Aðalfundur 2004 - Skýrsla formanns

Ræða Sigmars B. Haukssonar formanns Skotveiðifélags Íslands á aðalfundi félagsins 11. febrúar 2004

Félagar í Skotveiðifélagi íslands, velkomin á 26. aðalfund félagsins.

Óhætt er að fullyrða að seinni hluti síðast liðins árs og það sem af er þessu ári hefur verið sérstakur tími í sögu SKOTVÍS. Hér á ég að sjálfsögðu við hið óvænta rjúpnaveiðibann sem sett var á síðast liðið haust. Vissulega má segja að það hafi nú um nokkurn tíma legið í loftinu að gripið yrði til einhverra aðgerða til verndar rjúpunni. Haustið 2002 var komin sátt í þessu máli sem gekk út á það að rjúpnaveiðitíminn yrði styttur um rúma 20 daga og bannað yrði að selja rjúpu á frjálsum markaði. Sölubannið fór ekki í gegn á Alþingi, eða réttara sagt fékk ekki formlega afgreiðslu. Þetta kom okkur öllum nokkuð á óvart og því má segja að í framhaldi af þessari afgreiðslu þingsins hafi mátt búast við einhverjum aðgerðum af hálfu stjórnvalda. Það kom okkur hins vegar í opna skjöldu að gripið var til veiðibanns og raunar má segja að undrun okkar verði varla með orðum lýst þegar við í fundi í ráðuneytinu hlýddum á starfsmenn Náttúrufræðistofnunar þar sem þeir lögðu til að rjúpan yrði friðuð næstu 5 árin.

Ég ætla ekki að fara frekar út í þessi mál hér, um þau hefur verið fjallað ítarlega í SKOTVÍS-blaðinu. Við teljum að illa hafi verið staðið að rjúpnaveiðibanninu, ekkert var tekið tillit til skoðana veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar né SKOTVÍS eða hlustað á aðra merka fuglafræðinga eins og prófessor Arnþór Garðarsson og Dr. Arnór Þóri Sigfússon. Þá á ekki að verja neinu frekara fé til þess að rannsaka hvaða áhrif veiðibannið hefur á rjúpnastofninn. Það skal þó haft í huga í þessu sambandi að samkvæmt þeim gögnum sem Náttúrufræðistofnun kynnti fyrir ráðherra þá má segja að ráðherra hafi verið á milli steins og sleggju í þessu máli. Stjórn SKOTVÍS telur að ráðgjöf Náttúrufræðistofhunar hafi verið allt of einlituð og undirstrikað í einu og öllu nauðsyn friðunar. Fljótt á litið hefði því mátt áætla að ráðherra hefði ekki átt annarra kosta völ. Skotveiðifélag Íslands gerir því verulegar athugasemdir við þessar niðurstöður og ráðgjöf Náttúrufræðistofnunar í þessum efnum.

Þá voru það okkur gríðarleg vonbrigði að ráðherrann skuli ekki hafa leitað ráðgjafar annars staðar, t.d. á Norðurlöndunum eða við náttúrufræðiskor Háskóla Íslands, og fengið álit þessara aðila eða annarra á þessum róttæku aðgerðum sem ekki nokkur sátt var um meðal veiðimanna.

Starfsemi SKOTVÍS á þessu starfsári hefur vitaskuld mótast mjög af rjúpnaveiðibanninu, eins og gefur að skilja. Töluverð vinna fór í að afla rannsóknargagna og vinna kynningarefni um afstöðu okkar til rjúpnaveiðibannsins. Þetta kynningarefni var sent til fjölmiðla, alþingismanna og annarra þeirra er málið varðaði. Mér telst svo til að frá því í haust hafi ég setið um 70 fundi þar sem fjallað hefur verið um þetta umdeilda bann. Að öðru leyti hefur starfsemin verið svipuð og undanfarin ár.Gríðarlega margir félagsmenn leita til félagsins um ýmis mál, þá má segja að félagið sé orðið gagnvart stjórnvöldum málssvari íslenskra skotveiðimanna. Enda kemur það fram í skoðanakönnun veiðistjórnunarsviðs Umhverfisstofnunar að helmingur allra íslendinga sem eru í skot- eða skotveiðifélögum eru félagsmenn í SKOTVÍS.

Meðal þeirra mála sem stöðugt koma inn á borð til okkar eru veiðimenn sem eru að leita eftir upplýsingum um veiðilendur. Ekki verður annað sé en að þeim veiðimönnum hafi heldur fjölgað heldur en hitt sem eftir rjúpnaveiðibannið hafi tekið á leigu tún og akra hjá bændum. Fyrir nokkrum árum var algengast að menn leigðu tún hér í næsta nágrenni Reykjavíkur en nú má segja að þetta nái hringinn í kringum landið.

Sem kunnugt er höfum við misst skotvöll okkar í Miðmundardal sem SKOTREYN hefur rekið og séð um með miklum myndarskap. Okkur var úthlutað nýju svæði ásamt Skotfélagi Reykjavíkur og hefur gríðarlegur tími farið í þessi mál. Hér er um dýrt verkefni að ræða og flókið og hefur stjórn SKOTREYNAR unnið ómetanlegt verk í þessum efnum og verður það seint fullþakkað. Töluverður tími hefur farið hjá okkur í að vinna í þessu máli, vonandi sér fyrir endann á því, en enn er mikið verk óunnið við að koma vellinum í gagnið ef svo má að orði komast. Mjög brýnt er að allir SKOTVÍS-félagar láti ekki sitt eftir Iiggja í þessum efnum og leggi hönd á plóginn við að gera svæðið sem glæsilegast.

Við höfum reynt eftir mætti að efla heimasíðu okkar og hyggjumst við halda því starfi áfram. Við höfum gert átak í að kynna síðuna, m.a. með auglýsingum, og heimsækja töluvert margir heimasíðuna og kynna sér starfsemi SKOTVÍS með þeim hætti. Ánægjulegt er að fjölmiðlar virðast lesa síðuna því iðulega er haft samband við okkur ef áhugavert efni birtist á henni. Á síðunni reynum við að flytja fréttir af starfinu vikulega og setjum inn pistla um það sem efst er á baugi.

Þrátt fyrir rjúpnaveiðibannið hefur ýmsu verið áorkað á starfsárinu. Vildi ég sérstaklega nefna að breytingar á skotvopnalöggjöfinni náðust fram á síðast liðnu eftir hart nær 4 ára baráttu okkar. Í þessu sambandi ber helst að nefna gott samstarf við embætti Ríkislögreglustjóra.

Þá hefur félagið fylgst vel með umræðu um stofnun nýrra þjóðgarða. Þar skiptir mestu hinn svokallaði Vatnajökulsþjóðgarður. SKOTVÍS hefur lagt ríka áherslu á að veiðar verði eftir sem áður heimilaðar á þessu svæði verði af stofhun þjóðgarðsins. Ekki verður annað sagt en að nokkur skilningur sé fyrir þessum óskum okkar enda er þarna um að ræða svæði þar sem um rjúpna-, gæsa- og hreindýraveiðar er að ræða og hreinlega kemur ekki til mála af okkar hálfu að veiðar verði þar bannaðar.

Eftir hið margumtalaða rjúpnaveiðibann hefur Náttúrufræðistofnun legið undir gríðarlegri gagnrýni af hálfu skotveiðimanna. Margir veiðimenn telja að upplýsmgar úr veiðikortakerfinu hafi hreinlega verið notaðar gegn þeim. Nokkur hluti skotveiðimanna mun því ekki skila inn réttum upplýsingum á veiðiskýrslum sínum og enn stærri hluti mun, alla vega eins og staðan er í dag, ekki skila inn veiðiskýrslum. Stjórn SKOTVÍS ákvað hins vegar að skora á félagsmenn sína að standa vörð um veiðikortakerfið og skila inn réttum upplýsingum. Hinsvegar höfum við fullan skilning á reiði félagsmanna okkar. Stærstur hluti fjármuna úr veiðikortasjóði rennur til Náttúrufræðistofnunar. Hátt í 50 milljónir hafa frá árinu 1995 verið notaðar til rjúpnarannsókna. Mörgum okkar finnst lítið hafa fengist fyrir þetta fé. Það hefur lengi verið ósk Skotveiðifélags íslands að við fáum að hafa áhrif á það hvernig fjármunum úr veiðikortasjóði er varið. Við teljum þessa ósk afar sanngjarna og eðlilega þar sem hér er um okkar fé að ræða. Umhverfisráðherrahefur því fallist á að fulltrúi Skotveiðifélags íslands ásamt starfsmanni Umhverfisráðuneytisins verði ráðgjafaraðilar hvað varðar úthlutanir úr sjóðnum í framtíðinni. Með þessu móti gefst okkur tækifæri til að koma okkar óskum á framfæri varðandi úthlutun úr sjóðnum og vonandi hafa töluverð áhrif á það hvernig fé úr sjóðnum verður varið í framtíðinni.

Helsta vandamálið í starfsemi félagsins á þessu starfsári hefur verið erfið fjárhagsstaða. Helsta ástæðan er sú að útgáfa blaðsins okkar, SKOTVÍS- fagriti um skotveiðar og útivist, hefur verið félaginu afar dýr. Þar kemur tvennt til. Í fyrsta lagi hefur fjöldi auglýsinga í blaðið dregist verulega saman og auglýsingaverð lækkað um hátt í 40% á seinustu árum. Þá hefur verið talsverð hækkun á póstburðargjöldum og prentkostnaður hækkað lítillega. Á síðastliðnu ári má segja að varla hafi verið verjandi að gefa blaðið út undir þessum kringumstæðum. Ljóst er þó að margir hefðu saknað blaðsins enda höfum við lagt metnað okkar í að hafa það eins vandað og unnt hefur verið. Rjúpnaveiðibannið gerði það hins vegar að verkum að við töldum nauðsynlegt að gefa blaðið út til að koma okkar skoðunum í málinu á framfæri. Blaðið var víða lesið og er enginn vafi á því að það hefur verið kröfum okkar um afnám bannsins til mikils framdráttar.

Annar þáttur þessa máls er að snepillinn DV sálugi og Umhverfisráuneytið efndu til skoðanakannana sem sýndu að vel yfir helmingur þjóðarinnar væri fylgjandi rjúpnaveiðibanninu. Þessar skoðanakannanir voru framkvæmdar með þeim hætti að augljóst var að útkoman yrði þessi. Ljóst var að Alþingismenn og aðrir tóku mark á þessum niðurstöðum og háði það baráttu okkar nokkuð. Við sáum okkur því tilneydd til að fá Gallup til að framkvæma fyrir okkur skoðanakönnun sem framkvæmd yrði á sama hátt og skoðanakönnun sem unnin var fyrir Umhverfisráðuneytið. Okkur var full kunnugt um að margir teldu

að draga yrði úr veiðum á rjúpu. Við spurðum því þjóðina hvaða afstöðu hún hefði til rjúpnaveiða yrði gripið til verndaraðgerða eins og styttingu veiðitímans. Nú varð niðurstaðan allt önnur. Það kom nefnilega í ljós að 62% íslendinga eru fylgjandi veiðum á rjúpu með vissum takmörkunum. Þessi skoðanakönnun kostaði okkur talsvert fé en var að okkar mati algjörlega nauðsynleg.

Það er því ljóst að eitt þýðingarmesta verkefni nýrrar stjórnar SKOTVIS verður að bæta fjárhag félagsins. Eins og staðan var nú um áramótin var ljóst að við hefðum ekki getað haldið áfram útgáfu SKOTVÍS blaðsins okkar. Það hefði verið afar slæmt fyrir félagið ef við hefðum hætt að gefa blaðið út. Sem kunnugt er höfum við sent félagsmönnum blaðið án endurgjalds. Á Norðurlöndunum hins vegar verða félagsmenn skotveiðifélaga að greiða sérstaklega fyrir félagsblöðin. Stjórn SKOTVÍS telur hins vegar brýnt að félagsmenn fái blaðið án endurgjalds. Ein meginástæðan fyrir því er sú að mjög margir félagsmenn eru búsettir út um landið allt og eiga því ekki kost á því að sækja ýmsa fundi félagsins sem fram fara hér í höfðuðborginni. Við leituðum því til nokkurra útgáfufyrirtækja til að kanna áhuga þeirra á að gefa út blaðið fyrir okkur. Niðurstaðan varð sú að gerður hefur verið samningur til 2ja ára við Hönnun og Umbrot ehf. Munu þeir gefa blaðið út okkur að kostnaðarlausu en við útvega allt efni í blaðið og greiða fyrir það.

Þá er rétt að geta þess að við höfum undanfarnar vikur verið í viðræðum við OLÍS þess efnis að fyrirtækið gefi út félagsskírteini fyrir okkur á þessu ári. Hér yrði um að ræða plastkort sem myndi veita félagsmönnum SKOTVÍS ýmiss fríðindi, afslætti á vörum sem OLÍS selur og flugmílur hjá Icelandair. Þessi samningur mun verða félaginu til hagsbóta og veita félagsmönnum SKOTVÍS talsverð fríðindi.

Við munum, eins og áður sagði, nú á næstu mánuðum verða að grípa til ýmissa aðgerða til að bæta fjárhagsstöðu félagsins og vil

ég nota tækifærið til að hvetja félagsmenn til að styðja þessa viðleitni okkar nú á næstunni.

 

3 stjórnarmenn ganga nú úr stjórn félagsins. Það eru þeir Jón Garðar Þórarinsson, Rúnar Jónsson og Guðmundur Reykjalín gjaldkeri félagsins. Ég vil þakka þeim fyrir stjórnarsetuna, þó vil ég sérstaklega þakka Guðmundi Reykjalín fyrir mikla og óeigingjarna vinnu í þágu félagsins.

 

Eins og áður sagði verður mjög brýnt í starfsemi SKOTVÍS að bæta fjárhag félagsins en auk þess eru ýmis önnur mál ofarlega á baugi. Vildi ég í því sambandi sérstaklega nefna, eins og áður hefur komið fram, að þeim fjölgar stöðugt sem hafa engin svæði til að stunda veiðar á. Þetta á helst við um gæsaveiðimenn. Það hefur af og til komið til tals hvort félagið ætti að leigja veiðilendur til rjúpna- og gæsaveiða. Okkur hefur af og til borist tækifæri til þess að vera umboðsmenn landeigenda sem vilja leigja og hafa einhverja stjórn á veiðum á löndum sínum. Oft er það þannig að stóra málið er ekki að ná miklum fjármunum út úr leigunni heldur fremur að hafa stjórn á veiðiálaginu. Við þurfum að athuga þetta mál enn frekar, það er ljóst að félagið getur ekki tekið á sig fjárhagslega skuldbindingar í þessum efhum en rétt er að kanna ýmsar aðrar leiðir.

Þeim félagsmönnum SKOTVÍS fjölgar stöðugt sem fara til útlanda til veiða. Nokkrir þeirra hafa lent í ákveðnum erfiðleikum við að flytja vopn sín á milli landa. Þess má t.d. geta að flugfélagið Ryan Air flytur alls ekki vopn í vélum sínum. Nú er hins vegar í bígerð innan Schengen svæðisins að tekin verði í notkun sérstök vopnavegabréf, ef svo má að orði komast. í þetta vegabréf eru skráð þau vopn sem eigandi þess á og gefur þetta viðkomandi rétt

til þess að ferðast á milli landa með vopn sín. Þetta vegabréf er að komast í gagnið í Noregi og væntanlega innan tíðar i Svíþjóð og í Danmörku. Við munum ræða þessi mál við Ríkislögreglustjóra og tollayfirvöld og í því sambandi njóta aðstoðar norska skotveiðifélagsins.

Þá teljum við afar brýnt að ræða framtíð veiðikortasjóðs því þar eru svo sannarlega óveðursský á lofti. Af því tilefni munum við innan tíðar efna til ráðstefnu um sjóðinn, starfsemi hans og framtíð.

Þá munum við bráðlega halda námskeið fyrir félagsmenn okkar um minkaveiðar. Minkurinn er skemmtileg veiðibráð sem nauðsynlegt er að halda niðri og helst eyða.  Vitaskuld er mál málanna rjúpnaveiðibannið og mun sú barátta halda áfram.

Ég hef hér farið yfir starfsemi félagsins á síðasta starfsári. Ég vildi nota tækifærið hér og nefna gagnrýni sem fyrir nokkrum vikum kom fram á Hlaðvefnum svokallaða. Þessi gagnrýni beindist fyrst og fremst gagnvart mér og stjórn félagsins. Ég ætla ekki að fjalla um þessa gagnrýni efnislega hér enda svara ég ekki bréfum og öðru efni sem ekki er birt undir fullu nafni. Vissulega má gagnrýna öll mannanna verk og ugglaust má margt betur fara í starfi mínu og stjórnar Skotveiðifélags Íslands. Eitt vil ég þó segja ykkur hér og legg ríka áherslu á. Gagnrýni á starfshætti mína og stjórnar SKOTVIS er snertir rjúpnaveiðibann umhverfisráðherra er ekki sanngjörn og gríðarlega ómálefnaleg, svo ekki sé meira sagt. Þessi gagnrýni virðist fyrst og fremst koma frá mönnum sem ekki eru í félaginu og hafa ekki kynnt sér hvernig við höfum unnið í þessu máli, og er það afar miður. Ef einhvern tíma hefur verið nauðsynlegt að við skotveiðimenn stöndum þétt saman þá er það

einmitt núna. Gagnrýni er af hinu góða en hún verður að vera málefnaleg.

Ágætu félagar! Mál málanna er eftir sem áður: Hver er staðan í dag varðandi rjúpnaveiðibannið? í stuttu máli þá er hún þessi:

Þingsályktunartillaga stjórnarþingmanna hefur verið til umræðu í umhverfísnefnd þingsins. Ýmsir þingmenn, þá helst innan stjórnarandstöðunnar, hafa talið þessa tillögu of opna og víða, ef svo má að orði komast. Rétt er að benda á það að aðeins eru nokkrir skotveiðimenn á hinu háa Alþingi. Flestir þingmenn hafa því litla sem enga þekkingu á skotveiðum. Flestir þeirra verið þeirrar skoðunar að rjúpnastofninn sé í hættu vegna skotveiða. Ég verð því að segja að mér til ánægju varð ég fljótt var við það að vel flestir þingmenn höfðu ekki myndað sér skoðun í þessu máli, sögðust einfaldlega ekki hafa kynnt sér málið nægjanlega vel til að taka afstöðu í því. Það hefur því verið okkar helsta starf í samskiptum okkar við þingið að ræða við þessa þingmenn og koma til þeirra upplýsingum sem sýna svart á hvítu að íslenski rjúpnastofninn er í engri hættu vegna skotveiða landsmanna og það sé langt frá því að íslenski fálkastofninn sé í stórhættu vegna rjúpnaleysis. Á þessu stigi málsins getum við lítið meira gert, við erum búin að koma þessum upplýsingum tryggilega til skila. Ég hef haft af því nokkrar áhyggjur að ekki næðist samstaða í umhverfísnefnd þingsins um tillögu sem fæli í sér að við gætum stundað takmarkaðar rjúpnaveiðar árin 2004 og 2005, í staðinn fyrir algjört rjúpnaveiðibann. Meðal þeirra tillaga sem ég hygg að nokkur sátt ætti að geta ríkt um eru að veiðitíminn verði styttur verulega, þ.e.a.s. að veiðar hæfust 20. október og veitt yrði til og með 10. desember. Veitt yrði miðvikudaga, fimmtudaga, föstudaga og laugardaga. Þetta eru 31 veiðidagur en ef að líkum lætur myndu í það minnsta 30% veiðidaga falla burtu vegna veðurs, við erum því að  ræða u.þ.b. 20 virka veiðidaga.   Þá   myndi Alþingi

samþykkja sölubann á rjúpu og Reykjanesskagi yrði áfram friðaður. Nú er að sjá hvaða afgreiðslu þetta mál fær í umhverfisnefnd þingsins. Ef meirihluti nefndarinnar, og helst nefndin öll samþykkir þessar tillögur eða svipaðar, eru talsverðar líkur á að þessi þingsályktunartillaga verði samþykkt. Þá er rétt að benda á, eins og ykkur er kunnugt um, að nýr umhverfisráðherra tekur við embætti 15. september næstkomandi. Ég tel mig geta fullyrt hér að meirihluti þingmanna er andsnúinn algjöru veiðibanni á rjúpu.

Ágætu félagar! Að lokum vil ég segja þetta. Mikill misskilningur er á meðal almennings um skotveiðar á íslandi. Við skulum hafa það í huga að íslenskir skotveiðimenn eru líklegast aðeins 5% þjóðarinnar. Því er iðulega haldið fram, jafvel á meðal skotveiðimanna, að veiðimönnum hafi fjölgað gríðarlega undanfarin ár. Það er ósköp einfaldlega ekki rétt. Fjöldi veiðimanna hefur verið mjög svipaður nú um nokkurn tíma og ef eitthvað er, ef tekið er tillit til mannfjölgunar, þá hefur skotveiðimönnum frekar fækkað ef eitthvað er á síðast liðnum árum.

Ég hef nú staðið í baráttunni fyrir íslenska skotveiðimenn í 10 ár. Mér er það gleðiefni að yfirleitt eru landsmenn frekar jákvæðir gagnvart veiðum, enda byggjum við afkomu okkar á veiðum. Það er þó engin launung að þeim hefur þó fjölgað sem eru andsnúnir veiðum og þá einkum skotveiðum. Þeir telja að í nútímasamfélaginu sé ekki hægt að verja það að fólk veiði sér til ánægju. Við vitum það öll sem hér erum að veiðar eru svo ótal margt annað en að deyða dýr. Veiðar eru spurning um náttúruupplifun, félagsskap, slökun og að vera þátttakandi í náttúrunni en ekki aðeins áhorfandi. Brýnasta verkefni Skotveiðifélags Íslands verður á næstu árum að fræða almenning um veiðar, eðli þeirra og tilgang. Við verðum einnig að vera ábyrg í stjórnun veiðanna, ljóst er að það mun verða krafa samfélagsins að eitthvert skipulag eða veiðistjórnun verði á skotveiðum, sem og á öðrum veiðum. Með öflugu fræðslustarfi og þátttöku í samfélagsumræðunni er ég sannfærður um að við getum stundað hér veiðar í íslenskri náttúru um ókomin ár. En við skulum þó hafa það hugfast enn og aftur að það er fyrst og fremst í verkahring okkar skotveiðimanna að svo megi verða.

Sigmar B. Hauksson 

Tags: eins, hefur, hafa, verið, skotvís, blaðið, okkur, þetta, segja, þessi, hafi, yrði, þessu, okkar
You are here: Home