsins og fór þar fremstur í flokki Friðrik Friðriksson þáverandi gjaldkeri SKOTVÍS. Þá vil ég þakka öllum þeim ágætu félögum okkar í SKOTREYN sem hafa af fádæma dugnaði byggt upp og rekið glæsilegt skotæfingarsvæði. Ég hygg að tími sé til komin að fara að huga að nýjum verkefnum fyrir SKOTREYN og dettur mér þá helst í hug fræðslumálin sem munu innan tíðar verða þýðingarmikill þáttur í starfi okkar. Ég stíg upp úr stóli formanns sáttur og bjartsýnn fyrir hönd félagsins okkar, ég hef kynnst skemmtilegu fólki í þessu starfi. Að lokum vil ég segja þetta. Það er ekki mikil andúð á skotveiðum innan stjórnsýslunnar og þingsins, miklu fremur vanþekking á efninu. Við verðum því að halda áfram að skýra út sjónarmið okkar, safna upplýsingum og kynna þær, gerum allt sem við getum til að ná hagstæðum samningum í okkar málum, styrkjum og styðjum þá stjórnmálamenn sem eru skotveiðimenn eða sýna málefnum okkar skilning. Höfum frumkvæði að málum sem snerta skotveiðar, verum til fyrirmyndar sem veiðimenn, sýnum háttvísi í samskiptum okkar við stjórnvöld, höldum uppi merkjum sjálfbærrar nýtingar, göngum vel um náttúru landsins, stöndum vörð um hagsmuni veiðidýra og velferð þeirra. Umfram allt hvikum aldrei frá sjálfsögðum réttindum okkar sem við höfum sem þegnar þessa lands. Ég þakka ykkur öllum fyrir einstaklega ánægjulegt samstarf á liðnum árum, megið þið öll eiga margar sælustundir við veiðar í Íslenskri náttúru.

Sigmar B. Hauksson

Tags: félagsins, mér, skotvís, skýrsla, kost, ykkur, stjórn, aðalfundi, gefa, haft, formaður, formanns
You are here: Home