Aðalfundur 2009 - Skýrsla formanns

Ræða Sigmars B. Haukssonar formanns Skotveiðifélags Íslands á aðalfundi félagsins 24. febrúar 2009

Ágætu félagsmenn Skotveiðifélags Íslands.

Í fyrra voru 30 ár frá stofnun Skotvís. Stjórn félagsins ákvað að minnast afmælisins á ýmsan hátt og má segja að afmælisveislan standi enn yfir. Félagsmönnum, þeim sem þess óskuðu var send, án endurgjalds, húfa merkt félaginu. Þessi glæsilega húfa féll félagsmönnum greinilega vel í geð því að um 500 manns fengu sendar húfur. Þá var gerð fræðslumynd um gildruveiðar á minki, sem sýnd verður hér á eftir. Verið er að gera vandaða fræðslumynd um meðferð og meðhöndlun villibráðar. Þessi löngu tímabæra mynd verður tilbúin til dreifingar nú í haust. Þessar myndir verða sendar félagsmönnum Skotvís, þeim sem þess óska, án endurgjalds. Á 30 ára afmælinu má segja að félagið okkar sé á tímamótum. Mun ég koma að því síðar.

Á þessum tímamótum er hollt að spyrja; Hverju höfum við áorkað?

Veiðimenn spyrja okkur stundum; Hvað gerið þið eiginlega? Ég ætla ekki að svara þeirri spurningu hér því ég hygg að þið öll, sem hér eruð, vitið það mætavel. Ég vil hins vegar snúa spurningunni við og spyrja: Hvernig væri staða íslenskra skotveiðimanna í dag ef Skotvís nyti ekki við? Þá væru t.d. byssur og skot um 18% dýrari en í dag. Ástæðan er sú að fyrir tilstuðlan Skotvís var vörugjald af vopnum fellt niður. Skotvís kom í veg fyrir að sett væri á 5 ára rjúpnaveiðibann og meira að segja eru líkur á að rjúpan hefði verið alfriðuð.

Ef Skotvís nyti ekki við, hefðu stór landsvæði innan hinna svokölluðu þjóðlenda verið friðuð fyrir skotveiðum. Sem kunnugt er hefur nú verið unnin ný skotvopnalöggjöf því eldri löggjöfin var meingölluð. Þetta starf var að verulegu leyti unnið af Skotvís og vil ég nota tækifærið og þakka Einari Haraldssyni og Ívari Erlendssyni mikla vinnu í þessu sambandi. Ef Skotvís nyti ekki við væri enn ekki komið evrópskt vopanvegabréf hér á landi. Ef Skotvís nyti ekki við yrðu veiðimenn að greiða 4.560 kr. fyrir veiðikortið í stað 3.500 kr. Ef Skotvís nyti ekki við hefðu blesgæsaveiðar verið bannaðar um aldur og æfi. Skotvís kom ákvæði inn í friðunarferlið þess efnis að veiðar hæfust aftur á blesgæs um leið og hægt væri að stunda sjálfbærar veiðar úr stofninum. Ég get nefnt fleiri dæmi um þá miklu þýðingu sem starf Skotveiðifélag Íslands hefur haft fyrir íslenska skotveiðimenn.

Ég sagði hér áðan að á 30 ára afmælinu stæði Skotvís á tímamótum. Staðreyndin er sú að nú er kominn tími til að endurskoða hlutverk og starf Skotvís. Ég vil í því sambandi nefna 3 atriði. Í fyrsta lagi eru lög félagsins 30 ára gömul og eru því ekki í takti við starfsemi félagsins í dag og þær breytinar sem orðið hafa í samfélaginu. Þess vegna verður það eitt helsta verkefni nýrrar stjórnar að endurskoða lög félagsins og breyta eftir því sem þurfa þykir til að auðvelda starfið á komandi árum. Í öðru lagi getur félagið ekki veitt félagsmönnum sínum þá þjónust sem við helst vildum með ekki aðrar tekjur en félagsgjöldin. Þess vegna er í bígerð að hefja viðræður við ríkisvaldið um að Skotvís taki að sér ákveðin verkefni sem nú eru unnin af Umhverfisstofnun. Fyrir þessa vinnu fengi félagið greitt. Í þessu sambandi erum við helst að hugsa um aðkomu okkar að rekstri veiðikortakerfisins eða sinna fræðslumálum fyrir íslenska skotveiðimenn. Skotvís er vel í stakk búið til að takast á við þessi verkefni því að í röðum félagsmanna eru hæfustu sérfræðingar landsins á þessu sviði. Í þriðja lagi er afar brýnt að félagið hafi milligöngu um að útvega félagsmönnum sínum veiðilendur. Þegar líða fer á sumar byrja félagsmenn að hafa samband við skrifstofu félagsins og er spurningin ávallt sú sama: Hvar má ég veiða? Það er því miður staöreynd að á undanförnum 14 árum hefur skotveiðimönnum fækkað hér á landi. Stjórn félagsins er nú að kanna á hvern hátt hægt sé að hafa milligöngu í þessu máli. Hafa þegar orðið nokkrir fundir með hagsmunaaðilum um þetta efni og væntum við þess að á komandi hausti getum við haft milligöngu um aðgang að veiðilendum.

Ég hef áður bent á það hér að mikill tími okkar stjórnarmanna, og þá ekki síst minn tími, fer í samskipti við stjórnvöld. Margir halda að alþingismenn og ráðherrar séu margir hverjir fjandsamlegir veiðum. Svo er alls ekki. Hins vegar hafa flestir þingmanna og embættismanna enga þekkingu á þessum málaflokki. Þetta er vægast sagt bagalegt og raunar ekki bjóðandi þegar um er að ræða stofnanir sem eiga að hafa með þessum málaflokki og þá á ég við Umhverfisstofnun. Þess vegna fer mikill tími í að berjast fyrir sjálfsögðum hlutum. Við höfum hins vegar lagt mikla áherslu á að sýna stjórnmálamönnum fram á að við erum traustsins verð og tökum samfélagslega ábyrgð. Minkaveiðiátakið er gott dæmi um slíka starfsemi sem hefur fallið stjórnvöldum í geð aukið skilning þeirra á réttindamálum okkar.

Ágætu félagsmenn. Eins og áður sagði stöndum við á tímamótum. Aldrei hefur verið meiri þörf á öflugum málsvara veiðimanna, þeirra sem vilja nýta náttúruna á skynsamlegan hátt. Framtíð Skotveiðifélags Íslands er í höndum ykkar, félagsmanna. Við náum aðeins árangri ef félagið er sterkt, öflugt og góð samstaða meðal félagsmann.

Sigmar B. Hauksson

Formaður Skotveiðifélags Íslands

Tags: félagsins, haukssonar, skotveiðifélags, aðalfundur, íslands, ræða, formanns/stjórnar, skýrsla, aðalfundir, sigmars, 2009, aðalfundi, formanns, febrúar
You are here: Home