Aðalfundur 1990 - Skýrsla formanns

AÐALFUNDUR SKOTVÍS ÞANN 12. DESEMBER 1990, HALDINN AÐ SKEMMUVEGI 14, KÓPAVOGI.
SKÝRSLA FORMANNS SÓLMUNDAR TR. EINARSSONAR.

Á þessu ári hafa verið haldnir 6 stjórnarfundir og fjallað um hin ólíklegustu mál. Auk þess hefur formaður setið í skólanefnd sem undirbjó byssuleyfanámsskeið sem haldin eru hjá Lögregluembætti Reykjavíkur. Þar var unnin mikil og víðtæk vinna að ekki sé talað um þann tíma sem fór í það verkefni. Þetta hefur skilað sér þannig að félagar Skotvís og Skotreynar sjá nú nær alfarið um fyrrnefnd námskeið í samvinnu við lögregluyfirvöld. Við teljum að hér sé um tímamóta aðgerð mað ræða og kemur það örugglegga til með að skila sér sem bætt skotvopnameðferð og aukinn skilningur á lífi og náttúru þessa fagra lands. En betur má ef duga skal. Þá sat formaður ráðstefnu um nýtingu Hálendisins.

Snemma á árinu var haft samband við aðildarfélögin og þeim gert grein fyrir stöðu félagsins og markmiðum og jafnframt því að fjárhagur Skotvís væri ansi bágborinn, svo ekki sé meira sagt. Aðeins tvö aðildarfélög hafa tekið við sér og greitt iðgjöld (500 kr fyrir hvern virkan meðlim) en það var Skotey 35.000 kr, sem samsvarar greiðslu fyrir 70 fullgilda meðlimi og svo Skotreyn sem aðeins hefur greitt fyrir 60 meðlimi eða kr. 30.000. Þetta hefur nær haft lamandi áhrif á starfsemi Skotvís.

Það sem dregið hefur félagið mjög niður þetta starfsár er öll sú ringulreið og skuldasúpa sem núverandi stjórn fékk í arf frá fyrrverandi stjórn og varðaði afmælishóf Skotvís sem haldið var á Hótel Sögu 23. sept. 1988 (eða tíu ára afmæli félagsins). Samkvæmt því sem ég kemst næst lítur dæmið þannig út:

Skemmtinefnd samdi við Gildi h.f. um húsaleigu á sal að upphæð 43.800 kr, húsaleigu vegna skála 27.400 kr og tækjaleiga að upphæð 1.875 kr eða samtals kr 73.075. Af þessu var svo veittur afsláttur að upphæð 35.600 kr, þannig að til greiðslu átti að koma kr. 37.475. Á umrætt hóf voru síðan seldir 44 matarmiðar á kr 2.500 per mann sem samanlagt gaf 110.000 kr.

Á umræddu kvöldi voru seldir 247 happadrættismiðar og áttu þeir að gefa af sér 24.700 kr (hundrað kr. miðinn).  Þar að auki voru sýningarbásar leigðir þremur fyrirtækjum þ.e.a.s. Veiðihúsið fékk 9 fermetra bás,Veiðimaðurinn fékk 6 fermetra bás og Byssusmiðja Agnars fékk 4 fermetra bás, en hver fermetri var leigður á 2.500 kr. Samtals kr 47.500.

Annað sem kostað var til var eftirfarandi:

 1. Framleiðsla 49 fána að upphæð......................................................kr.  88.000
 2. Prentun aðgöngumiða, happdrættismiða og dagskrár að upphæð.......kr.  25.000
 3. Sendiferðabílar að upphæð..............................................................kr. 17.550
 4. Umslög að upphæð........................................................................kr.   1.016
 5. Fargjöld vegna Konráðs...................................................................kr    7.000
  Samtals........................................................................................kr. 116.066              

[Innskot Arne Sólmundsson 30. júlí 2012]
 - Heildartekjur: 44x2.500 + 247x100 + 47.500 + 88.000 (fánar) = 270.000
 - Heildarútgjöld: 44x2.500 + 37.475 + 116.066 + (25.000 + 5.500 Happdrættisvinningar) = 294.041
 - Tap á veislunni er því kr. (24.041)
 - Upphafleg skuld við Gildi: 110.000 + 37.476 = 147.476
      -Greitt inná reikning Gildi 13. desember 1988: 36.400, 
      -Staða skuldar 27. febrúar 1989 auk dráttarvaxta (8.131) = 119.206
      -Staða skuldar 12. desember 1990: 146.845 (eftir að búið er að greiða 50.000 inná skuld)
 


Uppgjörið lítur því þannig út eða eins og ég kemst næst því:

Þáttur Gildis.

 • Skuld. Húsa- og tækjaleiga...............kr. 73.075
 • Afsláttur..........................................kr. 35.000
 • Skuld alls því...................................kr. 37.475

 

Matur. 44 miðar á kr 2.500 alls kr 110.000
Þann 13. desember var greitt inn á reikninginn kr 36.400. og eftirstöðvar því kr 73.600.

Samtals skuld við Gildi h.f. 27. febrúar 1989 með dráttarvöxtum að upphæð kr. 8.131 o.fl. kr. 119.206. 

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Þáttur Veiðihússins.

 • Leiga á 9 ferm bás.....................................................kr. 22.500
 • Sala á 11 aðgöngumiðum...........................................kr. 28.600
 • Samtals....................................................................kr. 51.100

Á móti kemur. 

 • Greitt fyrir farmiða Konráðs Ak-Rek-Ak.........................kr.  7.000
 • Happadrættisvinningur................................................kr. 25.000
 • Prentun á miðum.......................................................kr.   2.500
 • Samtals................................................................... kr. 34.500


     Skuld því alls...............................................................kr. 16.600

 
Þáttur Veiðimannsins.

 • Leiga á sýningarbás.................................................................kr. 15.000
 • Á móti kemur happadrættisvinningur sem var taska að upphæð....kr.  5.500
 • Skuld því alls.......................................................................... .kr.  9.500

 
Þáttur Byssusmiðju Agnars.

 • Leiga á bás (4 ferm)...................................................................kr. 10.000


Samtals er þetta ..............................................................................kr. 36.100 (16.000+9.500+10.000)

--------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Samkvæmt upplýsingum frá afmælishátíðarnefndar var dæmið upphaflega lagt þannig upp að tekjur af afmælishófinu áttu að dekka alla útgjaldaliði. T.d. voru fánastengur seldar og fór upphæðin til að greiða fánaprentun. Margt fékkst fellt niður t.d. leiga fyrir skilrúm og fánaborg með meiru. Þegar svo upp er staðið er því nokkrum spurningum ósvarað.

 • 44 matarmiðar voru seldir á hófið að upphæð kr 110.000. Aðeins var gert grein fyrir hluta þeirrar upphæðar og með visu aðeins fyrir 11 þeirra og þeirra sem hallgrímur Marinósson seldi.
 • 247 happadrættismiðar voru seldir að upphæð kr 24.700, en aðeins hefur verið gert grein fyrir hluta þess fjár.

Af öðrum þáttum þessa uppgjörs hef ég alls ekki getað aflað mér nægilegra upplýsinga og þar vísar hver á annan. Það sem mér finnst mjög ámælisvert er sú staðreynd að fyrir aðalfundinn á Blöndósi hafði Páli Dungal, formanni Skotvís borist bréf frá Gildi h.f. þar sem allir gjaldaliðir við það fyrirtæki eru tíundaðir, en það kom ekkert fram um þetta á aðalfundinum. Endurskoðendur reikninganna gerðu um það bókun þar sem reikningarnir eru ekki samþykktir fyrr en búið væri að gera grein fyrir uppgjörinu vegna fyrrnefnds afmælishófs. Við sem tókum við Skotvís fengum ekkert að vita í málinu í raun fyrr en allharðar innheimtuaðgerðir fóru að berast og áskorendastefna frá bústjóra Gildis h.f sem í millitíðinni varð gjaldþrota. Tvívegis hefur verið farið fram á gjaldfrest á skuldum Skotvís og hafa 50.000 kr verið greiddar upp í skuldina, sem nú hljóðar upp á 146.845 kr. Við höfum frest til að greiða þetta fyrir mars mánuð á næsta ári ella verði félagið gert gjaldþrota.

NORRÆN SAMVINNA VEIÐIFÉLAGA.
Á árinu 1989 gekk Skotvís formlega í norræna veiðisambandið án nokkurra fjárhagsskuldbindinga eins og samið var um á Blöndósfundinum. Okkur var tekið með opnum örmum og þá þegar ákveðið að halda aðalfund á Íslandi 1990. Mikill undirbúningur fór þá í hönd og var sveit vaskra manna kölluð út til að vinna að þessu máli. Er skemmst frá því að segja að hingað komu rúmlega 20 manns frá öllum Norðurlöndunum og var fundurinn haldinn að Hótel Geysi í Haukadal og stóð í 3 heila daga (27 – 30 september s.l.). Við skipulögðum gæsaveiðar fyrir þá og það margar gæsir voru felldar að það dugði til veislu, sem haldin var í lok fundarins. Á fundinum voru þrjú erindi flutt af Skotvísmönnum. Haukur Brynjólfsson flutti erindi um veiðirétt og landrétt. Sverrir Sch. Thorsteinsson fjallaði um íslenska skotvopnalöggjöf og Sólmundur Tr. Einarsson ræddi um tryggingarmál veiðimanna. Mörg góð mál komu þar að auki fram á fundinum og var íslenskum veiðimönnum boðinn aðgangur að þeirra veiðilöndum strax á næsta ári, ef áhugi væri til staðar. Frá því að fundinum lauk hefur stöðugt upplýsingaflæði verið og margar upplýsingar borist okkur til eyrna og vilja þeir hag okkar sem bestan. Við væntum góðs af samstarfi við þessa okkar norrænu frændur í framtíðinni. Sitjandi Umhverfisráðherra Sólnes sat fundinn með okkur og tók einnig til máls.

LANDRÉTTARNEFND.
Störf landréttarnefndar hefur hafist aftur og ekki þörf á, eftir að mál þeirra Norðanmanna kom upp á Öxnardalsheiðinni. Haldnir hafa verið alls 3 fundir og greinagerð samin , sem verður svo til umfjöllunar hér á þessum fundi.

TRYGGINGARMÁL.
Fljótlega eftir síðasta aðalfund var farið af stað með að athuga tryggingarmálin og eftir nokkra málaleitan fékkst tilboð frá Sjóvá/Alm. Um svo kallaða frjálsa ábyrgðartryggingu að upphæð 20 millj. Og var iðgjald samið um 500 kr á mann. Eitthvað fannst mönnum þetta ekki vera aðlaðandi, þannig að litið var aðhafst í málinu.

Á norræna aðalfundinum var þetta mál reifað og þá talað um einhvers konar samnorræna tryggingu eða að við keyptum tryggingu hjá þeim. Kom þá helst til greina að athuga með samtryggingu með Norðmönnum. Síðan hefur lítið gerst í málinu þangað til í dag að tilboð barst frá VÍS, en þar er iðgjaldið komið upp í 1500 kr á haus á ári, sem eins konar ábyrgðartrygging skotvopna og 900 kr á mann, ef tekin er svo kölluð frítímaslysatrygging.

SAMVINNA VIÐ RITIÐ:  Á VEIÐUM
Undanfarin ár hefur Skotvís haft með höndum ákveðna samvinnu við sportveiðiblaðið „Á VEIÐUM „ um útgáfu efnis og ritstjórn þess. Á ýmsu hefur gengið um þessa samvinnu og fannst okkur fyrst haf kastað tólfunum, þegar síðasta heftið kom út. Í þessu blaði var viðtal við formann Skotvís, þar sem hann brýnir fyrir mönnum gott siðferði , virðingu fyrir dýrum og umhverfi og ekki síst tillitssemi meðal veiðimanna. Í sama blaði er svo verið að hampa vélsleða- og fjórhjólaskytteríi og birta miður kræsilegar myndir af þess konar vélvæddum veiðimönnum við iðju sína. Þetta samræmist ekki okkar veiðiháttum og legg ég því til við fundinn að við segjum upp öllu samstarfi við þessa aðila og leitum þess í stað á ný og önnur mið. Til dæmis að það verið er að koma á og stofna rit um skotveiðar er Skotmark heitir og hafa áhugasamir falast eftir samvinnu við okkur.

Að lokum vil ég segja þetta að ég tel að grundvöllur sá sem Skotvís er byggður á virðist vera nær brostinn. Það er nefnilega ekki hægt að reka félag í dag, án þess að áhugi félagsmanna er til staðar og ekki síst peningar. Hvort tveggja hefur því miður gerst í málum Skotvís þegar félagið var tekið til gagngerðar endurskoðunar og breytt í landssamband. Þar með fór að hrikta í stoðum þess gamla Skotvís, þar sem litlar sem engar fengust tekjurnar. Ég vil að þessi fundur taki þetta alvarlega mál sérstaklega til umfjöllunar og menn geri upp hug sinn hvort eða þá hvernig við eigum að halda áfram með Skotvís. Í mínum huga á svona hagsmunafélag fullan rétt á sér, en þá þarf að koma til öflugra fulltingi í staðinn fyrir að láta þetta hvíla á herðum fárra eldhuga og bíða þess að þeir gefist upp að lokum.

 

Góðar stundir og eflum félag okkar en við viljum hag þess sem bestan.

Sólmundur Tr. Einarsson,formaður Skotvís.

 

Sverrir Sch. Thorsteinsson bar fram eftirfarandi tillögu um uppsögn Skotvís við tímaritið „Á VEIÐUM“

„Aðalfundur Skotvís haldinn 12.desember 1990 ályktar að segja strax upp bréflega allri samvinnu og samningi við Frjálst Framtak, Fróða „Á VEIÐUM!

Tilefnið er að aðstandendur tímaritsins hafa ítrekað hundsað óskir Skotvís um að allt efni ritsins, sem varðar skotveiðar, skuli falla að meginmarkmiðum Skotvís og siðareglum. Nægir að benda á síðasta tölublað nýlega útkomið,bæði myndefni og lesmál (vélsleða veiðimenn og blóðugar rjúpur)

7/12 1990.
Sverir Sch. Thorsteinsson

Samþykkt.

 

Svo kom eftirfarandi athugasemd frá Sverri. „Varðandi reiknisskil félagsins vil ég vinsamlega minna á skuld félagsins – 86 þús. Kr við mig . Sá liður þarf að koma fram í uppgjöri   ársins „. Sv.

Svo mörg voru þau orð á aðalfundi Skotvís þann 12. desember 1990 er menn voru að sleikja sárin eftir 10 ára afmælishóf félagsins 23. september 1988 að Hótel Sögu, sem frægt var. 

Tags: þess, voru, hefur, þar, hafa, verið, skotvís, þannig, þetta