Aðalfundur 2007 - Skýrsla formanns

Ræða Sigmars B. Haukssonar formanns Skotveiðifélags Íslands á aðalfundi félagsins 20. febrúar 2007

Þann 23. september á næsta ári verður Skotveiðifélag Íslands 30. ára. Það verður verkefni næstu stjórnar að skipuleggja afmælisárið en ég mun leggja til að það verði lögð sérstök áhersla á að kynna félagið og afla enn fleiri félagsmanna. Framan af var Skotvís öflugt áhugamannafélag en á síðari arum hefur félagið breyst yfir í að vera hagsmunafélag allra íslenskra skotveiðimanna.

Sem kunnugt er, var tveggja ára rjúpnaveiðibann félaginu mikil blóðtaka. Fjárhagur félagsins stóð einfaldlega ekki undir öflugri starfsemi þess. Segja má því að undanfarin 4 ár hafi verið tími aðhaldsaðgerða og sparnaðar. Hefur það nokkuð komið niður á starfsemi félagsins. Þessar aðhaldsaðgerðir voru hins vegar nauðsynlegar og þær hafa borið þann árangur að nú má segja að búið sé að endurreisa fjárhag félagsins og er félagsstarfið að komast í fyrra horf, - og ef eitthvað er, þá hefur það aldrei verið eins öflugt og um þessar mundir.

Starfsemi félagsins er í föstum skorðum þó hún hafi breyst nokkuð á síðari arum. Fundir eru færri en meira lagt í þá fundi og ráðstefnur sem haldnar eru. Þá er blaðið okkar, SKOTVÍS, eftir sem áður nokkurs konar nafnspjald okkar til samfélagsins. SKOTVÍS blaðið hefur komið út í 11 ár og má fullyrða að í þessum blöðum sé að finna hvað mestar upplýsingar um vopn og veiðar sem til eru á Íslensku. Hér eigum við því gríðarlegan fjársjóð.

Heimasíða félagsins gegnir æ mikilvægara hlutverki og munum við á næstu mánuðum kappkosta að efla hana enn frekar.

Sá þáttur í starfi Skotvís, sem verður æ mikilvægari, er hagsmunagæsla. Vandamál íslenskra skotveiðimanna er ekki að stjórnmálamenn og aðrir séu yfirleitt á móti skotveiðum. Vandamálið er að flestir stjórnmálamenn og embættismenn hafa litla sem enga þekkingu á veiðum og vopnum. Þess vegna verðum við að vera vel á verði þegar fjallað er um mál er varða hagsmuni okkar.

Ljósasta dæmið er umræðan um þjóðlendur undanfarna mánuði. Þar eru hagsmunir okkar gríðarlegir. Sveitafélög og landeigendur leggja gríðarlega áherslu á að komast yfir og ráða yfir sameiginlegum auðlindum okkar; eins og orkulindum og öðrum nytjum eins og villtum dýrum. Sveitastjórnarmenn vilja, eins og skiljanlegt er, nýta þessar orkulindir og selja að þeim aðgang. Við þessu er ekkert að segja, þetta er í raun ósköp eðlilegt. Hins vegar verðum við að standa vörð um þau landsvæði sem allir Íslendingar eiga, því oft og tíðum þá leggja landeigendur og sveitastjórnir áherslu á að hafa óbein afskiti af landsvæðum sem eru almenningar eða þjóðlendur og það er gert á þann lævísa hátt að leggja til að svæðin séu friðuð. Nefna mætti, í þessu sambandi, svæði það norðan Hofsjökuls sem kallað hefur verið Guðlaugstungur.

Í svokallaðri rjúpnanefnd, sem átti að gera tillögur til umhverfisráðherra um skipulag rjúpnaveiða, lagði fulltrúi bænda til að rjúpan væri friðuð í þjóðlendum. Helsti hvatinn að stofnun Skotveiðifélags Íslands var að frumkvöðlarnir töldu nauðsynlegt að til væru öflug samtök veiðimanna til að berjast fyrir réttindum veiðimanna til að stunda veiðar í íslenskri náttúru í landi sem við öll eigum.

Ekki verður betur séð en að á 30 ára afmæli Skotvís verði landréttarmál enn helsta baráttumál félagsins.

En náttúran breytist stöðugt og því miður er það svo að framkvæmdir okkar, mannanna, hafa orðið ógnvænleg áhrif á hana. Reyndir veiðimenn hafa tekið eftir því að talsverðar breytingar hafa orðið á íslenskri náttúru undanfarin ár. Telja margir að það sé vegna hlýnunar andrúmsloftsins. Þetta mál verður rætt hér á ráðstefnu á eftir og er gríðarlega merkilegt því horfur eru á að hegðun íslenskra veiðidýra sé að breytast. Í því sambandi er rétt að minnast á rjúpuna. Íslenski rjúpnastofninn er enn mjög veikburða. Er full ástæða til að hafa áhyggjur af stöðu hans. Afar brýnt er að haga stjórnun veiðanna þannig að þær séu sjálfbærar og að við gerum allt sem hægt er til að byggja stofninn upp aftur. Það voru því góðar fréttir þegar skoðanakönnun okkar, um rjúpnaveiðina haustið 2006, sýndi að líklegast hafi rjúpnaveiðin verið um 40.000 rjúpur, - í mesta lagi 45.000 rjúpur eins og stefnt var að. Við eigum nú afar gott samstarf við Náttúrufræðistofnun og veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar í þessum efnum. Er stefnt að því að félagsmenn Skotvís taki frekari þátt í rjúpnarannsóknum.

Það er bjart framundan hjá okkur þó að verkefnin framundan séu mörg hver vissulega krefjandi. Þá ekki síst í landréttarmálum. Við höfum átt afar gott samsatarf við Umhverfisráðuneytið og umhverfisnefnd Alþingis. Ég vil sérstaklega nota tækifærið og þakka Guðlaugi Þór Þórðarsyni, formanni umhverfisnefndar, fyrir ríkan skilning á starfsemi félagsins.

Við höfum alltaf sagt að við séum tilbúin að axla ábyrgð. Þess vegna stóðum við að mjög hertum varnaraðgerðum hvað varðar rjúpuna s.l. haust. Og við erum tilbúin að taka enn frekari ábyrgð og þess vegna hafa stjórnvöld falið okkur að vinna ákveðið verkefni í þágu samfélagsins. Við höfum tekið að okkur að skipuleggja átak til eyðingar minks. Verður það kynnt nánar hér á eftir.

Þá munum við vinna fræðsluefni um refaveiðar og dreifa á meðal íslenskra veiðimanna. Tilgangurinn er að hvetja veiðimenn og annað útivistarfólk til að leggja hart að sér við eyðingu minksins. Þá hyggjumst við beina sjónum skotveiðimanna að refnum, sem áhugaverðri veiðibráð. Nauðsynlegt er að halda refastofninum í skefjum. Hlýnun veðurfars undanfarinna ára hefur m.a. haft það í för með sér að ref hefur fjölgað talsvert undanfarið.

Vísindamenn í Svíþjóð og Noregi hafa með rannsóknum bent á að þegar lítið er af rjúpu en mikið af ref getur refurinn, á afmörkuðum svæðum, haldið rjúpunni niðri, - hún nær ekki að rétta úr kútnum. Margir reyndir veiðimenn telja að þessi staða sé ríkjandi á Vestfjörðum. Stjórn Skotvís ákvað því á fundi sínum 12. desember s.l. að leggja það til við umhverfisráðherra að friðun refs á Hornströndum verði numin úr gildi.

Þá mun Skotvís aðstoða, eftir mætti, við gæsarannsóknir því ýmsar breytingar í náttúrunni, sennilega vegna hlýnunar, hafa orðið þess valdandi að hegðun gæsanna hefur breyst nokkuð síðustu ár.

Stjórnvöld hafa, vegna þessara verkefna, ákveðið að styrkja félagið með opinberum framlögum til að vinna að þessum málum. Ef vel tekst til þá erum við svo sannarlega tilbúin að taka að okkur frekari verkefni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð lengri en vil þó nota tækifærið og þakka stjórn Skotreynar fyrir gríðarlega mikið starf sem unnið hefur verið í Álfsnesi. Glæsilegt skotæfingasvæði er að líta dagsins ljós og innan tíðar munu aðalstöðvar Skotvís verða þar.

Núverandi stjórn hefur verið afar samhent og unnið mikið og gott star fog vil ég nota tækifærið og þakka stjórninni samstarfið.

Einn félaga okkar, Ragnar Gunnlaugsson, hefur, vegna anna, kosið að víkja úr stjórn, allavega í bili. Ég vil þakka honum fyrir gott starf í þágu félagsins og alla þá gríðarlegu vinnu sem hann hefur unnið í frítíma sínum við heimasíðu Skotvís. Án manna eins og Ragnars gætum við ekki rekið þetta félag. Ég veit þó að við fáum að njóta starfskrafta Ragnars þó svo að hann víki úr stjórn.

Ég vil einnig þakka fjálmálastjóra okkar, Kolbeini Friðrikssyni, fyrir alla hans miklu og góðu vinnu. Án samviskusemi hans og dugnaðar væri fjárhagur félagsins ekki í eins góðu horfi og raun er.

Verði ég og stjórnin endurkjörin á þessum aðalfundi vil ég aðeins segja eitt; að starfsemi Skotveiðifélags Íslands mun verða áberandi, kraftmikil og djörf á þrítugasta afmælisárinu. Staðreyndin er nefnilega sú að þó þörfin fyrir hagsmunasamtök eins og Skotvís hafai verið brýn 1978, hefur hún aldrei verið eins brýn og einmitt í dag.

Sigmar B. Hauksson
Formaður Skotveiðifélags Íslands

Tags: félagið, íslands, 2007, félagsmanna, skýrsla, verði, verður, kynna, framan, lögð, sérstök, áhersla, fleiri, formanns
You are here: Home